mánudagur, júlí 07, 2008

04 - Dagur á markaðnum

Eins og þeir útvöldu sem hafa sótt okkur Sonju heim síðustu ár vita þá höfum við ákaflega gaman af gömlum hlutum enda bæði gamlar sálir. við vorum því ákveðin í að skoða nokkra markaði í París í ferðalaginu og þá aðallega um helgi því skemmtilegustu markaðirnir eru flestir bara um helgar.

Eftir að hafa tekið lest nánast þvert yfir borgina lentum við á litlum götumarkaði sem lá beggja vegna við rólega umferðargötu og var þar verið að selja það mesta drasl sem ég hef séð. Fólk var þarna að reyna að selja fúnar spýtur, brotna myndaramma, málverk sem voru orðin blaut (af rigningunni sem var þennan daginn) ásamt öðru skrani sem ég hefði haldið að væri engin verðmæti í. Við stöldruðum stutt þarna því markaðurinn reyndist bara vera opin til hádegis og fólk var byrjað að taka niður básana og hlaða bílana af verðmætunum. Þetta var flóamarkaður sem stóð undir nafni.

Það var gríðarleg rigning og fáir á ferli - við Sonja vorum í regnaslám og fékk maður netta þjóðhátíðar-í-eyjum tilfinningu. Við ákváðm að kaupa ekki regnhlíf því þá er alltaf önnur höndin upptekin auk þess sem Sonja stangar augun úr annarri hverri manneskju sem hún mætir ef hún er með svo stórhættulegt vopn í hendi. Það var líka gott að vera svona klæddur svo fólk áttaði sig ekki á því að við erum milljónamæringar.


Ég í regnsláinni í úrhelli.

Við héldum til baka og eftir 19 stopp í neðanjarðarlestinni vorum við komin í hinn enda borgarinnar á markaðinn "Les Puces de Saint-Quen" sem okkur hafði verið tjáð að væri sá besti og stærsti í borginni fyrir antík.

Óspennandi hverfi tók á móti okkur, við byrjuðum að fá okkur kaffi og kók og héldum síðan áfram för okkar fótgangandi. Eftir stutta göngu undir hraðbraut vorum við komin á rétta götu og leist okkur ágætlega á þetta, virtist vera nokkuð löng gata og allavega ein gata til hvorrar hliðar. Eftir að hafa gengið nokkrar litlar þröngar hliðargötur gerðum við okkur grein fyrir stærðinni á þessum markaði - Sonja missti andann í örskamma stund. Stuttu síðar komumst við yfir kort af svæðinu og þá var það enn stærra en okkur hafði órað fyrir, þetta er eiginlega samansafn af nokkrum "litlum" mörkuðum í göngufæri hver við annan. Hver markaður er nokkrar litlar göngugötur með litlum búðum/básum beggja vegna. Guð minn góður stærðin á þessu - við trúum ekki öðru en að þetta sé stærsta antíkmarkaðssvæði í heimi, við værum a.m.k. hissa ef stærri markað væri einhverstaðar að finna. Þarna bókstaflega úir og grúir af búðum með öllu sem hugurinn girnist ef maður á annað borð vill ekki hafa allt eins og nýsleginn túskilding á heimili sínu, þótt reyndar sumir selji mjög vel uppgerða hluti sem varla sést nokkuðuð á. Búðir og básar skipta hundruðum. Elsti hluti markaðsins sem við byrjuðum á að skoða er sá elsti í borginni, um 150 ára og hann er í dag friðaður, ekki má breyta kofum og öðru þarna og rafmagnslínurnar sem hanga út um allt fyrir ofan eru einnig friðaðar. Þótt rafmagnið verði sett í jörðu núna á næstunni þá má ekki fjarlægja línukraðakið sem flækist fyrir ofan básana.


Horft inn eina markaðsgötuna.


Scrabble.

Úrvalið þarna er líka stórbrotið og ég fullyrði að það sé hægt að fá flest það sem hugurinn girnist. Litlar búðir/básar selja skran og stærri búðir selja heilu veggina úr kastölum. Það væri of langt mál að fara að telja upp þá hluti sem við höfðum áhuga á en við fundum t.d. skrifborð fyrir tvo sem við vorum alvarlega að spá í að kaupa í stofuna sem vinnuborð og skipta borðinu okkar þá út, sem betur fer tók skynsemin yfirhöndina og við slepptum því að fjárfesta í gripnum. Við sáum skemmtilegan vínskáp sem við vorum næstum búin að kaupa, búddalíkneski, málverk og allskonar smádót sem við vorum að spá í. Skynsemin náði þó ekki alveg yfirhöndinni því við keyptum þrjá hluti:
  1. Slá, þ.e. klæði sem konur bera á herðunum sem var sérsaumuð fyrir aðalskonu í París c.a. 1900. Hún var í góðu ásigkomulagi og var keypt af búðareigandanum af dóttur hennar fyrir skömmu, dóttirin er níræð í dag.
  2. Kaffikvörn af gamla skólanum með skemmtilegum tannhjólum ásamt tréskúffu til að taka við malaða kaffinu.
  3. Veggklukku sem var smíðuð af klukkumeistara Lúðvíks um 1860. Við höfum lengi verið að skoða og pæla í klukkum og þessi var sú eina rétta. Sjálf skífan er úr gleri og eina sem sést á henni er rautt ryð, í kringum "trekk-gatið", þ.e. gat rétt fyrir neðan miðju þar sem klukkan er trekkt einu sinni í viku, annars skemmtileg klukka.

Sá sem seldi okkur klukkuna er hollendingur um 60 ára, ákaflega rólegur og góðlegur maður sem minnti okkur á eldri iðnaðarmann frá Íslandi. Við spjölluðum lengi við hann og erum 100% viss um að þarna er góður og sanngjarn maður og við því með góð kaup í höndunum.

"Hvað kostar fermeterinn?" spurði ég fínan málverkasala sem virtist merkilegur með sig en hann hafði húmor fyrir spurningunni, kom mér skemmtilega á óvart. Málverkin voru annars frá milljón og uppúr.


Leikfangalest.


Gamlar myndavélar.


Mikið er um gamlar fjölskyldumyndir á svona mörkuðum og er sorglegt til þess að hugsa að enginn vilji lengur eiga þessar myndir - tapaðar minningar.

Andrúmslofið í svæðinu er ótrúlega þægilegt - fólk er ekkert að reyna að selja manni of mikið, leyfir manni gjörsamlega að skoða í friði á meðan það sjálft er að dunda sér við eitthvað, lesa, borða, leysa krossgátur eða jafnvel blunda. Allir virðast sanngjarnir og segja manni hreint út hvort um nýjan eða gamlan hlut er að ræða (nema þau séu svona góð að plata), galla og annað sem maður þarf að vita og er ekki að reyna of mikið að pranga inn á okkur eins og ég sagði frá áður. Eins eru flestir hlutir verðmerktir og því ekki verið að svindla um of á heimskum túristum. Okkur var m.a.s. boðið upp á hádegisverð í einum básnum þar sem fókið var að snæða þegar við gengum þar framhjá.

Það eru margir mjög sérstakir hlutir þarna í boði og má nefna eftirfarandi sem ég man eftir í svipan:
  1. Stóra og vígalega vélbyssu úr vélbyssuhreiðri.
  2. Beinagrindur af öpum, mönnum og öðrum kvikindum.
  3. Vagn fyrir hefðarfólk þar sem hægt var að renna inn stöngum en því miður fylgdu engir þrælar með til að bera Sonju svo við keyptum hann ekki.
  4. Lestarvagnar og teinar sem var búið að breyta í stofuborð og borðstofuborð.
  5. Heilu stigarnir úr kirkjum með handriðum.
  6. Um 4 metra háir veggir úr höllum, útskornir og skreyttir.
  7. Hestar og önnur dýr úr hringekjum.
  8. 3ja metra há búddalíkneski sem kostuðu á 3ju milljón.
  9. 3-4 hundruð ára gömul málverk sem voru óheyrilega dýr.
  10. Gömul hefðarklósett.
  11. Bátar


Járnbrautarborð.


Vélbyssur.


Þessi kanína lítur út fyrir að vera jafn hættuleg og Pílatus.

Við heyrðum söng í anda Edith Piaff handan við eitt hornið og forvitnin rak okkur áfram inn á veitingastað sem tónlistin kom frá. Þar voru um 3-4 gestir sem sátu að snæðingi en þjónustufólk sat og beið eftir gestum. Uppi á sviði söng eldri kona með kolsvart hár og tveir herramenn spiluðu undir á hljómborð og harmóniku. Veitingastaðurinn var skreyttur myndum af söngkonunni þegar hún var nokkrum árum yngri og nokkrum kílóum léttari. Loftið var skreytt rauðum glanspappír, jólakúlum og öðru skrauti sem við á Íslandi tengjum við jólin. Allt var þetta skemmtilega hallærislegt og ekkert annað að gera en setjast niður, fá sér að borða og fylgjast með.

Brosmild, ansi sver og góðleg þjónustukona kom til okkar sem gæti verið eigandinn og færði okkur matseðilinn. Hún stóð yfir okkur á meðan við ákváðum okkur og Sonja benti á Frankfurther pylsur, þá leit þjónustukonan upp á næstu hæð og öskraði:

"Frankfurther!"

Ég leit upp nokkuð hissa, hélt síðan áfram að skoða matseðilinn og benti að lokum á steik.

"Bief" kallaði hún upp á næstu hæð.
"Anything to drink?"
"Coka and beer" svöruðum við.

Í þetta skiptið kallaði hún upp pöntunina og beindi orðunum á barinn sem var í hinu horni salarins.

Pöntunin var komin til skila.

Þar sem við sátum nánast ein fyrir miðju salarins og beindi Manuela öllum sínum fallega söng að okkur, brosti blítt, lagði mikla tilfinningu í sögninn og var bara hin skemmtilegasta. Fyrir utan okkur voru 4 gestir sem sátu í hornunum og um 11 starfsmenn sem voru greinilega að bíða eftir að mesta ösin myndi koma eða að hvíla sig eftir hádegisösina.
Manuela tók sér hlé og gekk á milli gesta söfnunarkörfu. Ég gaf henni evru. Hún virtist ánægð með þessa upphæð þó lítil væri því í næstu pásu kom hún með áritaða mynd af sjálfri sér og gaf okkur - áritunin hljómaði svona:

"Manuela, Chante Édith Piaf - Souvenir de Manuela"

Þegar við höfðum lokið við að snæða kom aðeins yngri maður og söng en var hann alveg skelfilegur, já alveg hreint fanta slæmur. Við báðum um reikninginn og áttum rétt fyrir matnum - reikningurinn hljómaði upp á 40.50 evrur og við áttum sléttar 42 evrur. Við greiddum 41 evru og hröðuðum okkur áleiðis út en hann hætti söngnum, stökk til okkar með baukinn og brosti þannig að við gátum eiginlega ekki annað en gefið honum síðustu evruna. Ekki eins og þetta væri Rolo.

Dagsbirtan tók á móti okkur og skyndilega var veitingahúsið eins og undarlegur draumur.


Manuela bíður eftir evrunni sinni.


Þessi þjaði til borðs.


Manuela í pásu.


Einmanna aðdáandi.

Við fundum ofangreinda klukku stuttu síðar hjá Hollendingnum fljúgandi. Ég passaði búðina hans á meðan hann flögraði með Sonju í hraðbanka - hann bað mig sérstaklega að gæta að þjófum. Ég fann gott prik í búðinni sem ég hafði í höndinni og kom mér fyrir í ruggustól við innganginn.


Klukkusalinn.

Ég mæli sterklega með því að fólk sem fer til París kíki á þennan Saint-Quen markaðinn ef það hefur áhuga á hlutum með sögu. En fyrir alla hina eru einnig heilu ferkílómetrarnir af hefðubundnum markaðsbásum sem selja nýja hluti - þó langmest föt.

Pundið stóð í 151 krónum, evran í 120 krónum og viðskipti í Kauphöllinni námu 110þ krónum.

Engin ummæli: