Listamannsins líf
Líf listamannsins er enginn dans á rósum eins og ég fékk að kynnast í gær. Við Sonja gengum eftir Signu og komum okkur vel fyrir í litlum garði með útsýni yfir Notre Dame. Þar fór Sonja að lesa en ég fálmaði æstur ofaní töskuna mína og dró þar upp litla teikniblokk og blýant sem ég hafði fjárfest í í London fyrir vikum síðan og séð þessa stund í hyllingum.
"Ég ætla að henda í eina mynd!" sagði ég stoltur, og Sonja brosti í kampinn og sagðist hlakka til að sjá útkomuna.
Da Vinci, Picasso, Gogh, Monet, Warhol, Dali, Matisse, Rembrandt, Kjarval og ég.
Ég opnaði blokkina, valdi vandlega fyrstu síðuna og rétti út höndina með þumalinn upp til himins til að mæla út hlutföll kirkjunnar. Ég færði síðan blýantinn að bókinni og fyrsta guðdómlega strokan varð að veruleika - ég er ekki aðeins listamaður heldur heimsmaður!
Fleiri línur og strokur mynduðust á pappírnum og ég fór að átta mig á að þessi kirkja væri líklegast erfið fyrir unga nema en bjóst nú við að endanleg útkoma yrði stórgóð og kæmi mér jafnvel á óvart. Eftir langar 4 mínútur var listaverkið tilbúið og ég horfði á það ráðvilltur. Er þetta eitthvað nútímalistaverk eða er snilldin kannski svo mikil að ég skil hana ekki einu sinni? Kannski var bara blýanturinn af rangri tegund eða blaðið ekki í réttun grófleika? Hefði ég kannski átt að nota pensla og striga? Þúsundir hugsana fóru í gegnum huga mér þegar ég starði á myndina og snéri henni á alla kanta.
Ég leit hikandi á Sonju þar sem hún lá við hlið mér með bókina fyrir andlitinu og veifaði hinni nýfæddu vansköpuðu mynd fyrir framan hana.
Sonja horfði á myndina stutta stund og ég beið eftir stóra dómi. Hjartað barðist í brjósti mér og ég reyndi að mæla út andlitsdrætti hennar svo ég vissi sem fyrst hvernig gagnrýnandinn myndi taka í listaverkið.
"Þetta er hræðilega léleg mynd!" sagði hún samviskulaust og hélt áfram: "Þetta lítur ekkert út eins og Notre Dame. Þetta er allt í röngum hlutföllum og aftari turninn er allt öðruvísi en þú teiknaðir þetta! Þú verður að taka þér meira en 3 mínútur í þetta!" sagði hún harkalega og hristi hausinn.
"Ég var fjórar mínútur að þessu og auk þess tók ég mér listamannaleyfi til að gera turnana meira spennandi." stamaði ég upp og horfði á myndina til að sjá hvort ég gæti ekki bent henni á snilldina.
"Ertu að reyna að gera turnana meira spennandi en þeir eru á Notre Dame?" spurði Sonja hissa.
"Jaa." stamaði ég og horfði enn stífar á myndina. Nei, það var ekki um að villast. Gagnrýnandinn hafði rétt fyrir sér, myndin var hræðilega léleg og listamanni alls ekki sæmandi.
Sonja tók bókina og fletti fram á næstu síðu sem var sem betur fer tóm.
"Hérna, prófaðu aftur og taktu þér meiri tíma í þetta í þetta skiptið!" sagði kennarinn/gagnrýnandinn og rétti mér bókina.
Ég mældi kirkjuna út með augunum í nokkrar mínútur og ákvað að gefa mér meiri tíma í þetta í þetta skiptið - ég hafði verið of æstur í að teikna þegar ég gerði fyrra verkið og því hafði farið sem fór.
Síðari myndin tók um hálftíma og Sonja varð hissa á henni og ég líka.
Svona vinnur maður best undir pressu.
... ég
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli