fimmtudagur, desember 06, 2007

81. Góður dagur stórkostlegt kvöld

Á danssýningunni í gær sá ég einn aðstoðarmanninn í hefðbundnum Indverskum jakka, sem eru aðsniðnir og síðir, og ákvað að slíkan jakka yrði ég að tryggja mér. Við ákváðum því að kíkja í fatabúðir fyrri hluta dags. Fyrsta búðin sem er á götunni fyrir neðan hótelið var nokkuð traustvekjandi og 4 starfsmenn að vinna þó enginn væri þar gesturinn. Þeir voru með svipaðan jakka og ég hafði séð uppi á vegg nema þessi var ræpubrúnn og ég hafði hug að að fá mér svartan. Við nánari eftirgrennslan sagði starfsmaðurinn að þetta væri bara sýningarjakki - þeir myndu sérsauma fyrir mig jakka eftir mínu máli úr því efni sem ég vildi fá jakkan í. Það hljómaði allt vel og ég skoðaði efni úr blöndu af silki og ull - bjóst við að þetta myndi kosta skildinginn og ekkert að því að fá verðið upp á forvitnissakir. Hann reiknaði út verð á vasatölvu - það kom mér skemmtilega á óvart, 2000 krónur íslenskar fyrir sérsaumaðan jakka úr góðu efni. Ég sá bol sem mér leist vel á og bað hann um að gera tilboð í tvo þannig sem einnig yrðu sérsaumaðir og var heildarverðið í pakkann 3200 krónur. Ég sagði þeim að ég ætlaði að fá mér kaffibolla og hugsa málið en í raun var lítið að hugsa um því mér fannst verðið aldeilis frábært.

Við settumst á kaffihús neðar í götunni og ræddum málin - afgreiðslumaðurinn úr fatabúðinni birtist allt í einu með sólgleraugun sem ég hafði gleymt í búðinni og þá ákvað ég endanlega að skella mér á jakkann og bolina.

Fyrir utan kaffihúsið voru tveir risavaxnir fílar með eigendurna á bakinu og var snælduvitlaus eldri búðarkona að úða yfir þá skömmum - kærði sig greinilega ekki um að stærsta landdýr jarðar væri að arka um á mjórri hliðargötunni. Hún var með prik í hendinni og var að hóta þeim barsmíðum en þeir virtust ekki hlusta mikið á hana þó þeir gæfust á endanum upp.


Fíll.

Við keyptum ferðina yfir á næsta stað sem heitir Bundi á ferðaskrifstofu hótelsins og verður ferðin öðruvísi því við keyptum í svefnrútu. En þetta er öðruvísi svefnrúta en við höfum áður farið í, við munum sofa í tvíbreiðu rúmi sem er lokað af fyrir ofan venjuleg sæti - spennandi að sjá hvort ég geti sofið í þessum fararkosti. Hinum meginn við ganginn eru einbreið rúm bæði á efri og neðri hæð.

Næststærsta höll Indlands er uppi á hæðinni skammt frá okkur og því tilvalið að fara í skoðunarferð um hana. Við ákváðum að taka enskumælandi leiðsögumann enda kostaði hann bara 150 Rs og segir það meira en mörg orð um hvað vinnuafl hérna kostar lítið að það var dýrara að leigja lítið vasadiskó og hlusta á umsögn í gegnum það heldur en leiðsögumann.

Höllin er í einkaeigu af fyrrverandi kóngi héraðsins og er einn þriðji af því heimili hans í dag, einn þriðji hótel og einn þriðji opið fyrir almenning. Höllinn sem er með ólíkindum stór stendur uppi á hæð við vatnið með stórkostlegt útsýni í allar áttir. Höllin er byggð utanum hæð og er það þess vegna sem risavaxin tré vaxa upp úr gólfinu á fjórðu hæð hallarinnar, hæðin er þar beint undir.
Það er hægt að leigja hluta af höllinni fyrir einkasamkvæmi og kostar það 1.7 milljónir íslenskar leigan og þá er eftir að splæsa í hluti eins og fæði og slíkt. Það er auglýsing um þetta á einum veggnum við innganginn í höllina sjálfa, stórt veggspjald og vakti það athygli okkar að það var gefinn upp upplýsingasími til að kynna sér málið betur og var þess sérstaklega getið að síminn væri "toll-free" eða ókeypis. Held að þeir sem hafa efni á að spreða milljónum fyrir einn dag séu nú ekki að spá í kostnað af einu símtali ... eða kannski gera þeir það, sennilegast með þannig hugsunahætti sem menn verða ríkir ... af peningum.


Svefnherbergi konungs skreytt speglum - klósett konungs með fóðruðu sæti sem var væntanlega ekki þrifið frekar en önnur klósett.


Vatnahöllin sýnileg frá höllinni.


Þarna sat konungur og horfði á dansiböll.

Á mjög þröngri hliðargötu voru litlir strákar að spila krikket og vildu endilega að ég prófaði að slá boltann sem ég að sjálfsögðu prófaði. Ég náði að slá fyrstu fjóra boltana og ætlaði þá að hætta en þeir grátbáðu mig um að slá einu sinni í viðbót. Sá minnsti þeirra náði þá að kasta frábærum bolta sem lenti í veggnum á móti mér og endurkastaðist þar beint í prikin (eða markið) fyrir aftan mig ... mark. Allstaðar heyrðust fagnaðarlæti, úr gluggum fyrir ofan okkur, úr hurðum og af götunni fyrir aftan mig. Ég gerði mér ekki alveg grein fyrir að svona margir væru að fylgjast með og hvað þá þegar að 10 ára strákur var að taka mig í bakaríið.


Krikketspilarar.

Við kíktum í búðir og versluðum eitthvað drasl sem mun rykfalla á hillum heima næstu árin, drifum okkur svo upp á hótel og skiptum um föt - fórum í skástu fötin okkar því í Vatnahöllinni (Lake Palace) er skilyrði að vera í snyrtilegum fötum, karlmenn mega ekki vera í stuttbuxum né sandölum en konur mega það hinsvegar.


Sonja útskýrir hvernig hún vill fá sérsmíðaða skartgripinn sinn.



Umferðaröngþveyti eftir sólarlag.

Við gengum út og gengum suður í leit að tuk-tuk. Við hringtorgið fyrir neðan hótelið voru nokkrir bílar í röð og var uppsett verð hjá þeim 50 Rs en hóteleigandinn hafði sagt að ferðin kostaði í mesta lagi 30 Rs. Ég var ekki á því að borga hærra en sanngjarnt verð þó að þeir hefðu lækkað sig niður í 40 Rs og við gengum því áfram niður mjóa götuna. Tuk-tuk kom á lítilli ferð upp - reyndist þetta vera yngsti bílstjóri sem ég hef séð, varla eldri en 14 ára. Hann samþykkti strax verðið 30 Rs án þess að gera tilraun til að semja um hærra verð - kannski var hann stressaður yfir því að það var komin röð fyrir aftan vagninn af öskrandi mótorhjólamönnum og sumir berjandi í vagninn að drífa sig. Hann keyrði upp götuna og snéri þar við og keyrði suður í rétta átt og stöðvaði síðan við búðareiganda og spurði hann hvar Vatnahöllin væri - okkur kom það spánskt fyrir sjónir því þetta er frægasti staður borgarinnar og hann varla með réttu ráði að vita ekki hvar hún væri.

Hann hélt áfram eftir að búðareigandinn hafði bent honum í sömu átt og við vorum að fara og stöðvaði við stórt hlið skömmu síðar, benti okkur á að við ættum að fara í gegnum það. Við vorum ekki alveg viss um hvort við værum nálagt vatninu og spurðum hvort þetta væri örugglega Vatnahöllin, við það kveikti hann aftur á vagninum og keyrði uppeftir í gegnum hliðið. Stígurinn var nánast mannlaus en ekki brattur, hallaði aðeins upp á móti. Samt átti vagninn í mestu vandræðum með að komast áfram. Hann stöðvaðist oft og þurfti hann þá að gefa honum vel inn áður en hann reyndi að koma honum af stað og mjakaðist hann varla. Lítil þreföld hraðahindrun úr gúmíi var á götunni og festi hann vagninn á henni, framdekkið var á milli lágra misfellanna og haggaðist ekki vagninn þó að hann gæfi honum alveg inn. Ég fór því út og ýtti honum yfir þessa miklu ófærur og prumpaðist vagninn áfram upp hallann. Hann stoppaði skömmu síðar og þurfti ég að fara út og ýta í annað skipti og koma honum á ferð. Við fórum í gegnum annað hlið og spurðum þar jakkafataklædda öryggisverði með talstöðvar hvar Vatnahöllin væri og bentu þeir okkur áfram eftir stígnum sem hallaði ekki lengur heldur var beinn og engar hindranir framundan. Vagninn var þá orðinn svo kraftlaus að hann kom honum ekki af stað á jafnsléttu og vel malbikuðum stígnum, vagninn skorti kraft. Jakkaklæddu verðirnir ýttu honum áfram og náði hann þar á eftir jafnt og þétt meiri hraða - menn sem sátu á vegg rétt hjá horfðu á okkur og brostu góðlátlega en aumingjans bílstjórinn brosti ekki, var rennsveittur að berjast við latt farartækið og sennilega stressaður yfir þessum vandræðum.
Við tókum vitlausa beygju og enduðum á röngum stað en við ákváðum að ganga þaðan - yrðum án efa fljótari enda stutt á réttan ákvörðunarstað. Ég borgaði 50 Rs, meira en umsamið verð fyrir frábæra skemmtun og renndi strákurinn á góðri ferð í burtu - hann hafði greinilega bara ekki ráðið við klifjarnar ... og ég sem hélt að við hefðum lést í ferðinni.


Tuk-tukinn festist á þessum litlu plasthindrunum.


Þægileg aðstaða er í landi við bátaskýlið.

Það að koma inn á svona glæsilegan stað á prumpandi Tuk-tuk sem var að gefa upp öndina minnti okkur á þegar við komum á fyrsta hótelið sem við gistum á í Lviv í Úkraínu hérna um árið. Við vorum þá einstaklega drullug og illa til höfð og mættum á 4 stjörnu hótel með hótelgarði á ljótustu Lödu sem ég hef séð sem var leigubíllinn okkar. Hlið hótelsins var opnað og við keyrðum inn og stigum út úr bílnum og drógum gauðskítuga bakpokana út í sama mund og uppstrílaður þjónn með hvíta hanska kom með gulllitaða útskorna kerru fyrir farangurinn.

Bátaskýlið fyrir Vatnahöllina er stórglæsilegt, mikill íburður með sófasettum, virðulega klæddum þjónum, steyptum garðskýlum, fallegum ljósakrónum og dýrum bílum gesta sem leggja þeim þar á planinu. Við þurftum að bíða þar í um 20 mínútur áður en við fengum að stíga um borð í bátinn sem sigldi með okkur á fljótandi höllina.


Bátalægi hallarinnar og vatnahöllin í baksýn.

Við skoðuðum okkur um á þessu hóteli sem ég á erfitt með að lýsa - horfið bara á Octopussy og sjáið hversu fallegt þetta er. En þetta er sem sagt höllin sem Octopussy sjálf býr í með öllum sínum fylgismeyjum. Þjónn fylgdi okkur til sætist á veitingahúsinu sem er með með útsýni yfir höllina í landi sem er upplýst og útsýnið því sennilegast fallegra en við höfum áður notið í kvöldverði. Á fyrstu síðunni á vínlistanum voru fjórar sjaldgæfar viskítegundir - dýrasta af þeim um 11þ krónur ísl glasið ... og það á stað þar sem vín á veitingahúsum er um 5-10x ódýrara en heima á Íslandi. Það var nokkuð ljóst að þetta fáránlega dýra vín yrði ég að prófa eftir matinn ... annað væri brjálæði.


Fyrir utan veitingahúsið - þarna var kvennabúr í Octopussy.


Dýrasta vínið efst á lista - Ladyburn 1973.


Kát við matarborðið.

Þjónusta og matur var eins og best var á kosið og ekki mikið af því að segja. Innifalið í verðinu var fjórföld máltíð - Sonja fékk sér beikonkjúkling í aðalrétt sem var svo meir að hann bráðnaði upp í munninum á henni (eða þá að hann hefur bara verið mauksoðinn) og ég fékk mér indverskan kjúklingarétt sem var góður.
Allt var svo fullkomið að það lá við að maður kvartaði yfir að tunglið væri ekki fullt, væri einhver skítaklessa á annari hlið þess.
Eftir matinn var komið að stóru stundinni - ég pantaði Ladybird 1973, sjaldgæft viskí sem var það dýrasta á seðlinum. Stuttu síðar kom stórt glasið með rétt tæplega botnfylli af þessum fáheyrt dýra drykki. Ég byrjaði á að þefa af honum .... lyktin var vond eins og af öllu viskíi, olli mér töluverðum vonbrigðum því ég bjóst við himneskri lykt. Ég velti glasinu eins og ég vissi hvað ég væri að gera og fékk mér sopa .... já, vínið var vont eins og annað viskí, ég hefði ekki þekkt muninn á þessu og á Jim Beam fyllerísviskíi þó að það væri einhver mjúkur keimur af þessu en hann náði ekki að pússa í burtu spírabragðið. Ég hugsaði með mér hvað ég hefði verið að hugsa en var fljótur á að muna að vínið hefði í raun pantað sig sjálft því maður kemst ekki oft í tækifæri að bragða á þetta dýru víni. Ég tók góðan tíma í að klára glasið - var farinn að gæla við að biðja um kók til að blanda veigunum við svo þær myndu renna betur niður en það hefði verið flokkað sem guðlast hjá vínáhugafólki.

Ég hafði lofaði vinnufélaga mínum sem ég á í undarlegu sambandi við að skála fyrir honum í bleikum kokkteil en það hefur verið venja hjá okkur þegar við fáum okkur í glas saman að fá okkur slíkan drykk sem verður að vera bleikur. Fyrir tveimur árum örkuðum við á milli staða í Amsterdam í vinnuferð og fundum réttan lit eftir nokkra staði. Ég hef enga útskýringu á þessari venju hjá okkur - svona er þetta bara.

Ég bað því sama þjóninn sem hafði afgreitt mig um glasið hvort hann ætti bleikan kokkteil og varð hann skrítinn á svipinn og hugsaði málið. Við eigum "Singapore Sling" - hann er bleikur sagði hann án þess að spyrja frekar út í af hverju liturinn skipti mig máli. Þar sem ég mætti á dýran veitingastaðinn með ósnyrt skegg, klæddur eins og og fátæklingur, pantað mér síðan dýrasta drykkinn á seðlinum og endaði á að panta mér bleikann kokteil hefur hann álitið sem svo að ég væri snarbrjálaður og ekki fyrirhafnarinnar virði að reyna að ræða rökfræði við mig. Singapore Sling var eins og hljómsveitin Singapore Sling, sveittur, sóðalegur en sterkur.

"It's very pink!" sagði ég skælbrosandi og sennilegast með brjálæðisglampa í útglenntum augunum þegar þjónninn kom með Slingarann.


Viskíið dýra - Singapore Sling.

Við tókum góðan tíma í að matast og voru einna síðust til að yfirgefa veitingasalinn og eftir það skoðuðum við hótelið í rólegheitunum. Við spurðum einn starfsmann niðri hvort það væri hægt að komast upp á aðra hæð en okkur hafði ekki dottið í hug að kíkja upp og engir áberandi stigar til að bjóða okkur þangað. Hann spurði hvort það væri útsýnið sem við værum að eltast við og jánkuðum við því svo hann fylgdi okkur þá upp á besta stað hótelsins til að njóta þess og bauð okkur þar sæti undir stjörnubjörtum himninum. Logandi kindlar héldu á okkur hita og lágvær tónlist hélt okkur í réttu stemmingunni.


Royal Barge fyrir framan höllina.

Reikningurinn var veglegur og sæmandi Hollywoodstjörnum - ég var reyndar að spá í að spila mig mjög stóran og segja þetta við reikningnum: "Iss, er þetta það besta sem þið getið gert, ég hef keypt mér bíla sem kosta meira en þetta!?"

Nóttin á þessu hóteli kostar 80þ í fátækrarmannaherbergjum og 140þ í svítum. Ég ætla að gifta mig hérna þannig að ég mæli með að fólk fari að safna fyrir gistingu á hótelinu þessa 15 daga sem venjulegt Indverskt brúðkaup er.


Móttakan á hótelinu.

Eftir að við höfðum setið í góða stund þarna ákváðum við að fara að drífa okkur enda klukkan að ganga í tólf. Sami strákur fylgdi okkur út og stigum við upp í lítinn bát sem sigldi með okkur í land. Við sigldum framhjá hinum svokallaða "Royal Barge" sem er gamaldasgs trébátur sem hótelið rekur. Það er hægt að panta bátinn fyrir kvöldverð úti á vatninu og er hann allur skreyttur logandi kertum hátt og lágt og því falleg sjón. Við hliðina á honum er eldhúsbátur, lítill bátur með engu nema eldhúsi og fimm kokkum með hvítar kokkahúur sem voru á fullu að elda þó klukkan væri margt.


Fallegt kvöld.

Klukkan var orðin svo margt að við gengum alla leiðina til baka eftir mannlausum götum. Stöku mótorhjól þutu framhjá á miklum hraða og geltandi hundar út um allt.


Tómar götur.


Israeli, Italian, Indian foods - einhver hefur fengið þá snilldarhugmynd að stofna veitingahús með löndum sem byrja á "I" - hvers á Iceland að gjalda?

Rokkið lifir!

Engin ummæli: