sunnudagur, desember 09, 2007

85. Hræðilegur morgunverður - frábær kvöldmatur

Við ætluðum að fá okkur snöggan og einfaldan morgunverð svo við hefðum meiri tíma í Bundi þennan síðasta dag okkar þar ... hann var hvorki snöggur né einfaldur.

Þar sem við bjuggumst við að á fína hótelinu fengjum við svona sæmilegan morgunverð og góða þjónustu ákváðum við að borða þar enda er hann í næsta nágrenni við hótelið okkar.
Afgreiðslustrákurinn, mjóvaxinn strákur rúmlega tvítugur virðist ekki reyna mikið að standa sig í starfi, allavega sýnir hann þess engin merki. Við pöntuðum hjá honum ommelettu (Sonja), ristabrauð (ég), kornflex með mjólk (Sonja), ásamt 2 glösum af appelsínusafa. Við þuldum þetta upp og bentum á viðkomandi atriði á listanum og hann horfði tómum augum á það sem við vildum fá og gekk síðan í burtu. Við vorum viss um að þetta færi eitthvað á mis enda talar hann nánast enga ensku, sem er skrítið á svona dýru hóteli sem nánast allir gestir eru erlendir ferðamenn og auk þess voru ekki mikil merki um að hann væri að skilja það sem við pöntuðum.
Um tuttugu mínútum síðar komu appelsínudrykkirnir - sá sem er greinilega yfirþjónn en gerir ekki neitt annað en að standa í útidyrunum kom og skammaði hann fyrir ónákvæma pöntun, hann hafði greinileg bara náð söfunum en jánkað hinu frekar en að reyna að fá nánari útskýringar.
Við þurftum því að panta aftur og sá eldri stóð hjá og hlustaði en hristi hausinn og fór aftur í dyrnar.
Ommelettan kom næst og var sett fyrir framan mig - ég ýtti henni til Sonju og sagði að ég hafði pantað brauð. Hann kom alveg að fjöllum þó að ég hefði pantað brauðið tvisvar. Hann fór eitthvað fram og kom aftur með þvottastrákinn, góðlegan drullugan strák sem ætti sennilegast að vera þjónn frekar en að vera í skítverkunum. Hann kunni betri ensku og þýddi það sem við sögðum: "Ristaðbrauð með sultu og kornflex með kaldri mjólk".
Um 10 mínútum síðar kom ristaða brauðið en engin sulta. Hann vissi ekki hvað jam var þó að það sé alltaf á morgunverðarborðum Indverja þangað til ég nánast rauk upp, þreif matseðilinn og benti á jam í "Roast bread with Jam". Það náðist loks í gegn og ég fékk sultuna sem var kærkomin þó að brauðið væri fyrir löngu orðið kalt.
Kornflexið kom stuttu síðar í djúpum disk með gafli en engin mjólk. Við reyndum að útskýra að við vildum mjólk með kornflexinu eins og stóð á matseðlinum "Cornflakes with milk" og það kalda. Hann kinkaði eitthvað kollinn og fór síðan hinum megin í salinn og helti sér yfir aumingjans hreinsistrákinn sem lá á gólfinu með tuskuna sína. Þegar hann var búinn að standa þar í tvær mínútur, passaði sig samt að vera bakvið stóra súlu var mér nóg boðið - kallaði yfir salinn "HELLO, COLD MILK!". Hann fór lúpulegur inn í eldhúsið aftur.

5 mínútum síðar kom heit mjólk í könnu ásamt bolla til að drekka mjólkina úr ...

Okkur tókst að fá kalda mjólk á endanum og skeið sem við þurftum að biðja þrisvar um, en þessi stutti einfaldi morgunverður varð allt annað en einfaldur - einfaldleikinn varð að pirringi yfir að vera að borga 4x hærra verð þarna en á öðrum stöðum fyrir svona lélega þjónustu. Við gáfum afgreiðslustráknum ekkert þjórfé en gáfum hreinsistráknum gott þjórfé fyrir hjálpina.


Sonja með kornflex og gaffal en enga mjólk.


Karlmenn á leiðinni frá hótelinu.

Sonja keypti lestarmiða til Delí en við höfðum breytt ferðaplaninu á ákváðum að reyna komast allavega til Delí og í versta falli bara dagsferð til Agra en það er mjög einfalt að komast á mili Delí og Agra.


Ungur drengur stendur fyrir utan heimili sitt.

Við grænmetismarkaðinn er stórskrítið mannvirki - manngerður brunnur sem nær tugi metra niður í jörðina með tröppum í hliðunum. Borgin er fræg fyrir þessa brunna sem eru út um alla borg og voru byggðir fyrir um 300 árum síðan. Núna eru þeir í niðurníslu eins og flest annað og ekkert á botninum annað grænt botnfylli af vatni og rusli. Maður fer að velta því fyrir sér af hverju allt er í niðurníslu á þessum síðustu og verstu tímum - á sínum tíma hefur þetta blómstrað, menn byggt stórkostleg mannvirki en í dag gera menn ekkert annað en að liggja í skítnum eins og svín þegar fólksmergð er næg til að halda a.m.k. merkilegustu mannvirkjum í skikkanlegu ástandi.


Brunnurinn ógnardjúpi.


Þessum var betur við haldið.

Ég gekk hringinn í kringum brunninn en Sonja varð eftir enda á tali við skartgripafólk, hafði áhuga á glingrinu. Við höfðum sammælst um að hittast aftur hjá skartgripafólkinu þegar ég kæmi til baka en á leiðinni báðu þrír eldri menn mig að setjast hjá þeim þar sem þeir sátu og seldu grænmeti við brunninn. Sá frakkasti þeirra, stórskrítinn og skemmtilegur karl sýndi mér lítið myndaalbúm með myndum af þeim með erlendu fólki sem hafði tekið myndir af þeim og sent þeim í pósti. Einnig hafði hann umslög frá fólki frá öllum heimshornum.

"This is a foreigner!" sagði hann við hverja mynd og benti á vestræna fólkið sem sat hjá þeim. Þeir voru alltaf þrír á öllum myndum, tveir af þeim höfðu sig ekki mikið frammi, fylgdust með og hlustuðu.

"Very nice! Very nice! Thank you!" hrópaði hann uppyfir sig af einskærri ánægju öðru hverju og ef ég ætti að nefna eina persónu sem hann minnir mig á þá er það Borat.

Ég tók myndir af þeim og hann tók á mína vél mynd af mér sitjandi með þessum tveim vinum sínum sem ég ætla að senda þeim þegar ég kem heim. Hann gekk með mig yfir götuna og fékk þar lykil af konu sem virtist vera betlari og sýndi mér annan brunn sem var í betra ásigkomulagi en sá fyrri en þó með töluverðu sorpi á botninum.
Hann gaf mér rós þegar ég kvaddi.


Menn við vinnu rétt við grænmetismarkaðinn.


Kíkt í blöðin.


Félagarnir þrír sem ég settist hjá.

Sonja var reyndar í vægu sjokki því ég hafði ekki skilað mér til baka - hún hafði staðið og horft ofaní brunninn hvort ég væri þar einhverstaðar á botninum og var ekki langt frá því að verða virkilega áhyggjufull. Hún reyndar skildi að ég gat eiginlega ekki hlaupið frá þessum félögum án þess að vera dónalegur - ég skilaði mér á endanum.


Sonja keypti sér armband sem hér er verið að hita svo hægt væri að móta það að hönd Sonju.


Armbandssölufólki.


Flottir skeggjaðir menn.


Slappað af á vagni ... þessir vagnar eru til margra hluta nytsamlegir og voru t.d. notaðir sem leigubílar á Phuskar hátíðinni.


Grænmetissölufólk.


Konur hjá markaðnum.

Við skoðuðum frægasta brunninn sem er þarna rétt hjá en af algjörri tilviljun. Skólastúlkur sem höfðu gefið sig á tal við okkur sögðu: "Come!" og gengu í einhverja átt, og við fylgdum eftir. Indverjar segja manni yfirleitt ekkert hvert það vill að maður fari - borgar sig bara að elta og sjá hvert það leiðir mann. Við sáum þennan stóra og fallega brunn bara útaf stúlkunum og því ansi heppin.
Við snæddum epli, slöppuðum af í vel hirtum garðinum í kringum þennan brunn og horfðum á íkorna allt í kring á leik - þeir borðuðu m.a.s. úr hönd indversks manns sem var þarna að borða indverskan mat - fúlsuðu við eplunum okkar, borða sennilega bara sterkt.


Þekktasti brunnurinn og líklegast sá eini sem er haldið við að einhverju ráði þó að hann innihaldi hundruðir leðurblakna.

Fyrir utan hittum við strák með bros eins og kvikmyndaleikari sem var að bíða á ljósum við götuna. Hann spurði okkur hvort við hefðum íslenska mynt þegar hann heyrði hvaðan við værum - þegar við heyrðum hvað hann hefði mikið vit á t.d. skandinavískri mynt sáum við að hann var ekki að snapa peninga heldur hafði virkilegan áhuga á þessu. Hann var t.d. sérlega hrifinn af dönsku krónunni því hún er með gati. Við lofuðum því að senda honum íslenska minnt að heiman - hann var svo ánægður að hann gaf okkur þrjár Indverskar minntir frá fyrri hluta síðustu aldar, aðeins verðmætari gjöf en það sem við ætluðum að gefa honum - finnum kannski gamla íslenska minnt og sendum honum.


Íkorni borðar mat sem hent hefur verið að honum.


Íkorni fær sér indverskan hádegisverð - Myntsafnarinn.


Geitur, svín og hundar ganga frjáls um markaðinn en allir sölumenn eru með prik til að lemja þau frá girnilegu grænmetinu.


Markaðskonur.


Þessi er með sinn bás við risavaxið trés.

Þessar tvær ristabrauðsneiðar í morgunmat og eitt epli var það eina sem ég hafði borðað þennan daginn og klukkan var að verða 16 - batteríin kláruðust því allt í einu hjá mér, var alveg búinn á því sem gerist ekki oft, get yfirleitt gengið lengi án þess að fá kraft. Við vorum stödd á grænmetismarkaðnum og Sonja í þvílíku myndatökustuðu að annað eins hefur ekki sést enda skiluðu sér margar glæsilegar myndir í hús. Ég ákvað því að fara upp á hótel og Sonja að vera eftir með báðar myndavélar og halda áfram.

Sonja naut sín á á markaðnum við myndatökur og spjall við fólkið. Einn kartöflusalinn bauð henni te sem hún þáði og settist hjá honum. Kúnnarnir störðu á hann og Sonju til skiptist þegar þeir komu að versla hjá honum og varð hann hinn ánægðasti með það. Viðskiptin jukust mikið hjá honum í kjölfarið sagði hann Sonju hæstánægður. Sonja er með einhvern hósta þessa dagana eins og ég og þegar hún hóstaði í fyrsta skiptið hjá honum hljóp hann til á næsta bás og keypti fyrir hana minntu.


Fleiri sölukonur.


Eru þetta ekki allt karlmenn?


Menn að störfum.


Enn ein kona á markaðnum.


Hress börn.


Þessi hægra megin er ansi tannfríð, minnir helst á vampíru.


Þessi er ekkert sérstaklega ánægður á svipinn.

Indverjar stara þangað til maður brosir og þá taka þeir við sér og brosa á móti eins og þeir hafi verið í einhverju móki.

"Your quality is very good, very beautiful, very good ... I saw from far away that you are very beautifull. I can tell!" sagði ungur piltur sem Sonja gekk framhjá á leiðinni heim á hótelið þegar sólin var farin og hún orðin svöng.


Töffarar.


Kartöflusölumaðurinn hægra megin.


Fleiri töffarar, sérstaklega sá hægra megin sem er virkilega smart.


Matargerð.


Rakarinn.

Við lentum í harki við starfsmanninn þegar við vorum að gera upp herbergið en við höfðum gist þrjár nætur plús það að hafa mætt 6 um morgun og eytt 5 tímum á dýrara herberginu þangað til við skiptum eins og við höfum þegar sagt frá. Hann ætlaði að rukka okkur fyrir fjórar nætur, þær þrjár sem við höfðum gist á og eina á dýrari herberginu. Við vorum ekki alveg sátt við það því herbergið hafði veirð autt og þeir hefðu getað sagt okkur að við þyrftum að borga heilan sólarhring ef við hefðum farið inn á herbergið fyrir kl. 12 - hefðum þá alveg getað eytt smá tíma úti. Eftir nokkrar þrætur hringdi hann í eigandann sem er karlmaður á miðjum aldri, mjög ákveðinn og skarpur maður - við bjuggumst við harðri samningalotu þar sem við myndum á endanum tapa.
Hann gekk inn, spurði hvað við hefðum verið í margar nætur sem við svöruðum þrjár og bjó til reikning fyrir það. Flóknara var það ekki.


Anddyrið á hótelinu.

Daginn áður hafði Sonja hitt unga 9 ára stúlku fyrir utan veitingahúsið okkar:

"Hello, how are you?" spurði stúlkan.
"I'm good."
"What is your name?"
"My name is Sonja."
"Where are you from?"
"Iceland."
"Are you staying at this hotel?"
"Yes."
"Do you want to have dinner?"
"No, I just ate?"
"My mother is cooking, she is the best cook?"
"Ok, maybe to morrow."
"Your hotel has very bad food!"
"Ok, I haven't eaten there."
"You may not belive me but other guests have told me that the food is not good. So yes, you want to have dinner?"
"Maybe tomorrow - but you have only Indian food?"
"Yes."
"I think Indian food is too spicy."
"No, it is not to spicy. You like spicy?"
"No."
"You tell us you don't like spicy, we don't make spicy. You tell us you like spicy we make spicy."
"Maybe tomorrow."


Þessi stúlka var mjög skýr og skemmtileg, ég hitti hana sjálfur daginn áður þegar ég fór í litla verslun á horninu sem foreldrar hennar eiga og þá bauð hún mér á veitingastaðinn - ég sagði kannski á morgun eins og Sonja. Þar sem þetta var síðasta kvöldið í Bundi var tilvalið að rölta yfir á næsta hótel og borða hjá stelpunum og móður þeirra. Þar sem hótelstjórinn var enn í lítilli afgreiðslunni og hurðin inn á hitt hótelið aðeins meter frá útihurðinni á þessu hóteli kunnum við ekki við að fara inn á hitt þar sem hann myndi örugglega sjá okkur. Við skruppum því í búð neðar og biðum hann af okkur og læddumst inn á hinn staðinn. Ef hann hefði rukkað fyrir herbergið hefðum við ekki hikað við að þramma inn á hitt í allra augnsýn en hann hafði verið sanngjarn og því engin ástæða að særa hans litla hjarta.


Stúlkan.

Veitingastaðurinn á hinu hótelinu/gistihúsinu er gamalt Havali eins og flest hótel. Við gengum upp á efri hæðina þar sem eru tvö borð til að snæða á - eldri góðleg hjón frá Sviss voru á öðru borðinu en hitt stóð autt. Eigandinn, feitlaginn en þó hávaxinn og brosmildur maður tók á móti okkur og við settumst við borðið. Dætur hans, sú sem hafði sannfært okkur um að koma á veitingahúsið og eldri systir hennar sáu um að þjóna til borðs. Sú yngri var 9 ára en sú eldri 12 ára - höfðu þær virkilega gaman af að þjóna og voru líflegar og skemmtilegar - stór munur frá þjónustunni á dýra hótelinu um morguninn.

Sú yngri hafði mikinn áhuga á myndavélinni okkar og ég sýndi henni hvernig maður skoðar myndir - hún spurði sérstaklega hvernig maður eyðir myndum sem ég kenndi henni. Ég tók nokkrar myndir af henni þar sem hún hafði stillt sig upp og skoðaði hún myndirnar sjálf í vélinni á eftir. Þegar ég ætlaði sjálfur að skoða myndirnar stuttu síðar voru þær horfnar.


Hún tók þessa mynd af okkur.

"Eyddir þú myndunum sem ég tók af þér?" sagði ég hissa en samt brosandi.
"Já, hárið á mér var ekki nógu gott." sagði sú stutta.

Ég tók fleiri myndir af henni um kvöldið og bannaði henni í hvert skiptið að eyða þeim út.

Við fengum matinn okkar sem virtist ekki vera alveg það sem við pöntuðum, héldum að þetta væri kannski forréttur. Við dýfðum skeiðunum í grænmetisréttina en við höfðum fengið sitthvorn réttinn og smökkuðum á honum ... nokkuð góður.

"DONT'T EAT, DON'T EAT!" Heyrðist kallað frá ganginum og sú stutta kom í loftköstum inn til okkar. "Þetta er þeirra matur!" sagði hún skelfingu lostinn með hendurnar á höfðinu til að undirstrika skelfingu, hún benti á hjónin sem sátu á næsta borði. "Voruð þið nokkuð byrjuð að borða?" spurði hún með vonarglætu í röddinni en við gátum ekki logið því, höfðum fengið okkur tvo bita hvort.

Eldri hjónin hlógu bara að þessu, tóku réttina og borðuðu með bestu lyst þegar hún hafði skipt um skeiðar.

Þegar stúlkan kom með naan hvítlauksnaanbrauðin okkar gekk hún fyrst að fólkinu á næsta borði og skipaði þeim að þefa af þeim því þau væru svo stórkostlega góð hjá móður sinni - óhefðbundin en hressandi þjónusta.

Í lok kvölds sýndu stúlkurnar okkur skjaldböku sem faðir þeirra hafði bjargað þegar hann var lítill patti og var ekki orðin fullvaxta ennþá þrátt fyrir 35 ár - þær verða víst mjög gamlar. Hún virtist ekkert mjög sátt þegar við vorum að halda á henni en það kom okkur á óvart hversu þung hún var.


Systurnar og skjaldbakan.


Slegist um að halda á skjaldbökunni.


Móðirin í eldhúsinu.

Veitingastaðurinn var hinn skemmtilegasti - frábær þjónusta, góður matur og skemmtilegt að sitja eiginlega bara inni á heimili fólksins og borða mat hjá þeim. Frábært síðasta kvöld í skemmtilegum bæ.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

magnað. ótrúleg ferð - hvenær komið þið aftur?