sunnudagur, desember 16, 2007

90. Ferðalok

Þá er ferðasagan endalausa loks á enda og dyggir lesendur okkar geta farið að snúa sér að þarfari hlutum. Við erum ákaflega stolt af því að hafa náð að halda dampi með söguna allan þennan tíma því þetta tók drjúgan tíma á hverju kvöldi og einnig reyndum við að nýta t.d. lestarferðir. Oft var maður þreyttur eftir erfiðan dag eða með algjöra ritstíflu en þetta hafðist.

Eitt það sem kom mér mest á óvart í þessu ferðalagi var hversu gaman ég hafði að skrifa söguna og verður þetta ómetanlegt fyrir okkur síðar meir að geta lesið söguna og upplifað ferðalagið á nýjan leik. Eins verður gaman fyrir afkomendur okkar, ef einhverjir verða, að lesa hvað við vorum að gera og hugsa.

Ferðalagið heppnaðist í alla staði ótrúlega vel þó að veikindi hefðu sett kommustrik í reikninginn á köflum. Í byrjun ferðar vorum við bæði á malaríulyfinu Larium - þekkt aukaeinkenni eru martraðir, þunglyndi ásamt öðrum smákvillum. Við byrjuðum að taka lyfið tveimur vikum áður en við fórum út til að fá reynslu á aukaverkanir þess því sumir finna ekki fyrir neinu. Það gekk allt vel í byrjun og aukaverkanir virtust ekki vera að plaga okkur, engar martraðir og allt í góðu en á 3ju og 4ju viku, þ.e. fyrstu tveimur vikum ferðarinnar fór Sonja að taka eftir miklum kvíða sem endaði í þunglyndi - hún var hætt að vilja fara fram úr rúminu og fara út úr hótelherberginu okkar. Einkennin voru þó allra verst svona á 3ja og 4ja degi lyfsins en við tókum það bara einu sinni í viku svo Sonja ætlaði nú bara að harka þetta af sér en þegar hún "festist" undir sænginni, gat hvorki lesið né horft á sjónvarp og þótti þetta allt heldur tilgangslaust var ljóst að þetta gengi ekki. Við ákváðum að taka ekki lyfið meir enda í yfir 2000 m hæð og því ekki mikil hætta á malaríu og við myndum svo redda okkur betra lyfi þegar við kæmum aftur til Delhi.
Við mælum því með að fólk hugsi vel hvaða malaríulyf það tekur áður en haldið er í langt ferðalag.
Eftir þetta voru það magakveisur sem stungu upp höfðinu öðru hvoru og var Sonja óheppnari með þessi mál en ég enda er ég með stálmaga. Þetta var þó ekki það mikið að þetta setti neinn svip á ferðina en óþægilegt og leiðinlegt á meðan yfir gekk. Sem betur fer sluppum við nokkuð vel þökk sé æðri máttarvöldum og risavaxinni lyfjatösku Sonju.

Við sáum sitt lítið af flestu á Indlandi, fórum hæstu fjallvegi í heimi á ferðum okkar um Himalayafjöll, veiddum fisk við strendur Kerala syðst í Indlandi og heimsóttum Nepal og Bútan. Það má því segja að við höfum komið víða við og séð margt áhugavert og skemmtilegt - engin ástæða að rifja það allt hér upp.

Myndavélarnar voru alltaf með okkur og er hægt að telja þá daga sem við snertum ekki á myndavél með einum putta. Við höfum bæði mest gaman af mannlífsmyndum og til að ná almennilegum slíkum myndum á ferðalögum verður maður helst að komast í návígi við fólk, vera djarfur og spjalla svo maður sé ekki bara að smella af líkt og fólkið sé til sýnis í dýragarði. Nokkrum sinnum fundum við fyrir einhverju tilgangsleysi og fannst við vera að frekjast með að troða myndavélinni í andlit fólks - hugsa að margir sem hafa áhuga á ferðaljósmyndun upplifi svipaða hluti. Það verður erfiðara og erfiðara að taka slíkar myndir því myndvænt fólk verður þreytt á sífelldum myndatökum og fer að segja nei eða heimta peninga sem er orðið algengt. Það má segja að ef maður tekur andlitsmynd af einhverjum og gengur í burtu þá er maður bara að taka en ekkert að gefa til baka þannig að það er kannski erfitt að finna gott jafnvægi í þessu. Við höfðum þá reglu að borga fólki ekki fyrir myndatöku því það skapar vont fordæmi og eyðileggur fyrir þeim sem á eftir kom. Miklu betra er að senda fólki myndina í pósti og þurfum við að fara í gegnum lista af 100-200 manns sem við höfum gefið slíkt loforð.

Margir hafa spurt okkur hvað standi uppúr í ferðinni en við eigum virkilega erfitt með að nefna eitthvað eitt því eins og áður sagði var ferðin mjög viðburðarík - prófið að spyrja okkur eftir 5 ár, þá verður fróðlegt hvað poppar fyrst upp í hugann úr ferðinni. Ætli það megi ekki segja að í fljótu bragði standi eftirfarandi staðir uppúr (í tímaröð):
  • Hin hrikalegu Himalayafjöll sem oft minna á stærri útgáfu af flottustu svæðum Íslands
  • Ladakh, kóróna Indlands
  • Srinigar með sín rómantísku vötn
  • Gullna hofið í Amritsar sem og borgin sjálf
  • Kinnaur dalurinn með sínum fallegu þorpum og hrikalegum vegum á stundum
  • Austur hluti Bútan með sínu stórkostlega mannlífi
  • Borgin Udaipur með vatnahöllinni og líflegum miðbæ
  • Hinn gríðarlega skemmtilegi smábær Bundhi

Ég get ekki metið það sjálfur hvort við höfum þroskast við þetta langa ferðalag en veit þó að við erum reynslunni ríkari og eigum ógleymanlegar minningar frá þessum miklu og líflegu menningarlöndum. Það er þó eitt sem við finnum bæði fyrir þegar við komum heim en það er að við kunnum miklu betur að meta það sem við höfum hér heima og má segja að líf okkar sé sannkallaður lúxus. Við tökum flest það sem við höfum sem sjálfsögðum hlut og því hefur maður gott af því að prófa eitthvað gjörólíkt lengur en 2 vikur til að sjá hlutina í víðara ljósi og ná jarðtengingu því að sumu leyti verður gildismatið ansi brenglað við að búa í góðu yfirlæti hér á vesturhveli jarðar.

Við erum bæði mjög sátt við að vera komin heim til Íslands aftur - það er einhvernvegin þannig að þegar maður er erlendis þá innstillir maður sig inn á þann tíma sem maður verður úti, þ.e. ef maður ætlar að vera viku þá er maður sáttur með að fara heim á þeim tíma og eins með þrjá mánuði. Ef við hefðum ætlað að vera úti í ár og þyrftum að fara heim eftir þrjá mánuði yrði maður ekki alveg jafn sáttur. Það verður mikið að gera hjá okkur á hinum ýmsu sviðum núna þegar heim en það verður bara spennandi og skemmtilegt að takast á við daglegt amstur þannig að við erum sátt, mjög sátt.

Okkur langar til að þakka þeim fjölmörgu sem hafa fylgst með ferðum okkar, sérstaklega þeim sem hafa verið duglegir við að setja inn athugasemdir og senda okkur tölvupósta - það var virkilega hvetjandi fyrir okkur að fá viðbrögð við þessum pistlum og ekki síst það stuðlað að því að við náðum að halda dampi.

Fyrir þá sem finnst að þeir hafi eitt dýrmætum tíma sínum í vitleysu er bara eitt að segja: "Þeir sem kunna landafræði, þeir ferðast ókeypis!"

Við þökkum þeim sem hlýddu, góðar stundir.

Jói og Sonja

fimmtudagur, desember 13, 2007

89. Heima-sætan-heim

Síðasti dagurinn í Indlandi var upprunninn - frekar þungbúinn enda farið að vetra á Indlandi og ákveðinn söknuður í hugum ferðalangra.

Það biðu okkar smá verkefni fyrir brottför svo við rifum okkur á lappir um kl 07 og hóf Sonja að umpakka en ég hinsvegar fór í gönguferð í leit að netkaffi. Þegar við pöntuðum þetta guðsvolaða hótel daginn áður hafði viðmælandinn lofað öllu fögru með netkaffihús í nágreninu: "Yes, there are lot's af internet caffee's outside the hotel, open 24 hours." Við létum hann marglofa þessu því maður er farinn að taka með ákveðnum fyrirvara því sem peningaþyrstir eigendur hótela segja manni, sérstaklega ef þetta eru lélegri hótel sem bráðvantar gesti.
Ég gekk í um 15 mínútur í þá átt sem hótelstjórinn hafði bent mér kvöldið áður þegar við mættum á hótelið. Ég gekk lengi og þessir 100m sem hann hafði talað um höfðu kannski átt að vera 100 km. Ég spurðist fyrir á tveimur stærri hótelum í nágreninu sem virkuðu mjög flott og þau hvorki höfðu net né vissu um neitt í nágrenninu. Þegar ég þurfti orðið að snuúa við til að missa ekki af fluginu heim þá rakst ég á ég lítið netkaffi á efri hæð gamals hús en eitthvað stórt tæki eða jarðskjálfti hafði aflagað steintröppurnar svo mikið að ég þurfti nánast að klifra upp. Þegar inn var komið spurði ég strákinn hvort ég gæti notað minnislykil en það var grundvöllur þess sem ég ætlaði að sýsla. Hann sagði "Nei" en ég ákvað sjálfur að kanna þetta og dró eina tölvuna fram sem var svo rykfallin að það sást varla í hana. Blessuð vélin virtist vera frá miðjum síðasta áratug og tengið sem ég var að leita að ekki til staðar. Ég klifraði því aftur niður úr húsinu og hélt áfram för minni til baka.

Leigubíllinn var snemma á ferðinni svo Sonja var enn að pakka en við náðum í sameiningu að klára vísindalega umpökkun Sonju og henda dótinu út í bíl.

Alþjóðaflugvöllurinn í Delí var fámennur og því gekk greiðlega að skrá okkur í flugið og fylla út pappíra um að við værum að yfirgefa Indland. Við settumst því næst upp í setustofuna, fengum okkur drykk, kíktum í blöð og unnum aðeins í tölvunni. Þegar maður yfirgefur Indland þá er fyrst röð til að gegnumlýsa farangurinn sem fer í farangursrýmið, svo er það að skrá sig inn, því næst fylla út blöð og fara í gegnum innflytjendaeftirlitið. Þar tekur við lítil fríhöfn, setustofur og annað til að eyða tímanum. Svo þegar maður fer í gegnum öryggishliðið svokallaða þá er leitað vel og vandlega á manni sem og í öllum handfarangri en eftir það er fátt í boði til afþreyingar og má maður þakka fyrir að hægt er að kaupa sér drykki. Það er því ekkert sniðugt að hraða sér í gegn þar til að sitja allslaus og bíða bara - ekki einu sinni innstungur svo hægt sé að vinna í tölvunni. Setustofan er áður en farið er í gegnum öryggishliðið og því datt mér í hug að spyrja afgreiðslustúlkuna hversu lengi maður væri að komast í gegnum það og að flugvélinni:

"Fyrirgefðu ungfrú."
"Já, hvað var það?"
"Hversu lengi er maður að fara héðan að flugvellinum?"
mismælti ég mig, ætlaði að segja flugvélinni.
"Þú ert á flugvellinum!" sagði hún mjög pirruð og hélt greinilega að ég væri algjör vitleysingur sem kannski er að hluta til rétt. Ég var reyndar að spá í að svara einhverju eins og: "Nú? Það útskýrir ýmislegt!", en gerði það ekki.

Rétt upp úr hádegi gengum við út í flottustu flugvél sem við höfum farið í og var það með hinu ágæta indverska flugfélagi Jet Airways. Lúxusklassinn er með vel stúkuðum sætum eða réttara sagt bekkjum þar sem hægt er að láta fara vel um sig í þessu tæplega 10 klukkustunda flugi. Sætin fyrir almúgann, þar með talið okkur voru einnig mjög þægileg og engin hætta að okkur myndi leiðast í fluginu. Hvert sæti er með skjá þar sem hægt er að horfa á bíómyndir, þætti auk þess að spila ýmsa tölvuleiki. Stór fjarstýring með skjá og lyklaborði er undir skjánum og m.a.s. tengi undir sætunum til að setja tölvur og annan rafmagnsbúnað í samband. Óheyrilegt magn af bíómyndum, leikjum, sjónvarpsþáttum er í boði ásamt því að maður getur sent tölvupóst og líklegast farið eitthvað á netið. Maður getur hringt á milli sæta, sjálfsagt áhugavert fyrir þá sem eru á lausu, ásamt því að hringja hvert á land sem er beint úr sætinu.


Mjög ánægð með flugvélina.


Fjarstýring með lyklaborði.

Hvorugt okkar svaf nokkuð í vélinni og við höfðum nóg að gera á Heathrow, ég að versla og Jóhann að blogga. Þegar við komum til Heathrow (London) fórum við eiginlega strax í biðstofuna fyrir farþega Flugleiða og sáum þar fyrstu Íslendingana í langan tíma. Í næsta sófa voru nokkrar miðaldra konur að koma úr verslunarferð, búnar að fá sér aðeins í litlu tána og rúmlega það.

"Gasalega var afgreiðslumaðurinn almennilegur!"
"Það eru svo lekkert hlutir í þessari búð!"
"Já, og fékk þetta á svo fínu verði!"
"Þetta var tvú-for-von!"


Hinum megin við okkur voru nokkrir ungir piltar, vatnsgreiddir í jakkafötum:

"Lánin virtust mjög hagstæð!"
"Eiginfjárstaða var ekki nógu góð."
"Álitlegur fjárfestingakostur!"
"Getum við ekki haft símafund og látið lögfræðinga okkar síðan klára málið?"


Þegar við gengum inn í Flugleiðavélina sem var fátækleg miðað við indversku flugvélina varð mér ljóst hversu gríðarlega smátt Ísland er. Við fórum úr landi sem telur 1,2 milljarða íbúa en í þessari litlu Flugleiðavél voru a.m.k. 20 andlit sem ég kannaðist við. Já, Ísland er lítið land.

Við vorum í hálfgerðu móki á lokakafla leiðarinnar því ferðalagið var orðið ansi langt, svefnlitlar síðustu næturnar á Indlandi og 5,5 klst tímamismuni á milli landanna. Ég náði ekki að sofa neitt enda tók ég ekki svefntöflur sem eru algjört skilyrði fyrir því að ég sofni í láréttri stöðu - Sonja hinsvegar dottaði.

Ómþýð rödd hljómaði í kallkerfi vélarinnar: "Góðir farþegar, velkomnir heim."

88. Stórfenglegasta mannvirki jarðar

Flestir hafa heyrt Taj Mahal getið, a.m.k. eftir að ástkær forseti okkar bað um tilfinningalegt svigrúm eftir að hann trúlofaði sig þarna fyrir utan. Shah Jahan byggði þessa voldugu marmarabyggingu á fyrri hluta 17 aldar sem grafhýsi fyrir eiginkonu sína en hún lést þegar hún var að ala 14. barn þeirra hjóna.
Taj Mahal var reist á aðeins 12 árum og voru notaðir 1000 fílar til flutninga á efni sem kom hvaðanæfa frá Asíu og voru 20.000 verkamenn sem sáu um sjálfa bygginguna.
Sonur Shah henppti hann í stofufangelsi þar sem hann eyddi síðustu árum sínum en hann hafði útsýni yfir Taj Mahal og starði á daglangt og hugsaði með söknuði til eiginkonu sinnar.

Við höfðum ráðgert að rölta út um 6 leytið til að sjá morgunsólina baða Taj Mahal en þar sem ég var gríðarlega þreyttur vegna lítils svefns og áhrif svefntaflanna vildi ég ekki yfirgefa draumalandið svo Sonja rauk upp á þak til að missa ekki alveg af því.

Við yfirgáfum hótelið um 8.30 glöð að þurfa aldrei, aldrei, endurtek aldrei aftur að stíga fæti inn í þetta lúsabæli og gengum tvöhundruð metra þar sem Taj Mahal blasti við okkur í allri sinni dýrð. Skrítið að ganga út úr svona hóteli og ganga inn í garð með með byggingu sem á að vera sú fallegasta á jörðu. Sýnir öfgarnar hérna á Indlandi.

Taj Mahal olli okkur ekki vonbrigðum, gríðarlega falleg og voldug bygging sem er falleg í hreinleika sínum og einfaldleika. Ég held að ég fari ekki með rangt mál að ekkert af höllinni er málað, þetta er allt marmari, skreytingar og áritanir eru allar mismunandi litaður marmari sem er hogginn út og blandað saman mismunandi litum. Við eyddum um tveimur til þremur klukkustundum í garðinum og virtum kofann fyrir okkur og tókum nokkrar myndir.


Taj í öllum sínum mikilfengleika.


Séð frá hlið.


Furðufuglar fyrir utan húsið.


Ég virði Taj Mahal fyrir mér.


Fólk er oft hið skrautlegasta þegar það skoðar Taj Mahal og oft er sagt að flestir Indverjar skoði bygginguna a.m.k. einu sinni á ævinni.


Aðrir gestir.

Eftir hádegisverð tókum við tuk-tuk í gamla bæinn. Við vorum smá stund að finna bíl sem vildi keyra okkur þangað, flestir vildu keyra okkur á staði sem væru miklu flottari en Taj Mahal en við trúðum því svona tæplega og héldum okkar plani.


Takið eftir kókmerkinu á veggnum.

Þegar við komum á áfangastað leist okkur nú ekkert voðalega vel á staðin - virtist ansi ólíkur öllum öðrum "gömlum bæjum" sem við höfum séð hér á Indlandi og ansi óspennandi. Við stigum samt út, ákváðum að gefa þessu séns. Leigubílstjórinn dró fram kort af borginni og benti okkur á staði sem við ættum að skoða og bauð okkur akstur þangað, m.a. að bakhlið Taj Mahal sem við ætluðum að fara seinnipartinn ásamt verði.
Sonja spurði í rælni hvar við værum á kortinu núna og benti hann á stað á kortinu.

"Þetta er ekki gamli bærinn eins og við báðum um, þetta er Sadaar Bazar!" sagði Sonja við bílstjórann.
"Gamli bærinn er bara hérna rétt hjá." svaraði hann sakleysislega.
"Við viljum fara þangað!" svaraði hún.
"Þetta er það sama, bara betri staður til að versla."
"Við erum ekki að fara að versla."
"Gamli bærinn er bara þarna."
sagði hann og benti á hliðargötu.
"Við viljum fara þangað!" sagði Sonja ákveðið og settist aftur inn og tók peninginn sem hann hélt ennþá á í hendinni.
"Það er ekkert að sjá í gamla bænum, þar er bara kryddmarkaður og þessháttar."
"Við viljum samt fara þangað."
"Gamli bærinn er hættulegur!"
endaði hann á að segja áður en hann ók af stað.

Hann hafði sagt að gamli bærinn væri bara í næstu götu en það tók um 20 mínútur í viðbót að keyra þangað og allt að gerast þar - fullt af fólki, þröngar götur og mikið af búðum sem Indverjar versla í.
Sonja eyddi góðum tíma í að skoða Saris, kjóla eins og indverskar konur ganga í dagsdaglega og endaði á því að kaupa sér þrjú stykki.


Slátrarinn - skítug gata í gamla bænum.


Sölumaðurinn aftast greinilega þreyttur á þessum erfiðu konum.


Þessi maður er hefur átt þessa saris-verslun í 58 ár.


Svona líta saris út.


Mjó verslunargata.

Þegar greiðsla fyrir þriðja kjólinn hafði verið innt af hendi sáum við að sólin var að ganga til viðar og birtan var þegar orðin eins og best verður á kosið. Við hlupum því að tuk-tuk og báðum um að fara að "Riverside" eða að ánni bakvið Taj Mahal. Hann skildi ekkert hvað við vorum að meina og skyndilega vorum við umkringd um 15 leigubílastjórum ásamt öðru fólki sem var að reyna að skilja hvað við værum að biðja um. Við teiknuðum einfalt kort á blað en enginn skildi nokkuð hvað við vorum að meina - við sýndum m.a.s. kort af borginni og bentum nákvæmlega hvert við vildum fara en enginn skildi það heldur. Samt voru allavega 2 tilbúnir að skutla okkur og hvöttu okkur ákaft til að setjast bara inn - hvert þeir ætluðu svo að fara er enn á huldu. Það var ekki fyrr en við flettum upp heiti staðarins í Lonely Planet sem allir kveiktu og kepptust við að draga okkur í bíla sína. Verðið sem þeir voru tregir að gefa upp var alltof hátt þangað til einn óvenju rólegur eldri maður bankaði í mig, sagði rólega "Komdu, 200 rúbís!" sem var besta verðið og við fylgdum honum að hjólavagninum hans. Hann reyndist reyndar ekki vera bílstjórinn, tveir piltar rúmlega tvítugir sáu saman um akstur, annar keyrði og hinn sá um að öskra og formælast við aðra í umferðinni - það þarf víst oft einn heilan starfsmann í það. Sá elsti sat með okkur í þröngu aftursætinu en stökk út á miðri leið, hafði bara verið að fá far heim.


Þarna erum við að leita að fari að Taj Mahal.

Við náðum síðustu geislum sólarinnar á bakhlið Taj og var hún vægast sagt glæsileg í rauðleitri birtunni með speglunina í ánni við fætur okkar. Þegar við komum aftur í hjólabílinn vildu þeir fá 400 Rs fyrir pakkann, þ.e. að keyra okkur á þennan stað og síðan á lestarstöðina en við vorum mjög ákveðin og sögðum þvert nei, svo þeir gáfust fljótlega upp.
Leiðin að lestarstöðinni tók sæmilegan tíma því umferðin var þung og komið myrkur - drengirnir keyrðu eins og fífl, hef aldrei séð aðra eins keyrslu. Þeir keyrðu í botni með flautuna niðri, sikksökkuðu á milli gangandi vefarenda og annara í umferðinni og voru nokkrum sinnum nærri búnir að stúta fólki. Það er ekki eins og göturnar hérna séu bara fyrir fararæki því þar er líka að finna húsdýr, fatlað fólk á hálfgerðum hjólabrettum, sofandi fólk, sölubásar á hjólum og svo er alltaf mikið af fólki sem situr á götubrúninni með dulu og á henni smá af grænmeti til sölu. Á miðri leið stoppaði bílstjórinn, sagðist þurfa að fá sér að borða. Skrítið að keyra svona eins og vitleysingur og stoppa síðan til að fá sér að borða. Þegar hann var nýfarinn út fóru hjólavagnar að flauta fyrir aftan og að lokum ein stór rúta, hann hafði greinilega lagt á óheppilegum stað eða svo gott sem fyrir innkeyrslunni að rútustöðinni. Einn kolvitlaus maður kom blótandi að hlið farartækisins okkar og ýtti með kröftum brjálaðs manns. Aðstoðardrengurinn stökk inn og reyndi að beygja frá öðrum hjólavögnum sem við stefndum á en náði ekki að bjarga málum því við skullum á einn vagninn þannig að sást á. Eigandi þess farartækis var vægast sagt ósáttur. Bílstjórinn okkar kom hlaupandi matarlaus, stökk upp í farartækið og brenndi í burtu og hélt áfram brjálaðri keyrslunni.


Taj Mahal í kvöldsólinni.


Taj Mahal endurkastast í bæjarlæknum.


Við Sonja.

Aðstoðarmaðurinn fór þá að biðja Sonju um 100 Rs fyrir sig, naggaði í um 5 mínútur þó að við segðum hart "Nei" við öllum hans beiðnum. Hann bað bara Sonju, sá að það þýddi lítið að tjónka við mér enda ég kominn með pirringssvipinn sem er vægast sagt hræðilegur þegar ég er svona skeggjaður. Ég endaði á því að negla hnénu á mér upp í framrétta hönd hans þar sem hann var að biðja Sonju um pening úr framsætinu en við sátum bæði í aftursætinu. Við það gafst hann upp og sagði ekki orð það sem eftir var ferðar.


Erfiði aðstoðarökumaðurinn.

Við höfðum um 2 tíma aflögu á lestarstöðinni svo við fengum okkur að borða á ágætu veitingahúsi stöðvarinnar og biðum síðan þolinmóð í biðsalnum. Við reyndum að hringja í nokkur hótel í Delí en flest var fullt - fundum loks eitt sem var ekki nálagt miðbænum en alveg við flugvöllinn sem hentaði okkur ágætlega því flugið var um hádegisbilið daginn eftir.

Við gengum frá almenningssímanum og Sonja spurði mig hvað klukkan væri.

"20:26" sagði ég eftir að ég hafði komið auga á klukku á lestarstöðinn.
"20:26? Lestin fer klukkan 20:30 sagði Sonja með skelfingu í röddinni."

Þetta var í þriðja skiptið á þrem dögum sem við erum við það að missa af lest og núna af eintómu kæruleysisi og aulaskap. Við höfðum svo mikinn tíma aflögu á lestarstöðinni að við bara pældum ekkert í tímanum.
Við hlupum af stað í áttina af pallinum sem lestin átti að vera á, náðum þar um hálf leitið en lestin okkar var þá sem betur fer ókomin. Lest sem hafði seinkað stóð á teinunum og okkar myndi seinka líka um 30 mínútur. Við ákváðum að bíða bara þarna til að missa nú örugglega ekki af lestinni.


Lestarteinar á pöllunum eru bæði illa lyktandi og skítugir því ólíkt því sem gerist í Evrópu fara Indverjar á klósettið þó lestin sé stopp við pall.

Ungur sölumaður kom til okkar með bakka framaná sér með allskonar smágerðum minjagripum sem við bönduðum frá án þess að pæla mikið í honum. Annar maður skammt frá okkur skoðaði einn hlut og sölumaðurinn sem var maður um 40 ára setti bakkann niður og sýndi honum ýmsar útgáfur af þessum litla hlut auk þess að reyna selja honum meira.

"Skyndilega vorkenni ég þessum manni alveg ógurlega." sagði Sonja sem var skrítið því ég hafði akkúrat fengið sömu tilfinningu nokkrum sekúndum áður.

Það er sennilegast erfitt að vinna svona heiðarlegt starf, þurfandi að sjá fyrir fjölskyldu og þurfa alltaf að vera með bros á vör þó að nánast allir bandi manni í burtu án þess að sýna varningnum nokkra athygli. Þetta virtist góður maður og við vonuðum bæði innilega að sá sem var að skoða myndi kaupa af honum, sem hann gerði. Við keyptum smádót af honum.

Þegar lestin okkar kom loksins var hún tilkynnt á öðrum palli en stóð á skjánum. Ungur fótalaus maður með afskaplega falleg og blíð augu bankaði í fætur okkar og sagði okkur hvaða pall við ættum að fara á. Við gefum ekki oft svona fólki en gátum ekki annað í þessu tilviki.


Lestin kemur á fljúgandi ferð.

Þegar við komum inn í Delí eftir um tveggja og hálfs tíma ferð blasti við okkur fyrsta jólaskrautið sem við höfum séð í ár. Nokkur tré voru skreytt svipað og heima og minnti það okkur á þá árstíð sem geisar núna á Íslandi.

Við tókum tuk-tuk á hótelið í miðbænum þar sem farangurinn okkar var í geymslu. Starfmennirnir þar voru lítt hjálplegir og sýndu enga þjónustulund frekar en fyrri daginn þó að við höfum gist á hótelinu fjórum sinnum á tveimur mánuðum og greitt samviskulega þetta háa verð sem er of mikið miðað við standardinn. Starfsmaðurinn sem var að stjórna sendi aðstoðarmann í að finna leigubíl og fór síðan frá okkur þar sem við stóðum með allan okkar farangur, upp í veitingasalinn og sofnaði þar yfir sjónvarpinu. Aðstoðarmaðurinn fann einn bíl sem kostaði 450 Rs, heldur mikið en í lagi samt, en það var hálftíma bið í hann því hann var að borða kvöldmat þarna skammt frá. Skrítinn tími fyrir kvöldmat kl. 00:30 ... við biðum þolinmóð eftir honum.

Aksturinn að Hotel Tarra sem er í um 4 km. fjarlægð frá flugvellinum var mjög löng, tók 2-3x lengri tíma en hún á að gera því umferðin var fáránlega mikil út úr borginni. Flestir bílarnir voru stórir vörubílar á leið út á land með vistir - leggja sennilegast allir af stað á sama tíma með þessari afleiðingu.

Við komum því mjög seint á Tarra en starfsmaðurinn beið okkar í anddyrinu þegar við loksins fundum þetta vel falda hótel í myrkrinu. Við gengum inn í herbergið tók megn hlandlykt á móti okkur - svipuð og á illa þrifnu almenningsklósetti .... á Indlandi. Við sögðum honum að þetta gengi ekki en hann fullyrti að þetta væri eina herbergið sem hann ætti, það væri engin vond lykt og kveikti á ofvirkri viftu í loftinu sem ekki var hægt að minnka hraðann á. Klósettið var óþrifið og hafði greinilega ekki verið sturtað niður þegar síðasti maður skilaði þar umframvökva úr líkamanum sem olli þessari lykt ásamt því að baðherbergið var illa þrifið. Hann kom með reykelsi fyrir okkur til að minnka lyktina og losna við moskítóflugur - við höfðum ekkert annað úrræði en að láta okkur þetta gott lynda. Fjöldi moskítóflugna voru í herberginu sem var aðeins skárra en herbergi síðustu nætur, höfðum a.m.k. aðeins hreinna rúm þú umhverfi rúmsins væri skítug. Nóttin var skollin á og við færum hvort sem væri snemma á flugvöllinn.


Sonja situr í rúmínu og vill helst ekki snerta gólfið.


Klósettið.

Næstversta herbergi ferðarinnar var fundið þetta síðasta kvöld okkar á Indlandi. Við fórum að sofa með höfuðið fullt af góðum minningum frá þessu mikla menningarlandi þar sem öllu ægir saman í undraverðri blöndu sem hrífur mann með sér ef maður sleppir takinu og leyfir landinu og menningunni að taka stjórnina.

mánudagur, desember 10, 2007

87. Hótelherbergi dauðans

Við skiptum liði fyrri hluta dags - Sonja fór að kaupa lestarmiða til Agra á lestarstöðinni ásamt viðkomu á pósthúsinu til að senda minjagripi heim. Ég dundaði mér í tölvunni á herberginu á meðan í tölvunni við að skrifa ferðasögu okkar og sá um að skrá okkur út á réttum tíma svo við yrðum ekki rukkuð um aðra nótt.

Sonja kom til baka eftir að hafa verið í burtu í klukkutíma - hafði gleymt að taka passann minn en hann er nauðsynlegur svo við útlendingar getum keypt lestarmiða með svokölluðu "tourist quota" en það eru frátekinn sæti fyrir ferðamenn og svo eru til allskyns svona "quotar" fyrir t.d. diplomata, námsmenn ofl. Ég beið hennar á kaffihúsinu Coffee Day sem er í næsta nágrenni við hótelið og bragðaði á nokkrum ágætum kaffidrykkjum og var titrandi af koffínsjokki en sá ekki eftir neinu.

Sonja hafði tafist vegna þess að eins og áður var enginn tuk-tuk stjóri að sinna þeim sem borguðu fyrir leigubílinn í opinbera kofanum - menn vilja ekki keyra fyrir sanngjarnt verð. Á endanum kvartaði einn Indverjinn sem var að bíða í lögregluþjón sem stóð þarna rétt hjá og hann gekk með fólkið í halarófu á milli mótorbílana og skipaði súrum leigubílastjórunum að keyra fyrir gjaldið sem þau voru búin að greiða.

Sonja hafði keypt lestarmiða til Agra, heimaborgar Taj Mahal, um kvöldið og var brottför klukkan 17:30 stundvíslega ... mjög stundvíslega eins og við myndum komast að síðar.
Þar sem við erum ekki mikið að stressa okkur á hlutunum þá vorum við ekki komin með hótelherbergi í Agra, ætluðum að reyna að panta herbergi rétt áður en við færum á lestarstöðina. Þar sem við yrðum aðeins eina nótt í Agra og kæmum aftur til Delí kvöldið eftir, sem yrði síðasta kvöldið okkar á Indlandi, þurftum við líka að redda gistingu í Delí. Hótelin okkar voru bæði full en sögðu ágætis líkur að eitthvað myndi losna daginn eftir því afpantanir eru algengar. Dýrara hótelið lofaði reyndar að hringja í okkur um morguninn og staðfesta að þeir ættu herbergi en þeir gerðu það aldrei ... við ákváðum því að sjá bara til með herbergið í Deli til dagsins eftir.

Við ætluðum að nýta þennan síðasta dag í Delí til að kíkja í búðir í leit að nauðsynjavörum - stórt indverskt málverk og lítið kasmír teppi undir nýja sófaborðið okkar. Hvorugt fundum við enda Delí erfið fyrir fólk sem þekkir hana ekki vel. Borgin er mjög dreifð og erfitt að átta sig á því hvar best er að kaupa svona vörur. Það mætti líkja borginni mikið við Reykjavik því það þarf að þjóta að milli borgarhluta til að finna það sem maður leitar að - ekki skipulag að mínu skapi.

Þegar við gengum í átt að fyrsta viðkomustað okkar, ríkisbúðir skammt frá voru tveir piltar á vegi okkar aðeins of ákafir að hjálpa okkur þó við bönduðum þeim frá okkur og vildum ekkert með þá hafa. Annar var í gallafötum og með rauðar strípur í svörtu hárinu - hinn í rauðri skyrtu við gallabuxur, báðir voru í kringum 25 ára. Annar spurði í sífellu af hverju ég væri svona reiður þegar ég skipaði honum með morðglampa í augum að láta okkur vera en svona gaurar vinna við það að plata fólk inn í búðir, ljúga því iðulega að þetta séu ríkisbúðir með besta verðið. Túristinn endar á því að borga hærra verð fyrir vöruna til að dekka greiðslur til þessara götusvindlara. Þvílíkt og önnur eins vinna - gera ekkert annað en að plata ferðamenn, eru ekki að gera neitt gagn og fara í flokk hjá mér langt undir betlurum sem eru a.m.k. ekki að reyna að plata fólk, a.m.k. flestir þeirra. En það getur verið mjög auðvelt að glepjast sérstaklega þar sem að einkabúðirnar nota orðið EMPORIUM mjög gjarnan í nafnið á sinni búð en það orð ætti að gefa til kynna að um ríkisbúð er að ræða.

Við gengum í um klukkutíma og allstaðar eltu þeir okkur, voru um 50 metrum frá okkur og þegar ég leit við þá þóttust þeir bara vera að dóla sér, tala saman, bíða eftir strætó í skýli eða kaupa sígarettur. Spurning hvort CIA ætti ekki bara að ráða svona indverska götuplatara sem njósnara. Annar sagði okkur að hann væri bara að hjálpa okkur, væri á leiðinni í skólann sinn sem væri skammt frá. Skrítið að ganga í hringi til að fara í skólann. Svona gaurar pirra mig óstjórnlega því þeir hlusta ekkert á mann þegar maður nánast öskrar á þá að fara í burtu - í fyrsta skipti á ævinni var ég að spá í að nota líkamlegt ofbeldi, taka annan þeirra upp á skyrtumálinu þannig að hann myndi hanga í hálfs meter hæð og henda honum nokkra metra frá mér svo hann dytti á bakið á jörðina með skelfingarsvip og sæi þennan ómennska mann fyrir framan sig öskra eins og djöfullinn: "Láttu okkur í friði." Ég hætti við þetta útpælda og vel skipulagða plan mitt og slapp þrjóturinn því við barsmíðar. En það er til merkis um hversu pirrandi þeir voru að meira að segja Sonja hvæsti á annan að lokum.

Þessir gaurar gáfust á endanum upp enda gengum við stefnulaust út um allt í leit að þessari búð, vissum í raun ekkert hvar við vorum eða hvar þessi búð var enda vorum við bæði að reyna að finna hana og hrista þessa svindlara af okkur. Við vissum á hvaða götu ríkisbúðin átti að vera og höfðum spurt tvisvar til að vera viss um að við værum á þeirri götu - við vorum tveim götum lengra! Við gerðum þau reginmistök að spyrja:
"Is this the Bagar Khak Sing Road?" og fengum svarið já auk þess sem strákpjattarnir tönngluðust á þetta væri þessi gata. En maður á aldrei að spyrja Indverja spurningar sem hann getur svarað með já/nei ekki nauðsyn krefji og allt annað hefur brugðist, þeir segja bara já!

Við kíktum inn í aðra búð og spurðum þar um teppi.

"Góðan daginn, við erum að leita að mjög ákveðnu Kasmír teppi úr silki. Það þarf að vera 1,6m á lengd, vera með ferköntuðu munstri og vera ljósgrátt eða ljósbrúnt að lit. Við höfum ekki mikinn tíma - eigið þið svona teppi?" sagði ég pirraður því götusvindlararnir voru farnir að fara í skapið á mér en ég er mjög lengi að vera pirraður á svona hlutum og auk þess er algjör vitleysa að láta þetta fara í taugarnar á sér því svona ganga hlutirnir bara fyrir sig á Indlandi.
"Já, fáið ykkur sæti." sagði ungur, slánalegur afgreiðslumaður og fór að róta í teppaúrvali sínu.
"Nei, ég ætla að standa, við höfum bara 2-3 mínútur, erum á hraðferð."

Hann dró fram teppi sem var í mesta lagi 50cm, einn þriðji af stærðinni sem ég hafði beðið um, var með einn stóran hring sem munstur, langt frá ferkantaða munstrinu sem ég hafði beðið um og var dökkrautt á litinn. Ég endurtók aftur enn pirraðri í röddinni hvað ég hafði beðið um og hann tók teppið í burtu, talaði samt fína ensku þannig að hann hefði átt að skilja óskir mínar hefði hann hlustað.
Hann dró næst fram teppi af sömu stærð, með sama munstri en blátt.

"Veistu ekki hvað 1,6 metrar eru langir?" spurði ég orðin verulega pirraður en passaði mig á að vera ekki dónalegur.
"Jú en fyrst finnum við stærðina sem þú vilt." sagði hann og dróg fram málband og skoðaði það vel - hefur sennilega verið að sjá hvað þetta yrðu mörg fet.

Næsta teppi sem hann dróg fram var í þeirri stærðargráðu sem við vorum að leita að en ennþá með kolrangt munstur og lit.

"Takk, fyrir - við þurfum að drífa okkur." sagði ég og við gengum út.

Við gáfumst upp á þessu hverfi, tókum Tuk-tuk í teppabúð á öðrum stað í borginni sem við höfðum séð auglýsingu um í bæklingi. Þetta reyndist íbúðahverfi og ein lítil búð var falin á milli íbúðahúsa. Þar var stórt járnhlið og vörðurinn harðneitaði að hleypa okkur inn en hljóp sjálfur og dró með sér út frekar súran gamlan kall sem talaði enga ensku en okkur skildist að það væri lokað. Við vorum að fara að næstu búð þegar út kom stökkvandi frekar ógeðsleg kelling sem hefði átt stórleik sem vonda stjúpmóðirin í einhverri barnamynd - við rétt kíktum innfyrir og sögðumst ætla að skoða annað og gengum með hana á eftir okkur um 100 metra. Við tókum hjólavagn í aðra búð í sama hverfi, reyndist búðin vera kjallari í blokk sem hafði sennilegast átt að notast sem hjólagyemsla og geymslur fyrir íbúana en hafði verið breytt í teppalager. Þar var mesta úrval sem við höfum séð af teppum - hann hlustaði á útskýringar okkar og tók fram tvö glæsileg teppi sem pössuðu vel við óskir okkar. Annað teppið, 900 hnúta silkiteppi af fallegustu gerð var á sæmilegu verði - náðum að kreista verðið niður úr 45 þúsund rúbínum niður í 36 rúbínur sem er ekkert voðalega mikið fyrir svona teppi.
Við stóðum hugsandi um það hvort við ættum að kaupa það á meðan starfsmennirnir byrjuðu að pakka því inn og eigandinn að skrifa nótu fyrir teppinu þó við hefðum ekki verið búin að segja já. Sonja fékk það snjallræði að spyrja hvort við gætum tekið teppið út til að sjá það í dagsljós. Hann fór með okkur inn í annað herbergi með betri birtu og sýndi okkur það þar en við vildum fá að sjá það í dagsbirtu. Hann kveikti þá á gulari ljósum en við vildum út svo hann drattaðist fram á gang með teppið. Okkur tókst að lokum að draga salann, teppið og aðstoðarmann út en þegar út var komið voru þeir eitthvað tregir að fara með það út undan skyggninu sem var fyrir ofan dyrnar. Það hafðist að komast í almennilega dagsbirtu og sá Sonja stóran gulan blett á teppinu, eins og einhverju hafði verið hellt á það. Eigandinn gaf ekki mikið fyrir blettinn, sagði fyrst að þetta væri bara brot í teppinu sem mundi jafna sig (teppið hafði verið upprúllað) en að lokum viðurkenndi hann blettinn og sagði að það væri hægt að þrífa hann og ekkert meir - reyndi ekkert að sýna fram á það. Við ákváðum því að hætta við öll kaup hjá honum því hvað hann var tregur til að sýna teppið í dagsbirtu fannst okkur sýna að hann vissi um blettinn helvískur.


Í tuk-tuk.

Klukkan var orðin margt og við höfðum ekkert borðað nema morgunmat en kaffið hélt mér gangandi. Við stukkum inn á skyndibitastað skammt frá hótelinu, tókum með okkur mat þaðan og hlupum á hótelið til að ná í þann litla farangur sem við ætluðum með okkur til Agra - fórum síðan inn í Tuk-tuk á lestarstöðina.

Það var ekki nema hálftími þangað til lestin færi þegar við lögðum af stað frá hótelinu og venjulega tekur ekki nema 10 mínútur á lestarstöðina. Það hvað við vorum sein var nú ekki útpælt hjá okkur og við hugsuðum ekkert út í það að við vorum að fara um eftirmiðdaginn þegar umferðin er sem mest. Við lentum líka í gríðarlegri traffík, allt sat stopp svo langt sem augað eygði og lítil hreyfing á nokkrum hlut. Allt í kring voru óþolinmóðir Indverjar að flauta farartækjum sínum þó að allt væri stopp. Hægt þokaðist þó umferðin en við vorum farin að vera ískyggilega sein en furðu lítið stressuð - annaðhvort myndum við ná þessu eða ekki, þetta var ekki í okkar höndum heldur Shiva, Brahma, Vishnu og allra þessara guða sem ráða ríkjum á þessu svæði.

Það greiddist úr teppunni á endanum og við renndum upp að lestarstöðinni 4 mínútum fyrir brottfaratíma. Við hlupum inn á lestarstöðina ... pallur 5, sá sem er lengst í burtu. Við hlupum út pall 1 upp tröppurnar og yfir sporin út að palli 5 þar sem lestin okkar beið óþolinmóð. Okkar vagn var númer C1 sem er yfirleitt besti vagninn í svona lestum og fremst í þeim. Lestin var fáránlega löng og við á röngum enda hennar og þurftum að hlaupa út á enda sveitt í hitanum. Þegar þangað var komið var okkar vagn hvergi sjáanlegur, við hlupum því til baka í sömu andrá og lestin fór af stað - vagninn okkar fór framhjá stuttu síðar, hafði verið 5. vagn frá endanum. Við stukkum upp í vagninn á ferð og rétt sluppum - hefði ekki mátt muna nema örfáum sekúndum og hefði reynst erfitt stökk með allan okkar hefðbundna farangur.

Vagninn var í "pödduklassa", gríðarleg hlandlykt í vagninum, mikill óþrifnaður, matarleifar á gólfunum og sætin skítug. Það var heldur ekki neinar innstungur eins og okkur hafði verið lofað. Barn nokkrum sætum fyrir aftan okkur öskraði frekjuöskri alla leiðina sem tók 5 og hálfan tíma en ekki 2 tíma eins og flestir lestir á sömu leið. Semsagt gríðarleg vonbrigði en eitthvað sem við urðum bara að sætta okkur við. Við höfðum áður tekið þennan klasssa sem kallast "CC" (chair class) og hefur ávallt farið vel um okkur en þarna en Sonja hefur endurnefnt þetta farrými sem "Cockroach class".

Eins og oft áður sat fólk í sætunum okkar þegar við komum inn og vildi sjá miðann okkar sem það skoðaði gaumgæfilega ásamt því að spyrja fólk á sætunum við hliðina á hvort það gæti verið að við ættum þessi sæti. Á endanum færði það sig.

Það voru tveir karlmenn í borgaralegum fötum með stóra riffla á öxlunum fremst í vagninum - sennilega verðir frekar en hryðjuverkamenn og við höfðum það alltaf í bakhöndinni að siga þeim á fólkið.


Sonja steinsofandi en ég áhyggjufullur um að kakkalakkar skríði upp skálmarnar hennar.

Ég endurtek einu sinni enn að þó að það séu margir neikvæðir hlutir sem maður segir frá í ferðum okkar um Indland þá erum Indverjar í langflestum tilfellum skemmtilegt, hjálpsamt og gott fólk ... það er bara ekkert gaman endalaust að segja frá englum. Ég þekki líka lesendur ferðasögunar og veit að það vill skít og ekkert annað. :-)

Í lok ferðar þegar við fórum að taka saman dótið okkar sáum við fjóra kakkalakka allt í kringum okkur og því stökk Sonja á fætur og yfir 3 sæti, hún stóð síðustu 15 mínúturnar - heppin að hafa ekki séð þessi meinlætisdýr fyrr, þá hefði þetta orðið henni erfiðari ferð.

Fyrirframgreiddi tuk-tuk kofinn í Agra var ótraustverðugur en við gátum ekkert betra gert en að nota hann þó að leigubíllinn væri helmingi dýrari en okkur hafði verið sagt að hann ætti að kosta. Þeir voru með töflu uppi á vegg um verð á nokkra áfangastaði þannig að það var erfitt að rengja verðið þó að við gerðum einhverjar máttlausar tilraunir í þá átt.

Klukkan var að nálgast miðnætti þegar við þutum eftir dimmum og líflausum götum Agra í átt að hótelinu okkar, Hotel Host. Við keyrðum á endanum í mjög vafasamt hverfi með einhverju útigangsfólki og á skrítnum stað stoppaði leigubílstjórinn og fór út. Við sátum eftir, vantrúuð á að við værum komin á áfangastað - vonuðum það eiginlega bæði að hann væri ekki kominn.

"Komið, þetta er hérna inn í götunni!" sagði hann og gekk inn dimma ljóta götu. Við tókum töskur okkar og eltum hann inn götuna - hann gekk um 200 metra og benti upp á ljótt skilti á ennþá ljótara húsi:

"Hotel Host!".

Við gengum inn og ljótur maður í kringum 35 ára tók brosandi á móti okkur með sínar kolsvörtu tennur með rauðri drullu á milli. Þetta var greinilega rétt hótel því hann hafði nöfnin okkar, það var ákveðinn léttir.

Hann sýndi okkur alveg hræðilegt, já alveg skelfilegt, herbergi sem var alveg gluggalaust og ætla ég ekki að lýsa því frekar. Við sögðumst hafa beðið um gluggaherbergi og hann sýndi okkur þá aðeins dýrara herbergi sem var lítið skárra en við gátum ekki annað en tekið það því við vorum seint á ferðinni og önnur hótel sem við höfðum hringt í voru upptekin. Þetta ætti að kenna manni að panta ekki hótel úr lestinni þegar maður er á leið á áfangastað.

"Viltu sígarettur?" spurði hann og brosti aftur út á eyrum svo ég sæi örugglega hverja einustu tönn og allan rauðleita skítinn á milli þeirra - andfýlan var líka áhugaverð.
"Nei takk." takk sagði ég og brosti kurteislega.
"Viskí, bjór, eitthvað að reykja?" sagði hann og brosti aftur eins og falskur sölumaður.
"Kannski einn bjór." sagði ég til að losna við hann sem fyrst.

Sonja kom upp stuttu síðar eftir að hafa fyllt út staðlaða pappíra sem maður þarf að gera á öllum hótelum ... hún bar sig vel en ég held að hún hafi fengið sjokk eins og ég yfir herberginu.

Herbergið lyktaði af hlandlykt enda hafði klósettið örugglega ekki verið þrifið á þessari öld. Gólfið var skítugt, málningarklessur út um allt og blautir blettir á stöku stað sem höfðu líklegast borist út úr klósettinu. Veggirnir sem voru hvítmálaðir voru mjög drullugir og út um allt blóðblettir eftir fjöldamorð á feitum moskítóflugum sem aðrir óheppnir gestir höfðu klesst á veggi og loft. Beddinn var stuttur þannig að lappirnar á okkur stóðu svona 20-30 cm útúr og með þunnri dýnu sem hafði afar óhrein sængurföt, fullt af blóðblettum eftir moskítóflugur og fullt af öðrum vafasamari blettum sem við rýndum ekki frekar í. Koddinn var kapítuli útaf fyrir sig, blóðblettir ásamt stórum slefblettum svo ógeðslegur að ég hefði hugsað mig tvisvar um að ganga á honum á skítugum skóm, hvað þá sofa á honum með silkimjúkri og viðkvæmri húð minni. Þetta eru þó varla sængurföt sem fylgja svona ódýrum hótelum (c.a. 150-500 RS) heldur bara lak, koddaver og svo skítug ullarteppi. Eina sem var þarna til að hafa ofaná okkur var þykkt og skítugt ullarteppi sem angaði af óþrifnaði - yfirleitt biðjum við um aukalak til að hafa á milli okkar og teppis, finnst það hreinlegra. Í þetta skiptið báðum við ekki um það því það skipti svo litlu máli upp á allt annað, versta var að við vorum ekki með svefnpokana okkar til að skríða ofan í.
Annað í herberginu var í svipuðu ástandi en mér til mikillar gleði var sjónvarp - ég gæti kíkt á leik um nóttina því ég sef yfirleitt illa á svona lélegum rúmum enda ákaflega viðkvæmur maður.


Sonju líst ekki par vel á herbergið.


Klæðið á stólnum virkilega subbulegt.


Smá dæmi um flugubletti á veggjunum.


Klósettið angaði hræðilega og var verulega skítugt - svona voru fæturnir alla nóttina.

Ég tók upp fjarstýringuna, ætlaði að leita að ESPN sem sýnir enska boltann og ýtti á takkan til að fara upp um rás sem ég nota alltaf til að kveikja á sjónvörpum. Ekkert gerðist. Ég prófaði þá að ýta á rásarnúmerin en sjónvarpið var alveg dautt. Ég prófaði þá að ýta á rás upp og niður á sjónvarpinu sjálfu en sjónvarpið var steindautt. Ég kallaði á hr. Rauðtanna sem kom hlaupandi upp og tók fjarstýringuna úr höndum mínum og kveikti á sjónvarpinu án nokkurra vandkvæða.

"Ok, glæsilegt - hvernig kveiktir þú?"
"Þessi takki er til að kveikja og slökkva." sagði hann og benti á Power takkann sem mér hafði yfirsést, auðvitað hefði ég átt að prófa hann hugsaði ég með mér.
"Ok." sagði ég.

Hann slökkti á sjónvarpinu og kveikti aftur til að sýna mér virkni Power takkans og ég þakkaði fyrir mig.

"Þessi takki er til að hækka og lækka hljóðið." sagði hann og benti á Volume takkana eins og ég hefði aldrei séð sjónvarp áður. Hann hækkaði og lækkaði til að sýna mér.
"Ok, sniðugt." sagði ég til að vera ekki dónalegur við hjálpsaman manninn.
"Og þessir takkar skipta um stöðvar." sagði hann og sýndi P-upp og P-niður ásamt flesta númeratakkana og ég fylgdist hugsandi með sýnikennslunni.
"Ok, takk fyrir þetta." sagði ég og prófaði allar þessar aðgerðir til að honum myndi líða betur því hann gerði þetta allt af góðum huga. Hann vissi greinilega ekki að ég kem frá íslandi, mestu sjónvarpsþjóð í heimi og þó víðar væri leitað.

Ég horfði á leikinn sem byrjaði kl. 1 um nóttina í hræðilegum gæðum, gat ekki greint leikmennina í sundur og heyrði ekkert - það þýðir ekki að kenna bjórnum um þó hann hafi verið 8% af Kingfisher gerð því ég drakk bara einn.

Herbergið var virkilega kalt um nóttina og mikill raki þannig að ógeðsleg dýnan undir okkur varð rakari sem leið á nóttina. Það var ljóst að ég myndi ekki sofna auðveldlega þegar leikurinn var búinn, var auk þess farinn að hósta heiftarlega, tók því svefntöflu og svaf eins og ungabarn við þessar aðstæður. Sonja á auðveldara með svefn í óþægilegri rúmum og átti ekki svo erfitt með svefn um nóttina eftir að við höfðum sameinast undir teppunum til að nýta líkamshitann betur.

Þetta var klárlega versta herbergi ferðarinnar og nokkuð svekkelsi því Lonely Planet hafði skrifað að eigendur hótelsins hefðu lagt sig fram um að gera sitt besta fyrir þetta verð en þar sem við mættum seint og myndum fara snemma var þetta þolanlegt ... rétt þolanlegt.

86. Hótelskipti

Við stóðum fjögur úti fyrir utan hótelið um morguninn og horfðum upp í himininn sem lét ófriðlega, þrumur heyrðust í fjarska og stöku elding lýsti upp nágrennið.

"Er algengt að það rigni á þessum árstíma?" spurði Sonja hótelstjórann og var hún nokkuð hissa.
"Nei, aldrei - rignir stundum í janúar en annars aldrei." svaraði hótelstjórinn hissa þar sem hann starði upp í himininn.

Hann hafði bankað á herbergið okkar kl. 4.15 en við höfðum sammælst um að koma út kl. 4.30 en þá myndi leigubíllinn vera fyrir utan. Við ætluðum að vakna kl. 4 en sváfum eitthvað yfir okkur og því ágætt að hann vakti okkur. Það tók okkur smá tíma að pakka síðasta dótinu og ganga frá og því lögðum við af stað til Kota seinna en við gerðum ráð fyrir og lestin okkar til Delí átti að fara kl. 6. Bílferðin gekk hægt fyrir sig með stöku ofsaakstri þegar gatan var auð en flestir virtust eiga í erfiðleikum með þessa óvæntu rigningu. Þegar við mættum loks á lestarstöðina eftir rúmlega klukkutíma ferð voru aðeins 10 mínútur í brottför og þurftum við því að hlaupa til að ná lestinni sem tókst.

Lokastoppið í lestinni var í Deli en á annarri lestarstöð en við vorum vön, töluvert minni en aðalstöðin sem við þekkjum nánast eins og handabakið á okkur. Það var eins og yfirleitt fullt af tuk-tuk fyrir utan en fáir sem vildu sinna keyrslu fyrir prepaid þjónustuna. Við biðum í góðan tíma fyrir utan kofann með nokkrum óþolinmóðum Indverjum sem voru í sama tilgangi en Indverjar nota mjög mikið þessa fyrirgramgreiddu þjónustu. Maðurinn í kofanum endaði á því að segja okkur að við yrðum bara að leita annað þegar hjálpsamur maður sem var með honum í kofanum sagði að hann myndi keyra - við borguðum og fórum í tuk-tuk með þessum vinalega gráhærða manni sem talaði eiginlega enga ensku.

Hann keyrði okkur á áfangastað án þess að nefna aðra staði á nafn eða reyna að senda okkur í búðir - greinilega óvanur eða það vanur að hann nennir þessari vitleysu ekki lengur.

Hotel 55 var það eina sem við náðum að panta við Connaught Place, nýlegan miðbæinn í Deli þar sem við gistum oftast. Við höfðum hringt á hótel daginn áður því plönin voru lengi að taka á sig mynd hjá okkur en ekki fengið nein sem höfðu þráðlaust net nema eitt - Hotel 55 sem sögðu: "Yes, you can use the internet in your room.".

Hótelið leit illa út enda um helmingi ódýrara en það sem við vorum vön í borginni en það var í lagi svo framanlega sem netið myndi virka en við þurftum nauðsynlega að vinna aðeins í tölvunni. Auk þess sem það er hreinlega ekki mjög mikið um netkaffi á þessu svæði í Delí. Eftir að við höfðum borið allan farangur upp prófaði ég netið áður en við héldum út í búðarráp. Tölvan fann ekkert net og var mér hætt að litast á blikuna. Ég fór niður og spurði og þeir sögðu: "Use the telephone line!", semsagt netið á hótelinu var ekki alveg það sem við bjuggumst við. Ég spurði þá hvernig ég myndi tengjast en þegar maður notar símalínu þarf maður símanúmer, notendaheiti og lykilorð til að tengjast netinu. Eldri maður kom upp með mér og ég settist niður með bakið í hurðina, stakk símalínunni í tölvuna og beið frekari fyrirmæla. Hann sagði ekkert og leit ég við og var hann þá farinn út úr herberginu og búinn að loka hljóðlega á eftir sér. Ég fór aftur niður og sagði að ég þyrfti frekari upplýsingar til að tengjast og kom hann aftur upp til að skoða málið. Ég sýndi hvernig tölvan bað um símanúmer og virtist hann koma alveg af fjöllum - "Prófaðu 5677-eitthvað eða að nota símanúmerið mitt." sagði hann og þá vissi ég að þetta væri tapað - setti það samt inn til að sýna honum að þetta virkaði ekki. Hann stóð þögull þegar honum varð ljóst að þetta var ekki að gera sig, tók eitt skref afturábak, síðan annað, eitt í viðbót og hvarf síðan orðalaust. Eftir sat ég í engu sambandi við umheiminn, svikinn og sár með gagnslausa símalínu í hendinni.

Við biðum í smá tíma í herberginu eftir því að hann kæmi kannski upp aftur uppfullur af upplýsingum sem nægja myndu til að tengja okkur. Enginn kom. Við prófuðum að nota símalínuna í eitthvað gagnlegt með að hringja á annað hótel sem hafði ekki svarað daginn áður, það svaraði núna en allt var upppantað. Okkur datt þá snjallræði í hug að prófa aftur hótelið sem við gistum alltaf á í Delí og okkur til mikillar furðu og ánægju var laust herbergi, hafði losnað nokkrum mínútum áður.

Við settum á okkur bakpokana og gengum út úr herberginu og kvöddum mennina niðri sem tóku þessu furðuvel - skildu greinilega að við þurftum að nota netið enda höfðum við spurt um það og þeir gátu ekki staðið við orð sín.

Hitt hótelið var í göngufjarlægð og gengum við ánægð á það, sloppin úr þessu vonda hóteli.

Það sem eftir lifði dags gengum við um hverfið - stóðum undir nafni með því að kíkja í nokkrar túristabúðir.

sunnudagur, desember 09, 2007

85. Hræðilegur morgunverður - frábær kvöldmatur

Við ætluðum að fá okkur snöggan og einfaldan morgunverð svo við hefðum meiri tíma í Bundi þennan síðasta dag okkar þar ... hann var hvorki snöggur né einfaldur.

Þar sem við bjuggumst við að á fína hótelinu fengjum við svona sæmilegan morgunverð og góða þjónustu ákváðum við að borða þar enda er hann í næsta nágrenni við hótelið okkar.
Afgreiðslustrákurinn, mjóvaxinn strákur rúmlega tvítugur virðist ekki reyna mikið að standa sig í starfi, allavega sýnir hann þess engin merki. Við pöntuðum hjá honum ommelettu (Sonja), ristabrauð (ég), kornflex með mjólk (Sonja), ásamt 2 glösum af appelsínusafa. Við þuldum þetta upp og bentum á viðkomandi atriði á listanum og hann horfði tómum augum á það sem við vildum fá og gekk síðan í burtu. Við vorum viss um að þetta færi eitthvað á mis enda talar hann nánast enga ensku, sem er skrítið á svona dýru hóteli sem nánast allir gestir eru erlendir ferðamenn og auk þess voru ekki mikil merki um að hann væri að skilja það sem við pöntuðum.
Um tuttugu mínútum síðar komu appelsínudrykkirnir - sá sem er greinilega yfirþjónn en gerir ekki neitt annað en að standa í útidyrunum kom og skammaði hann fyrir ónákvæma pöntun, hann hafði greinileg bara náð söfunum en jánkað hinu frekar en að reyna að fá nánari útskýringar.
Við þurftum því að panta aftur og sá eldri stóð hjá og hlustaði en hristi hausinn og fór aftur í dyrnar.
Ommelettan kom næst og var sett fyrir framan mig - ég ýtti henni til Sonju og sagði að ég hafði pantað brauð. Hann kom alveg að fjöllum þó að ég hefði pantað brauðið tvisvar. Hann fór eitthvað fram og kom aftur með þvottastrákinn, góðlegan drullugan strák sem ætti sennilegast að vera þjónn frekar en að vera í skítverkunum. Hann kunni betri ensku og þýddi það sem við sögðum: "Ristaðbrauð með sultu og kornflex með kaldri mjólk".
Um 10 mínútum síðar kom ristaða brauðið en engin sulta. Hann vissi ekki hvað jam var þó að það sé alltaf á morgunverðarborðum Indverja þangað til ég nánast rauk upp, þreif matseðilinn og benti á jam í "Roast bread with Jam". Það náðist loks í gegn og ég fékk sultuna sem var kærkomin þó að brauðið væri fyrir löngu orðið kalt.
Kornflexið kom stuttu síðar í djúpum disk með gafli en engin mjólk. Við reyndum að útskýra að við vildum mjólk með kornflexinu eins og stóð á matseðlinum "Cornflakes with milk" og það kalda. Hann kinkaði eitthvað kollinn og fór síðan hinum megin í salinn og helti sér yfir aumingjans hreinsistrákinn sem lá á gólfinu með tuskuna sína. Þegar hann var búinn að standa þar í tvær mínútur, passaði sig samt að vera bakvið stóra súlu var mér nóg boðið - kallaði yfir salinn "HELLO, COLD MILK!". Hann fór lúpulegur inn í eldhúsið aftur.

5 mínútum síðar kom heit mjólk í könnu ásamt bolla til að drekka mjólkina úr ...

Okkur tókst að fá kalda mjólk á endanum og skeið sem við þurftum að biðja þrisvar um, en þessi stutti einfaldi morgunverður varð allt annað en einfaldur - einfaldleikinn varð að pirringi yfir að vera að borga 4x hærra verð þarna en á öðrum stöðum fyrir svona lélega þjónustu. Við gáfum afgreiðslustráknum ekkert þjórfé en gáfum hreinsistráknum gott þjórfé fyrir hjálpina.


Sonja með kornflex og gaffal en enga mjólk.


Karlmenn á leiðinni frá hótelinu.

Sonja keypti lestarmiða til Delí en við höfðum breytt ferðaplaninu á ákváðum að reyna komast allavega til Delí og í versta falli bara dagsferð til Agra en það er mjög einfalt að komast á mili Delí og Agra.


Ungur drengur stendur fyrir utan heimili sitt.

Við grænmetismarkaðinn er stórskrítið mannvirki - manngerður brunnur sem nær tugi metra niður í jörðina með tröppum í hliðunum. Borgin er fræg fyrir þessa brunna sem eru út um alla borg og voru byggðir fyrir um 300 árum síðan. Núna eru þeir í niðurníslu eins og flest annað og ekkert á botninum annað grænt botnfylli af vatni og rusli. Maður fer að velta því fyrir sér af hverju allt er í niðurníslu á þessum síðustu og verstu tímum - á sínum tíma hefur þetta blómstrað, menn byggt stórkostleg mannvirki en í dag gera menn ekkert annað en að liggja í skítnum eins og svín þegar fólksmergð er næg til að halda a.m.k. merkilegustu mannvirkjum í skikkanlegu ástandi.


Brunnurinn ógnardjúpi.


Þessum var betur við haldið.

Ég gekk hringinn í kringum brunninn en Sonja varð eftir enda á tali við skartgripafólk, hafði áhuga á glingrinu. Við höfðum sammælst um að hittast aftur hjá skartgripafólkinu þegar ég kæmi til baka en á leiðinni báðu þrír eldri menn mig að setjast hjá þeim þar sem þeir sátu og seldu grænmeti við brunninn. Sá frakkasti þeirra, stórskrítinn og skemmtilegur karl sýndi mér lítið myndaalbúm með myndum af þeim með erlendu fólki sem hafði tekið myndir af þeim og sent þeim í pósti. Einnig hafði hann umslög frá fólki frá öllum heimshornum.

"This is a foreigner!" sagði hann við hverja mynd og benti á vestræna fólkið sem sat hjá þeim. Þeir voru alltaf þrír á öllum myndum, tveir af þeim höfðu sig ekki mikið frammi, fylgdust með og hlustuðu.

"Very nice! Very nice! Thank you!" hrópaði hann uppyfir sig af einskærri ánægju öðru hverju og ef ég ætti að nefna eina persónu sem hann minnir mig á þá er það Borat.

Ég tók myndir af þeim og hann tók á mína vél mynd af mér sitjandi með þessum tveim vinum sínum sem ég ætla að senda þeim þegar ég kem heim. Hann gekk með mig yfir götuna og fékk þar lykil af konu sem virtist vera betlari og sýndi mér annan brunn sem var í betra ásigkomulagi en sá fyrri en þó með töluverðu sorpi á botninum.
Hann gaf mér rós þegar ég kvaddi.


Menn við vinnu rétt við grænmetismarkaðinn.


Kíkt í blöðin.


Félagarnir þrír sem ég settist hjá.

Sonja var reyndar í vægu sjokki því ég hafði ekki skilað mér til baka - hún hafði staðið og horft ofaní brunninn hvort ég væri þar einhverstaðar á botninum og var ekki langt frá því að verða virkilega áhyggjufull. Hún reyndar skildi að ég gat eiginlega ekki hlaupið frá þessum félögum án þess að vera dónalegur - ég skilaði mér á endanum.


Sonja keypti sér armband sem hér er verið að hita svo hægt væri að móta það að hönd Sonju.


Armbandssölufólki.


Flottir skeggjaðir menn.


Slappað af á vagni ... þessir vagnar eru til margra hluta nytsamlegir og voru t.d. notaðir sem leigubílar á Phuskar hátíðinni.


Grænmetissölufólk.


Konur hjá markaðnum.

Við skoðuðum frægasta brunninn sem er þarna rétt hjá en af algjörri tilviljun. Skólastúlkur sem höfðu gefið sig á tal við okkur sögðu: "Come!" og gengu í einhverja átt, og við fylgdum eftir. Indverjar segja manni yfirleitt ekkert hvert það vill að maður fari - borgar sig bara að elta og sjá hvert það leiðir mann. Við sáum þennan stóra og fallega brunn bara útaf stúlkunum og því ansi heppin.
Við snæddum epli, slöppuðum af í vel hirtum garðinum í kringum þennan brunn og horfðum á íkorna allt í kring á leik - þeir borðuðu m.a.s. úr hönd indversks manns sem var þarna að borða indverskan mat - fúlsuðu við eplunum okkar, borða sennilega bara sterkt.


Þekktasti brunnurinn og líklegast sá eini sem er haldið við að einhverju ráði þó að hann innihaldi hundruðir leðurblakna.

Fyrir utan hittum við strák með bros eins og kvikmyndaleikari sem var að bíða á ljósum við götuna. Hann spurði okkur hvort við hefðum íslenska mynt þegar hann heyrði hvaðan við værum - þegar við heyrðum hvað hann hefði mikið vit á t.d. skandinavískri mynt sáum við að hann var ekki að snapa peninga heldur hafði virkilegan áhuga á þessu. Hann var t.d. sérlega hrifinn af dönsku krónunni því hún er með gati. Við lofuðum því að senda honum íslenska minnt að heiman - hann var svo ánægður að hann gaf okkur þrjár Indverskar minntir frá fyrri hluta síðustu aldar, aðeins verðmætari gjöf en það sem við ætluðum að gefa honum - finnum kannski gamla íslenska minnt og sendum honum.


Íkorni borðar mat sem hent hefur verið að honum.


Íkorni fær sér indverskan hádegisverð - Myntsafnarinn.


Geitur, svín og hundar ganga frjáls um markaðinn en allir sölumenn eru með prik til að lemja þau frá girnilegu grænmetinu.


Markaðskonur.


Þessi er með sinn bás við risavaxið trés.

Þessar tvær ristabrauðsneiðar í morgunmat og eitt epli var það eina sem ég hafði borðað þennan daginn og klukkan var að verða 16 - batteríin kláruðust því allt í einu hjá mér, var alveg búinn á því sem gerist ekki oft, get yfirleitt gengið lengi án þess að fá kraft. Við vorum stödd á grænmetismarkaðnum og Sonja í þvílíku myndatökustuðu að annað eins hefur ekki sést enda skiluðu sér margar glæsilegar myndir í hús. Ég ákvað því að fara upp á hótel og Sonja að vera eftir með báðar myndavélar og halda áfram.

Sonja naut sín á á markaðnum við myndatökur og spjall við fólkið. Einn kartöflusalinn bauð henni te sem hún þáði og settist hjá honum. Kúnnarnir störðu á hann og Sonju til skiptist þegar þeir komu að versla hjá honum og varð hann hinn ánægðasti með það. Viðskiptin jukust mikið hjá honum í kjölfarið sagði hann Sonju hæstánægður. Sonja er með einhvern hósta þessa dagana eins og ég og þegar hún hóstaði í fyrsta skiptið hjá honum hljóp hann til á næsta bás og keypti fyrir hana minntu.


Fleiri sölukonur.


Eru þetta ekki allt karlmenn?


Menn að störfum.


Enn ein kona á markaðnum.


Hress börn.


Þessi hægra megin er ansi tannfríð, minnir helst á vampíru.


Þessi er ekkert sérstaklega ánægður á svipinn.

Indverjar stara þangað til maður brosir og þá taka þeir við sér og brosa á móti eins og þeir hafi verið í einhverju móki.

"Your quality is very good, very beautiful, very good ... I saw from far away that you are very beautifull. I can tell!" sagði ungur piltur sem Sonja gekk framhjá á leiðinni heim á hótelið þegar sólin var farin og hún orðin svöng.


Töffarar.


Kartöflusölumaðurinn hægra megin.


Fleiri töffarar, sérstaklega sá hægra megin sem er virkilega smart.


Matargerð.


Rakarinn.

Við lentum í harki við starfsmanninn þegar við vorum að gera upp herbergið en við höfðum gist þrjár nætur plús það að hafa mætt 6 um morgun og eytt 5 tímum á dýrara herberginu þangað til við skiptum eins og við höfum þegar sagt frá. Hann ætlaði að rukka okkur fyrir fjórar nætur, þær þrjár sem við höfðum gist á og eina á dýrari herberginu. Við vorum ekki alveg sátt við það því herbergið hafði veirð autt og þeir hefðu getað sagt okkur að við þyrftum að borga heilan sólarhring ef við hefðum farið inn á herbergið fyrir kl. 12 - hefðum þá alveg getað eytt smá tíma úti. Eftir nokkrar þrætur hringdi hann í eigandann sem er karlmaður á miðjum aldri, mjög ákveðinn og skarpur maður - við bjuggumst við harðri samningalotu þar sem við myndum á endanum tapa.
Hann gekk inn, spurði hvað við hefðum verið í margar nætur sem við svöruðum þrjár og bjó til reikning fyrir það. Flóknara var það ekki.


Anddyrið á hótelinu.

Daginn áður hafði Sonja hitt unga 9 ára stúlku fyrir utan veitingahúsið okkar:

"Hello, how are you?" spurði stúlkan.
"I'm good."
"What is your name?"
"My name is Sonja."
"Where are you from?"
"Iceland."
"Are you staying at this hotel?"
"Yes."
"Do you want to have dinner?"
"No, I just ate?"
"My mother is cooking, she is the best cook?"
"Ok, maybe to morrow."
"Your hotel has very bad food!"
"Ok, I haven't eaten there."
"You may not belive me but other guests have told me that the food is not good. So yes, you want to have dinner?"
"Maybe tomorrow - but you have only Indian food?"
"Yes."
"I think Indian food is too spicy."
"No, it is not to spicy. You like spicy?"
"No."
"You tell us you don't like spicy, we don't make spicy. You tell us you like spicy we make spicy."
"Maybe tomorrow."


Þessi stúlka var mjög skýr og skemmtileg, ég hitti hana sjálfur daginn áður þegar ég fór í litla verslun á horninu sem foreldrar hennar eiga og þá bauð hún mér á veitingastaðinn - ég sagði kannski á morgun eins og Sonja. Þar sem þetta var síðasta kvöldið í Bundi var tilvalið að rölta yfir á næsta hótel og borða hjá stelpunum og móður þeirra. Þar sem hótelstjórinn var enn í lítilli afgreiðslunni og hurðin inn á hitt hótelið aðeins meter frá útihurðinni á þessu hóteli kunnum við ekki við að fara inn á hitt þar sem hann myndi örugglega sjá okkur. Við skruppum því í búð neðar og biðum hann af okkur og læddumst inn á hinn staðinn. Ef hann hefði rukkað fyrir herbergið hefðum við ekki hikað við að þramma inn á hitt í allra augnsýn en hann hafði verið sanngjarn og því engin ástæða að særa hans litla hjarta.


Stúlkan.

Veitingastaðurinn á hinu hótelinu/gistihúsinu er gamalt Havali eins og flest hótel. Við gengum upp á efri hæðina þar sem eru tvö borð til að snæða á - eldri góðleg hjón frá Sviss voru á öðru borðinu en hitt stóð autt. Eigandinn, feitlaginn en þó hávaxinn og brosmildur maður tók á móti okkur og við settumst við borðið. Dætur hans, sú sem hafði sannfært okkur um að koma á veitingahúsið og eldri systir hennar sáu um að þjóna til borðs. Sú yngri var 9 ára en sú eldri 12 ára - höfðu þær virkilega gaman af að þjóna og voru líflegar og skemmtilegar - stór munur frá þjónustunni á dýra hótelinu um morguninn.

Sú yngri hafði mikinn áhuga á myndavélinni okkar og ég sýndi henni hvernig maður skoðar myndir - hún spurði sérstaklega hvernig maður eyðir myndum sem ég kenndi henni. Ég tók nokkrar myndir af henni þar sem hún hafði stillt sig upp og skoðaði hún myndirnar sjálf í vélinni á eftir. Þegar ég ætlaði sjálfur að skoða myndirnar stuttu síðar voru þær horfnar.


Hún tók þessa mynd af okkur.

"Eyddir þú myndunum sem ég tók af þér?" sagði ég hissa en samt brosandi.
"Já, hárið á mér var ekki nógu gott." sagði sú stutta.

Ég tók fleiri myndir af henni um kvöldið og bannaði henni í hvert skiptið að eyða þeim út.

Við fengum matinn okkar sem virtist ekki vera alveg það sem við pöntuðum, héldum að þetta væri kannski forréttur. Við dýfðum skeiðunum í grænmetisréttina en við höfðum fengið sitthvorn réttinn og smökkuðum á honum ... nokkuð góður.

"DONT'T EAT, DON'T EAT!" Heyrðist kallað frá ganginum og sú stutta kom í loftköstum inn til okkar. "Þetta er þeirra matur!" sagði hún skelfingu lostinn með hendurnar á höfðinu til að undirstrika skelfingu, hún benti á hjónin sem sátu á næsta borði. "Voruð þið nokkuð byrjuð að borða?" spurði hún með vonarglætu í röddinni en við gátum ekki logið því, höfðum fengið okkur tvo bita hvort.

Eldri hjónin hlógu bara að þessu, tóku réttina og borðuðu með bestu lyst þegar hún hafði skipt um skeiðar.

Þegar stúlkan kom með naan hvítlauksnaanbrauðin okkar gekk hún fyrst að fólkinu á næsta borði og skipaði þeim að þefa af þeim því þau væru svo stórkostlega góð hjá móður sinni - óhefðbundin en hressandi þjónusta.

Í lok kvölds sýndu stúlkurnar okkur skjaldböku sem faðir þeirra hafði bjargað þegar hann var lítill patti og var ekki orðin fullvaxta ennþá þrátt fyrir 35 ár - þær verða víst mjög gamlar. Hún virtist ekkert mjög sátt þegar við vorum að halda á henni en það kom okkur á óvart hversu þung hún var.


Systurnar og skjaldbakan.


Slegist um að halda á skjaldbökunni.


Móðirin í eldhúsinu.

Veitingastaðurinn var hinn skemmtilegasti - frábær þjónusta, góður matur og skemmtilegt að sitja eiginlega bara inni á heimili fólksins og borða mat hjá þeim. Frábært síðasta kvöld í skemmtilegum bæ.