sunnudagur, júlí 13, 2008

06 - Kvöld á kabarettinum

Við gengum tímalega út úr hótelinu og stefndum niður götuna. Þegar við gengum inn aðalgötuna sáum við langa biðröð, um 30 metra.

"úff, við hefðum kannski átt að leggja af stað klukkutíma fyrr til að ná betri sætum." sagði Sonja vonsvikinn þegar við tókum okkur stöðu aftast í röðinni.

Röðin færðist nokkuð fram á við fyrstu 20 mínúturnar en svo stoppaði allir og við stóðum næstum á sama stað í klukkutíma, 6-7 rútur komu stútfullar af túristum sem tóku flassmyndir af byggingunni og mjög margir voru með videovélar, tóku upp allt sem fyrir augu blasti á annars nokkuð ómerkilegri götunni. Miðað við að fólk tekur kannski 10-15 mínútur af videoefni við að standa í biðröð hvað er það með mikið efni þegar það kemur heim og hefur verið að skoða helstu merkisstaði og byggingar heims? Þurfa skyldmenni og ættingjar að sitja undir tugum klukkustunda af efni? Ég sé þetta miðaldra fólk ekki fyrir mér klippa þetta til, enda væri þá kannski ekkert eftir. Kannski ætla þau bara að klekkja á óvinum sínum með því að bjóða þeim á videokvöld?

Við fengum stórgóða hugmynd þar sem við stóðum í biðröðinni og horfðum á hana lengjast af Japönum, Kínverjum, Englendingum, þjóðverjum og öðru pakki:

Bjóða fólki heim til okkar í kokkteil og þegar allir eru komnir inn í stofunna þá renna rimlar niður fyrir glugga og hurðir - ljósið dofnar - gat myndast á loftinu og myndvarpi rennur niður og lýsir upp tjald á veggnum. Eldklerkur stígur fram í pilsinu sem hann keypti í Indlandi og Sonja í indverskum sarí, við mælum:

"Velkomin í myndasýningu úr Indlandsferðinni - við ætlum núna að fara í gegnum myndirnar 20.000 sem við tókum í ferðinni og reyna að segja söguna á bakvið hverja þeirra."

Loks hreyfðist röðin og stuttu síðar gengum við inn í Rauðu Mylluna.

Ætli biðröðin hafi verið svipuð í gamla daga þegar þetta var gleðihús?

Moulin Rouge er orðin ansi fræg síðustu ár og sennilegast á samnefnd bíómynd ekki lítinn þátt í því. Ég var ekkert voðalega spenntur fyrir því að fara á svona sýningu en okkur fannst samt að við ættum að kíkja, ekki síst þarsem hótelið okkar var mjög nálægt staðnum sem stendur við götu sem er stútfull af klámbúllum og líklegast einn vafasamasti staður borgarinnar.




Svona lítur staðurinn út.

Sætavísir tók á móti okkur og fylgdi okkur til sætis sem var aftarlega við borð en við vorum vel fyrir miðju og auk þess uppi á stalli þannig að við vorum sæmilega ánægð með sætin. Á sama borði lenti fjölskylda frá Írlandi með franskann eiginmann.

Ljósin dofnuðu og fólk í silfurgöllum byrjaði að dansa - greinilega vel æft fólk. Fyrstu lögin voru í svona "Fame" stíl, allt mjög nútímalegt og alveg ágætt svona.

Ég þarf drykk hugsaði ég með mér.

Stuttu síðar kom kampavínsflaskan á borðið sem var "innifalin" í miðaverðinu, ég byrjaði að hella í mig ódýru kampavíninu. Sýningin batnaði.

Þjónn bankaði í mig og rétti mér reikninginn - 199 evrur ... dýrt en hvað borgar maður ekki fyrir túristastaði? Ég straujaði kortið með ánægju og helti aftur í glasið, fyllti glasið.

Hvert atriðið tók við að öðru oft með miklum fjöldadansi berbrjósta stúlkna og samkynhneigðra karlmanna. Inni á milli voru öðruvísi atriði eins og töframaður sem var ansi hreint sniðugur og kona sem stakk sér nánast nakin í stóran vatnsgeymi sem kom upp úr gólfinu fullur af risaslöngum. Þar synti hún fimlega innan um snákana sem hugsuðu aðalega að komast úr þessu búri - enn að reyna þrátt fyrir tvær sýningar á dag.

Ég herti drykkjuna.

Sonja skríkti af ánægju þegar agnarsmáir smáhestar hlupu inn á sviðið og fóru þar í nokkra hringi ásamt því að gera töfrabrögð. Hundur birtist og allir hlógu voðalega mikið en ég var farinn að fylgjast meira með fólkinu í kring þegar berbrjósta stúlkurnar voru ekki á sviðinu. Þegar seig á seinni hlutann þá tóku við heldur hefðbundnari can-can dansar og flestir fullklæddir á sviðinu. En lokadansinn var svo aftur frekar súlulegur en þó alls ekki sóðalegur - allir í bleiku og allt í bleikum fjöðrum.

"Exit" skilti lýstist upp á maga töframannsins og allir sprungu úr hlátri - merkilegt hvað það þarf oft lítið til að fólk hlægi á svona sýningum.




Túristar.

Sýningin minnti mig á svona dæmigerðar sýningar á stórum hótelgörðum við Miðjarðarhafið að kvöldi til þar sem allir sitja við sundlaugina og horfa á skemmtiatriði í lokuðum hótelgörðum.

Guð hvað ég elska Miðjarðarhafið!

Við gengum út í nóttina eftir nokkuð skemmtilegt kvöld, skemmtilegra en ég bjóst við.

Moulin Rouge er ennþá gleðihús!

Engin ummæli: