mánudagur, desember 10, 2007

86. Hótelskipti

Við stóðum fjögur úti fyrir utan hótelið um morguninn og horfðum upp í himininn sem lét ófriðlega, þrumur heyrðust í fjarska og stöku elding lýsti upp nágrennið.

"Er algengt að það rigni á þessum árstíma?" spurði Sonja hótelstjórann og var hún nokkuð hissa.
"Nei, aldrei - rignir stundum í janúar en annars aldrei." svaraði hótelstjórinn hissa þar sem hann starði upp í himininn.

Hann hafði bankað á herbergið okkar kl. 4.15 en við höfðum sammælst um að koma út kl. 4.30 en þá myndi leigubíllinn vera fyrir utan. Við ætluðum að vakna kl. 4 en sváfum eitthvað yfir okkur og því ágætt að hann vakti okkur. Það tók okkur smá tíma að pakka síðasta dótinu og ganga frá og því lögðum við af stað til Kota seinna en við gerðum ráð fyrir og lestin okkar til Delí átti að fara kl. 6. Bílferðin gekk hægt fyrir sig með stöku ofsaakstri þegar gatan var auð en flestir virtust eiga í erfiðleikum með þessa óvæntu rigningu. Þegar við mættum loks á lestarstöðina eftir rúmlega klukkutíma ferð voru aðeins 10 mínútur í brottför og þurftum við því að hlaupa til að ná lestinni sem tókst.

Lokastoppið í lestinni var í Deli en á annarri lestarstöð en við vorum vön, töluvert minni en aðalstöðin sem við þekkjum nánast eins og handabakið á okkur. Það var eins og yfirleitt fullt af tuk-tuk fyrir utan en fáir sem vildu sinna keyrslu fyrir prepaid þjónustuna. Við biðum í góðan tíma fyrir utan kofann með nokkrum óþolinmóðum Indverjum sem voru í sama tilgangi en Indverjar nota mjög mikið þessa fyrirgramgreiddu þjónustu. Maðurinn í kofanum endaði á því að segja okkur að við yrðum bara að leita annað þegar hjálpsamur maður sem var með honum í kofanum sagði að hann myndi keyra - við borguðum og fórum í tuk-tuk með þessum vinalega gráhærða manni sem talaði eiginlega enga ensku.

Hann keyrði okkur á áfangastað án þess að nefna aðra staði á nafn eða reyna að senda okkur í búðir - greinilega óvanur eða það vanur að hann nennir þessari vitleysu ekki lengur.

Hotel 55 var það eina sem við náðum að panta við Connaught Place, nýlegan miðbæinn í Deli þar sem við gistum oftast. Við höfðum hringt á hótel daginn áður því plönin voru lengi að taka á sig mynd hjá okkur en ekki fengið nein sem höfðu þráðlaust net nema eitt - Hotel 55 sem sögðu: "Yes, you can use the internet in your room.".

Hótelið leit illa út enda um helmingi ódýrara en það sem við vorum vön í borginni en það var í lagi svo framanlega sem netið myndi virka en við þurftum nauðsynlega að vinna aðeins í tölvunni. Auk þess sem það er hreinlega ekki mjög mikið um netkaffi á þessu svæði í Delí. Eftir að við höfðum borið allan farangur upp prófaði ég netið áður en við héldum út í búðarráp. Tölvan fann ekkert net og var mér hætt að litast á blikuna. Ég fór niður og spurði og þeir sögðu: "Use the telephone line!", semsagt netið á hótelinu var ekki alveg það sem við bjuggumst við. Ég spurði þá hvernig ég myndi tengjast en þegar maður notar símalínu þarf maður símanúmer, notendaheiti og lykilorð til að tengjast netinu. Eldri maður kom upp með mér og ég settist niður með bakið í hurðina, stakk símalínunni í tölvuna og beið frekari fyrirmæla. Hann sagði ekkert og leit ég við og var hann þá farinn út úr herberginu og búinn að loka hljóðlega á eftir sér. Ég fór aftur niður og sagði að ég þyrfti frekari upplýsingar til að tengjast og kom hann aftur upp til að skoða málið. Ég sýndi hvernig tölvan bað um símanúmer og virtist hann koma alveg af fjöllum - "Prófaðu 5677-eitthvað eða að nota símanúmerið mitt." sagði hann og þá vissi ég að þetta væri tapað - setti það samt inn til að sýna honum að þetta virkaði ekki. Hann stóð þögull þegar honum varð ljóst að þetta var ekki að gera sig, tók eitt skref afturábak, síðan annað, eitt í viðbót og hvarf síðan orðalaust. Eftir sat ég í engu sambandi við umheiminn, svikinn og sár með gagnslausa símalínu í hendinni.

Við biðum í smá tíma í herberginu eftir því að hann kæmi kannski upp aftur uppfullur af upplýsingum sem nægja myndu til að tengja okkur. Enginn kom. Við prófuðum að nota símalínuna í eitthvað gagnlegt með að hringja á annað hótel sem hafði ekki svarað daginn áður, það svaraði núna en allt var upppantað. Okkur datt þá snjallræði í hug að prófa aftur hótelið sem við gistum alltaf á í Delí og okkur til mikillar furðu og ánægju var laust herbergi, hafði losnað nokkrum mínútum áður.

Við settum á okkur bakpokana og gengum út úr herberginu og kvöddum mennina niðri sem tóku þessu furðuvel - skildu greinilega að við þurftum að nota netið enda höfðum við spurt um það og þeir gátu ekki staðið við orð sín.

Hitt hótelið var í göngufjarlægð og gengum við ánægð á það, sloppin úr þessu vonda hóteli.

Það sem eftir lifði dags gengum við um hverfið - stóðum undir nafni með því að kíkja í nokkrar túristabúðir.

Engin ummæli: