sunnudagur, júlí 13, 2008

05 - Kvöld á Revíunni


Lapin Agile er einn af elstu revíuklúbbum Parísar og sennilegast einna best varðveitti. Staðurinn er staðsettur ofarlega á listamannahæðinni í Montmartre í norðurhluta Parísar. Að utan lítur klúbburinn út eins og lítið sveitakot sem passar ágætlega við þennan hluta Parísar því húsin eru mörg hver mjög vinaleg og lítil, allt öðruvísi en Hoffmann stíllinn sem einkennir stærstan hluta Parísar.

Lapin Agile er nánast alveg óbreyttur frá því Goya, Picasso og fleiri frægir listamenn stunduðu stóðlíf og drykkju innan veggja staðarins. Hann er að ég held alveg óbreyttur frá því hann var um 1870 og eru jafnvel borðin upprunaleg enda mikið útskorinn sem var veggjakrot fyrri tíma.
Veggir og loft eru dökkir af tóbaksreyk og mikilli setu sl. 150 ára og klósettið er einkar skrautlegt enda mikið búið að "krota" veggi og loft með hnífum. Árið 1904 málaði Picasso málverk sem heitir Au Lapin Agile sem gerði staðinn þekktann (málverkið er fyrsta myndin í þessari færslu). Steve Martin skrifaði síðan leikrit fyrir nokkrum árum sem heitir Picasso ath the Lapin Agile sem fjallar um þegar Picasso og Einstein hittast á staðnum og ræða snilligáfu.
Á hverju kvöldi er revíusýning á staðnum.


Lapin Agile að degi til.


Útskorið krot á klósettinu.

Við göngum inn á lítinn staðinn og fáum okkur sæti á trébekk við vegginn fjær útganginum. Við erum fyrst en reytingur af fólki kemur inn, bæði Frakkar og einhverjir ferðamenn. Í heildina voru gestir um 20 talsins. Loks gengu listamennirnir inn og fengu sér sæti á næsta borði sem stóð á miðju gólfsins og byrjuðu fjöldasöng. Nokkur lög voru sungin og var skemmtileg upplifun að vera í svona mikilli nálægð við söngvarana. Án þess að vita nokkuð um söngvana þá þótti okkur þetta líkt og þeir væru að syngja frönsku útgáfurnar af "Kveikjum eld", "Þórsmerkurljóði" ofl.


Einn af söngvurunum hallar sér fram á borðið okkar og syngur.

Listamennirnir voru 10-12 talsins og hafði hver sína sérgrein. Á milli fjöldasöngs tók hver þeirra nokkur lög og var spilað undir á gítar, píanó, harmóniku eða ekki neitt. Eins var sérstök upplifun að hlusta á ljóðalestur á frönsku, en ekkert af skemmtuninni fór fram á ensku sem gaf þessu nokkuð "alvöru" fíling. Söngkonurnar voru sérstaklega góðar, tvær sungu með Edith Piaff stíl en sú þriðja og síðasta var hálfgerð óperusöngkona og var hreint út sagt stórkostleg, já alveg hreint unaðsleg. Sonja vill meina að útlitið hennar hafi haft þónokkuð vægi í mati mínu á sönghæfileikum hennar.

Í miðri dagskrá áttaði ég mig á merkilegri staðreynd: Kanínur eru gáfuðustu dýr jarðar fyrir utan beljur og froska.

Ef eitthvað mætti gagnrýna var að dagskráin tók aðeins of langan tíma þó að við hefðum dreypt á heimalöguðu berjavíni til að létta lund. Framan af kvöldi tóku frönsku áhorfendurnir vel undir þekktari lögin sem skapaði góða skemmtun en þegar leið á kvöldið fór fólk að týnast út. Undir lokin vorum við Skotta ein eftir ásamt þremur öðrum gestum og hlustuðum á trúbator messa yfir okkur af mikilli innlifun, sennilega svar Frakka við Bubba Mortens. Sætin voru auk þess hörð og óþægileg og maður því orðinn frekar þreyttur í baki og bakenda.
Ég dirfðist að stinga upp á því við Sonju að við ættum að drífa okkur út.

"Nei, það er algjör móðgun að fara í miðri dagskrá, það eru næstum allir farnir og hvernig heldur þér að honum líði ef allir fara þegar hann er að syngja?"


Þessi kona söng og spilaði í anda Edith Piaff.


Þessi var svipuð.


Píanóið.


Ég hafði lítið um svör og í lokalaginu vorum við Sonja og þriðji gesturinn ein eftir en Bubbi hætti sem betur fer á endanum - ég var farinn að mæla út bekkina til að leggja mig. Ég held að planið hjá honum hafi verið að syngja þangað til allir væru farnir en hann vanmat þrjósku Sonju. Hann þakkaði okkur þó voðalega vel fyrir að halda út dagskránna.

Veggirnir voru skreyttir innrömmuðum blýantsteikningum eftir gömlu meistarana, Goyja, Picasso, Dali ... mig.

Engin ummæli: