sunnudagur, júlí 13, 2008

06 - Kvöld á kabarettinum

Við gengum tímalega út úr hótelinu og stefndum niður götuna. Þegar við gengum inn aðalgötuna sáum við langa biðröð, um 30 metra.

"úff, við hefðum kannski átt að leggja af stað klukkutíma fyrr til að ná betri sætum." sagði Sonja vonsvikinn þegar við tókum okkur stöðu aftast í röðinni.

Röðin færðist nokkuð fram á við fyrstu 20 mínúturnar en svo stoppaði allir og við stóðum næstum á sama stað í klukkutíma, 6-7 rútur komu stútfullar af túristum sem tóku flassmyndir af byggingunni og mjög margir voru með videovélar, tóku upp allt sem fyrir augu blasti á annars nokkuð ómerkilegri götunni. Miðað við að fólk tekur kannski 10-15 mínútur af videoefni við að standa í biðröð hvað er það með mikið efni þegar það kemur heim og hefur verið að skoða helstu merkisstaði og byggingar heims? Þurfa skyldmenni og ættingjar að sitja undir tugum klukkustunda af efni? Ég sé þetta miðaldra fólk ekki fyrir mér klippa þetta til, enda væri þá kannski ekkert eftir. Kannski ætla þau bara að klekkja á óvinum sínum með því að bjóða þeim á videokvöld?

Við fengum stórgóða hugmynd þar sem við stóðum í biðröðinni og horfðum á hana lengjast af Japönum, Kínverjum, Englendingum, þjóðverjum og öðru pakki:

Bjóða fólki heim til okkar í kokkteil og þegar allir eru komnir inn í stofunna þá renna rimlar niður fyrir glugga og hurðir - ljósið dofnar - gat myndast á loftinu og myndvarpi rennur niður og lýsir upp tjald á veggnum. Eldklerkur stígur fram í pilsinu sem hann keypti í Indlandi og Sonja í indverskum sarí, við mælum:

"Velkomin í myndasýningu úr Indlandsferðinni - við ætlum núna að fara í gegnum myndirnar 20.000 sem við tókum í ferðinni og reyna að segja söguna á bakvið hverja þeirra."

Loks hreyfðist röðin og stuttu síðar gengum við inn í Rauðu Mylluna.

Ætli biðröðin hafi verið svipuð í gamla daga þegar þetta var gleðihús?

Moulin Rouge er orðin ansi fræg síðustu ár og sennilegast á samnefnd bíómynd ekki lítinn þátt í því. Ég var ekkert voðalega spenntur fyrir því að fara á svona sýningu en okkur fannst samt að við ættum að kíkja, ekki síst þarsem hótelið okkar var mjög nálægt staðnum sem stendur við götu sem er stútfull af klámbúllum og líklegast einn vafasamasti staður borgarinnar.




Svona lítur staðurinn út.

Sætavísir tók á móti okkur og fylgdi okkur til sætis sem var aftarlega við borð en við vorum vel fyrir miðju og auk þess uppi á stalli þannig að við vorum sæmilega ánægð með sætin. Á sama borði lenti fjölskylda frá Írlandi með franskann eiginmann.

Ljósin dofnuðu og fólk í silfurgöllum byrjaði að dansa - greinilega vel æft fólk. Fyrstu lögin voru í svona "Fame" stíl, allt mjög nútímalegt og alveg ágætt svona.

Ég þarf drykk hugsaði ég með mér.

Stuttu síðar kom kampavínsflaskan á borðið sem var "innifalin" í miðaverðinu, ég byrjaði að hella í mig ódýru kampavíninu. Sýningin batnaði.

Þjónn bankaði í mig og rétti mér reikninginn - 199 evrur ... dýrt en hvað borgar maður ekki fyrir túristastaði? Ég straujaði kortið með ánægju og helti aftur í glasið, fyllti glasið.

Hvert atriðið tók við að öðru oft með miklum fjöldadansi berbrjósta stúlkna og samkynhneigðra karlmanna. Inni á milli voru öðruvísi atriði eins og töframaður sem var ansi hreint sniðugur og kona sem stakk sér nánast nakin í stóran vatnsgeymi sem kom upp úr gólfinu fullur af risaslöngum. Þar synti hún fimlega innan um snákana sem hugsuðu aðalega að komast úr þessu búri - enn að reyna þrátt fyrir tvær sýningar á dag.

Ég herti drykkjuna.

Sonja skríkti af ánægju þegar agnarsmáir smáhestar hlupu inn á sviðið og fóru þar í nokkra hringi ásamt því að gera töfrabrögð. Hundur birtist og allir hlógu voðalega mikið en ég var farinn að fylgjast meira með fólkinu í kring þegar berbrjósta stúlkurnar voru ekki á sviðinu. Þegar seig á seinni hlutann þá tóku við heldur hefðbundnari can-can dansar og flestir fullklæddir á sviðinu. En lokadansinn var svo aftur frekar súlulegur en þó alls ekki sóðalegur - allir í bleiku og allt í bleikum fjöðrum.

"Exit" skilti lýstist upp á maga töframannsins og allir sprungu úr hlátri - merkilegt hvað það þarf oft lítið til að fólk hlægi á svona sýningum.




Túristar.

Sýningin minnti mig á svona dæmigerðar sýningar á stórum hótelgörðum við Miðjarðarhafið að kvöldi til þar sem allir sitja við sundlaugina og horfa á skemmtiatriði í lokuðum hótelgörðum.

Guð hvað ég elska Miðjarðarhafið!

Við gengum út í nóttina eftir nokkuð skemmtilegt kvöld, skemmtilegra en ég bjóst við.

Moulin Rouge er ennþá gleðihús!

05 - Kvöld á Revíunni


Lapin Agile er einn af elstu revíuklúbbum Parísar og sennilegast einna best varðveitti. Staðurinn er staðsettur ofarlega á listamannahæðinni í Montmartre í norðurhluta Parísar. Að utan lítur klúbburinn út eins og lítið sveitakot sem passar ágætlega við þennan hluta Parísar því húsin eru mörg hver mjög vinaleg og lítil, allt öðruvísi en Hoffmann stíllinn sem einkennir stærstan hluta Parísar.

Lapin Agile er nánast alveg óbreyttur frá því Goya, Picasso og fleiri frægir listamenn stunduðu stóðlíf og drykkju innan veggja staðarins. Hann er að ég held alveg óbreyttur frá því hann var um 1870 og eru jafnvel borðin upprunaleg enda mikið útskorinn sem var veggjakrot fyrri tíma.
Veggir og loft eru dökkir af tóbaksreyk og mikilli setu sl. 150 ára og klósettið er einkar skrautlegt enda mikið búið að "krota" veggi og loft með hnífum. Árið 1904 málaði Picasso málverk sem heitir Au Lapin Agile sem gerði staðinn þekktann (málverkið er fyrsta myndin í þessari færslu). Steve Martin skrifaði síðan leikrit fyrir nokkrum árum sem heitir Picasso ath the Lapin Agile sem fjallar um þegar Picasso og Einstein hittast á staðnum og ræða snilligáfu.
Á hverju kvöldi er revíusýning á staðnum.


Lapin Agile að degi til.


Útskorið krot á klósettinu.

Við göngum inn á lítinn staðinn og fáum okkur sæti á trébekk við vegginn fjær útganginum. Við erum fyrst en reytingur af fólki kemur inn, bæði Frakkar og einhverjir ferðamenn. Í heildina voru gestir um 20 talsins. Loks gengu listamennirnir inn og fengu sér sæti á næsta borði sem stóð á miðju gólfsins og byrjuðu fjöldasöng. Nokkur lög voru sungin og var skemmtileg upplifun að vera í svona mikilli nálægð við söngvarana. Án þess að vita nokkuð um söngvana þá þótti okkur þetta líkt og þeir væru að syngja frönsku útgáfurnar af "Kveikjum eld", "Þórsmerkurljóði" ofl.


Einn af söngvurunum hallar sér fram á borðið okkar og syngur.

Listamennirnir voru 10-12 talsins og hafði hver sína sérgrein. Á milli fjöldasöngs tók hver þeirra nokkur lög og var spilað undir á gítar, píanó, harmóniku eða ekki neitt. Eins var sérstök upplifun að hlusta á ljóðalestur á frönsku, en ekkert af skemmtuninni fór fram á ensku sem gaf þessu nokkuð "alvöru" fíling. Söngkonurnar voru sérstaklega góðar, tvær sungu með Edith Piaff stíl en sú þriðja og síðasta var hálfgerð óperusöngkona og var hreint út sagt stórkostleg, já alveg hreint unaðsleg. Sonja vill meina að útlitið hennar hafi haft þónokkuð vægi í mati mínu á sönghæfileikum hennar.

Í miðri dagskrá áttaði ég mig á merkilegri staðreynd: Kanínur eru gáfuðustu dýr jarðar fyrir utan beljur og froska.

Ef eitthvað mætti gagnrýna var að dagskráin tók aðeins of langan tíma þó að við hefðum dreypt á heimalöguðu berjavíni til að létta lund. Framan af kvöldi tóku frönsku áhorfendurnir vel undir þekktari lögin sem skapaði góða skemmtun en þegar leið á kvöldið fór fólk að týnast út. Undir lokin vorum við Skotta ein eftir ásamt þremur öðrum gestum og hlustuðum á trúbator messa yfir okkur af mikilli innlifun, sennilega svar Frakka við Bubba Mortens. Sætin voru auk þess hörð og óþægileg og maður því orðinn frekar þreyttur í baki og bakenda.
Ég dirfðist að stinga upp á því við Sonju að við ættum að drífa okkur út.

"Nei, það er algjör móðgun að fara í miðri dagskrá, það eru næstum allir farnir og hvernig heldur þér að honum líði ef allir fara þegar hann er að syngja?"


Þessi kona söng og spilaði í anda Edith Piaff.


Þessi var svipuð.


Píanóið.


Ég hafði lítið um svör og í lokalaginu vorum við Sonja og þriðji gesturinn ein eftir en Bubbi hætti sem betur fer á endanum - ég var farinn að mæla út bekkina til að leggja mig. Ég held að planið hjá honum hafi verið að syngja þangað til allir væru farnir en hann vanmat þrjósku Sonju. Hann þakkaði okkur þó voðalega vel fyrir að halda út dagskránna.

Veggirnir voru skreyttir innrömmuðum blýantsteikningum eftir gömlu meistarana, Goyja, Picasso, Dali ... mig.

mánudagur, júlí 07, 2008

04 - Dagur á markaðnum

Eins og þeir útvöldu sem hafa sótt okkur Sonju heim síðustu ár vita þá höfum við ákaflega gaman af gömlum hlutum enda bæði gamlar sálir. við vorum því ákveðin í að skoða nokkra markaði í París í ferðalaginu og þá aðallega um helgi því skemmtilegustu markaðirnir eru flestir bara um helgar.

Eftir að hafa tekið lest nánast þvert yfir borgina lentum við á litlum götumarkaði sem lá beggja vegna við rólega umferðargötu og var þar verið að selja það mesta drasl sem ég hef séð. Fólk var þarna að reyna að selja fúnar spýtur, brotna myndaramma, málverk sem voru orðin blaut (af rigningunni sem var þennan daginn) ásamt öðru skrani sem ég hefði haldið að væri engin verðmæti í. Við stöldruðum stutt þarna því markaðurinn reyndist bara vera opin til hádegis og fólk var byrjað að taka niður básana og hlaða bílana af verðmætunum. Þetta var flóamarkaður sem stóð undir nafni.

Það var gríðarleg rigning og fáir á ferli - við Sonja vorum í regnaslám og fékk maður netta þjóðhátíðar-í-eyjum tilfinningu. Við ákváðm að kaupa ekki regnhlíf því þá er alltaf önnur höndin upptekin auk þess sem Sonja stangar augun úr annarri hverri manneskju sem hún mætir ef hún er með svo stórhættulegt vopn í hendi. Það var líka gott að vera svona klæddur svo fólk áttaði sig ekki á því að við erum milljónamæringar.


Ég í regnsláinni í úrhelli.

Við héldum til baka og eftir 19 stopp í neðanjarðarlestinni vorum við komin í hinn enda borgarinnar á markaðinn "Les Puces de Saint-Quen" sem okkur hafði verið tjáð að væri sá besti og stærsti í borginni fyrir antík.

Óspennandi hverfi tók á móti okkur, við byrjuðum að fá okkur kaffi og kók og héldum síðan áfram för okkar fótgangandi. Eftir stutta göngu undir hraðbraut vorum við komin á rétta götu og leist okkur ágætlega á þetta, virtist vera nokkuð löng gata og allavega ein gata til hvorrar hliðar. Eftir að hafa gengið nokkrar litlar þröngar hliðargötur gerðum við okkur grein fyrir stærðinni á þessum markaði - Sonja missti andann í örskamma stund. Stuttu síðar komumst við yfir kort af svæðinu og þá var það enn stærra en okkur hafði órað fyrir, þetta er eiginlega samansafn af nokkrum "litlum" mörkuðum í göngufæri hver við annan. Hver markaður er nokkrar litlar göngugötur með litlum búðum/básum beggja vegna. Guð minn góður stærðin á þessu - við trúum ekki öðru en að þetta sé stærsta antíkmarkaðssvæði í heimi, við værum a.m.k. hissa ef stærri markað væri einhverstaðar að finna. Þarna bókstaflega úir og grúir af búðum með öllu sem hugurinn girnist ef maður á annað borð vill ekki hafa allt eins og nýsleginn túskilding á heimili sínu, þótt reyndar sumir selji mjög vel uppgerða hluti sem varla sést nokkuðuð á. Búðir og básar skipta hundruðum. Elsti hluti markaðsins sem við byrjuðum á að skoða er sá elsti í borginni, um 150 ára og hann er í dag friðaður, ekki má breyta kofum og öðru þarna og rafmagnslínurnar sem hanga út um allt fyrir ofan eru einnig friðaðar. Þótt rafmagnið verði sett í jörðu núna á næstunni þá má ekki fjarlægja línukraðakið sem flækist fyrir ofan básana.


Horft inn eina markaðsgötuna.


Scrabble.

Úrvalið þarna er líka stórbrotið og ég fullyrði að það sé hægt að fá flest það sem hugurinn girnist. Litlar búðir/básar selja skran og stærri búðir selja heilu veggina úr kastölum. Það væri of langt mál að fara að telja upp þá hluti sem við höfðum áhuga á en við fundum t.d. skrifborð fyrir tvo sem við vorum alvarlega að spá í að kaupa í stofuna sem vinnuborð og skipta borðinu okkar þá út, sem betur fer tók skynsemin yfirhöndina og við slepptum því að fjárfesta í gripnum. Við sáum skemmtilegan vínskáp sem við vorum næstum búin að kaupa, búddalíkneski, málverk og allskonar smádót sem við vorum að spá í. Skynsemin náði þó ekki alveg yfirhöndinni því við keyptum þrjá hluti:
  1. Slá, þ.e. klæði sem konur bera á herðunum sem var sérsaumuð fyrir aðalskonu í París c.a. 1900. Hún var í góðu ásigkomulagi og var keypt af búðareigandanum af dóttur hennar fyrir skömmu, dóttirin er níræð í dag.
  2. Kaffikvörn af gamla skólanum með skemmtilegum tannhjólum ásamt tréskúffu til að taka við malaða kaffinu.
  3. Veggklukku sem var smíðuð af klukkumeistara Lúðvíks um 1860. Við höfum lengi verið að skoða og pæla í klukkum og þessi var sú eina rétta. Sjálf skífan er úr gleri og eina sem sést á henni er rautt ryð, í kringum "trekk-gatið", þ.e. gat rétt fyrir neðan miðju þar sem klukkan er trekkt einu sinni í viku, annars skemmtileg klukka.

Sá sem seldi okkur klukkuna er hollendingur um 60 ára, ákaflega rólegur og góðlegur maður sem minnti okkur á eldri iðnaðarmann frá Íslandi. Við spjölluðum lengi við hann og erum 100% viss um að þarna er góður og sanngjarn maður og við því með góð kaup í höndunum.

"Hvað kostar fermeterinn?" spurði ég fínan málverkasala sem virtist merkilegur með sig en hann hafði húmor fyrir spurningunni, kom mér skemmtilega á óvart. Málverkin voru annars frá milljón og uppúr.


Leikfangalest.


Gamlar myndavélar.


Mikið er um gamlar fjölskyldumyndir á svona mörkuðum og er sorglegt til þess að hugsa að enginn vilji lengur eiga þessar myndir - tapaðar minningar.

Andrúmslofið í svæðinu er ótrúlega þægilegt - fólk er ekkert að reyna að selja manni of mikið, leyfir manni gjörsamlega að skoða í friði á meðan það sjálft er að dunda sér við eitthvað, lesa, borða, leysa krossgátur eða jafnvel blunda. Allir virðast sanngjarnir og segja manni hreint út hvort um nýjan eða gamlan hlut er að ræða (nema þau séu svona góð að plata), galla og annað sem maður þarf að vita og er ekki að reyna of mikið að pranga inn á okkur eins og ég sagði frá áður. Eins eru flestir hlutir verðmerktir og því ekki verið að svindla um of á heimskum túristum. Okkur var m.a.s. boðið upp á hádegisverð í einum básnum þar sem fókið var að snæða þegar við gengum þar framhjá.

Það eru margir mjög sérstakir hlutir þarna í boði og má nefna eftirfarandi sem ég man eftir í svipan:
  1. Stóra og vígalega vélbyssu úr vélbyssuhreiðri.
  2. Beinagrindur af öpum, mönnum og öðrum kvikindum.
  3. Vagn fyrir hefðarfólk þar sem hægt var að renna inn stöngum en því miður fylgdu engir þrælar með til að bera Sonju svo við keyptum hann ekki.
  4. Lestarvagnar og teinar sem var búið að breyta í stofuborð og borðstofuborð.
  5. Heilu stigarnir úr kirkjum með handriðum.
  6. Um 4 metra háir veggir úr höllum, útskornir og skreyttir.
  7. Hestar og önnur dýr úr hringekjum.
  8. 3ja metra há búddalíkneski sem kostuðu á 3ju milljón.
  9. 3-4 hundruð ára gömul málverk sem voru óheyrilega dýr.
  10. Gömul hefðarklósett.
  11. Bátar


Járnbrautarborð.


Vélbyssur.


Þessi kanína lítur út fyrir að vera jafn hættuleg og Pílatus.

Við heyrðum söng í anda Edith Piaff handan við eitt hornið og forvitnin rak okkur áfram inn á veitingastað sem tónlistin kom frá. Þar voru um 3-4 gestir sem sátu að snæðingi en þjónustufólk sat og beið eftir gestum. Uppi á sviði söng eldri kona með kolsvart hár og tveir herramenn spiluðu undir á hljómborð og harmóniku. Veitingastaðurinn var skreyttur myndum af söngkonunni þegar hún var nokkrum árum yngri og nokkrum kílóum léttari. Loftið var skreytt rauðum glanspappír, jólakúlum og öðru skrauti sem við á Íslandi tengjum við jólin. Allt var þetta skemmtilega hallærislegt og ekkert annað að gera en setjast niður, fá sér að borða og fylgjast með.

Brosmild, ansi sver og góðleg þjónustukona kom til okkar sem gæti verið eigandinn og færði okkur matseðilinn. Hún stóð yfir okkur á meðan við ákváðum okkur og Sonja benti á Frankfurther pylsur, þá leit þjónustukonan upp á næstu hæð og öskraði:

"Frankfurther!"

Ég leit upp nokkuð hissa, hélt síðan áfram að skoða matseðilinn og benti að lokum á steik.

"Bief" kallaði hún upp á næstu hæð.
"Anything to drink?"
"Coka and beer" svöruðum við.

Í þetta skiptið kallaði hún upp pöntunina og beindi orðunum á barinn sem var í hinu horni salarins.

Pöntunin var komin til skila.

Þar sem við sátum nánast ein fyrir miðju salarins og beindi Manuela öllum sínum fallega söng að okkur, brosti blítt, lagði mikla tilfinningu í sögninn og var bara hin skemmtilegasta. Fyrir utan okkur voru 4 gestir sem sátu í hornunum og um 11 starfsmenn sem voru greinilega að bíða eftir að mesta ösin myndi koma eða að hvíla sig eftir hádegisösina.
Manuela tók sér hlé og gekk á milli gesta söfnunarkörfu. Ég gaf henni evru. Hún virtist ánægð með þessa upphæð þó lítil væri því í næstu pásu kom hún með áritaða mynd af sjálfri sér og gaf okkur - áritunin hljómaði svona:

"Manuela, Chante Édith Piaf - Souvenir de Manuela"

Þegar við höfðum lokið við að snæða kom aðeins yngri maður og söng en var hann alveg skelfilegur, já alveg hreint fanta slæmur. Við báðum um reikninginn og áttum rétt fyrir matnum - reikningurinn hljómaði upp á 40.50 evrur og við áttum sléttar 42 evrur. Við greiddum 41 evru og hröðuðum okkur áleiðis út en hann hætti söngnum, stökk til okkar með baukinn og brosti þannig að við gátum eiginlega ekki annað en gefið honum síðustu evruna. Ekki eins og þetta væri Rolo.

Dagsbirtan tók á móti okkur og skyndilega var veitingahúsið eins og undarlegur draumur.


Manuela bíður eftir evrunni sinni.


Þessi þjaði til borðs.


Manuela í pásu.


Einmanna aðdáandi.

Við fundum ofangreinda klukku stuttu síðar hjá Hollendingnum fljúgandi. Ég passaði búðina hans á meðan hann flögraði með Sonju í hraðbanka - hann bað mig sérstaklega að gæta að þjófum. Ég fann gott prik í búðinni sem ég hafði í höndinni og kom mér fyrir í ruggustól við innganginn.


Klukkusalinn.

Ég mæli sterklega með því að fólk sem fer til París kíki á þennan Saint-Quen markaðinn ef það hefur áhuga á hlutum með sögu. En fyrir alla hina eru einnig heilu ferkílómetrarnir af hefðubundnum markaðsbásum sem selja nýja hluti - þó langmest föt.

Pundið stóð í 151 krónum, evran í 120 krónum og viðskipti í Kauphöllinni námu 110þ krónum.

laugardagur, júlí 05, 2008

03 - Þjónusta í Par(ad)ís

In France, a brasserie is a café doubling as a restaurant with a relaxed setting, which serves single dishes and other meals. It can be expected to have professional service and printed menus (unlike a bistro which may have neither), but more informal eating hours than a full-fledged restaurant. Typically, a brasserie is open every day of the week and the same menu is served all day.
The word 'brasserie' is also French for brewery and, by extension, "the brewing business".



"Við höfum ekki tekið einn einasta leigubíl síðan við komum til Frakklands." sagði ég við Sonju þegar við höfðum dvalið hérna í rúmlega viku.
"Já, það finnst mér ekkert skrítið - ég er eiginlega á móti því í ferðalögum nema þegar maður þarf að flýta sér mjög mikið eða er seinn." sagði Sonja.
"Já, en þú ert alltaf sein!"


Á þessu kaffihúsi var hluti af kvikmyndinni mögnuðu Le Fabuleux destin d'Amélie Poulain eftir hinn magnaða Jaunet tekin upp.

Sonja las í bók frásögn bresks manns, sem fluttist til Parísar í eitt ár, af því þegar þegar þjónar hérna fóru í verkfall. Hann sagði að skyndilega hefði þjónustan orðið eins og í Bretlandi, þ.e. ungt fólk og námsmenn tóku tímabundið við þjónustustörfum þegar hinir eiginlegu þjónar sátu sem fastast heima hjá sér. Það þarf kannski ekki að segja Íslendingum frá því að tímabundnir starfsmenn hafa engan metnað, áhuga né kunnáttu. Skyndilega gátu gestir ekki lengur fengið að vita hvað var í réttum matseðilsins, hvernig vín væri hentugt með máltíð og allt annað sem tilheyrir fagmannlegri þjónustu.

Ég hafði heyrt um það áður en ég kom til Frakklands að þjónar þar í landi væru fúlir og erfiðir en ég er ekki alveg sammála því. Mér finnst þjónar hérna mjög fagmannlegir og hæfir án þess að vera leiðinlegir og eru á tánum. Hver hefur ekki farið á kaffihús eða veitingahús og þeir sem eru að þjóna virðast ekki vita að þú sért yfir höfuð á staðnum svo maður þarf að hrista alla skanka og kalla til að fá athygli. Hérna vita þeir hvenær maður vill fá reikninginn, hvenær hentugt er að koma til að taka við pöntun eða vita hvort maður þurfi þjónustu þeirra.

Það var komið á þriðja dag í París þegar við hittum fyrir fúlan þjón. Við settumst inn á kaffihús - eldri maður með yfirvaraskegg kom til okkar og ég bað um kaffibolla og kók og við það rauk hann í átt að barborðinu en heyrði þegar ég bætti við: "... og tvö Crossants." Hann snarstoppaði dæssti hátt, hrissti hausinn og kom aftur. Við þetta sprakk ég úr hlátri, veit ekki alveg afhverju, kannski vegna þess að ég hafði hálfvegis beðið eftir svona þjónustu frá því að ég kom til borgarinnar. Hann reyndar brosti þegar hann sá mig skellihlæja og var mun þægilegri það sem eftir lifði dvalar okkar inni á Au Petit Poucet þessa kvöldstund.

Þjónar geta reyndar verið nokkuð ófagmannlegir eins og í vikunni þegar við fórum á nokkuð gott kaffihús í latínuhverfinu. Tveir kvenlegir menn á næsta borði pöntuðu sér nautasteikur og hvítvínsflösku. Þjónninn kom stuttu síðar með hvítvínsflöskuna í klakafötu og setti á borðið hjá þeim. Hann teygði sig í kork-upptakarann og í sömu andrá hringdi GSM síminn hans. Hann svaraði í símann. gekk frá þeim og út á götu og talaði þar í um 4-5 mínútur, kom síðan inn og opnaði loks fyrir þá flöskuna. Þeir virtust ekkert mjög hissa né pirraðir yfir þessu.


Spegilmynd af staðnum.

Þjónustan getur líka verið skemmtilega frjálsleg. Við fórum einn morguninn hérna á ódýrt kaffihús sem er neðar í götunni. Ung stúlka var að vinna og fastir gestir sátu við barborðið og voru þessir sömu menn þarna í hvert skiptið sem við mættum á staðinn. Við pöntuðum drykki og Crossants. Afgreiðslustúlkan kom með drykkina en mesta fyllibytta staðarins, grindhoraður maður með fitugt, grátt sítt hár og kartöflunef var sendur út í bakarí til að kaupa morgunmatinn. Hann datt um stólana þegar hann gekk aftur inn á kaffihúsið með bréfpokann í höndinni.
Helgina eftir mættum við sem fyrr á þetta kaffihús, allir sömu fastagestirnir sátu við barinn en nýr skipstjóri var í brúnni. Mjög upptrekktur og fínn maður í þjónafötum frá toppi til táar og örmjótt yfirvaraskegg undir montnefinu.

"Bonjour." sagði ég glaðlega til að milda fyrirlitningasvipinn á honum þegar hann mældi mig út þar sem ég stóð fyrir framan hann.
"bommmhumm" tuldraði hann og leit í aðra átt og vonaði greinilega að ég myndi hverfa.
"Deux Croussants s'il vous plait." sagði ég kurteislega.
"NO!" sagði hann hástöfum, nánast sigri hrósandi yfir því að ég yrði bara að leita ananð.
"Ok, can I buy croussants in the bakery and bring them in and order coffee here?" spurði ég á ensku því frönskukunnátan er ekki orðin nægilega góð. Þessi fyrirspurn hljómar kannski óeðlileg á íslandi en maður sér mjög mikið að fólk kemur inn á staðina og pantar drykki og fær að borða nesti og annað ef staðurinn er ekki með mat.
"NOO!" sagði hann enn hærra og gekk í burtu til að sýna mér að ég væri ekki velkominn.
"Merci."

Strákurinn sem var vanur að afgreiða okkur var að bauka eitthvað úti í horni og horfði vandræðalega á mig eins og hann væri að segja að hann sjálfur réði engu þarna og gæti ekki hjálpað mér. Fastagestirnir urðu líka hálfvandræðalegir en enginn virtist þora að andmæla dómaranum. við komum sennilega ekki oftar á þennan stað.


Fastagestirnir.

Við reynum að læra og nota frönsk orð á meðan við erum hérna - bæði er það skemmtilegra og afgreiðslufólk virðist kunna að meta það mjög mikið. Maður heyrir oft bandaríkjamenn segja hástöfum með gríðarlegan bandarískan hreim: "Thank you very much!" sem sker gjörsamlega í eyrun. Er erfitt að læra hið einfalda orð "merci"?


Gestur - Eigandi.


Dæmigert borð á kaffihúsi (brasserie).


Við fórum á þetta pínulitla kaffihús/bar í úthverfinu Belleville. Eigandinn sem stendur þarna við borðið býr þarna og því er þetta eins og að ganga inn á heimili, sem þetta svo sannarlega var. Myndir af börnum voru á veggjum og persónulegir munir út um allt. Allir nema við fastagestir og allt mjög heimilislegt. Á svona stöðum ertu gestur og átt að hegða þér þannig - barþjóninn ræður öllu og þú þarft að halda þig á motunni og vera kurteis.

Stundum eru þjónar einfaldlega með stæla af því að við erum ferðamenn og kunnum ekki málið. Við forum á fínt lítið veitingahús á rólegri hliðargötu. Þarna var slatti af fólki, enginn túristi nema við (auk þess sem Sonja vill meina að við séum ekki túristar heldur ferðamenn), aðeins fólk í götunum um kring. Við settumst við borð, feitlagin þjónustukona með rósatattú nálgaðist og starði á okkur eins og við værum aðskotahlutir en við náðum að stama "menu" og setja upp spurnarsvip. Hún kom með stóra krítartöflu og stillti upp á stól við hliðina á okkur. Þetta var allt á frönsku en því miður hafði skrifarinn verið að æfa sig í skrautletri þannig að við áttum erfitt með að átta okkur á því hvað þarna stóð. Sonja horfði á borðin í kring og benti mér á disk á þarnæsta borði og sagði "Þessi lítur ágætlega út, ég er að spá í að panta mér bara svona." Við nánari eftirgrennslan reyndist þetta vera skál með þurrkuðum rósablöðum, þau gulu líktust kartöflum en þau rauðu skinkubitum. Þegar afgreiðslukonan (sem við skulum bara kalla Rósu frænku) kom benti ég á atriði á matseðlinum af handahófi en Sonja pantaði sér "Parísar-salat". Nokkrum mínútum síðar skellti Rósa disk á borðið hjá mér með stórum svörtum blóðbjúgum sem smökkuðust betur en þær litu út.
Eftir matinn báðum við um reikninginn en Rósa gat ómögulega skilið bill, check og hið kunna tákn með að setja fingur í lófann til að tákna reikning. Hún gaf þó undan að lokum og kom með reikninginn, en samt með fýlusvip. Við brostum og gáfum henni nokkrar krónur í þjórfé (ótrúlegt en satt). Þegar við gengum út spurðum við hana á ensku hvar markaðurinn væri og þá talaði hún reiprennandi ensku þegar hún útskýrði hvert við ættum að fara í smáatriðum.

L'addition, s'il vous plait.

fimmtudagur, júlí 03, 2008

02 - Listamannsins líf

Listamannsins líf

Líf listamannsins er enginn dans á rósum eins og ég fékk að kynnast í gær. Við Sonja gengum eftir Signu og komum okkur vel fyrir í litlum garði með útsýni yfir Notre Dame. Þar fór Sonja að lesa en ég fálmaði æstur ofaní töskuna mína og dró þar upp litla teikniblokk og blýant sem ég hafði fjárfest í í London fyrir vikum síðan og séð þessa stund í hyllingum.

"Ég ætla að henda í eina mynd!" sagði ég stoltur, og Sonja brosti í kampinn og sagðist hlakka til að sjá útkomuna.

Da Vinci, Picasso, Gogh, Monet, Warhol, Dali, Matisse, Rembrandt, Kjarval og ég.

Ég opnaði blokkina, valdi vandlega fyrstu síðuna og rétti út höndina með þumalinn upp til himins til að mæla út hlutföll kirkjunnar. Ég færði síðan blýantinn að bókinni og fyrsta guðdómlega strokan varð að veruleika - ég er ekki aðeins listamaður heldur heimsmaður!

Fleiri línur og strokur mynduðust á pappírnum og ég fór að átta mig á að þessi kirkja væri líklegast erfið fyrir unga nema en bjóst nú við að endanleg útkoma yrði stórgóð og kæmi mér jafnvel á óvart. Eftir langar 4 mínútur var listaverkið tilbúið og ég horfði á það ráðvilltur. Er þetta eitthvað nútímalistaverk eða er snilldin kannski svo mikil að ég skil hana ekki einu sinni? Kannski var bara blýanturinn af rangri tegund eða blaðið ekki í réttun grófleika? Hefði ég kannski átt að nota pensla og striga? Þúsundir hugsana fóru í gegnum huga mér þegar ég starði á myndina og snéri henni á alla kanta.

Ég leit hikandi á Sonju þar sem hún lá við hlið mér með bókina fyrir andlitinu og veifaði hinni nýfæddu vansköpuðu mynd fyrir framan hana.

Sonja horfði á myndina stutta stund og ég beið eftir stóra dómi. Hjartað barðist í brjósti mér og ég reyndi að mæla út andlitsdrætti hennar svo ég vissi sem fyrst hvernig gagnrýnandinn myndi taka í listaverkið.



"Þetta er hræðilega léleg mynd!" sagði hún samviskulaust og hélt áfram: "Þetta lítur ekkert út eins og Notre Dame. Þetta er allt í röngum hlutföllum og aftari turninn er allt öðruvísi en þú teiknaðir þetta! Þú verður að taka þér meira en 3 mínútur í þetta!" sagði hún harkalega og hristi hausinn.

"Ég var fjórar mínútur að þessu og auk þess tók ég mér listamannaleyfi til að gera turnana meira spennandi." stamaði ég upp og horfði á myndina til að sjá hvort ég gæti ekki bent henni á snilldina.

"Ertu að reyna að gera turnana meira spennandi en þeir eru á Notre Dame?" spurði Sonja hissa.

"Jaa." stamaði ég og horfði enn stífar á myndina. Nei, það var ekki um að villast. Gagnrýnandinn hafði rétt fyrir sér, myndin var hræðilega léleg og listamanni alls ekki sæmandi.

Sonja tók bókina og fletti fram á næstu síðu sem var sem betur fer tóm.

"Hérna, prófaðu aftur og taktu þér meiri tíma í þetta í þetta skiptið!" sagði kennarinn/gagnrýnandinn og rétti mér bókina.

Ég mældi kirkjuna út með augunum í nokkrar mínútur og ákvað að gefa mér meiri tíma í þetta í þetta skiptið - ég hafði verið of æstur í að teikna þegar ég gerði fyrra verkið og því hafði farið sem fór.
Síðari myndin tók um hálftíma og Sonja varð hissa á henni og ég líka.
Svona vinnur maður best undir pressu.



... ég