miðvikudagur, desember 05, 2007

79. Octopussy

Eftir stuttan og hnitmiðaðan svefn spruttum við á fætur eins og svefnsjúkir sniglar en náðum að drattast út rétt fyrir kl. 5 en þá áttum við pantaðan leigubíl. Við höfðum greitt hótelstjóranum 300 Rs fyrir bílinn þessa hálftíma leið áður en hann komst að því að við vorum ekki þau einu sem þyrftum að fara á lestarstöðina í Ajmer þennan morguninn, alls voru 6 manns að fara. Parið sem mætti út fyrst (sem var að sjálfsögðu ekki við) fékk minnsta bílinn til umráða og lögðu af stað um það bil sem við mættum út. Við yrðum þá að vera fjögur saman í bíl af Ambassador tegund með allan okkar farangur. Við fengum að sjálfsögðu ekkert endurgreitt af peningunum sem við höfðum greitt fyrir bílinn þó að við værum fleiri um hann. Hóteleigandinn peningasjúki hafði sennilegast rukkað okkur fjögur sem voru saman í bíl um 600 Rs og greitt leigubílstjóranum í mesta lagi 150-200 Rs. Maður er hættur að nenna að rífast við svona hlutum, það er ekki fyrirhafnarinnar virði stundum.

Við náðum að troða öllum farangrinum í skottið nema öðrum stóra bakpokanum okkar og tveimur litlu bakpokunum okkar. Það kom í minn hlut að vera í framsætinu með bakpokann í fanginu og sá því nánast ekkert út um gluggann. Í aftursætinu ásamt Sonju voru danskar mæðgur - dóttirin hafði dvalið á Indlandi í 5 mánuði og var að sýna móðir sinni undraheima þessa stórmerkilega lands og höfðu þær ferðast saman í um tvær vikur. Danska stúlkan, sem er landafræðikennari í grunnskóla, hafði unnið einhvern af þessum tíma við að kenna götubörnum í Kalkútta ásamt því að búa til upp á eigin spýtur þrjár heimildamyndir sem hafa verið sýndar í dönsku sjónvarpi.

Á lestarstöðvum á Indlandi koma yfirleitt burðarmenn til manns þegar maður stígur út úr leigubíl, eða ryðjast inn í lestina jafnvel, og var þetta skiptið engin undantekning svo mæðgurnar fengu hraustan pilt til að bera allt sitt hafurtask að palli 4 þar sem lestin okkar beið þolinmóð eftir okkur. Þegar við komum að vagninum okkar sem var sá eini í lestinni sem hafði loftkælingu rukkaði burðarmaðurinn þær um 150 Rs. fyrir burðinn. Okkur Sonju þótti skrítið að svona skynsöm stúlka og reynd í ferðalögum á Indlandi hafði ekki samið um verð áður en burðurinn átti sér stað því það er mjög erfitt að semja um svona eftirá og bara ávísun á vandræði. Stúlkan sem var mjög kurteis og lágróma tókst að harka þetta niður í 100 Rs sem er samt allt of mikill peningur fyrir þetta. Þetta er eins og aðalmáltíð á góðum veitingastað kostar og til samanburðar kostaði lestarferðin sjálf í besta vagni þessa 6 tíma ferð 300 Rs.

Ég svaf nánast alla lestarferðina því við höfðum aðeins náð um 4 tíma svefni um nóttina og því upplagt að nýta ferðina í að safna kröftum.

Í Udaipur skutlaði tuk-tuk bílstjórinn okkur á Hotel Udai Niwas þar sem við höfðum pantað herbergi. Hann talaði fína ensku og sagði okkur frá þeim stöðum sem við keyrðum framhjá og var hin málglaðasti - má segja að þar hafi skrattinn hitt ömmu sína því hann og Sonja töluðu mikið á leiðinni. Þegar við vorum rétt ókomin rétti hann mér afturí litla gestabók þar sem fólk sem hann hafði farið með í skoðunarferðir um borgina hafði skrifað falleg orð um þjónustu hans. Ég fletti henni og sá setningu frá konu frá Taílandi sem gerði það að verkum að við myndum ekki fá hann til þess að keyra okkur slíka ferð:

"Yndislegur dagur, Uwas sýndi okkur áhugaverðustu hluti borgarinnar og fór með okkur í margar frábærar verslanir.". Það er eitt sem ég þoli ekki og það eru skoðunarferðir þar sem farið er með mann í búðir.

Borgin Udaipur er sunnarlega í Rajasthan hluta Indlands og er íbúafjöldi tæplega 400.000. "Rómantískasti staður á öllu Indlandi." sagði Colonel Tod um staðin og er maður fljótur að sjá hvers vegna. Borgin er mjög fögur, hvít háreist hús gnæfa yfir mjóar göturnar við hlið hins fallega vatns sem Vatnahöllin fræga virðist fljóta á vatninu. Vatnahöllin (eða Lake Palace) var breytt í hótel á 7. áratug síðustu aldar og á sér varla hliðstæðu þegar kemur að staðsetningu, fegurð og lúxus enda er þetta eitt frægasta hótel í heiminum í dag og kom Udaipur á ferðamannakortið. Hótelið ásamt tveimur öðrum höllum og borginni sjálfri var að miklu leyti sögusvið James Bond myndarinnar Octopussy fyrir þá sem hafa séð hana. Borgin er einn vinsælasti staður til giftinga á öllu Indlandi vegna fegurðar sinnar og var dagurinn sem við komum í borgina vinsælasti dagur ársins - milljónamæringur hafði leigt eyju með hofi sem liggur rétt við Vatnahöllina fyrir giftinguna sína ... eitthvað hefur það nú kostað. Spurning hvort það sé ekki bara plebbablegt að ráða Robbie Williams þegar svona hlutir eru í boði?

Við vorum þreytt eftir ferðalagið og gerðum því ekki mikið það sem eftir lifði dags auk þess sem Sonja var komin með einhverja óþverrapest, þ.e. hálsbólgu, beinverki, hausverk og kvef. Við röltum niður götuna sem hótelið okkar liggur við niður að vatninu og virtum fyrir okkur fallegt útsýnið. Ég fékk mér kaffibolla á þéttsetnu pínulitlu kaffihúsi um 200 m frá hótelinu. Renglulegur ljóshærður piltur með hækjur og annan fótinn í teygjubindi kom inn á kaffihúsið og við buðum honum að sitja við okkar borð þar sem öll borðin voru setin. Hann var frá Hollandi og hafði ferðast um Indland í svipaðan tíma og við með unnustu sinni. Þeim hafði orðið sundurorða svo hann hafði rokið út eins og heit lumma enda var hann lummulegur svona renglulegur með kringlótt gleraugu og sítt ljóst hár. Var hann því að slaka á og láta tímann líða áður en hann færi aftur á hótelið og gerði upp málin - sagði að þetta hefði nokkrum sinnum gerst því svona náið samneiti í þetta langan tíma tæki á og væri oft erfitt.


Fyrir utan apótek.

Talandi um að vera asnalegur þá eru Indverjar ákaflega hrifnir af fögru skegginu mínu og er ég oft stoppaður á götu og spurður hvað ég hafi safnað því lengi og er uppáhalds svarið mitt tvær vikur sem fæstir trúa. Einn skeggáhugamðurinn sem stoppaði mig þennan daginn vildi endilega vita hvernig ég litaði það brúnt. Ég hef ekkert snyrt það fyrir utan að snyrta yfirvaraskeggið til að ég geti borðað - hafði víst asnast til að ákveða það fyrir ferðina að safna því og ekki snyrta fyrr en heim væri komið. Þetta er oft nokkuð þægilegt en oftar óþægilegt því mig kitlar stundum undan því og þá langar mig afskaplega mikið að raka það allt af. Ég hef því ákveðið að raka það allt ásamt hárinu þegar ég kem heim - verði þá munkalegur.

Um kvöldið fékk ég fyrsta bjórinn síðan í Bútan - svalandi Kingfisher.

Engin ummæli: