Flestir hafa heyrt Taj Mahal getið, a.m.k. eftir að ástkær forseti okkar bað um tilfinningalegt svigrúm eftir að hann trúlofaði sig þarna fyrir utan. Shah Jahan byggði þessa voldugu marmarabyggingu á fyrri hluta 17 aldar sem grafhýsi fyrir eiginkonu sína en hún lést þegar hún var að ala 14. barn þeirra hjóna.
Taj Mahal var reist á aðeins 12 árum og voru notaðir 1000 fílar til flutninga á efni sem kom hvaðanæfa frá Asíu og voru 20.000 verkamenn sem sáu um sjálfa bygginguna.
Sonur Shah henppti hann í stofufangelsi þar sem hann eyddi síðustu árum sínum en hann hafði útsýni yfir Taj Mahal og starði á daglangt og hugsaði með söknuði til eiginkonu sinnar.
Við höfðum ráðgert að rölta út um 6 leytið til að sjá morgunsólina baða Taj Mahal en þar sem ég var gríðarlega þreyttur vegna lítils svefns og áhrif svefntaflanna vildi ég ekki yfirgefa draumalandið svo Sonja rauk upp á þak til að missa ekki alveg af því.
Við yfirgáfum hótelið um 8.30 glöð að þurfa aldrei, aldrei, endurtek aldrei aftur að stíga fæti inn í þetta lúsabæli og gengum tvöhundruð metra þar sem Taj Mahal blasti við okkur í allri sinni dýrð. Skrítið að ganga út úr svona hóteli og ganga inn í garð með með byggingu sem á að vera sú fallegasta á jörðu. Sýnir öfgarnar hérna á Indlandi.
Taj Mahal olli okkur ekki vonbrigðum, gríðarlega falleg og voldug bygging sem er falleg í hreinleika sínum og einfaldleika. Ég held að ég fari ekki með rangt mál að ekkert af höllinni er málað, þetta er allt marmari, skreytingar og áritanir eru allar mismunandi litaður marmari sem er hogginn út og blandað saman mismunandi litum. Við eyddum um tveimur til þremur klukkustundum í garðinum og virtum kofann fyrir okkur og tókum nokkrar myndir.
Taj í öllum sínum mikilfengleika.
Séð frá hlið.
Furðufuglar fyrir utan húsið.
Ég virði Taj Mahal fyrir mér.
Fólk er oft hið skrautlegasta þegar það skoðar Taj Mahal og oft er sagt að flestir Indverjar skoði bygginguna a.m.k. einu sinni á ævinni.
Aðrir gestir.
Eftir hádegisverð tókum við tuk-tuk í gamla bæinn. Við vorum smá stund að finna bíl sem vildi keyra okkur þangað, flestir vildu keyra okkur á staði sem væru miklu flottari en Taj Mahal en við trúðum því svona tæplega og héldum okkar plani.
Takið eftir kókmerkinu á veggnum.
Þegar við komum á áfangastað leist okkur nú ekkert voðalega vel á staðin - virtist ansi ólíkur öllum öðrum "gömlum bæjum" sem við höfum séð hér á Indlandi og ansi óspennandi. Við stigum samt út, ákváðum að gefa þessu séns. Leigubílstjórinn dró fram kort af borginni og benti okkur á staði sem við ættum að skoða og bauð okkur akstur þangað, m.a. að bakhlið Taj Mahal sem við ætluðum að fara seinnipartinn ásamt verði.
Sonja spurði í rælni hvar við værum á kortinu núna og benti hann á stað á kortinu.
"Þetta er ekki gamli bærinn eins og við báðum um, þetta er Sadaar Bazar!" sagði Sonja við bílstjórann.
"Gamli bærinn er bara hérna rétt hjá." svaraði hann sakleysislega.
"Við viljum fara þangað!" svaraði hún.
"Þetta er það sama, bara betri staður til að versla."
"Við erum ekki að fara að versla."
"Gamli bærinn er bara þarna." sagði hann og benti á hliðargötu.
"Við viljum fara þangað!" sagði Sonja ákveðið og settist aftur inn og tók peninginn sem hann hélt ennþá á í hendinni.
"Það er ekkert að sjá í gamla bænum, þar er bara kryddmarkaður og þessháttar."
"Við viljum samt fara þangað."
"Gamli bærinn er hættulegur!" endaði hann á að segja áður en hann ók af stað.
Hann hafði sagt að gamli bærinn væri bara í næstu götu en það tók um 20 mínútur í viðbót að keyra þangað og allt að gerast þar - fullt af fólki, þröngar götur og mikið af búðum sem Indverjar versla í.
Sonja eyddi góðum tíma í að skoða Saris, kjóla eins og indverskar konur ganga í dagsdaglega og endaði á því að kaupa sér þrjú stykki.
Slátrarinn - skítug gata í gamla bænum.
Sölumaðurinn aftast greinilega þreyttur á þessum erfiðu konum.
Þessi maður er hefur átt þessa saris-verslun í 58 ár.
Svona líta saris út.
Mjó verslunargata.
Þegar greiðsla fyrir þriðja kjólinn hafði verið innt af hendi sáum við að sólin var að ganga til viðar og birtan var þegar orðin eins og best verður á kosið. Við hlupum því að tuk-tuk og báðum um að fara að "Riverside" eða að ánni bakvið Taj Mahal. Hann skildi ekkert hvað við vorum að meina og skyndilega vorum við umkringd um 15 leigubílastjórum ásamt öðru fólki sem var að reyna að skilja hvað við værum að biðja um. Við teiknuðum einfalt kort á blað en enginn skildi nokkuð hvað við vorum að meina - við sýndum m.a.s. kort af borginni og bentum nákvæmlega hvert við vildum fara en enginn skildi það heldur. Samt voru allavega 2 tilbúnir að skutla okkur og hvöttu okkur ákaft til að setjast bara inn - hvert þeir ætluðu svo að fara er enn á huldu. Það var ekki fyrr en við flettum upp heiti staðarins í Lonely Planet sem allir kveiktu og kepptust við að draga okkur í bíla sína. Verðið sem þeir voru tregir að gefa upp var alltof hátt þangað til einn óvenju rólegur eldri maður bankaði í mig, sagði rólega "Komdu, 200 rúbís!" sem var besta verðið og við fylgdum honum að hjólavagninum hans. Hann reyndist reyndar ekki vera bílstjórinn, tveir piltar rúmlega tvítugir sáu saman um akstur, annar keyrði og hinn sá um að öskra og formælast við aðra í umferðinni - það þarf víst oft einn heilan starfsmann í það. Sá elsti sat með okkur í þröngu aftursætinu en stökk út á miðri leið, hafði bara verið að fá far heim.
Þarna erum við að leita að fari að Taj Mahal.
Við náðum síðustu geislum sólarinnar á bakhlið Taj og var hún vægast sagt glæsileg í rauðleitri birtunni með speglunina í ánni við fætur okkar. Þegar við komum aftur í hjólabílinn vildu þeir fá 400 Rs fyrir pakkann, þ.e. að keyra okkur á þennan stað og síðan á lestarstöðina en við vorum mjög ákveðin og sögðum þvert nei, svo þeir gáfust fljótlega upp.
Leiðin að lestarstöðinni tók sæmilegan tíma því umferðin var þung og komið myrkur - drengirnir keyrðu eins og fífl, hef aldrei séð aðra eins keyrslu. Þeir keyrðu í botni með flautuna niðri, sikksökkuðu á milli gangandi vefarenda og annara í umferðinni og voru nokkrum sinnum nærri búnir að stúta fólki. Það er ekki eins og göturnar hérna séu bara fyrir fararæki því þar er líka að finna húsdýr, fatlað fólk á hálfgerðum hjólabrettum, sofandi fólk, sölubásar á hjólum og svo er alltaf mikið af fólki sem situr á götubrúninni með dulu og á henni smá af grænmeti til sölu. Á miðri leið stoppaði bílstjórinn, sagðist þurfa að fá sér að borða. Skrítið að keyra svona eins og vitleysingur og stoppa síðan til að fá sér að borða. Þegar hann var nýfarinn út fóru hjólavagnar að flauta fyrir aftan og að lokum ein stór rúta, hann hafði greinilega lagt á óheppilegum stað eða svo gott sem fyrir innkeyrslunni að rútustöðinni. Einn kolvitlaus maður kom blótandi að hlið farartækisins okkar og ýtti með kröftum brjálaðs manns. Aðstoðardrengurinn stökk inn og reyndi að beygja frá öðrum hjólavögnum sem við stefndum á en náði ekki að bjarga málum því við skullum á einn vagninn þannig að sást á. Eigandi þess farartækis var vægast sagt ósáttur. Bílstjórinn okkar kom hlaupandi matarlaus, stökk upp í farartækið og brenndi í burtu og hélt áfram brjálaðri keyrslunni.
Taj Mahal í kvöldsólinni.
Taj Mahal endurkastast í bæjarlæknum.
Við Sonja.
Aðstoðarmaðurinn fór þá að biðja Sonju um 100 Rs fyrir sig, naggaði í um 5 mínútur þó að við segðum hart "Nei" við öllum hans beiðnum. Hann bað bara Sonju, sá að það þýddi lítið að tjónka við mér enda ég kominn með pirringssvipinn sem er vægast sagt hræðilegur þegar ég er svona skeggjaður. Ég endaði á því að negla hnénu á mér upp í framrétta hönd hans þar sem hann var að biðja Sonju um pening úr framsætinu en við sátum bæði í aftursætinu. Við það gafst hann upp og sagði ekki orð það sem eftir var ferðar.
Erfiði aðstoðarökumaðurinn.
Við höfðum um 2 tíma aflögu á lestarstöðinni svo við fengum okkur að borða á ágætu veitingahúsi stöðvarinnar og biðum síðan þolinmóð í biðsalnum. Við reyndum að hringja í nokkur hótel í Delí en flest var fullt - fundum loks eitt sem var ekki nálagt miðbænum en alveg við flugvöllinn sem hentaði okkur ágætlega því flugið var um hádegisbilið daginn eftir.
Við gengum frá almenningssímanum og Sonja spurði mig hvað klukkan væri.
"20:26" sagði ég eftir að ég hafði komið auga á klukku á lestarstöðinn.
"20:26? Lestin fer klukkan 20:30 sagði Sonja með skelfingu í röddinni."
Þetta var í þriðja skiptið á þrem dögum sem við erum við það að missa af lest og núna af eintómu kæruleysisi og aulaskap. Við höfðum svo mikinn tíma aflögu á lestarstöðinni að við bara pældum ekkert í tímanum.
Við hlupum af stað í áttina af pallinum sem lestin átti að vera á, náðum þar um hálf leitið en lestin okkar var þá sem betur fer ókomin. Lest sem hafði seinkað stóð á teinunum og okkar myndi seinka líka um 30 mínútur. Við ákváðum að bíða bara þarna til að missa nú örugglega ekki af lestinni.
Lestarteinar á pöllunum eru bæði illa lyktandi og skítugir því ólíkt því sem gerist í Evrópu fara Indverjar á klósettið þó lestin sé stopp við pall.
Ungur sölumaður kom til okkar með bakka framaná sér með allskonar smágerðum minjagripum sem við bönduðum frá án þess að pæla mikið í honum. Annar maður skammt frá okkur skoðaði einn hlut og sölumaðurinn sem var maður um 40 ára setti bakkann niður og sýndi honum ýmsar útgáfur af þessum litla hlut auk þess að reyna selja honum meira.
"Skyndilega vorkenni ég þessum manni alveg ógurlega." sagði Sonja sem var skrítið því ég hafði akkúrat fengið sömu tilfinningu nokkrum sekúndum áður.
Það er sennilegast erfitt að vinna svona heiðarlegt starf, þurfandi að sjá fyrir fjölskyldu og þurfa alltaf að vera með bros á vör þó að nánast allir bandi manni í burtu án þess að sýna varningnum nokkra athygli. Þetta virtist góður maður og við vonuðum bæði innilega að sá sem var að skoða myndi kaupa af honum, sem hann gerði. Við keyptum smádót af honum.
Þegar lestin okkar kom loksins var hún tilkynnt á öðrum palli en stóð á skjánum. Ungur fótalaus maður með afskaplega falleg og blíð augu bankaði í fætur okkar og sagði okkur hvaða pall við ættum að fara á. Við gefum ekki oft svona fólki en gátum ekki annað í þessu tilviki.
Lestin kemur á fljúgandi ferð.
Þegar við komum inn í Delí eftir um tveggja og hálfs tíma ferð blasti við okkur fyrsta jólaskrautið sem við höfum séð í ár. Nokkur tré voru skreytt svipað og heima og minnti það okkur á þá árstíð sem geisar núna á Íslandi.
Við tókum tuk-tuk á hótelið í miðbænum þar sem farangurinn okkar var í geymslu. Starfmennirnir þar voru lítt hjálplegir og sýndu enga þjónustulund frekar en fyrri daginn þó að við höfum gist á hótelinu fjórum sinnum á tveimur mánuðum og greitt samviskulega þetta háa verð sem er of mikið miðað við standardinn. Starfsmaðurinn sem var að stjórna sendi aðstoðarmann í að finna leigubíl og fór síðan frá okkur þar sem við stóðum með allan okkar farangur, upp í veitingasalinn og sofnaði þar yfir sjónvarpinu. Aðstoðarmaðurinn fann einn bíl sem kostaði 450 Rs, heldur mikið en í lagi samt, en það var hálftíma bið í hann því hann var að borða kvöldmat þarna skammt frá. Skrítinn tími fyrir kvöldmat kl. 00:30 ... við biðum þolinmóð eftir honum.
Aksturinn að Hotel Tarra sem er í um 4 km. fjarlægð frá flugvellinum var mjög löng, tók 2-3x lengri tíma en hún á að gera því umferðin var fáránlega mikil út úr borginni. Flestir bílarnir voru stórir vörubílar á leið út á land með vistir - leggja sennilegast allir af stað á sama tíma með þessari afleiðingu.
Við komum því mjög seint á Tarra en starfsmaðurinn beið okkar í anddyrinu þegar við loksins fundum þetta vel falda hótel í myrkrinu. Við gengum inn í herbergið tók megn hlandlykt á móti okkur - svipuð og á illa þrifnu almenningsklósetti .... á Indlandi. Við sögðum honum að þetta gengi ekki en hann fullyrti að þetta væri eina herbergið sem hann ætti, það væri engin vond lykt og kveikti á ofvirkri viftu í loftinu sem ekki var hægt að minnka hraðann á. Klósettið var óþrifið og hafði greinilega ekki verið sturtað niður þegar síðasti maður skilaði þar umframvökva úr líkamanum sem olli þessari lykt ásamt því að baðherbergið var illa þrifið. Hann kom með reykelsi fyrir okkur til að minnka lyktina og losna við moskítóflugur - við höfðum ekkert annað úrræði en að láta okkur þetta gott lynda. Fjöldi moskítóflugna voru í herberginu sem var aðeins skárra en herbergi síðustu nætur, höfðum a.m.k. aðeins hreinna rúm þú umhverfi rúmsins væri skítug. Nóttin var skollin á og við færum hvort sem væri snemma á flugvöllinn.
Sonja situr í rúmínu og vill helst ekki snerta gólfið.
Klósettið.
Næstversta herbergi ferðarinnar var fundið þetta síðasta kvöld okkar á Indlandi. Við fórum að sofa með höfuðið fullt af góðum minningum frá þessu mikla menningarlandi þar sem öllu ægir saman í undraverðri blöndu sem hrífur mann með sér ef maður sleppir takinu og leyfir landinu og menningunni að taka stjórnina.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli