föstudagur, desember 07, 2007

84. Mögnuð höll og yfirgefið hús

Ætli það sé ekki best að útskýra tegund af húsum sem kallast Havalies og eru algeng hérna í Rajkasthan hluta Indlands. Þetta eru oftast mjög stór hús en miðjan er port sem er opið alveg upp. Yfirleitt er stórt tréhlið sem gengið er inn í opna rýmið og þaðan inn í húsið sem nær hringinn. Herbergin eru oft máluð með veggskreytingum sem sýna bæði daglega hluti og einnig tengjast trúnni á einhvern hátt.
Flest voru þau byggð á 16.-17. öld af ríkum kaupmönnum sem voru langt frá fjölskyldum sínum í lengri tíma til að moka inn peningum. Létu þeir þau renna í smíði þessara stóru húsa á heimaslóðum og var oft keppni á milli manna um það hver ætti ríkulegasta húsið fyrir stjórfjölskylduna.
Í dag eru þessi hú ekki svipur hjá sjón miðað við hvernig þetta var á árum áður en margir afkomendur þessara kaupmanna búa ennþá í húsunum en sum eru aðeins með einum umsjónarmanni eða þá alveg auð. Sum hafa verið endurgerð og þá oft í gistiheimili eða eitthvað svipað hlutverk en önnur eru í niðurníslu.


Sonja í herberginu okkar.

Fyrri hluti dags fór í að leita að lestarferð til Agra sem yrði okkar næsti áfangastaður og jafnframt síðasti eiginlegi viðkomustaður okkar áður en við höldum heim í heiðardalinn.

Við snæddum morgunverð á dýra hótelinu og spurðum eftir hann um lestarferðir en þeir eru með svokallað "Travel Desk" til að svara og jafnvel redda einmitt spurningum eins og okkar. Strákurinn vissi akkúrat ekkert um þetta en hringdi fyrir okkur á lestarstöðina og spurði um lestir til Agra.

"Það er ein lest sem fer kl. 18 og önnur á morgnana." sagði hann.
"Ok, hvað kostar í þá kvöldlestina?" spurði Sonja.
"Ég veit það ekki."
"Er hægt að fá fyrsta eða annan klassa í lestinni?"
"Ég veit það ekki."
"Hmmm ... hvenær er lestin komin til Agra?"
"Ég veit það ekki."
svaraði afgreiðslustrákurinn en þjónustan á þessu hóteli er virkilega slök - hefði verið lítið mál fyrir hann að fá frekari upplýsingar eða hreinlega hafa á hreinu fyrir símtalið hvað við vildum vita.

Þegar við gengum út úr hótelinu var hávær tónlist í næsta húsi, lágreistu hvítu steipuhúsi með tréhliði. Dyravörðurinn af hótelinu sagði okkur að þar væri brúðkaup, eða réttara sagt "pre-marriage" eða fyrirbrúðkaup áður en sjálf athöfnin færi fram eftir nokkra daga. Hann gekk með okkur inn, sagði að það væri í lagi fyrir okkur að fara inn sem reyndist rétt því gestir urðu ákaflega ánægðir að sjá okkur og höfðum ótal spurningar fyrir okkur. Á endanum var Sonja dregin fram á gólf og stúlkurnar létu hana dansa en athyglin var of mikil fyrir Sonjuu þannig að hún tók aðeins fá spor og hætti síðan.

"Það eru mikið um mjaðmasveiflur í þessum dönsum sem ég er ekki vön." sagði Sonja afsakandi.
"Nú, hefur þú ekki horft á Shakhira?" spurði stúlkan eins og allir sem horfðu á hana gætu skvett rassinum í allar áttir eins og suðrænar þokkadísir.


Athöfn í veislunni.


Stúlkurnar sýna Sonju sporin.

Annars er merkilegt að á tímum héraðskónga hérna á Indlandi tíðkuðust stór kvennabúr í höllunum þar sem allar brúðir kóngs voru geymdar þangað til hann þyrfti á þeim að halda. Þegar brutust út stríð og það viritist tapað fyrir viðkomandi kóng var venjan að kveikja stórt bál í miðju kvenna"búranna" og konunar allar sem ein hentu sér á bálið þegar það var í hámarki. Aska þeirra var síðan borin á andlit síðustu hermannanna á meðan þeir háðu blóðugar lokaorusturnar.

Við spurðumst fyrir á lítilli ferðaskrifstofu á aðalgötunni í gamla bænum um lestir - þeir sögðu okkur að það væri bara sleeper á öðrum klassa með loftkælingu sem Sonja kallar "pödduklassi" af fyrri reynslu en síðast þegar við tókum sambærilegan vagn í Kerala voru litlir kakkalakkar hlaupand um öll gólf og sæti eins og þeir ættu staðin - held að þeir hafi reyndar verið að taka yfir vagninn því mikið magn var af þessum kvikindum þar. Sonja gat því alls ekki hugsað sér að taka sambærilegan vagn heila nótt sem ég reyndar skil ef ég set mig í hennar spor og skipti kakkalökkum út fyrir risaköngulær - ég myndi fleygja mér út úr lestinni á ferð ef svo mikið sem ein risakönguló gæfi mér gaum.

Við ákváðum því að taka tuk-tuk á lestarstöðina og spyrja einhvern sem vissi um málið því þessi skrifstofa vissi bara um lestir sem koma og fara frá Bundi (bænum sem við vorum stödd í) en ekki frá næsta bæ sem er í aðeins klukkutíma fjarlægð.


Á leið á lestarstöðina.

Það reyndist lengra í lestarstöðina en við höfðum gert ráð fyrir og ég fékk smávegis samviskubit að hafa harkað aumingjans bílstjórann í að borga nánast með sér fyrir að fá að keyra okkur. Við höfðum samið um báðar leiðir og hann ætlaði að bíða í allt að hálftíma og vorum við ánægð með það því lestarstöðin var í rassgati og enginn umferð eða umgangur í kringum hana. Okkur datt fyrst í hug að hún hefði ekki verið notuð í nokkur ár en hún reyndist opin þó það væru aðeins um 3-4 menn inni á allri stöðinni eitthvað að hanga eins og Indverjum er tamt.


Tómleg stöðin.

Við spurðum fyrir á eina sölubástnum um lestir til Agra og sagði hann að það væri bara ein lest á sinni takmörkuðu ensku og passaði það alls ekki við það sem okkur hafði verið sagt í gegnum símann. Við vorum því hálfvegis ráðþrota en ég spurði mann sem hafði gefið sig á spjall við mig þegar Sonja var að reyna eiga við manninn í sölubástnum en hann vissi lítið meira, hafði þó rænu á að fylgja okkur út á lestarpallinn og þar inn á skrifstofu sem einn maður var á vappi. Sá talaði mun betri ensku og gat sagt okkur frá þremur lestum ásamt upplýsingum um tíma og lestarnúmer sem kæmu til greina. Við þökkuðum fyrir og ákváðum hvaða lest hentaði okkur best og fórum aftur fram að sölubástnum. Hann reyndist þá lokaður, hádegishlé og klukkutími í að hann opnaði aftur. Við fórum aftur út í farartækið okkar, höfðum eitt hálftíma í þetta en fengið ákveðnar upplýsingar sem gæti reynst gagnlegar.


Þessi hafði upplýsingar um lestarferðirnar.

"Getur þú gefið okkur upplýsingar um lestir frá Kota til Agra?" spuði Sonja sölumann sem stóð fyrir utan litla búð sína í gamla bænum.
"Nei, Bundi til Agra!" svaraði hann.
"Nei, Kota til Agra!" leiðrétti Sonja.
"Nei, Bundi til Agra!!" svaraði hann aftur.

Svona virka hlutirnir oft á Indlandi, menn hlusta akkúrat ekkert á það sem maður hefur að segja og reyna að selja eitthvað sem þeir telja að maður þurfi miklu frekar.

Á enn annarri ferðskrifstofu í bænum fengum við fína hjálp - hvítur maður frá Afríku sat inni á staðnum ásamt ungum eigendanum og virtist nánast eiga heima þarna þótt hann væri töluvert eldri en eigandinn. Þessi fastagestur (ef hann var ekki bara að þykjast vera gestur) vissi nokkuð mikið um lestir og fór á netið fyrir okkur og reyndi virkilega að vera okkur að liði. Strákurinn ungi hringdi eitthvert og lét aðra grannslast fyrir um lestir fyrir okkur og bað okkur að koma eftir hálftíma. Þegar við komum síðar um daginn sagði hann okkur að lestin væru upppöntuð næstu daga, m.a.s. pödduklassinn og því þyrftum við að finna nýtt plan. Strákurinn var mjög hrifinn af myndavélinni minni og bað mig að taka mynd af sér með stóru linsunni og senda. Í þakkarskyni bauð hann mér maríjúana sem ég afþakkaði þó hann hafi reynt mikið. Við þökkuðum þeim því fyrir hjálpina og góðar veitingar sem þeir buðu okkar - ákváðum að hugsa málið aðeins betur með ferðatilhögun.

Á aðalgötunni hittum vð listamann sem sat alla dagana sem við vorum í bænum í dyrunum á pínulitlu gallerí sínu og málaði myndir í sólinni enda dökkur af mikilli útiveru. Hann var virkilega svalur og skemmtilegu náungi, svolítið kvennlegur eins og gengur - ávarpaði okkur í fyrsta skiptið sem við gengum framhjá honum og spurði um nafn á okkur og kallaði okkur eftir það með nöfnum: "Hello Johann, how are you today?" heyrði ég þegar ég gekk götuna sem var mjög vinalegt en það var ansi oft því þetta rétt við hótelið okkar.
Þegar ég sagði honum "Iceland" þegar hann spurði hvaðan ég væri setti hann upp skrítin svip og varð stífur og byrjaði að vagga í hringi, ég hélt fyrst að hann væri að missa vitið ... "Yes, penguins" sagði hann þegar hann mundi heitið, hafði verið að leika þær.
Hann bauð okkur í te daginn eftir heima hjá sér, sem betur fer bauð hann ekki upp á kakó, en við runnum út á tíma og komumst því miður ekki.


Hægt að sofa í einum glugga gistiheimilis okkar - listamaðurinn vildi endilega taka mynd af mér.


Menn fyrir utan lítið verkstæði.


Svín hleypur framhjá hurð.

Við gengum gamla bæinn fyrir ofan aðalgötuna nær kastalanum og hittum þar fyrir skrítin mann.

"Komið og skoðið húsið mitt." sagði hann á brenglaðri og illskiljanlegri ensku.

Við fylgdum honum eftir nokkra metra og gengum inn í stórt Haveli með gamalli tréhurð í opna rýmið í miðju. Þetta Haveli hafði greinilega verið afar glæsilegt á yngri árum en var núna nánast í eyði þó að hann væri með skóla á jarðhæðinni en nýtti þar flest herbergin til kennslu en efri hæðirnar voru galtómar. Tveir aðrir sem voru með honum í ráðum með kennsluna voru staddir í herbergi sem gengið var inní frá ganginum inn í miðgarðinn og var fátt sem minnti okkur á skóla við það fyrir utan krítartöflu uppi á einum steinveggnum sem reis uppúr moldargólfinu.

Hann leiddi okkur upp á aðra hæðina og þar varð okkur betur ljóst hversu glæsilegt hús þetta hafði verið með sínum stóru herbergjum en samkvæmt einum stráknum sem var nemandi hjá honum eru 40 herbergi í húsinu og allt í eyði nema þessi 5 á jarðhæðinni sem áður sagði frá. Eigandinn benti á marga steypta ramma á veggjunum sem einhverntíman höfðu geymt fögur málverk og sagði "Painting" eða "Paint", hefur líklegast verið að segja að hann ætlaði að henda í málverk þegar hann hefur tíma.
Við áttuðum okkur ekki alveg á því hvort hann ætli að breyta húsinu alveg í skóla eða hvort hann ætlaði að gera þetta að gistihúsi, hallast að því síðara.
Þegar við vorum komin upp á 3 og efstu hæðina var þar stórt og gott svæði sem hægt væri að opna veitingahús eða hafa fallegan einkapall með stórbrotnu útsýni yfir borgina og höllina sem gnæfir þarna yfir þennan bæjarhluta.
Langafi hans átti þetta hús og það hefur erfst ásamt húsinu sem liggur upp að þessu og vð skoðuðum ekki en bróðir langafa hans átti það hús - bæði húsin eru í eigu hans í dag. Hann bað mig nokkrum sinnum að gefa sér 15 Rs eða um 25 krónur íslenskar - skrítið að stóreignamaður sem á nánast kastala sé að betla af manni inni í eigin húsi.
Undir jarðhæðinni eru stór og myndarleg göng sem liggja niður í jörðina og í næsta hús - einhver af börnunum sagði að göngin myndu liggja upp að kastalanum en ég sel það ekki lengra en ég keypti það. Efast um að nokkur maður vilji kanna það því það er ekkert voðalega hátt til lofts í göngunum, um tveir metrar kannski en allt loftið er krökkt af blóðþyrstum leðurblökum. Mér láðist að taka mynd af gangarmununum sem voru í sama stíl og húsið - við hefðum tekið myndir en höfðum engan minniskubb. Sönnunargagnið um að þessi bær hefur verið stórbrotinn á þessum tíma blasti þarna ljóslifandi fyrir framan okkur þar sem við skoðuðum þessa voldugu en sorglegu byggingu.
Mörg svona hús hafa verið gerð upp á seinni árum og okkur nánast klæjaði í fingurnar að komast yfir húsið og gera það upp - væri hægt að gera stórfenglegt íbúðarhús þarna. Við spurðum einn kennarann niðri hvað húsið væri metið á og var svarið 8,5 milljónir íslenskar fyrir þetta sögulega 400 ára gamla hús, rúmlega einn fjórði af okkar litlu íbúð heima. Kannski er málið að safna saman 10 aðilum, kaupa þetta og gera upp og búa þarna á efri árum?


Hurð og hillur í húsinu.


Miðja húsins.


Api á á næsta húsi.


Ég bað eigandann að vera slakur þegar ég tók þessa mynd og sveiflaði líkamanum máttleysislega til að hann skildi mig ... hann fór þá í þessa stöðu og var jafn stífur.


Þessi api var móðgaður yfir að við værum að þvælast þarna uppi, greinilega hans yfirráðasvæði.


Eitt af 40 herbergjunum.


Stærra herbergi.


Enn stærra herbergi sem nær tvær hæðir. Við gátum ekkert myndað herbergin sem voru í notkun því fólkið sem þau fyllti var aldrei þessu vant mjög myndfælið.

Við snæddum síðbúinn hádegisverð á mjög litlu veitingahúsi við vatnið en það er meira drullupollur í dag með byggingum sem einhverntíman hafa verið glæsilegar en eru ekkert nema illgresi í dag. Sonja var afskaaplega hrifin af því að sitja þarna í garðinum því dýralífið var skemmtilegt. Litlir íkornar léku sér allt í kring og átu það sem datt af borðunum ef smáfuglarnir náðu ekki í það fyrst. Einn starfsmaðurinn var í fullri vinnu við það að vakta svæðið því stórir apar voru í þessum garði sem var að mestu í órækt fyrir þetta litla horn sem veitingahúsið var statt í. Þeir léku sér þar og héngu stundum í trjánum fyrir ofan okkur og þá voru þeir fældir í burtu með priki. Eldhúsið var í litlum kofa sem aparnir snigluðust oft í kring en voru reknir í burtu. Ég pantaði mér indverskan rétt og Naan brauð sem kom mun seinna en annar matur. Ég var eitthvað að skrifa í litlu vasabókina mína þegar brauðið kom á borðið til mín en ég sat með bakið í steyptan vegg sem skildi garðinn frá vatninu. Sonja hafði veitt því athygli að stór api var uppi í trénu fyrir aftan mig og horfði á hann koma niður á vegginn um tvo metra fyrir aftan mig og benti mér á hann. Um leið og ég snéri mér við sá ég apann koma á fullri ferð í hendingskasti, lenda á borðinu með látum þar sem hann henti glasinu mínu og disknum á jörðina, greip naan brauðið í sama mund og hann hentist í burtu. Þjófótti apinn borðaði brauðið með bestu list ásamt öðrum smákrimmum innan um illgresið í tröppum hinum megin í garðinum og eftir sátum við Sonja skellihlægjandi en afgreiðslumennirnir voru súrir á svip.
Ég fékk ekki annað brauð enda hafði tekið yfir klukkutíma að matreiða það í ofninum.


Strákar fyrir framan bleikt hús.


Apinn í trénu fyrir aftan að undirbúa þjófnaðinn.


Ósköp sætur íkorni.

Við röltum upp hlíðina að höllinni sem gnæfir yfir gamla bæinn en við ætluðum að skoða hana í eftirmiðdagssólinni. Ég hafði engar sérstakar væntingar um hana, sá að hún var stór neðan úr borginni en ég hef aldrei neitt gríðarlega gaman að skoða hallir nema að þær hafi upp á eitthvað sérstakt að bjóða. Höllin var í einu orði sagt stórkostleg þó hún sé í algjörri niðurníslu enda stóð hún lokuð í ótal ára áður en hún var opnuð að hluta til nýlega fyrir almenning. Gengið er inn í höllina í gegnum stórt hlið skreytt fílum en kóngurinn var með ótal fíla þarna á gullaladarárum sínum og hallarinnar - fyrir ofan hliðið eru tvær litlar yfirbyggðar svalir sem tvær gyðjur stóðu í sínum glæstustu klæðum þegar merkilegir gestir gengu í hlað.


Apar hlaupandi um á virkisveggnum.


Hliðið magnaða inn í höllina.


Veggskraut í höllinni.


Útsýni yfir blá hús borgarinnar.


Langt fall þarna niður.


Veggmálningin er glæsileg en illa farin.


Veggjaskraut og viðbjóðsleg leðurblaka.


Einn af görðum hallarinnar.


Annar garður uppi á höllinni.


Kvöldsólin kastar geislum sínum á einn salinn.

Höllin er í einkaeigu í dag en enginn býr þar nema leðurblökur í þúsundatali sem hanga niður úr lofti sem sól og dagsbirta ná ekki til. Ekkert hefur verið gert upp í höllinni nema rétt þannir að öruggt sé fyrir ferðamenn að ganga um lítinn hluta þannig að hún hefur ákveðinn sjarma, eins og hún hafi verið yfirgefin og enginn hafi átt við hana nema tíminn. Glæsilegar veggskreytingar í "miniature" stíl skreyta veggina ásamt öðrum skreyttingum eins og speglum sem voru greinilega vinsælir á Indlandi á sínum tíma og sjálfsagt þótt mikið ríkidæmi að eiga slíka töfragrip. Ég hallaði mér upp að einum spegli í stórum sal og ímyndaði mér allan þann íburð og glæsileika sem hann hafði orðið vitni af í gegnum aldirnar en sér ekkert í dag nema niðurníslu.

"Ég get opnað fyrir þig lokaða hluta hallarinnar." hvíslaði maður að mér þar sem ég stóð uppi á einum svölum hallarinnar.
"Ha, hvað meinar þú?" spurði ég.
"Það tekur mig aðeins 5 mínútur að fara niður og ná í lykilinn og ég sýni þér þann hluta hallarinnar sem enginn ferðamaður kemur á. Þú sérð glæsilegar veggskreytingar og fallega sali."
"Nei, takk ... eða hvað kostar það annars?"
"100 Rs."


Ég er nú aldrei fyrir svona spillingu því ef það er lokað svæði þá eiga spilltir starfsmenn ekki að leyfa túristum að fara inn á þau til að hagnast persónulega. Þetta hugsaði réttsýni hluti minn en það að komast inn á lokaðan hluta hallar sem er algjörlega óendurnýjuð og sjá stórbrotna sali og veggskreytingar var of mikið fyrir mig til að hafna. Við ákváðum því að taka þessu tilboði þó að það sé nú ekki til eftirbreytni. Ég er líka að vinna ákveðna rannsóknarvinnu fyrir lesendur þannig að það má segja að ég sé að fórna mér í svona skítverk.

Hann hljóp niður og við biðum uppi á einum svölum hallarinnar og horfðum á sólarlagið sem var stórbrotið úr þessu stúkusæti og enginn annar í kring nema apar sem eru út um allt hérna og mjög óþekkir eins og sagan að ofan sýnir glögglega. Hann var ekki komin þegar sólin var horfin og við stóðum upp og sáum hann fyrir neðan gefa okkur bendingu um að hann kæmi eftir mínútu. Eftir mínútu og þremur sekúndum betur strunsaði ég niður tröppurnar óþolinmóður enda öll birta að fara og það að skoða þennan hluta hallarinnar ekki jafn freistandi og áður fyrir utan það að þetta væri kjörið tækifæri til að vera vondur.


Bíðum eftir að geta brotist inn í lokaðan hluta hallarinnar.

Ástæðan fyrir töfunum var 10 manna hópur sem hafði komið akkúrat þegar hann náði í lykilinn og enginn mætti sjá okkur þegar við færum inn um lokuðu dyrnar. Ég fylgdist með honum fyrir neðan fylgjast óþolinmóður með hópnum og um leið og hópurinn hvarf inn um hlið kom hann hlaupandi, opnaði hurðina og við gengum inn.

Sonja stoppaði í dyrunum því þar fyrir innan var niðamyrkur og ekki neitt óvanalega hátt til lofts í þröngnum gangnum: "Heldur þú að það séu leðurblökur þarna inni?" spurði hún mig þar sem ég stóð í þröngum tröppunum. "Nei, það held ég ekki." sagði ég og leit upp á þúsundir augna sem störðu á mig úr loftinu. "Tja, það er sennilegast bara best að þú bíðir, það eru nokkrar leðurblökur hérna." sagði ég henni og hún ákvað að bíða bara fyrir utan sem var eins gott því sumir salirnir sem við fórum inn í vorum sennilegast með þúsundum leðurblakna í loftinu og var það frekar óhugnaleg sjón.

Það var einkennilega skemmtilegt að skoða þessa sali og ganga sem eru í niðurníslu og eins og var skilið við þá fyrir hundrað árum. Á einum ganginum var m.a.s trékoffort sem var að detta í sundur og veggirnir voru með mun betur varðveittar fínlegar myndir. Við fórum í stóran garð sem ég gapti af undrun yfir, hafði ekki búist við að sjá svona stórt svæði þarna inni. Stærsti hlutinn af því sem við skoðuðum var salarkynni kvenna í höllinni, stórar laugar þar sem þær böðuðu sig en er nú ekkert nema illgresi - ég náði þó að nota vel þjálfað ímyndunaraflið og sjá þær fyrir mér fáklæddar í lauginni og allt í kring.


Hallargarður sem venjulegir ferðamenn fá ekki að sjá.


Hérna sátu konurnar og horfðu yfir borgina.


Meyjar böðuðu sig í þessum sal.


Veggjamálverk voru glæsilegri í þessum lokaða hluta en annarsstaðar - höllin þegar við vorum að yfirgefa hana.

Ég borgaði honum 30 Rs þegar við gengum út, hafði samið verðið niður úr 100 Rs sem ég hafði áður samið um vegna seinkunar og birtuleysis - gott að hann græði ekki of mikið á þessum strákapörum sínum.

Dagur yfirgefinna bygginga verður eftirminnilegur.

1 ummæli:

Páll E Jónsson sagði...

Páll E Jónsson (frændi Sonju)
Ég hef verið dyggur lesandi pistla ykkar frá því þið hófuð ferðalagið og haft mikla ánægju af lestrinum. Myndirnar eru alveg frábærar. Stundum hefur hvarflað að mér hvort það sé þess virði að leggja á sig allt þetta erfið sem þið eruð búin að lenda í, en miklu eruð þið fróðari um lífið og tilveruna eftir þetta ferðalag og það lifir örugglega lengi í minni ykkar og ég og fleirri nýt góðs af sitjandi á mínum stól við tölvuna í Portúgal.
Að lokum óska ég ykkur góðrar heimkomu´
Kveðja. ´Palli