mánudagur, desember 10, 2007

87. Hótelherbergi dauðans

Við skiptum liði fyrri hluta dags - Sonja fór að kaupa lestarmiða til Agra á lestarstöðinni ásamt viðkomu á pósthúsinu til að senda minjagripi heim. Ég dundaði mér í tölvunni á herberginu á meðan í tölvunni við að skrifa ferðasögu okkar og sá um að skrá okkur út á réttum tíma svo við yrðum ekki rukkuð um aðra nótt.

Sonja kom til baka eftir að hafa verið í burtu í klukkutíma - hafði gleymt að taka passann minn en hann er nauðsynlegur svo við útlendingar getum keypt lestarmiða með svokölluðu "tourist quota" en það eru frátekinn sæti fyrir ferðamenn og svo eru til allskyns svona "quotar" fyrir t.d. diplomata, námsmenn ofl. Ég beið hennar á kaffihúsinu Coffee Day sem er í næsta nágrenni við hótelið og bragðaði á nokkrum ágætum kaffidrykkjum og var titrandi af koffínsjokki en sá ekki eftir neinu.

Sonja hafði tafist vegna þess að eins og áður var enginn tuk-tuk stjóri að sinna þeim sem borguðu fyrir leigubílinn í opinbera kofanum - menn vilja ekki keyra fyrir sanngjarnt verð. Á endanum kvartaði einn Indverjinn sem var að bíða í lögregluþjón sem stóð þarna rétt hjá og hann gekk með fólkið í halarófu á milli mótorbílana og skipaði súrum leigubílastjórunum að keyra fyrir gjaldið sem þau voru búin að greiða.

Sonja hafði keypt lestarmiða til Agra, heimaborgar Taj Mahal, um kvöldið og var brottför klukkan 17:30 stundvíslega ... mjög stundvíslega eins og við myndum komast að síðar.
Þar sem við erum ekki mikið að stressa okkur á hlutunum þá vorum við ekki komin með hótelherbergi í Agra, ætluðum að reyna að panta herbergi rétt áður en við færum á lestarstöðina. Þar sem við yrðum aðeins eina nótt í Agra og kæmum aftur til Delí kvöldið eftir, sem yrði síðasta kvöldið okkar á Indlandi, þurftum við líka að redda gistingu í Delí. Hótelin okkar voru bæði full en sögðu ágætis líkur að eitthvað myndi losna daginn eftir því afpantanir eru algengar. Dýrara hótelið lofaði reyndar að hringja í okkur um morguninn og staðfesta að þeir ættu herbergi en þeir gerðu það aldrei ... við ákváðum því að sjá bara til með herbergið í Deli til dagsins eftir.

Við ætluðum að nýta þennan síðasta dag í Delí til að kíkja í búðir í leit að nauðsynjavörum - stórt indverskt málverk og lítið kasmír teppi undir nýja sófaborðið okkar. Hvorugt fundum við enda Delí erfið fyrir fólk sem þekkir hana ekki vel. Borgin er mjög dreifð og erfitt að átta sig á því hvar best er að kaupa svona vörur. Það mætti líkja borginni mikið við Reykjavik því það þarf að þjóta að milli borgarhluta til að finna það sem maður leitar að - ekki skipulag að mínu skapi.

Þegar við gengum í átt að fyrsta viðkomustað okkar, ríkisbúðir skammt frá voru tveir piltar á vegi okkar aðeins of ákafir að hjálpa okkur þó við bönduðum þeim frá okkur og vildum ekkert með þá hafa. Annar var í gallafötum og með rauðar strípur í svörtu hárinu - hinn í rauðri skyrtu við gallabuxur, báðir voru í kringum 25 ára. Annar spurði í sífellu af hverju ég væri svona reiður þegar ég skipaði honum með morðglampa í augum að láta okkur vera en svona gaurar vinna við það að plata fólk inn í búðir, ljúga því iðulega að þetta séu ríkisbúðir með besta verðið. Túristinn endar á því að borga hærra verð fyrir vöruna til að dekka greiðslur til þessara götusvindlara. Þvílíkt og önnur eins vinna - gera ekkert annað en að plata ferðamenn, eru ekki að gera neitt gagn og fara í flokk hjá mér langt undir betlurum sem eru a.m.k. ekki að reyna að plata fólk, a.m.k. flestir þeirra. En það getur verið mjög auðvelt að glepjast sérstaklega þar sem að einkabúðirnar nota orðið EMPORIUM mjög gjarnan í nafnið á sinni búð en það orð ætti að gefa til kynna að um ríkisbúð er að ræða.

Við gengum í um klukkutíma og allstaðar eltu þeir okkur, voru um 50 metrum frá okkur og þegar ég leit við þá þóttust þeir bara vera að dóla sér, tala saman, bíða eftir strætó í skýli eða kaupa sígarettur. Spurning hvort CIA ætti ekki bara að ráða svona indverska götuplatara sem njósnara. Annar sagði okkur að hann væri bara að hjálpa okkur, væri á leiðinni í skólann sinn sem væri skammt frá. Skrítið að ganga í hringi til að fara í skólann. Svona gaurar pirra mig óstjórnlega því þeir hlusta ekkert á mann þegar maður nánast öskrar á þá að fara í burtu - í fyrsta skipti á ævinni var ég að spá í að nota líkamlegt ofbeldi, taka annan þeirra upp á skyrtumálinu þannig að hann myndi hanga í hálfs meter hæð og henda honum nokkra metra frá mér svo hann dytti á bakið á jörðina með skelfingarsvip og sæi þennan ómennska mann fyrir framan sig öskra eins og djöfullinn: "Láttu okkur í friði." Ég hætti við þetta útpælda og vel skipulagða plan mitt og slapp þrjóturinn því við barsmíðar. En það er til merkis um hversu pirrandi þeir voru að meira að segja Sonja hvæsti á annan að lokum.

Þessir gaurar gáfust á endanum upp enda gengum við stefnulaust út um allt í leit að þessari búð, vissum í raun ekkert hvar við vorum eða hvar þessi búð var enda vorum við bæði að reyna að finna hana og hrista þessa svindlara af okkur. Við vissum á hvaða götu ríkisbúðin átti að vera og höfðum spurt tvisvar til að vera viss um að við værum á þeirri götu - við vorum tveim götum lengra! Við gerðum þau reginmistök að spyrja:
"Is this the Bagar Khak Sing Road?" og fengum svarið já auk þess sem strákpjattarnir tönngluðust á þetta væri þessi gata. En maður á aldrei að spyrja Indverja spurningar sem hann getur svarað með já/nei ekki nauðsyn krefji og allt annað hefur brugðist, þeir segja bara já!

Við kíktum inn í aðra búð og spurðum þar um teppi.

"Góðan daginn, við erum að leita að mjög ákveðnu Kasmír teppi úr silki. Það þarf að vera 1,6m á lengd, vera með ferköntuðu munstri og vera ljósgrátt eða ljósbrúnt að lit. Við höfum ekki mikinn tíma - eigið þið svona teppi?" sagði ég pirraður því götusvindlararnir voru farnir að fara í skapið á mér en ég er mjög lengi að vera pirraður á svona hlutum og auk þess er algjör vitleysa að láta þetta fara í taugarnar á sér því svona ganga hlutirnir bara fyrir sig á Indlandi.
"Já, fáið ykkur sæti." sagði ungur, slánalegur afgreiðslumaður og fór að róta í teppaúrvali sínu.
"Nei, ég ætla að standa, við höfum bara 2-3 mínútur, erum á hraðferð."

Hann dró fram teppi sem var í mesta lagi 50cm, einn þriðji af stærðinni sem ég hafði beðið um, var með einn stóran hring sem munstur, langt frá ferkantaða munstrinu sem ég hafði beðið um og var dökkrautt á litinn. Ég endurtók aftur enn pirraðri í röddinni hvað ég hafði beðið um og hann tók teppið í burtu, talaði samt fína ensku þannig að hann hefði átt að skilja óskir mínar hefði hann hlustað.
Hann dró næst fram teppi af sömu stærð, með sama munstri en blátt.

"Veistu ekki hvað 1,6 metrar eru langir?" spurði ég orðin verulega pirraður en passaði mig á að vera ekki dónalegur.
"Jú en fyrst finnum við stærðina sem þú vilt." sagði hann og dróg fram málband og skoðaði það vel - hefur sennilega verið að sjá hvað þetta yrðu mörg fet.

Næsta teppi sem hann dróg fram var í þeirri stærðargráðu sem við vorum að leita að en ennþá með kolrangt munstur og lit.

"Takk, fyrir - við þurfum að drífa okkur." sagði ég og við gengum út.

Við gáfumst upp á þessu hverfi, tókum Tuk-tuk í teppabúð á öðrum stað í borginni sem við höfðum séð auglýsingu um í bæklingi. Þetta reyndist íbúðahverfi og ein lítil búð var falin á milli íbúðahúsa. Þar var stórt járnhlið og vörðurinn harðneitaði að hleypa okkur inn en hljóp sjálfur og dró með sér út frekar súran gamlan kall sem talaði enga ensku en okkur skildist að það væri lokað. Við vorum að fara að næstu búð þegar út kom stökkvandi frekar ógeðsleg kelling sem hefði átt stórleik sem vonda stjúpmóðirin í einhverri barnamynd - við rétt kíktum innfyrir og sögðumst ætla að skoða annað og gengum með hana á eftir okkur um 100 metra. Við tókum hjólavagn í aðra búð í sama hverfi, reyndist búðin vera kjallari í blokk sem hafði sennilegast átt að notast sem hjólagyemsla og geymslur fyrir íbúana en hafði verið breytt í teppalager. Þar var mesta úrval sem við höfum séð af teppum - hann hlustaði á útskýringar okkar og tók fram tvö glæsileg teppi sem pössuðu vel við óskir okkar. Annað teppið, 900 hnúta silkiteppi af fallegustu gerð var á sæmilegu verði - náðum að kreista verðið niður úr 45 þúsund rúbínum niður í 36 rúbínur sem er ekkert voðalega mikið fyrir svona teppi.
Við stóðum hugsandi um það hvort við ættum að kaupa það á meðan starfsmennirnir byrjuðu að pakka því inn og eigandinn að skrifa nótu fyrir teppinu þó við hefðum ekki verið búin að segja já. Sonja fékk það snjallræði að spyrja hvort við gætum tekið teppið út til að sjá það í dagsljós. Hann fór með okkur inn í annað herbergi með betri birtu og sýndi okkur það þar en við vildum fá að sjá það í dagsbirtu. Hann kveikti þá á gulari ljósum en við vildum út svo hann drattaðist fram á gang með teppið. Okkur tókst að lokum að draga salann, teppið og aðstoðarmann út en þegar út var komið voru þeir eitthvað tregir að fara með það út undan skyggninu sem var fyrir ofan dyrnar. Það hafðist að komast í almennilega dagsbirtu og sá Sonja stóran gulan blett á teppinu, eins og einhverju hafði verið hellt á það. Eigandinn gaf ekki mikið fyrir blettinn, sagði fyrst að þetta væri bara brot í teppinu sem mundi jafna sig (teppið hafði verið upprúllað) en að lokum viðurkenndi hann blettinn og sagði að það væri hægt að þrífa hann og ekkert meir - reyndi ekkert að sýna fram á það. Við ákváðum því að hætta við öll kaup hjá honum því hvað hann var tregur til að sýna teppið í dagsbirtu fannst okkur sýna að hann vissi um blettinn helvískur.


Í tuk-tuk.

Klukkan var orðin margt og við höfðum ekkert borðað nema morgunmat en kaffið hélt mér gangandi. Við stukkum inn á skyndibitastað skammt frá hótelinu, tókum með okkur mat þaðan og hlupum á hótelið til að ná í þann litla farangur sem við ætluðum með okkur til Agra - fórum síðan inn í Tuk-tuk á lestarstöðina.

Það var ekki nema hálftími þangað til lestin færi þegar við lögðum af stað frá hótelinu og venjulega tekur ekki nema 10 mínútur á lestarstöðina. Það hvað við vorum sein var nú ekki útpælt hjá okkur og við hugsuðum ekkert út í það að við vorum að fara um eftirmiðdaginn þegar umferðin er sem mest. Við lentum líka í gríðarlegri traffík, allt sat stopp svo langt sem augað eygði og lítil hreyfing á nokkrum hlut. Allt í kring voru óþolinmóðir Indverjar að flauta farartækjum sínum þó að allt væri stopp. Hægt þokaðist þó umferðin en við vorum farin að vera ískyggilega sein en furðu lítið stressuð - annaðhvort myndum við ná þessu eða ekki, þetta var ekki í okkar höndum heldur Shiva, Brahma, Vishnu og allra þessara guða sem ráða ríkjum á þessu svæði.

Það greiddist úr teppunni á endanum og við renndum upp að lestarstöðinni 4 mínútum fyrir brottfaratíma. Við hlupum inn á lestarstöðina ... pallur 5, sá sem er lengst í burtu. Við hlupum út pall 1 upp tröppurnar og yfir sporin út að palli 5 þar sem lestin okkar beið óþolinmóð. Okkar vagn var númer C1 sem er yfirleitt besti vagninn í svona lestum og fremst í þeim. Lestin var fáránlega löng og við á röngum enda hennar og þurftum að hlaupa út á enda sveitt í hitanum. Þegar þangað var komið var okkar vagn hvergi sjáanlegur, við hlupum því til baka í sömu andrá og lestin fór af stað - vagninn okkar fór framhjá stuttu síðar, hafði verið 5. vagn frá endanum. Við stukkum upp í vagninn á ferð og rétt sluppum - hefði ekki mátt muna nema örfáum sekúndum og hefði reynst erfitt stökk með allan okkar hefðbundna farangur.

Vagninn var í "pödduklassa", gríðarleg hlandlykt í vagninum, mikill óþrifnaður, matarleifar á gólfunum og sætin skítug. Það var heldur ekki neinar innstungur eins og okkur hafði verið lofað. Barn nokkrum sætum fyrir aftan okkur öskraði frekjuöskri alla leiðina sem tók 5 og hálfan tíma en ekki 2 tíma eins og flestir lestir á sömu leið. Semsagt gríðarleg vonbrigði en eitthvað sem við urðum bara að sætta okkur við. Við höfðum áður tekið þennan klasssa sem kallast "CC" (chair class) og hefur ávallt farið vel um okkur en þarna en Sonja hefur endurnefnt þetta farrými sem "Cockroach class".

Eins og oft áður sat fólk í sætunum okkar þegar við komum inn og vildi sjá miðann okkar sem það skoðaði gaumgæfilega ásamt því að spyrja fólk á sætunum við hliðina á hvort það gæti verið að við ættum þessi sæti. Á endanum færði það sig.

Það voru tveir karlmenn í borgaralegum fötum með stóra riffla á öxlunum fremst í vagninum - sennilega verðir frekar en hryðjuverkamenn og við höfðum það alltaf í bakhöndinni að siga þeim á fólkið.


Sonja steinsofandi en ég áhyggjufullur um að kakkalakkar skríði upp skálmarnar hennar.

Ég endurtek einu sinni enn að þó að það séu margir neikvæðir hlutir sem maður segir frá í ferðum okkar um Indland þá erum Indverjar í langflestum tilfellum skemmtilegt, hjálpsamt og gott fólk ... það er bara ekkert gaman endalaust að segja frá englum. Ég þekki líka lesendur ferðasögunar og veit að það vill skít og ekkert annað. :-)

Í lok ferðar þegar við fórum að taka saman dótið okkar sáum við fjóra kakkalakka allt í kringum okkur og því stökk Sonja á fætur og yfir 3 sæti, hún stóð síðustu 15 mínúturnar - heppin að hafa ekki séð þessi meinlætisdýr fyrr, þá hefði þetta orðið henni erfiðari ferð.

Fyrirframgreiddi tuk-tuk kofinn í Agra var ótraustverðugur en við gátum ekkert betra gert en að nota hann þó að leigubíllinn væri helmingi dýrari en okkur hafði verið sagt að hann ætti að kosta. Þeir voru með töflu uppi á vegg um verð á nokkra áfangastaði þannig að það var erfitt að rengja verðið þó að við gerðum einhverjar máttlausar tilraunir í þá átt.

Klukkan var að nálgast miðnætti þegar við þutum eftir dimmum og líflausum götum Agra í átt að hótelinu okkar, Hotel Host. Við keyrðum á endanum í mjög vafasamt hverfi með einhverju útigangsfólki og á skrítnum stað stoppaði leigubílstjórinn og fór út. Við sátum eftir, vantrúuð á að við værum komin á áfangastað - vonuðum það eiginlega bæði að hann væri ekki kominn.

"Komið, þetta er hérna inn í götunni!" sagði hann og gekk inn dimma ljóta götu. Við tókum töskur okkar og eltum hann inn götuna - hann gekk um 200 metra og benti upp á ljótt skilti á ennþá ljótara húsi:

"Hotel Host!".

Við gengum inn og ljótur maður í kringum 35 ára tók brosandi á móti okkur með sínar kolsvörtu tennur með rauðri drullu á milli. Þetta var greinilega rétt hótel því hann hafði nöfnin okkar, það var ákveðinn léttir.

Hann sýndi okkur alveg hræðilegt, já alveg skelfilegt, herbergi sem var alveg gluggalaust og ætla ég ekki að lýsa því frekar. Við sögðumst hafa beðið um gluggaherbergi og hann sýndi okkur þá aðeins dýrara herbergi sem var lítið skárra en við gátum ekki annað en tekið það því við vorum seint á ferðinni og önnur hótel sem við höfðum hringt í voru upptekin. Þetta ætti að kenna manni að panta ekki hótel úr lestinni þegar maður er á leið á áfangastað.

"Viltu sígarettur?" spurði hann og brosti aftur út á eyrum svo ég sæi örugglega hverja einustu tönn og allan rauðleita skítinn á milli þeirra - andfýlan var líka áhugaverð.
"Nei takk." takk sagði ég og brosti kurteislega.
"Viskí, bjór, eitthvað að reykja?" sagði hann og brosti aftur eins og falskur sölumaður.
"Kannski einn bjór." sagði ég til að losna við hann sem fyrst.

Sonja kom upp stuttu síðar eftir að hafa fyllt út staðlaða pappíra sem maður þarf að gera á öllum hótelum ... hún bar sig vel en ég held að hún hafi fengið sjokk eins og ég yfir herberginu.

Herbergið lyktaði af hlandlykt enda hafði klósettið örugglega ekki verið þrifið á þessari öld. Gólfið var skítugt, málningarklessur út um allt og blautir blettir á stöku stað sem höfðu líklegast borist út úr klósettinu. Veggirnir sem voru hvítmálaðir voru mjög drullugir og út um allt blóðblettir eftir fjöldamorð á feitum moskítóflugum sem aðrir óheppnir gestir höfðu klesst á veggi og loft. Beddinn var stuttur þannig að lappirnar á okkur stóðu svona 20-30 cm útúr og með þunnri dýnu sem hafði afar óhrein sængurföt, fullt af blóðblettum eftir moskítóflugur og fullt af öðrum vafasamari blettum sem við rýndum ekki frekar í. Koddinn var kapítuli útaf fyrir sig, blóðblettir ásamt stórum slefblettum svo ógeðslegur að ég hefði hugsað mig tvisvar um að ganga á honum á skítugum skóm, hvað þá sofa á honum með silkimjúkri og viðkvæmri húð minni. Þetta eru þó varla sængurföt sem fylgja svona ódýrum hótelum (c.a. 150-500 RS) heldur bara lak, koddaver og svo skítug ullarteppi. Eina sem var þarna til að hafa ofaná okkur var þykkt og skítugt ullarteppi sem angaði af óþrifnaði - yfirleitt biðjum við um aukalak til að hafa á milli okkar og teppis, finnst það hreinlegra. Í þetta skiptið báðum við ekki um það því það skipti svo litlu máli upp á allt annað, versta var að við vorum ekki með svefnpokana okkar til að skríða ofan í.
Annað í herberginu var í svipuðu ástandi en mér til mikillar gleði var sjónvarp - ég gæti kíkt á leik um nóttina því ég sef yfirleitt illa á svona lélegum rúmum enda ákaflega viðkvæmur maður.


Sonju líst ekki par vel á herbergið.


Klæðið á stólnum virkilega subbulegt.


Smá dæmi um flugubletti á veggjunum.


Klósettið angaði hræðilega og var verulega skítugt - svona voru fæturnir alla nóttina.

Ég tók upp fjarstýringuna, ætlaði að leita að ESPN sem sýnir enska boltann og ýtti á takkan til að fara upp um rás sem ég nota alltaf til að kveikja á sjónvörpum. Ekkert gerðist. Ég prófaði þá að ýta á rásarnúmerin en sjónvarpið var alveg dautt. Ég prófaði þá að ýta á rás upp og niður á sjónvarpinu sjálfu en sjónvarpið var steindautt. Ég kallaði á hr. Rauðtanna sem kom hlaupandi upp og tók fjarstýringuna úr höndum mínum og kveikti á sjónvarpinu án nokkurra vandkvæða.

"Ok, glæsilegt - hvernig kveiktir þú?"
"Þessi takki er til að kveikja og slökkva." sagði hann og benti á Power takkann sem mér hafði yfirsést, auðvitað hefði ég átt að prófa hann hugsaði ég með mér.
"Ok." sagði ég.

Hann slökkti á sjónvarpinu og kveikti aftur til að sýna mér virkni Power takkans og ég þakkaði fyrir mig.

"Þessi takki er til að hækka og lækka hljóðið." sagði hann og benti á Volume takkana eins og ég hefði aldrei séð sjónvarp áður. Hann hækkaði og lækkaði til að sýna mér.
"Ok, sniðugt." sagði ég til að vera ekki dónalegur við hjálpsaman manninn.
"Og þessir takkar skipta um stöðvar." sagði hann og sýndi P-upp og P-niður ásamt flesta númeratakkana og ég fylgdist hugsandi með sýnikennslunni.
"Ok, takk fyrir þetta." sagði ég og prófaði allar þessar aðgerðir til að honum myndi líða betur því hann gerði þetta allt af góðum huga. Hann vissi greinilega ekki að ég kem frá íslandi, mestu sjónvarpsþjóð í heimi og þó víðar væri leitað.

Ég horfði á leikinn sem byrjaði kl. 1 um nóttina í hræðilegum gæðum, gat ekki greint leikmennina í sundur og heyrði ekkert - það þýðir ekki að kenna bjórnum um þó hann hafi verið 8% af Kingfisher gerð því ég drakk bara einn.

Herbergið var virkilega kalt um nóttina og mikill raki þannig að ógeðsleg dýnan undir okkur varð rakari sem leið á nóttina. Það var ljóst að ég myndi ekki sofna auðveldlega þegar leikurinn var búinn, var auk þess farinn að hósta heiftarlega, tók því svefntöflu og svaf eins og ungabarn við þessar aðstæður. Sonja á auðveldara með svefn í óþægilegri rúmum og átti ekki svo erfitt með svefn um nóttina eftir að við höfðum sameinast undir teppunum til að nýta líkamshitann betur.

Þetta var klárlega versta herbergi ferðarinnar og nokkuð svekkelsi því Lonely Planet hafði skrifað að eigendur hótelsins hefðu lagt sig fram um að gera sitt besta fyrir þetta verð en þar sem við mættum seint og myndum fara snemma var þetta þolanlegt ... rétt þolanlegt.

Engin ummæli: