sunnudagur, september 30, 2007

Síðastu dagarnir í Leh - laugardagur og sunnudagur

The situation in Ladakh and the neighboring Himalayan kingdom of Bhutan vividly illustrates the shortcomings of defining human welfare only in terms of money.
Helena Norberg-Hodge

Ég vaknaði upp með andfælum á laugardeginum því ég hafði verið að strjúka tánum við löpp sem var kafloðinn og voru fyrstu viðbrögðin að rekkjunautur minn væri karlmaður. Við nánari eftirgrennslan reyndist þetta bara vera Sonja með órakaðar lappir. Ætli maður verði ekki að lækka kröfur um snyrtimennsku í ferðalögum eins og þessu.

Planið síðastu dagana var að ganga frá ferðinni til Srinigar og kaupa nokkra minjagripi. Við flökkuðum aðeins á milli ferðaskrifstofa til að athuga hvort þeir vissu um ferðamenn sem væri að fara sömu leið og vildu fleiri í bílinn og þannig lægri kostnað. Enginn vissi um neinn í bili svo við ákváðum að láta daginn líða og sjá til aftur seinnipart sunnudagsins. Á sunnudagseftirmiðdegi höfðum við enga ferðafélaga fundið svo við splæstum bara í eigin bíl hjá "Little Tibet Expeditions". Í raun skiptir það ekki máli við hvaða ferðaskrifstofu verslað er því allir fletta upp í sama ríkisbæklingnum og hringja í sama ríkis-leigubílafélagið og panta bíl. En eigandi "Little Tibet Expeditions", strákur um 30-35, var mjög þægilegur og talaði góða ensku. Hann býr í Los Angeles með Bandarískri eiginkonu sinni og faðir hennar er sá sem hefur verið að kynna boðskap Dalai Lama þar í landi. Hann gaf okkur góðar leiðbeiningar hvernig best væri svo að komast áfram frá Srinigar til Amritsar.

Eins og vel upp aldir túristar skunduðum við í túristabúð og völdum minjagripi en keyptum ekkert frekar en fyrri daginn, ég hef mikla ánægju af að kvelja sölumenn. Við sátum inni hjá sölumanninum í um klukkustund og þar setti ég á svið að ég væri mjög þreyttur og vildi komast út sem fyrst og skilaði það sér nokkrum kúlum í veskið í formi afsláttar á sunnudeginum. Við versluðum helminginn af því sem við höfðum valið daginn áður og sátum þar eftir inni hjá sölumanninum í klukkustund og hálfri stundu betur á meðan hann pakkaði hlutunum inn mjög haganlega. Hann endaði m.a.s. á því að setja léréftsdúk utanum pakkann og sauma hann saman - varla að maður tími að opna pakkann ef hann á endanum mun skila sér til Íslands, og ef tollurinn heima mun ekki rífa hann upp áður.

Við versluðum loks af stressaða málverkasalanum (nr. 2) þar sem ég átti leiksigur í hlutverki fúls eiginmanns sem fannst myndin sem eiginkonunni langaði í bæði ljót og alltof dýr. Það borgaði sig bókstaflega því með þessum ofleik náðum við að lækka verðið á dýrari myndinni um næstum því helming og vildi hann meina að hún væri komin óþægilega nálagt kostnaðarverði.


Sölumaðurinn hlær sigri hrósandi eftir að hafa platað okkur upp úr skónum og látið okkur halda að við hefðum haft betur. Hluti af aleigu minni liggur á borðinu í formi indverskra rúbína.

Þar sem múslímar eru ráðandi í verslunarrekstri í Leh, flestir frá Kashmir, og Ramadan er í hámarki þá þurfti við að vekja nánast flesta sölumennina þegar við gengum inn í búðir þeirra. Þegar við vorum að skoða í búðunum ómaði undir bænasöngur sölumannanna þar sem þeir þuldu upp úr kóraninum. Góði/ódýri málverkasalinn eins og ég kýs að kalla hann var einn af þeim sem var sofandi og var ungur sonur hans líka sofandi á gólfinu. Hann fór hægt á fætur og við stóðum vandræðaleg í dyrunum á meðan hann tók saman dýnuna á gólfinu, kveikti ljósið og skellti málverkum á borðið er voru kandidatar í að seljast til okkar. Við keyptum af honum eitthvað smávægilegt þannig að ferðin á fætur reyndist honum engin fýluferð, hún stóð allavega undir kostnaði.


Síðustu eplin týnd fyrir veturinn.


Þessi var að losa um stíflu á niðurfalli rétt hjá hótelinu..

Laugardagskvöldinu eyddum við í setustofu hótelsins sem er í sérhúsi úti í garði með mjög þægilegum sófum, ljúfri tónlist og stórum flatskjá. Ég þóttist vera að blogga en þar sem hótelið er með stöð sem sýnir beint frá enska boltanum þá rötuðu færri orð í tölvuna heldur en boltar í mark. Sonja sat og las mjög áhugaverða bók um menninguna í Ladakh sem skrifuð er af norskri konu er kon hingað 1974 þegar svæðið opnaði fyrir ferðamönnum og heillaðist algjörlega af menningunni og hefur eytt 6 mánuðum á ári hér allar götur síðan. Við sáum auglýstan úrslitaleikinn í heimsmeistaramótinu í krikket sem hefur farið fram í Suður-Afríku. Okkur til hrellingar þá stóð einvígið á milli Pakistan og Indlands og það færi fram á mánudagskvöldinu en þá yrðum við einmitt hálfnuð til Srinigar í Kashmir sem er mikið átakasvæði milli Indlands og Pakistans!


Setustofan er plássmikil og þægileg.

Á sunnudagsmorguninn hellirigndi svo við komumst ekki út úr húsi þar sem ég hafði sett Sonju þá afarkosti að taka engar regnflíkur með. Við sáum þá fram á að nýta tímann í meira blogg og flokkun mynda en rigning hefur víst frekar slæm áhrif á rafmagnið hér svo þegar batteríið kláraðist í tölvunni þurftum við að dunda okkur í myrkrinu.
Um hádegið stytti upp og þá komumst við í bæinn að ganga frá lausum endum eins og lýst hefur verið að ofan. Við vorum svo komin aftur á hótelið um kl 17 því þá átti að hefjast þar danssýning með hefðbundnum Ladakh dönsum. Við misskildum og héldum að þetta væri túristasýning en þarna var mikið af innfæddum, þá var víst verið að fagna e-m áfanga sem hópur fatlaðs fólks héðan hafði náð. Sonja sá lítið af dansinum því hún eyddi tímanum "baksviðs" inni í kvennabúningsherberginu að slúðra við stelpudansarana. Þær töluðu ágætisensku, ef allt var lagt saman, og var þetta hin mesta skemmtun.

Nokkrar myndir frá skemmtuninni.











Hótelstjórinn var þægilegur maður og fylgdist hann með sýningunni.

Síðasta kvöldmáltíðin í Ladakh var svo á hótelinu þegar starfsmennirnir höfðu náð að ganga frá eftir veisluna. Það er enginn matseðill á hótelinu heldur bara ákveðinn matur í boði - bara eins og heimili. Þetta kvöldið var Ladakhi-matur sem samanstóð af grænmeti, mu-mu (svipað kínverskum dumplings) og kjötsúpu (hér er ekkert grænmeti í kjötsúpunni) og var þetta ljúffengt. Það kom inn bandarískt par, gistir á hótelinu, settist niður og bjóst við matseðli en þegar þjónninn kom og taldi upp þá leist þeim illa á og sögðust vera grænmetisætur. Þjónsgreyið hljóp inn í eldhús að redda því en þau skunduðu út með fýlusvip. Þjónninn hljóp þá á eftir þeim og sagði að lítið mál væri að aðlaga matinn svo ekkert kjöt færi upp í munn og ofan í maga. En þá var það ekki nóg því þau þoldu heldur engar mjólkurvörur - þjóninn er ekkert alltof sleipur í enskunni og skildi því ekki "dairy-products" svo USA-kallinn útskýrði með þjósti að það þýddi, mjólk, ost, ís ofl. Þjónninn áttaði sig ekki alveg á þessu - væntanlega ekkkert vanur að flokka mat, matur er matur! Þá heimtaði USA að tala við "manager" og enn notaði hann sama frekjutóninn. Við heyrðum ekki hvað gerðist en þau settust allavega til borðs að lokum og fengu framreidda sérmáltíð.

Sonja pakkaði og ég nýtti mér tæknina þar sem rafmagnið var komið á aftur - í bili - seinasti dagurinn í Ladakh var að kveldi kominn.

laugardagur, september 29, 2007

Ferð til Nubra Valley - Seinni dagur

Fyrirhugaður brottfarartími frá "Snjóljóna"-gistiheimilinu var kl. 8 um morguninn svo við ákváðum að vakna fyrr og taka stuttan göngutúr því við vorum yfir okkur hrifin af þessum litla bæ.

Ég dró því Sonju á fætur klukkan 6.30 og stuttu síðar skunduðum við út í morgunsólina. Við gengum í þveröfuga átt frá því sem við höfðum farið daginn áður og virtum fyrir okkur hinn helming bæjarins. Það var töluvert af fólki á gangi og við hittum t.d. tvo nepalska vinnumenn sem voru á leið til vinnu. Þeir voru mjög glaðbeittir og sögðu að þeir væru á Indlandi til að vinna erfiðisvinnuna eins og að leggja fjallvegi, byggja hús og annað slíkt. Þeir virtust ekki hafa mikið álit á Indlandi, sögðu trúna skipta of miklu máli, þ.e. ef maður er Búddatrúar getur maður bara gert ákveðna hluti, Hindúi enn aðra hluti og Múslimi síðan eitthvað allt annað en einn og sami maðurinn getur í raun ekki gert allt - það fer eftir trú hans. Ég er það grunnhygginn að eftir að þeir voru farnir þá dauðsá ég eftir því eftir að hafa ekki gefið þeim pening til að fara heim til fjölskyldu sinnar í Nepal því það eru bara aurar hjá okkur sem gerir mikið fyrir þá. Maður er eitthvað svo mikið innstilltur inn á peninga, heldur að þeir séu það sem allir hugsa um hérna eins og heima.

Eins og U2 sagði í skemmtilegu lagi: "When the greatest gift is gold".


Annar nepalski farandverkamaðurinn sem minnti Sonju á föður minn.

Við rákumst einnig á litla stúlku sem var að reka beljurnar til beitar. Hún varð mjög hrifin af Sonju og vildi endilega leiða hana á meðan við gengum með henni á eftir beljunum. Þegar leiðir skildu spurði hún mig með handabendingum hvort hún mætti eiga hálfkláraða gosflösku sem ég var með og ég gaf henni hana tvístígandi því mér þótti ekki geðslegt að hún væri að drekka það sem ég var hálfkláraðu með auk þess sem ekki er víst að hún eigi tannbursta.


Kúasmalinn knái.


Bærinn er eins og ævintýraland.


Göngustígur í Hunder.

Við mættum aftur á hótelið rétt rúmlega átta og fengum okkur þar morgunmat í garðinum. Á næstu tveimur borðum voru annars vegar tvær þýskar konur með mikinn áhuga á ljósmyndum og á hinu borðinu indversk hjón með dóttur sína en þau búa á Nýja-Sjálandi eftir að hafa flutt frá Indlandi fyrir tuttugu árum síðan. Það spruttu upp mjög líflegar umræður um Indland og annað á milli borða og varð það til þess að brottför frestaðist um tæplega tvær klukkustundir. Þau voru öll sammála um að það væri öruggt að ferðast til Kashmir en við höfðum skipt nokkrum sinnum um skoðun um það hvort við ættum að fara þangað. Eftir þessar umræður tókum við lokaákvörðun um að heimsækja Kashmir.


Við við morgunverðarborðið.

Fyrsta stopp eftir að við lögðum í'ann var eyðimörkin rétt fyrir utan bæinn þar sem upphófst leit að kameldýrum og var Sonja með besta augað. Við gengum upp að öðru dýrinu sem slappaði af í morgunsólinni en ef við komum of nálægt þá komu frá því ógurleg hljóð svo við hrökkluðumst tilbaka. Bílstrjórarnir spurðu hvort við vildum fara á bak en eftir fyrstu kynni leist okkur ekki vel á það, þetta er skrítnar og stórar skepnur. Virðast vera geðvond dýr en sennilega ágætis skeppnur því boðið er upp á ferðir með þeim á milli þorpa. Tveir geitahirðar ráku hóp sinn framhjá okkur þar sem við vorum að virða fyrir okkur skeppnurnar þannig að það vantaði ekki dýralífið þarna sem gladdi Sonju, enda hefur hún ákaflega gaman af málleysingjum (kannski þessvegna sem hún er með mér).


Sonja ætlaði að klappa kvikindinu en það gaf upp þvílíkt öskur til að gefa til kynna að koma ekki nálagt sér - þessi mynd er akkúrat tekin nokkrum andartökum eftir það.


Geitahirðir.


Sami geitahirðirinn.


Annar geitahirðir.

Eftir að hafa skoðað tvö önnur þorp héldum við aftur upp í fjall og skellti þá bílstjórinn tónlst í geislaspilarann, fyrstur á mælendaskrá var George Michael með skemmtilega smelli eins og "Last Christmas" og fleiri góð lög. Þegar ofar í fjallið var komið lentum við í samfloti með gríðarlegri trukkalest - fyrst voru það um 20 stórir herflutningabílar og á undan þeim um 40-50 vörubílar sem voru í samfloti, en það er venjan á þessum fjallvegum að stærri bílar safnist saman á ákveðnum stöðum og fari allir af stað á sama tíma. Þeir sem sitja við stýrið á herbílunum virðast allir vera svipaðir í útliti með dökkt mikið yfirvaraskegg og stór löggusólgleraugu. Þar sem bíllinn okkar fór hraðar yfir en þessir stóru bílar fórum við framúr nánast þeim öllum í snarbrattri hlíðinni þó að sumir hafi verið fáránlega þrjóskir við að hleypa okkur ekki framhjá og vissi maður oft ekki hvort þeir ætluðu að dangla í okkur og senda okkur kílómeter niður hlíðina. Við stoppuðum á toppnum svo við þurftum að taka framúr þeim flestum niður hinum megin aftur.

Nokkrar myndir frá dagsferðinni í kringum Nubra áður en haldið var aftur til Leh:


Barn bíður þolinmótt á meðan foreldrar vinna á akrinum og reynir að tileinka sér vinnubrögðim.


Fjöldi fólks við vinnu.


Eins og töframaður kallar konan fram mynd af annarri konu.


Þung byrði.


Kona í fjarska við stöðuvatn.


Þessi kona var við vinnu ofaní holur, var líklegast að grafa fyrir útihúsum


Sonja með fjóra karlmenn á biðilsbuxunum.




Keyrt yfir hrjóstugt svæði við Nubra Valley.


Uppi á toppnum tókum við nokkrar myndir af okkur fyrir framan bænaflöggin á hæðinni fyrir ofan veginn en þurftum að hafa hraðann á því blóðsykur Sonju var kominn undir sjávarmál þótt við værum í rúmlega 5600 m hæð enda var klukkan langt eftir hádegi og við ekki borðað neitt frá því við snæddum morgunverðinn.


Þetta gæti kannski verið á Íslandi.


Uppi í snjólínunni má greina veginn rétt áður en komið er á hæsta punktinn.


Stórir vörubílir klifra upp fjallið.


Á hæsta punkti.

Það er mikilfengleg sjón að sjá svona stóra bílalest klifra upp þessa hrikalegu fjallvegi og skríða niður hinum megin, manni liður eins og litlum korktappa á milli þeirra allra. Það var því gott þegar við höfðum komist fram úr röðinni og fórum að nálgast jafnsléttu og betri vegi.

Þegar við komum á hótelið bað Sonja um epli til að skjóta upp blóðsykrinum og ná jafnvægi í magann fyrir mat. Eldri húsvörðurinn sem við höfðum kynnst sæmilega spurði mig hvort ég vildi ekki bara klifra upp í eplatréð og ná í epli, sem mér tókst að gera án þess að detta.

Kvöldverður var snæddur á útiveitingahúsi tveimur götum neðar og þar lentum við á næsta borði við óþolandi bandarískt par um fertugt sem var að sleikja sig upp við eldri mann sem hafði greinilega ferðast um allan heiminn. Þau spurðu hann eftir smá spjall hvort þau mættu ekki færa sig yfir á borðið hans í stað þess að vera að gala svona á milli borða. Tal parsins var mjög yfirborðskennt og fengu frasar eins og "Democracy is messy" að fjúka. Eldri maðurinn, alinn upp í Póllandi, sagði frá föður sínum sem hafði verið hent í fangelsi í eitt ár á stalíntímabilinu fyrir orð nágrannans. Konan var yfir sig hneyksluð að hann skyldi hafi verið settur í steininn án dómst og laga - "Ha, fékk hann ekki einu sinni að hitta dómara???".
Ferðalangurinn var skemmtilegur og ég skil vel að parið hafi verið að sleikja sig upp við hann. Hann sagði að merkilegasta augnablikið sem hann hefði upplifað þá þrjá mánuði sem hann hafði verið á Indlandi var að vera á hæsta vegspotta í heimi. Þar sem við höfðum einmitt verið þar fyrr um daginn má kannski segja að allt sé niður á móti héðan í frá. Við vorum ekki að hlera samtal þeirra heldur töluðu þau öll mjög hátt og voru frekar stutt frá okkur, Sonja var kannski smá að hlera. Við klárðuðum að borða og drifum okkur í burtu frá þessu pakki.

Já, ég held að bandarískir ferðamenn séu stundum sjálfumglaðari en þeir íslensku.

Ferð til Nubra Valley - Fyrri dagur

Rétt fyrir átta vorum við búin að skófla í okkur morgunmatnum og biðum eftir bílnum. Bíllinn sem skyldi flytja okkur til Nubra dals átti að koma kl. 8 fyrir utan hótelið. Yfirleitt er ég mjög þolinmóður maður en það fór lítið fyrir því þenan morguninn og ég lét m.a.s. út úr mér kl. 8.04 að við gætum farið aftur að sofa því bíllinn kæmi ekki úr þessu.

Edlklerkur reyndist ekki sannspár frekar en fyrri daginn því bíllinn renndi í hlað um 10 mínútum síðar og var við stýrið mjög grannur ungur maður, greinilega smá töffari. Mér leist þó ágætlega á hann þó að mér sé illa við töffara og Sonju leist að sjálfsögðu vel á hann enda með góðan smekk á karlmönnum og kærir sig ekki um neitt nema eðal töffara. Hann fór fljótlega að spyrja okkur um það hvort við værum gift og skildi ekkert í því að ég væri ekki búinn að giftast henni því Sonja væri mjög falleg. Ég stríddi honum aðeins og sagði að hún væri nú ekkert svo falleg þegar Sonja var að hlusta líka og að ég væri ekki viss um að ég vildi giftast henni. Ég sá hneykslis- og undrunasvip á andliti hans.

Vegurinn byrjaði strax að klifra upp bratt fjallið fyrir ofan Leh og var oft gríðarlega mikið hengiflug niður af veginum sem við sikk sökkuðum á. Við fórum næst hæsta fjallveg fyrir farartæki stuttu áður og bættum um betur í þetta skiptið því þessi leið er sú hæsta. Hæsti punktur á þessari leið er í Khardung La sem er í 18.380 fetum sem gera um 5.606 metra. Ég er nú yfirleitt ekki bílhræddur maður en þar sem ég sat vinstra megin í bifreiðinni, þeim megin sem sneri niður hlíðina, og ökumaðurinn fór oft nánast með dekkið hálft útaf brúninni þegar við mættum stórum flutningabílum þá var mér ekki um sel, enda gríðarleg þverhnýpi þarna. Við sáum á einum stað í hlíðinni brunnið brak flutningabifreiðar sem hafði hrapað gríðarlega langt niður hlíðina og það var ekki til að minnka fiðringinn í maganum.


Útsýnið yfir Leh frá veginum upp fjallið.

Eftir stutt myndastopp á hæsta punkti var allt niður á móti og ekki eins bratt í fjöllunum þó að enn væri landslagið mjög óárennilegt og maður skilur varla hvernig þessir vegir hafa verið byggðir. Engin þorp voru á leiðinni upp enda bændum varla stætt að byggja bú utaní þverhnýpu fjalli. Það var breyting á því á ferðinni niður - mjög mörg og falleg þorp inn á milli ljótra herstöðva sem virðast vera eins og fugladrit um Ladakh.


Hæsti vegkafli í heimi fyrir bifreiðar og við. Ég geri ekki ráð fyrir að við förum hærra því við erum ekki mikið göngufólk, a.m.k. ekki betri helmingurinn.


Bænaflögg fyrir ofan hæsta punktinn.


Á leið niður fjallið.


Þorp í hlíðinni á móti þegar niður er farið að Nubradalnum.

Við þurftum að stoppa í einni af þessum her- eða eftirlitsþorpum til að sýna vegabréf eins og gengur og kvitta fyrir því að við hefðum farið inn á svæðið. Ég skokkaði þar á eftir á klósettið eða útikamarinn sem var fyrir ofan veginn og það má með sanni segja að þar hafi óskapnaðurinn náð nýjum hæðum eða kannski nýjum hægðum. Lyktin var óbærileg og skítur þarna út um allt í hrúgu sem maður hálfvegis stóð á. Ég ætla ekki að fara meira út í lýsingu á þessu klósetti, mæli bara með að menn fari sjálfir og taki út þetta klósett.


Hermenn skipta á sér.


Þessi hefur greinilega lofað því að kíkja ekki á meðan hinn fékk sér að pissa.


Útsýni yfir Nubra frá klaustri sem við heimsóttum á leiðinni.

Við fengum okkur stuttan hádegisverð á litlu tíbetsku veitingahúsi og bar það helst til tíðinda að fastagestir eru greinilega það stuttir að ekki þykir ástæða til að hafa útidyrnar í eðlilegri hæð, því skall ég með hausinn í þegar ég gekk inn og næstum því rotaðist held ég sveimerþá. Þetta pínulitla veitingahús var nánast fullsetið og sennilega þótti fólki skrítið að sjá mig ryðjast inn á staðinn og ráfa um með hausinn í lúkunum og stynja eins og andsetinn væri. Daginn eftir skoðuðum við skallann og reyndist þá vera skurður eftir gjörninginn og stór kúla. Ég leit þá ekki lengur út eins og foli heldur einhyrningur.


Lítið og skemmtilegt veitingahús sem var staðsett í litlum kofa ofaná öðru húsi. Klósettið var á ruslahaugum fyrir aftan húsið.


Hérna má glögglega sjá áverkana.

Þegar niður af fjallinu var komið keyrðum við inn Nubradal og var skrítið að koma úr miklum kulda og snjó efst á fjallinu í eyðimörk á aðeins 3 tímum. Nubra dalur er eyðimörk að mestu leiti með miklum sandöldum eins og menn hafa séð frá Sahara en hér eru gróðurbelti inni á milli sem bæir hafa myndast í kringum. Endastöð okkar þennan daginn var líitð þorp í Nubra sem heitir Hunder. Eftir stutta leit að gistihúsi sammældumst við um að fara á Snow Leopard sem er lágreist hús með fallegum garði. Herbergið okkar var hið ágætasta ef miðað er við annað á þessum slóðum, með útsýni út í garðinn.

Við fengum okkur stuttan göngutúr eftir að hafa hent inn farangrinum og komumst að því að þetta þorp er alveg með eindæmum flott, nánast eins og draumaland. Það er mjög gróðursælt og eru litlir göngustígar á milli hlaðinna garðveggja og eru oft litlir lækir sem liggja með göngustígunum. Beljur og asnar eru á hverju strái og mjög vinalegt fólk sem stoppaði og spjallaði nánast undantekningalaust við okkur. Allir virtust vera brosandi og ánægðir enda varla hægt í svona fallegu og friðsömu umhverfi.


Kona og belja á leiðinni heim.

Við sáum margt skemmtilegt eins og í einum stórum garði stökk belja skyndilega af stað og var á harðahlaupum á eftir hvítri kisu sem náði með naumindum að bjarga sér upp í tré skjálfandi af hræðslu. Ekki vissum við að beljur gætu náð þessum hraða.

Við gleymdum tímanum við að horfa á stráka spila krikket á einum stað í þorpinu og áttuðum okkur ekki á því að það var að koma myrkur fyrr en næstum því of seint. Þorpið er allt mjög langir og hlykkjóttir göngustígar og allt ópupplýst þannig að ef við hefðum misst gönguna í myrkur þá hefðum við varla náð að finna gistiheimilið aftur held ég. Ef við hefðum náð heim þá væri það illa tætt og útrispuð. Þar sem að búfénaðurinn gengur um sjálfala allan daginn þá er hvert hús með hlaðin vegg og svo gaddavírstré ofan á þeim svo að dýrin geri ekki innrásir og þessi gaddavírstré eru ekkert grín. Við hröðuðum okkur því heim og náðum með herkjum að finna gistiheimilið án teljanlegra áverka og nákvæmlega 4.07 mínútum síðar var skollið á svarta myrkur.

Bílstjórinn var mjög hissa þegar við settumst við kvöldverðarborðið klukkan 18.30 því hann sagðist sjálfur ekki borða fyrr en 21. Við létum það ekkert á okkur fá og snæddum þarna hinn ágætasta mat sem var eldaður á heimili eigandans og spússu hans í húsi við hliðina á gistiheimilinu, samt í sama garði. Eftir matinn settumst við inn í sjónvarpsherbergi á neðri hæð heimilis eigandans og sátum þar á teppi á gólfinu með heimilisafanum og 3-4 öðrum gestum. Rafmagnið þarna er jafn dyntótt og annarsstaðar í Ladakh og fór það af alls 4 sinnum þarna um kvöldið og var þá notast við batterí-lampa. Þetta minnti okkur á nánast horfna tíma á Íslandi því maður tekur rafmagn sem gefið heima og verður hissa þegar það fer. Í Ladakh virðist vera regla að það fer af mörgum sinnum á dag og eru flestar búðir og þjónustufyrirtæki eins og netkaffi með olíurafstöð fyrir utan inngang til að grípa í.

Við fórum snemma að sofa enda erfiður dagur að baki og annar erfiður að bringu.

föstudagur, september 28, 2007

Dagsferðin hin seinni

Planið þennan daginn var að fara í Thiksey klaustrið, seinni tilraun að ná morgunbænunum því engar voru þær í síðustu heimsókn. Eftir það að keyra um svæðið fyrir vestan Leh.

Bílstjórinn, vinalegur maður með yfirvaraskegg, sótti okkur tímalega kl. 6 á hótelið á Tata bifreið. Við keyrðum framhjá dauðum hundi sem hafði verið keyrt á stuttu áður og vorum mætt í klaustrið um 6.30. Við gengum inn í aðal hofið í klaustrinu sem athöfnin átti að fara fram í og þar í horninu voru 4 múnkar að búa til sandlistaverk en þau eru nokkuð algeng í klaustrum hérna og kann ég ekki frekari skil á trúarlegu gildi þeirra. Mislitur sandur er settur í sívaling sem er mjór í annan endann og breiður í hinn ásamt því að hafa mjög gróft yfirborð. Þeir grúfa sig síðan yfir myndina og nota litla stöng sem þeir strjúka yfir sívalinginn og við það kemur sandurinn í litlu magni út og þeir geta myndað listaverkin.


Eldri munkur fylgist gaumgæfilega með þeim yngri, rétt skal vera rétt.


Þetta krefst gríðarlegrar vandvirkni.

Morgunbænirnar byrjuðu um 7 leytið og fór ég út til að sjá ungu munkana safnast saman fyrir utan kyrjandi. Þeir eldri höfðu þegar tekið sér sæti inni, kyrjandi. Einhver yfirmunkur var þarna úti með strákpöttunum sem leit út eins og vondi kallinn í bíómynd og virtust strákarnir hræddir við hann. Hann hóf þá að kalla þá einn af öðrum til sín og notaði prik til að slá virkilega fast í hönd hvers og eins og var það greinilega sársaukafullt. Ég var mjög hissa á þessu en það verður sennilega að ala þessa ungu stráka upp því engvir eru þeir foreldrarnir og yfirmunkarnir þurfa væntanlega að stjórna stórum hópi. Það er líka möguleiki að hann hafi verið að refsa þeim fyrirfram fyrir að vera óþekkir í messunni, enda kom það á daginn.


Vondi munkurinn pikkar út drengi til refsingar.


Þessi blásturshorn voru notuð í upphafi morgunbænanna upp á þaki klaustursins svo að vel heyrðist í allar áttir.

Eftir að allir messuhæfir munkar höfðu komið sér inn fengum við okkur sæti á gólfinu eins og aðrir og hlustuðum á þá kyrja og spila á flautur, trumbur og klingja bjöllum. Við tókum slatta af myndum enda umkringd mukum á öllum aldri. Yngri mynkarnir voru greinilega ekki að taka þetta mjög hátíðlega, voru þeir oft í hálfgerðum slagsmálum og þurftu þeir eldri að sýna þeim aðhald. Þeir höfðu samt þeirri skyldu að gegna í athöfninni að bera í munkana einfaldann mat og drykki ásamt því að þurka af öllu á milli.


Hluti af morgunbænunum, þessi var sá eini sem klingdi bjöllum.


Tveir spiluðu á flautu/trompet og tveir börðu í trommu.


Þessi var eitthvað að sprella.


Einn af fjölmörgum drengum í klaustrinu.

Það vakti mikla kátínu hjá þeim yngri þegar lítil eðla kom hlaupandi að Sonju þar sem hún sat í mestu makindum á gólfinu við myndatökur. Sonja ætlaði að stökkva upp öskrandi en náði að kæfa mest öskrið og setti upp skelfingarsvip í staðinn. Hún náði heldur ekki að stökkva upp heldur bara rétt að lyfta sér svo eðlan fór undir lappirnar og hvarf undir vegginn bakvið hana. Sonja færði sig af góflinu og settist inn í horn til "sandmunkanna"

Við fórum þegar athöfnin hafði staðið yfir í meira en 2 klukkustundir - þetta var einhver sérathöfn sem tekur mjög langan tíma. Yngri munkarnir voru líka ansi þreyttir og sumir lágu fram á bekkina þegar við héldum á brott.


Einn stekkur glaður út í sólskinið á meðan annar hleypur inn. Svipað innáskiptingu í fótbolta.


Þessi virtist glaður að sleppa út.

Við ókum í gegnum gríðarlega mikil hernaðarmannvirki fyrir vestan borgina á leið okkar að fyrsta stoppinu sem var lítið þorp sem heitir Taru og er það ekki hluti af venjulegu túristaleiðinni heldur eitthvað sem við báðum um, það er nefnilega ekkert klaustur í þeim bæ. Við fengum okkur göngu í gegnum þorpið sem er umlikið ökrum og stoppuðum hjá fjölskyldu sem var að skilja hveitikornin frá grasinu. Það er gert með því að þeyta heyinu upp í loftið og láta vindinn taka kornið og feykja því til hliðar en grasið er þyngra og fellur beint niður. Þegar enginn er vindurinn standa menn/konur og bíða þar til kemur smá gola og þá er grasinu þeytt upp. Á meðan er blístrað eða sungið lag þar sem vindurinn er hvattur áfram og er allstaðar sama lagið sungið. Það er gríðarlega gaman að sjá fólkið svona á ökrunum, eins og að stíga marga áratugi aftur á íslandi. Fólk er einnig vingjarnlegt og sýnir okkur hveitið sem það hefur í dósum og leyfir okkur að smakka. Það er sérlega gaman að sjá þetta í þessu stórkostlega landslagi - eiginlega erfitt að lýsa því í orðum.


Ég reyni fyrir mér í að skilja hveiti og ætli megi ekki segja að þetta sé í fyrsta skipti í mörg ár sem ég vinni ærlegt handtak.


Afinn við vinnu á akrinum.

Allstaðar á leiðinni eru hernaðarflutningar þar sem þetta er afar mikilvægt svæði fyrir Indland og herinn með mikil ítök. Stuttu fyrir utan borgina er stór herflugvöllur og nokkrar herstöðvar. Einnig eru sum þorpin þannig að vegurinn liggur í gegnum þau og er skrítið að sjá bílskúraraðir líkt og raðhús með götunni sem nýttir eru í hina ýmsustu hluti eins og búðir, viðgerðaverkstæði, trésmíðaverkstæði, ruslageymslur, stofur, geymslur o.flr. o.flr.


Kona bíður þess að verða fullfermd.


Vegagerðamenn vinna gríðarlega erfitt starf við erfið skilyrði.


Vegagerðakona gengur heim á leið í sandroki.


Dæmi um landslag á leiðinni.

Skilti með spaklmælum til að forða slysum eru út um allt Ladakh hérað. Við höfum dundað okkur við að punkta þau niður enda sum hver nokkuð fyndin því rím virðist skipta meginmáli. Hérna eru nokkur:

A-in þrjú: "Alert avoid accident"
A-in fjögur: "Always alert avoid accident"
"After whiskey driving risky"
"All we wait, better be late"

B-in þrjú: "Beware before bends"
"Be mr. late than late mr"
"Break the speed, that's the need"
"Check your nerve on my curve"
"Child is a father of man"

D-in þrjú: "Don't drive drunk"
"Darling I like you but not so fast"
"Driving and drinking, a fatal coctail"
"Fast won't last"
"He who touches 90 will die at 19"
"If you fall asleep, your family will weep"
"Left is right" (vinstri umferð hérna)
"Mighty one eighty one"
"Run on horse power, not on rum power"
"Slow drive long life"




Við skoðuðum næst fallegt klaustur við bæinn Basgo sem er eins og oft uppi á kletti í gömlum kastala. Við fórum ekki inn í klaustrið en nýttum okkur stórkostlegt útsýnið til myndatöku og yndisauka. Nokkrir verkamenn voru að vinna við rætur klaustursins í algjöru logni og gríðarlegum hita, sannkölluðum hitapotti. Þeir voru ekki öfundsverðir en voru glaðir og brosmildir eins og langflestir virðast vera hérna.


Útsýnið ofanaf klaustrinu.


Sonja þreytt eftir göngutúr í gríðarlegum hitapotti við klaustrið.

Lítill bær var næstur á dagskránni, Likir, og fengum við okkur stuttan göngutúr í honum. Þegar við vorum komin ofarlega í byggðinni urðu á vegi okkar tveir litlir strákar og spurðu þeir okkur hvort við vildum koma í skólann þeirra. Við ákváðum að taka boði þeirra og hittum nokkra krakka sem voru að leik á skólalóðinni og voru þeir æstir í að fá myndir af sér teknar. Eftir þónokkurn tíma með þeim og gnægt mynda kíktum við á kennarana þrjá inni í skólanum og báðum þá um heimilisfang til að senda þeim myndirnar. Skólinn var þrjár litlar stofur nánast alveg tómar. Það eina sem var inni í stofunum voru töflur og myndir á veggjunum - annað virtist vanta. Þetta var a.m.k. fátæklegasti skóli sem við höfðum séð. Merkilegt hvað fólk virðist vera elskulegra og þægilegra eftir því sem það er fátækara. Vill einhver eiga peningana okkar?


Þessi ungi piltur var feiminn og virtist ekki almennilega vita hvaða tæki þetta var sem hann var að horfa í.


Þessi var greinilega sprelligosi skólanns, dansaði og fíflaðist fyrir framan okkur. Á bak við hann má sjá töflu svo greinilegt er að hluti af kennslunni fer fram úti.


Nánast tóm skólastofa.

Við fengum okkur að borða í síðasta þorpinu, Alchi, og eftir það benti bílstjórinn okkur á klaustrið sem var stutt frá matsölustaðnum og sagði að það væri alveg þess virði að skoða það. Við vorum bæði orðin þreytt en ákváðum að láta slag standa. Þegar inn í klausturgarðinn var komið reyndist enginn vera þarna og þegar við vorum í þann mund að snúa við kom eldri múnkur og spurði okkur með handahreyfingum hvort við vildum skoða hofið. Við ákváðum að kíkja inn, hann opnaði og kveikti fyrir okkur. Inni voru gríðarlega stórar tréstyttur, sennilegast um 5-6 metra háar frá 11. öld. Það var skrítið að vita til þess að þessar styttur voru nánast frá þeim tíma sem Ísland var að byggjast og menn að grafa sig inn í hóla í eintómu volæði og vesælddómi. Stytturnar voru líka mjög unglegar og ég virtust ekki degi eldri en 950 ára.

Á heimleiðinni fékk Sonja sér langan lúr í bílnum, við vorum nokkuð þreytt þegar til Leh var komið enda um 12 tímar síðan við lögðum af stað. Við báðum bílstjórann að keyra okkur aftur á ferðaskrifstofuna sem við höfðum keypt ferðina og fengum við helmings afslátt af henni vegna þess að við fórum bara hálfa leið miðað við það sem við upphaflega greiðslu og gekk það upp í ferð morgundagsins til Nubra Valley.

Við komumst að því að plastpokar eru ólöglegir í Leh þegar við keyptum tvær bækur og urðum að taka utan af þeim í búðinni. Ég held að þetta sé góð löggjöf hjá þeim.

Góður og skemmtilegur dagur.