fimmtudagur, desember 06, 2007

82. Sardínur í dós

Við þurftum að skrá okkur út úr hótelinu fyrir hádegi og var það með semingi sem ég gerði það þar sem maginn hafði verið að stríða mér um nóttina og drullufúlt að hafa ekki skítsæmilegt klósett til að halla sér að ef maginn myndi gera aðra atlögu að óæðri endanum.

Við höfum ferðast í rúmlega 3 mánuði núna og þvælst á milli óteljandi hótela og þau hafa verið okkur eins og heimili, þ.e. það er alltaf góð tilfinning að koma dótinu sínu inn á öryggi herbergisins okkar og geta komist þangað inn og lokað af sér þegar skarkali Indlands hefur dregið úr manni allan kraft.
Við erum bæði sammála um það að okkur finnst við ekki búa neinstaðar lengur - orðin einhverskonar rótlausir flakkarar. En það markast líklegast að hluta til af því hversu stutt við erum búin að búa á Leifsgötunni.

Þegar við gengum út af hótelinu var skrúðganga af konum í sarís með einhver ker á höfðinu að ganga framhjá við undirleik tónlistarmanna og voru sumar þeirra í einhverskonar dáleiðslu, þurftu hreinlega stuðning. Við fylgdum þeim eftir niður að vatninu þar sem þær settust niður - sumar reyndar hrundu niður og þurfti að drusla þeim í hópinn þar sem þær höfðu safnast saman. Þær reyndust aðhyllast Ganges trú (sem er samt Hindúatrú) og voru að færa vatninu gjafir sem þær gera víst daglega. Smá athöfn var í tröppunum niður að vatninu og eftir það dönsuðu stúlkurnar við undirleik áður en þær héldu heim á leið með blessun dagsins.


Sumar í transi.


Slappað af eftir að hafa gengið í leiðslu niður götuna.


Kona í bláu.


Góðar vinkonur.


Einn af hljóðfæaraleikurunum.


Þvottur og gjafir fyrir vatnið.


Gjafirnar undirbúnar fyrir vatnið - Konur stilla sér upp og biðja um mynd.


Bræður sem voru að fylgjast með.


Þvegið sér í drullugu vatninu.


Konurnar voru hinar kátustu og tóku dans við vatnið undir leik hljóðfæraleikaranna.



Haldið til baka.

Þvottakonur þvo þvott í tröppunum við hliðina á þeim sem fórnirnar voru færðar. Sonja heilsaði upp á þær og tók nokkrar myndir og endaði á því að læra handbrögðin við þvottinn. Sonja bað þær að kenna mér líka handbrögðin og varð sú elsta alveg kvumsa og sagði: "Nei, nei, nei - þetta er ekki karlmannsverk!" og var ég þar hjartanlega sammála henni - kerling með vit, skemmtileg tilbreyting. Ég gafst upp á að hlusta á þær mala um ekki neitt og settist inn á kaffihúsið Edelweiss sem er skammt frá og beið þar með kaffibolla í höndinni í um klukkutíma á meðan Sonja þvoði þvott og ræddi almenn þvottarmál. Þær báðu Sonu m.a.s. að syngja fyrir sig á meðan þær væru að þvo en Sonja var sem betur fer með hálsbólgu og gat það ekki.


Þvottakona.


Þvotturinn til þerris á girðingu.


Sonju kennd handbrögðin.


Þvottakonan sem Sonja talaði mest við - skrautleg kona.


Fleiri þvottakonur.

Daginn áður höfðum við rambað á stórt indverskt málverk sem var um 1,8m á breidd og um 50cm á hæð og í smámyndastíl ("Miniature") en það er hið hefðbundna form indverska málverka sem eru með tugum manna og ákaflega fínt málað svo það er hægt að skoða einstaka skegghár með stækkunargleri. Það tekur tímann sinn að mála svona stórt verk - tíminn er hátt í ár og því gríðarlegt handbragð á þessu. Við fengum þá flugu í hausinn að kaupa okkur svona stórt verk, innramma það heima og hengja það upp í stofunni ... yrði mikil stofuprýði.


Þetta stóra málverk innrammað yrði mikil stofuprýði held ég.

Verkið sem við sáum daginn áður var ekkert sérstaklega flott þannig að við eyddum miklum tíma þennan daginn að rápa á milli málverkabúða sem mikið er af í gamla bænum - næstum önnur hver búð. Við vorum orðin góðkunningjar flestra kaupmanna, aðallega málverkakaupmanna, í lok dags. Þar sem flestir þekkjast leiddu sumir okkur í búð vinar síns og því rápuðum við fram og til baka í hinar ýmsustu búðir. Erfitt er að finna svona stór málverk og því var um lítið úrval að ræða. Við fundum eitt mjög flott í búð nálagt hótelinu - fíngert með mikið af gyllingu, upphafsverð var 41.000 Rs og fannst okkur það alltof dýrt þó verkið væri stórglæsilegt. Þeir enduðu í 25.000 og sögðumst við ætla að hugsaf málið. Við hefðum sennilegast átt að taka þessu því við fórum seinna um daginn til að reyna að ná verkinu niður í 20.000 Rs. og kaupa það á því verði en listamaðurinn sem sat í horninu var orðinn grautfúll og vildi núna ekki selja þetta á rúbínu minna en 35.000 og því var málið dautt. Ég skil hann að mörgu leyti því hann er búinn að eyða 8-9 mánuðum af ævi sinni í að búa til þetta meistaraverk og fær síðan túrista inn í búðina sem vilja ekki borga mannsæmandi verð fyrir verkið.

Á öðrum stað fundum við jafn stórt listaverk sem var ekki jafn vandað, grófari bakgrunnur og línur í byggingum oft klúðurslegar ásamt því að gylling var mun, mun minni. Upphafsverð á því verki var 12.000 Rs og fór hann niður í 6.000 Rs. og var greinilega tilbúinn að fara neðar en við vildum ekki það málverk.

Á einum af síðustu stöðunum sem við fórum á sagði strákurinn að hann þekkti listamann sem hugsanlega ætti svona stór verk og bað okkur að bíða í 5 mínútur á meðan hann myndi skjótast til hanns og sækja það stærsta sem hann ætti. Eftir 15 mínútur kom hann aftur og hafði ekkert í fartaskinu því listamaðurinn átti ekki verk sem féll undir strangar stærðarkröfur okkar.

"Þetta er bróðir minn, hann getur farið með ykkur í einu búðina hérna sem gæti átt svona stórt verk." sagði hann og bendi á pilt fyrir utan sem var eins ólíkur honum sjálfum og hugsast getur og bætti við: "Hann fer með ykkur í tuk-tuk ykkur að kostnaðarlausu ef þið viljið í búð sem rekin er af ríkinu og er í um 2 km. hér frá og keyrir ykkur til baka án þess að þið þurfið nokkuð að borga fyrir það.".
"Og ef við kaupum ekki neitt?" spurði ég.
"Þið ráðið sjálf hvort þið kaupið nokkuð, þið þurfið samt ekkert að borga fyrir bílinn."

Við vissum eftirfarandi:

1. Kauði væri ekki bróðir hans.
2. Búðin væri ekki ríkisbúð.
3. Þetta væri ekki eina búðin sem hefði svona stór verk eins og hann vildi meina.
4. Þeir væru ekki að gera þetta af góðmennsku heldur útaf prósentu ef sala yrði.
5. Búðin væri mun lengra frá en 2 km. því maður fær alltaf ranga fjarlægðarupplýsingar hérna.

Samt ákváðum við að kýla á þetta því ég var orðinn nánast slefandi af löngun í svona verk og við gætum verið heppin og fundið verk á góðu verði. Hann gekk með okkur niður götuna og hoppaði upp í bíl við hliðina á bílstjóranum og við fórum afturí. Bílstjórinn var greinilega góður kunningi hans því hann var ekkert að spyrja hvort hann vildi keyra hann eða spyrja um verð - settist bara inn og bent áfram.

Við keyrðum og keyrðum og að lokum vorum við farin að spá í hvaða borg búðin væri eiginlega. Við fórum úr þéttbyggðinni sem hótelið er statt í og keyrðum myrkar götur sem ekkert líf virtist vera í. Að lokum var ég að því komin að gefast upp og spurði hvað væri eiginlega langt í þetta og svarið 5 mínútur. Við vorum nálagt því að hætta við þetta því 5 mínútur þýðir eitthvað mikið meira en ákváðum að vera þolinmóð, værum komin þetta langt. Eftir 5 mínútur sagði hann 2 mínútur en á endanum renndum við í hlað á túristabúð með ferðamannarútu fyrir utan - túristunum greinilega smalað þarna inn. Síðasti túristinn var á leiðinni út enda klukkan orðin margt en ennþá opið. Afgreiðslumaðurinn hlustaði á skilyrði mín og gerði síðan eins og flestir sölumenn, hóf að sýna mér verk sem voru miklu, miklu minni en ég var að biðja um þangað til ég sagði frekar ákveðið að þessi verk næðu ekki meter, ég væri að leita að málverki sem væri yfir 1,5 meter og yppti hann þá öxlum, sagðist ekkert eiga sem væri svo stórt.

Ég gekk út og sagði við stráksa að við værum að fara og stökk hann strax upp í farartækið og við ókum af stað.

"Viljið þið kíkja í aðra búð hérna nálagt sem gæti átt svona stórt málverk?" spurði hann.
"Nei, við erum orðin of sein!" sögðum við því við áttum eftir að borða og taka rútu um kvöldið.
"Hún er í leiðinni, tekur engan tíma!"
"Allt tekur tíma, förum upp á hótel!"
"En búðin er bara þarna!" sagði hann og benti á búð rétt hjá.
"Ok, stoppum þá stutt." sagði ég.

Sonja ákvað að bíða í mótorvagninum enda orðin sársvöng og ég gekk inn með stráksa. Eftir að hafa sagt frá hverju ég væri að leita bentu þér á verk sem hékk á veggnum fyrir aftan borðið sem virtist vera fullkomið. Ég bað þá að mæla það, akkúrat 1,8m og allt virtist fullkomið nema kannski verðið sem ég átti eftir að forvitnast um.

"Ok, ég hef ekki mikinn tíma - hvað kostar það?" spurði ég og gerði mig líklegan til að vera að fara út.
"41.000 Rs." sagði afgreiðslumaðurinn.
"Ok, það er alltof mikið, takk fyrir." sagði ég og gekk út úr málverkaherberginu og sagði við fylgdarsvein minn að við værum að fara.
"Bíddu, við getum boðið þér aðeins lægra verð." var kallað á eftir mér og ég snéri við.
"Þetta er alltof hátt verð, tvöfalt hærra en ég myndi nokkurntíman ráða við." sagði ég.
"Ok, hvað ertu tilbúin að greiða fyrir það?"
"Langt frá þessari upphæð og ég er líka orðinn of seinn og þarf að drífa mig." sagði ég óþarflega harkalega og gerði mig aftur tilbúinn að ganga út.
"Bíddu, ég ætla að bjóða þér mitt besta verð, lokaverð." sagði hann og ég staðnæmdist og beið.

Hann náði í vasatölvuna - sló eitthvað inn og starði á hana í góðan tíma og kom síðan til mín og sýndi mér upphæðina ... 31.000 Rs.

"Takk fyrir, alltof mikið." sagði ég og gekk út, skipaði fylgdarsveininum að koma sem reifst við afgreiðslumanninn, vildi greinilega að hann myndi selja mér verkið svo hann fengi sitt. Ég settist inn í bílinn og afgreiðslumaðurinn horfði á mig í dyrunum. Þegar bílstjórinn hafði kveikt á tækinu kom hann hlaupandi og sagði. Ok, ég skal gefa þér mitt lokaverð - 25.000.

"Það er of mikið, 'budgetið' mitt var 18.000 og þetta er miklu hærra - ég skal borga 23.000 og ekki krónu meira." sagði ég.
"24.500" sagði hann.
"Nei, þetta var mitt lokaboð og ég fer ekki hærra."
"Ég slaka aðeins á mínum kröfum og þú slakar á þínum, það er bara sanngjarnt!" sagði hann.
"Nei".
"Þetta er meistaraverk!" sagði fylgdarsveinn minn.
"Það getur vel verið en ég get ekki borgað meira." sagði ég.
"24.000"
"Nei."
"Það er mjög lítið fyrir þetta verk."
"Það getur vel verið en ég er búinn að gera mitt lokaboð."
"23.500" sagði hann emð uppgjöf eins og það væri ekki hægt að segja nei við því.
"Nei!"
"Ha?" sagði hann hissa.
"23.000, borga ekki meira." sagði ég ákveðið.
"Er ekki sanngjarnt að taka þessu, hann er búinn að lækka sig svo mikið?" sagði Sonja á íslensku.
"Nei, ég fer ekki hærra!" sagði ég.
"Ok, þá gengur þetta ekki." sagði ég.
"Takk fyrir - keyrðu af stað."
"Ok, ok - 23.000!" kallaði hann þegar vélvagninn fór af stað og ég sagði honum að stöðva.
"Ok, 23.000 en hún verður að samþykkja þetta því hún er húsbóndinn á heimilinu og ég borga með Visa." sagði ég og benti á Sonju -hann hló og sagði auðvitað.

Þegar inn var komið skoðuðum við Sonja málverkið betur og það reyndist ekki jafn flott og mér hafði fundist úr fjarska - fljótfærni hjá mér að bjóða í það án þess að skoða það af viti. Það var um 25 ára sögðu þeir og það var farið að sjá á því á nokkrum stöðum, málningin máð og lítið um gyllingu. Þetta ásamt því að stór hluti af málverkinu var hvítur gerði það lítið freistandi í augum Sonju og ég var eiginlega sammála henni.

Á svona stundum er gott að tala íslensku, gátum rætt þetta fram og til baka fyrir framan þá og það hefur hljómað eins og ég væri að sannfæra hana. Við ákváðum eftir mikla umræðu að sleppa því að kaupa það - það væri ekki að kveikja í okkur og betra að kaupa seinna þó að þessi stóru listaverk virðist vera sjaldgæf.

"Henni líkar það ekki jafn vel og mér." sagði ég þegar við vorum hálfnuð að ræða málin svo þeir héldu að ég væri að sannfæra hana.

BAMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMMM

Ég hafði haft dýrari myndavélin á öxlinni þegar við stóðum og horfðum á verkið, einhvernvegin smokraðist bandið af öxlinni, myndavélinn flaug af mér og skall á flísalögðu gólfinu með þvílíkum látum að allir inni sem voru ófáir supu hveljur. Ég þorði næstum ekki að líta við en leit og sýndist vélin vera í maski en það reyndust bara bæði batteríin sem höðu flogið úr vélinni og hún opnast. Höggið var svo mikið að ég var viss um að hún myndi ekki taka mikið fleiri myndir í þessari ferð en öllum til mikillar furðu reyndist vélin í fínu lagi. Sáum reyndar síðar að linsan er sundurgengin á einhverjum stöðum en virkar þó.

Stuttu síðar þegar við höfðum tekið lokaákvörðun sagði ég setninguna sem mér kveið að segja og öllum sölumönnum var farið að gruna að þeir fengju að heyra:

"Ég verð að segja nei, henni líkar myndin ekki jafn vel og mér og því get ég ekki keypt hana.".
"Ég kann ekki við hvað hún er skemmd og hvað hún er hví." sagði Sonja.
"En allar hallir eru hvítar og við getum lagað hana, hvenær farið þið úr bænum?".
"Eftir tvo tíma."
"Ó." sagði hann vonsvikinn.

Við kvöddum, gengum út og fylgdarsveinninn sagði ekki orð og heldur ekki á leiðinni að hótelinu, greinilega grautfúll.

Sonja hafði haft augastað á skartgrip sem margar frumbyggjakonur hérna hafa - armband og hring með keðju á milli. Hún hafði leitað í mörgum búðum en ekki fundið neitt sem henni hugnaðist, flest voru með steinum í og of skrautleg en samt of pervisin. Einn silfursmiðurinn hafði boðist til að smíða armband eftir hennar óskum sem hún ákvað að skella sér á og sótti stórglæsilegt armbandið seinnipartinn. Ég hafði hinsvegar látið klæðskerasauma fyrir mig dæmigerðan indverskan jakka sem ég fékk einnig seinnipartinn - við erum öll í því að láta sérsauma og sérsmíða.


Skartgripurinn hennar Sonju smíðaður.

Seinna um kvöldið tókum við bíl á rútustöðina sem var við umferðargötu sem minnti mig á Grensásveginn - semsagt óspennandi og á vart tilverurétt. Margar stoppistöðvar fyrir rútur voru eftir götunni og maður þurfti að vita hvar sín rúta færi. Við þurftum þar að bíða eftir rútunni okkar í um hálftíma og á meðan komu nokkrar rútur sem fólk þurfti oft bókstaflega að stökkva upp í á ferð. Nokkrum sinnum komu rútur á fullu blússi framhjá með Indverjum hlaupandi á eftir, höfðu greinilega ekki náð að stökkva upp í rútuna.


Stór belja - mynd sem gæti verið frá eldri tímum.

Rúta sem var ekki okkar stoppaði beint fyrir framan okkur en okkar rúta kom skömmu síðar og þurfti að staðnæmast fyrir aftan þá fyrri - við hlupum af stað ásamt öðrum, ég með báða stóru bakpokana okkar sem ég ætlaði að freista að koma í geymsluhólfin undir rútunni á meðan Sonja kæmi sér og smátöskunum inn í rútuna. Ég kallaði á bílstjórann að ég þyrfti að koma töskum í geymslu og hann kinkaði kolli - ungur strákur um 15 ára kom út og opnaði hólf á miðri rútunni sem gat varla opnast til hálfs vegna bíls sem var fyrir. Náðum við í sameiningu að troða töskunum í lítið hólfið og skella á eftir - heimtaði hann 20 Rs. fyrir geymsluna. Ég vissi að það þyrfti ekki að borga sérstaklega fyrir þetta og ætlaði að fara að neita en þá fór rútan af stað og ég hljóp og stökk inn. Rútan stöðvaði reyndar 20 metrum frá á meðan annað fólk kom sér inn og öðrum töskum var troðið í rútuna og síðan var haldið af stað.

Þetta er í fyrsta skipti (og kannski í það síðasta) sem við ferðumst í rútu með svefnhólfum fyrir ofan venjuleg sæti. Alls yrði ferðin um 7 tímar en brottför var kl. 22 og áætluð koma klukkan 5 á næsta viðkomustað, bænum Bundi. Hólfið okkar sem var tvöfallt var þröngt svo ekki var hægt að rétta úr fótunum og allt angaði af skítalykt og óhreinindum. Dýnan undir okkur var gauðskítug og loftið angaði af reykingalykt og ekki hægt að kveikja ljós. Ég hafði nú góða lausn á þessu - ein unaðsleg svefntafla og ég var sofnaður 15 mínútum síðar.

Við vöknuðum bæði nokkrum sinnum um nóttina við gríðarlegan hristing því leiðin er slæm á köflum. Við hrukkum bæði upp á sama tíma þegar við héldum að rútan væri að fara á hliðina því hún vaggaði fram og til baka eins og skip í stjórsjó.

Strákurinn bankaði um 5 leytið þegar við vorum að koma á áfangastað og hentum við svefnpokanum í poka, tókum föggur okkar og stigum út úr rútunni. Þar tók það vanalega við okkur, ofákafir bílstjórar sem voru tilbúnir að keyra okkur á heimsenda fyrir rétt verð. Strákpjakkurinn opnaði fyrir töskurnar og rukkaði aftur um 20 Rs. og ég svaraði neitandi enda kominn með töskurnar í hendurnar. Tveir menn sem voru þarna og töluðu góða ensku fór eitthvað að rífast í honum og eftir smá rifrildi sögðu þeir að mér væri í sjálfvald sett hvort ég myndi borga honum en hann hefði passað töskurnar vel og oft væri borgað smá þjórfé. Ég lét undan og borgaði honum um 7 Rs. og hann tók orðlaust við því og fór aftur inn í rútuna.

Við vorum svefndrukkin og tókum fyrsta bílstjóra sem bauð okkur far enda sanngjarnt verð sem hann samþykkti. Eftir að við vorum komin inn í vagninn hans með allt okkar hafurtask kom annar bílstjóri aðsvífandi alveg snælduvitlaus og lá við slagsmálum á milli bílstjóranna. Þeir sem höfðu hjálpað okkur áður komu aðsvífandi og sögðu okkur að þessi hefði ekki verið í leigubílaröðinni en við þyrftum ekkert að hafa áhyggjur, við hefðum ekkert vitað það. Við enduðum á því að þurfa að skipta um bíl og eftir sat bílstjórinn sem við höfðum samið við súr á svip.

Ég var ekkert sérstaklega ánægður með gistihúsið en við tókum það samt og hentum okkur í rúmið enda dauðþreytt eftir erfiða bílferð.

Engin ummæli: