fimmtudagur, desember 06, 2007

83. Erlendir vinir

Við höfðum komið á hótelið kl. 6 um morguninn og farið strax aftur að sofa eins og áður hefur komið fram. Við vorum greinilega þreytt eftir að hristast í þessum litla klefa um nóttina því við sváfum til hádegis, eitthvað sem við höfum ekki gert lengi.

Ég hafði allt á hornum mér þegar við vöknuðum, fannst herbergið ómögulegt, bærinn glataður og var að gæla við að fara bara burtu þennan sama dag en Sonja sagði mér að gefa þessu séns og kallaði mig réttilega fýlukall.

Þegar við komum um nóttina fengum við að velja á milli þriggja herbergja. Það fyrsta sem var dýrasta kostaði 1500 Rs., var stórt og hafði sjónvarp. Það næsta var minna, án sjónvarps og kostaði 900 Rs. Það þriðja og illskásgta var svipað og minna herbergið en innganurinn var alveg við hliðina á móttökuborðinu niðri og því væntanlega truflun þegar fólk er að koma og fara. Þar sem ég hafði hug á að horfa á leik eitt kvöldið sem við værum hérna ákváðum við að skella okkur bara á sjónvarpsherbergið enda var það stærra en hin og bjartara.

Um morguninn þegar ég vaknaði og ætlaði að taka út sjónvarpið og athuga hvort íþróttarásirnar væru ekki örugglega á sínum stað sá ég mér til mikillar skelfingar að allar stöðvarnar nema einhverjar tvær á indversku máli voru í svo lélegum gæðum að það var ekki nokkur leið að sjá hvað var að gerast.

Eigandinn bað okkur að fylla út hin dæmigerðu blöð sem þarf að fylla út á hverju hóteli með nafni, vegabréfsnúmeri, heimilisfangi, atvinnu o.s.frv. Ég spurði hann um sjónvarpið eða réttara sagt sjónvarpsleysið og sagði hann að þau myndu bara ná tveimur stöðvum - hann var ekki að segja okkur það þegar við sögðum skýrt fyrr um morguninn að við ætluðum að taka herbergið með sjónvarpi.

"Ha, af hverju sagðir þú okkur það ekki í morgun?"
"Þið spurðuð ekkert um það."
"Ok, þá höfum við ekkert að gera við þetta sjónvarp og viljum fara í minna herbergið ef það er hægt!"
sagði ég.
"Ok, þið getið skipt en ekki fyrr en á morgun, þið þurfið að skipta fyrir kl. 10." sagði hann.
"Ok, þá ætla ég að skipta um hótel núna."
sagði ég grautfúll.

Hann hugsaði aðeins málið, starði í bókina og sagði síðan:

"Ok, þið getið skipt núna en verðið að vera fljót því stór hópur er rétt ókominn." .... sem við gerðum.

"Hann er illa sofinn!" sagði hótelstjórinn brosandi við Sonju svo ég heyrði þegar við kvöddum hann.

Við snæddum morgun-/hádegisverð uppi á þaki á hótelinu með útsýni að höllinni sem gnæfir yfir okkur í hlíðinni fyrir ofan en maturinn var langt undir meðallagi og bætti ekki skap mitt.

Börn hérna á Indlandi geta á stundum verið ansi tryllt í myndatökur - hérna eru þau eiginlega trylltari en annarsstaðar. Öll börn biðja um að mynd sé tekin af þeim og þegar við byrjum koma börn hlaupandi úr öllum áttum og vilja fá mynd af sér. Eftir myndatökur biðja þau flest um penna og einstaka um rúbínur, ferðamenn búnir að venja þau á að gefa þeim slíkt og kannski ekkert athugavert við það. Ef maður segir nei þá er málinu hinsvegar yfirleitt lokið og þetta því ekki mjög hvimleitt.


Strákar baða sig.


Börn stlla sér upp - fleiri koma hlaupandi til að fá myndir af sér teknar.


Nokkrar hurðamyndir.


Konur eru jafnvel með skraut á tánum.

Ein stúlkan sem var mjög skýr, talaði góða ensku og var algjörlega ófeimin bað okkur að koma með sér heim til sín. Við vorum treg við til að byrja með en létum eftir henni, höfðum ekkert plan annað en að ganga um og ekkert verra að fara bara með henni.
Hún gekk með okkur niður hliðargötu og þar á endanum var reisulegt hús sem hún hljóp inn um og lét móður sína vita að hún væri með gesti. Hún sagði okkur síðan að koma upp þar sem móðir hennar var eitthvað að stússast og amman lá sofandi í glugganum en stökk á fætur eins og unglamb þegar hún varð okkar vör. Okkur var boðið til sætis við gluggann og kexkökur og te sett á borð fyrir okkur. Móðirin, mágkona hennar og amman ásamt eldri systir sátu á gólfinu fyrir framan okkur. Við ræddum heima og geima - þær mæðgurnar voru duglegar að stökkva til og koma með allskonar hluti til að sýna okkur, verðlaunagripi fyrir dans, innrammaðar myndir, skartgripi og myndaalbúm var dregið fram til að sýna hinum merkilegu gestum. Myndaalbúmið var skemmtilegt, sýndi líf fjölskyldunnar síðustu 15-20 árin í leik og starfi. Þau voru sérstaklega stolt af einni myndinni:

"This is our foreign friend!" sagði mamman og benti á mynd af hvítri konu sem sat með fjölskyldunni - "She is french from Perignon." sögðu þau stolt.

Stúlkan sagði okkur frá verðlaununum sem hún hafði unnið fyrir dans og síðan var sett teppi ofaná grindina sem er í miðju húsinu sem þau höfðu setið á en í svona Haveli húsum er opið allt í miðjunni. Stúlkan sýndi þar hina ýmsu dansa, flesta þjóðdansa frá Rajhastan og fullorðna fólkið horfði stollt á hana.

Þegar við vorum að undirbúa okkur fyrir brottför vildi stúlkan endilega sýna okkur þakið sem var hið ágætasta með góðu útsýni. Þar spurði hún mig hvort ég ætti pening en ég svaraði ákveðið nei.
Þetta var mjög skemmtileg og lífleg fjölskylda sem töluðu fína ensku og því gátum við rætt ýmislegt við þau og tungumál var ekki hindrun eins og oft.


Stúlkan leiðir Sonju á leið heim til hennar.


Sonju sýndar myndir.


Eldri konurnar á heimilinu.


Stúlkan dansar fyrir okkur og móðirin fylgist stolt með.

Stuttu síðar lentum við óvænt í ungbarnaafmæli þegar við gengum aðalgötu bæjarins. Fyrir utan hús var strákur með sólgleraugu ásamt litla frænda sínum sem hann bað okkur að taka mynd af, sem við að sjálfsögðu gerðum. Fjölskyldufaðirinn nánast skipaði Sonju að fara inn í húsið og þar varð Sonja miðpunktur afmælisins en margar ungar konur voru þar með börn sín og voru áhugasamir um þennan framandi gest. Sonja tók myndir af flestum þarna inni og fullorðna fólkið var ekki minna spennt fyrir myndatöku en börnin og nánast slógust á tímabili um athygli linsunnar. Það þykir skemmtilegast að skoða myndir á skjánum og er það einn kostur stafrænnar myndatöku í svona ferðum að geta sýnt myndirnar því fólk hefur afskaplega gaman af því. Ein konan sem var að skoða mynd af sér ýtti óvart á takka án þess að taka eftir því þannig að myndin hvarf. Hristi hún þá myndavélina og sagði "Halló" nokkrum sinnum og vakti það mikla kátínu í afmælinu.
Ég sat á pallinum fyrir utan á meðan enda var góða skapið ekki alveg komið og þolinmæði mín af gaggandi konubjargi takmarkað. Ég sat því og tók nokkrar myndir af börnunum sem voru fyrir utan og ræddi við þá karlmenn sem höfðu svipaðan þolinmæðisþráð og ég.
Ég heyrði hávært lófatak inni þegar Sonju var færður blómsveigur og fékk ég sjálfur einn slíkan skömmu síðar - við kvöddum og þökkuðum höfðinglegar móttökur og héldum á brott eftir skemmtilega og óvænta veislu. En litli sonurinn var mánaðargamall og því mikil veisla. Við tókum hinsvegar eftir því að einu karlmennirnir í veislunni voru faðirinn, nokkrir piltar og svo þeir sem búa með fjölskyldunni, þ.e. faðir föðurins og bræður móðurinnar


Stórglæsileg eldri kona fyrir framan bláa hurð á leiðinni úr heimsókninni.


Hluti af afmælisgestunum.


Afmælisgestir.


Glöð kona í afmælinu.


Þessi strákur var að sniglast um fyrir utan en var rekinn í burtu af jafnöldrum sínum sem voru í afmælinu. Hann er ekki í sama þrepi virðingastigans og ekkert við því að gera að hin börnin væru ekki góð við hann - svona er þetta bara.


Þessi stóreygði drengur rak hann í burtu. Hann verður jock eins og ég þegar hann verður eldri og mun hafa það hlutverk að gera nördum og lægri stéttum lífið leitt.


Fleiri afmælisgestir.


>Sonja ásamt aðdáendum sínum.


Fólk sem var á vegi okkar.


Mörg svín eru í borginni.


Konur fyrir framan heimili sitt.


Börn þeirra.

Þegar myndir eru teknar af mér með þetta skegg þá glotti ég aðeins en sé á myndunum á skjánum að ég lít út eins og krónískur þunglyndissjúklingur. Þarf að brosa út af eyrum svo brosið nái í gegnum þykkt glæsilegt skeggið.
Sonja áminnir mig oft að þegar ég er að spyrja um hluti þá virðist ég oft vera alveg brjálaður þó ég sé í góðu skapi, verð alltof hvass í röddinni og sé oft skelfingarsvip á viðmælendum mínum - þetta er stærsti ókosturinn við að vera með þetta fjárans skegg í ferðinni en það styttist nú óðum í að það fari þó það lengist sjálft dag frá degi.

Okkur fannst nokkuð skondið að á reikningi sem við fengum eftir kvöldverð á dýrasta veitingahúsi borgarinnar voru öll atriðin listuð upp nema bjórinn, stóð aðeins B - þau hafa sennilegast ekki vínveitingaleyfi en það er víst erfitt og dýrt að fá slíkt leyfi hérna á Indlandi.


Konur bera þungar höfuðbirðar.


Gistiheimilið okkar er við virkisvegginn lengst til hægri fyrir neðan kastalann.

Við fórum snemma inn á herbergi enda ég ákaflega þreyttur eftir nóttina áður en skapið fór batnandi þegar leið á daginn enda ekki annað hægt í þessum ákaflega skemmtilega bæ sem kom okkur skemmtilega á óvart.

Herbergið er sæmilegt í þessu Havali frá 16. öld. Í fyrra herberginu heyrði ég háværan hvin fyrir utan gluggann og dynk fyrir neðan og hélt að kokkurinn væri kannski að flýja sökkvandi skipt því maturinn var frekar slappur. Nei, þetta reyndist vera aðferð þeirra við að henda ruslinu - því er kastað af þakinu og niður í lokað port fyrir neðan sem er sennilega komið með 2-3 metra af rusli. Ég fann ruslalyktina þegar ég opnaði gluggann þannig að þetta er nú ekki mjög hótelvænt og erfitt að skilja hvað þeir eru að hugsa - kannski er þetta eina leiðin til að losan við ruslið því það ganga sjálfsagt öngvir ruslabílar hér og eitthvað verður fólk að gera.
Í nýja herberginu er þvílík skolpræsalykt úr baðherberginu að við verðum að halda í okkur andanum þegar við förum inn og passa að hafa hurðina ekki lengi opna. Þetta er svona lykt eins og maður standi fyrir ofan opna rotþró fyrir þá sem stunda það.

Við stukkum upp á þak um 10 leytið þegar við heyrðum í flugeldasýningu frá höllinni sem er hérna rétt fyrir ofan okkur í hlíðinni. Það var voldug sjón að sjá flugeldana lýsa upp þessa mögnuðu höll úr stúkusæti.

Engin ummæli: