miðvikudagur, desember 05, 2007

80. Hamingjan í bolla

Ég byrjaði daginn ekkert sérstaklega vel. Við Sonja snæddum morgunverð á veitingahúsinu uppi á efstu hæð hótelsins okkar sem er með útsýni í allar áttir. Sonja bað mig að sækja fyrir sig slæðu niður í herbergið okkar sem er númer 304. Ég skundaði niður, opnaði hurðina og fór inn í herbergið - skildi ekkert í því að það var kveikt inni á baðherbergi og vatn rennandi í vaskinn. Fyrsta sem mér datt í hug að það væri verið að þrífa herbergið því ég sá ekkert athugavert við herbergið sjálft - gekk ég því lengra inn og kíkti inn á baðherbergi og sá þar afturendan á stúlku sem var að tannbursta sig. Ég leit í kringum mig og sá þá að bakpokinn á gólfinu var ekki okkar og ég greinilega í vitlausu herbergi. Ég bakkaði hægt og hljóðlega til að láta ekki stúlkugreyið fá hjartaáfall og tókst að smokra mér út án þess að hún tæki eftir mér. Ég lokaði rheyndar ekki hurðinni, hallaði henni aðeins aftur ... númerið á herberginu var 404.

Sonja var enn nokkuð slöpp og hóstðai og hóstaði svo við ákváðum í sameiningu að hún yrði bara að hvíla sig fram að hádegi til að ná þessu úr sér.

Ég hafði ekkert betra en að fá mér gott kaffi og gekk því af stað áleiðis til Coffee Day kaffihúsins sem var skammt frá hótelinu okkar en hótelstarfsmaður hafði merkt staðsetninguna inn á kort fyrir mig. Ég var afskaplega afslappaður þar sem ég rölti um mjóar göturnar hérna í gamla bænum, hef ekki verið svona stresslaus og rólegur í óratíma ef ég hef nokkurntíman verið það ... leið hreint afskaplega vel andlega en ég er nú reyndar yfirleitt stabíll þegar kemur að því.
Ég kom sjálfum mér á óvart með því að rata á kaffihúsið en kortið var ekki hið besta og ekkert grín að fylgja því eftir. Þurfti ég reyndar að spyrja nokkrum sinnum til vegar á leiðinni og tók um 25 mínútur að komast á áfangastað.

Ég sat í tvo tíma á kaffihúsinu, horfði út á götu og hugleiddi lífið og tilveruna. Pældi mikið bæði í Indlandi og Íslandi, ferðalaginu okkar og því sem tekur við þegar við komum heim því nú er farið að styttast ískyggilega í heimferð. Öllum þessum hugsunum var skolað niður með nokkrum gómsætum kaffidrykkjum við undirleik Megasar og Morrissey eins og oft áður.
Það er ekki ónýtt að fara í kaffileit og finna hamingjuna! Þeir sem eru ekki að leita finna yfirleitt það sem þeir eru ekki að leita að.

Kannski er bara róandi yfirbragð borgarinnar eftir mikla keyrslu í Bútan og gríðarlegt öngþveiti Phuskar að hafa svona róandi og góð áhrif á mig - hver veit.

Gamall grindhoraður betlari kom að pallinum sem ég sat á og rétti fram höndina og bað um pening. Feitlagin kona á miðjum aldri sem við skulum bara segja að hafi verið frá Bandaríkjunum stóð upp með myndavélina sína, tók mynd af manngarminum og settist niður án þess að gefa honum pening. Mér fannst þetta skrítin framkoma en hún virtist eitthvað skammast sín því hún stóð aftur upp skömmu síðar og spurði hann hvort hún mætti taka mynd af honum og var með útrétta höndina með 5 Rs mynt sem hún myndi gefa honum ef hann samþykkti tilboðið, sem hann gerði.

Við erum orðin skammarlega ónæm fyrir betlurum hérna á Indlandi. Við tökum varla eftir þeim þegar þeir koma að okkur og biðja um pening hvort sem það er gamalt sjúkt fólk á grafarbakkanum, börn sem eru nýfarin að standa í eigin fætur eða alvarlega vanskapað/slasað fólk sem fer um á ýmsustu fararskjótum svo lengi sem þeir hafa hjól. Það er svo mikið af þeim hérna og áreitið það mikið að við höfum myndað skjöld gagnvart þeim.
Víða eru skillti um að maður eigi ekki að ýta undir betl með því að gefa þeim peninga og er það sú afstaða sem við fylgjum, þ.e. að gefa ekki peninga. Við tökum oft eftir því að innfæddir virðast gefa peninga og búðareigendur eru gjarnir að gefa fólki sem kemur smáaura. Ég er ekki nær því í dag heldur en þegar ég kom til landsins um það hvort það eigi að gefa betlurum peninga eða ekki. Það ýtir náttúrlega undir og hvetur betl sem er mikil plága að gefa peninga en staðan á Indlandi í dag er sú að milljónir eiga allt sitt undir því að geta betlað, það er því miður staðreyndin. Þjóðfélagið getur ekki séð þessu fátækustu þegnum sínum fyrir lífsfararborða og því neyðist fólk að stunda þessa iðju sem ég held að fæstir vilji stunda.
Ég gef nánast aldrei betlurum en geri einstaka sinnum undantekningu á því - ástæðan er ekki sú að ég tími því ekki heldur held ég að ég sé á móti því að gefa þeim peninga þó að ég viti í raun ekkert hvernig er best að tækla þessa fátækt.

Indland er svo hræðilega stéttskipt að fólk á efri stéttum lítur ekki á lægstu stéttina sem manneskjur, fer með það eins og hunda - ekki einu sinni Gandhi vildi að neðsta stéttin fengi meiri réttindi. Yfirmenn eins og búðareigendur tala mjög mikið niður til undirmanna sinna sem er mjög áberandi fyrir fólk frá Íslandi en svona er þetta bara og ekkert við því að gera.

Þar sem við Sonja höfum mjög lítinn tíma til að skrifa inn ferðasöguna á hverjum degi og erum oft þreytt á kvöldin þá höfum við engan tíma til að fletta upp hvað við erum búin að tala um og hvað ekki og biðst ég því forláts ef ég endurtek mig í einhverjum tilvikum.

Það kom mér ekki á óvart að ég rataði ekki til baka á hótelið, þurfti einu sinni að snúa við þegar ég var kominn í ógöngur en náði á endanum að finna götuna okkar. Ég tók mér góðan tíma í þessa gönguferð, skoðaði í minjagripabúðir og skoðaði mig um - leið afskaplega vel eins og áður kom fram.


Heilög belja.


Feitir bitar.


Krossbrá þegar ég snéri mér við og sá þetta ferlíki rétt við mig.


Dýralíf á götunum.

Sonju leið betur en fyrr um morguninn og nefrennslinu hafði eitthvað slotað og hóstinn minnkað þó hún þyrfti mikið að snýta sér - hafði greinilega gert henni gott að hvíla sig um morguninn. Eftir að ég var nýkominn inn á herbergið bankaði framkvæmdarstjóri hótelsins hjá okkur og sagði okkur að við fengjum síðari tvær næturnar á minni pening en við höfðum samið um þegar við komum - veit ekki af hverju þessi góðmennska stafaði. En Indverjar eru í raun afskaplega hjálpsamt fólk og vinalegt, það eru bara svo afskaplega margir sem eru að reyna næla í peninga að maður er hættur að trúa því að nokkuð sé frítt.

Það var reyndar einhver skolplykt á herberginu okkar og bauðst hann strax til að leyfa okkur að skipta um herbergi sem við þáðum - fengum mun betra herbergi í staðin.

Eftir hádegisverð á snyrtilegu veitingahúsi með stórkostlegu útsýni yfir vatnið og stuttri gönguferð fór Sonja upp á herbergi en ég á netið og smá rölt. Einn áfangastaður minn var niður við vatnið þar sem berbrjósta konur þvo þvott í vatninu sem er ekki hið hreinasta svona alveg upp við landið. Um kvöldið fórum við á danssýningu skammt frá hótelinu þar sem hefðbundnir dansar frá Rajasthan voru sýndir og var þetta hið besta skemmtun. Hápunktarnir var hressandi strengjabrúðudans og dans feitrar konu sem dansaði á glerbrotum með 10 leirker stöfluð ofaná hausnum á sér.


Hótelið okkar - borðuðum á veitingahúsi með útsýni yfir Vatnahöllina.


Sonja á veitingahúsi.


Konur nýta asna í að bera múrsteina.


Systur.


Brúðkaupsspilarar á leiðinni í enn eitt brúðkaupið - Þessi kona á mikið verk fyrir höndum að brjóta niður allt húsið.


Dansinn dunar.


Dansað með eld á hausnum og lúðraleikari stendur á svölunum.


Fjórar konur í hringdansi.


Strengjabrúðan stendur á höndum og heldur á hausnum með fótunum.


Tíu ker á hausnum.


Lítil sjoppa en það fékkst allt sem okkur vantaði.

Við snæddum kvöldverð á efstu hæð hótelsins með útsýni allt í kring og horfðum á Octopussy sem er sýnd á hverju kvöldi á hótelinu eins og á næstum öllum hótelum borgarinnar<. Það er magnað að sjá myndina en eins og áður hefur komið fram er stór hluti af henni tekinn upp hérna í borginni og er sögusviðið nánast nákvæmlega eins og á götunum í dag, lítið breyst. Gaman að sjá vatnið og höllina fögru í myndinni og nánast sama útsýni út um gluggann hjá okkur.

Oktopussy er annars alveg fáránlega góð mynd, konungleg skemmtun og set ég hana í flokk með Casino Royale og In her Majestic Secret Service sem bestu Bond myndirnar.

Í Udaipur líður mér vel ... Sonju líður ekki jafn vel, a.m.k. ekki ennþá.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vá, flottar myndir!!! Þið eruð orðin svo pro ljósmyndarar að ég fer alltaf að gráta þegar ég tek myndir, þær standast enganveginn samanburð við ykkar!!!