Talandi um aðra starfsmenn en þar sem þessir hátíðisdagar eru gríðarlega annasamir þarf hann að ráða starfsfólk fyrir þessa fáu daga og það misjafnt. Á meðan við vorum að ræða við hann sat Indverji á hækjum sér 3-4 metrum frá okkur reykjandi og hlustaði á samtalið. Við báðum um að þvo þvott og réttum hóteleigandanum poka með þvottinum sem hann síðan bað þennan starfsmann að fara með inn í húsið til kvennanna sem vinna í eldhúsinu. Maðurinn bara yppti öxlum og sagðist ekki vita hvar þær væru og ekki heldur hvað hann ætti að segja þeim og neitaði að taka við pokanum og við það trompaðist hóteleigandinn og úthúðaði honum í dágóða stund þarna fyrir framan okkur. Sagði síðan við okkur að þessi maður væri gjörsamlega óþolandi, nennti ekki að hreyfa sig og hefði ekkert gert síðan hann réð hann til vinnu.
Við fengum okkur kaffibolla við vatnið og horfðum á fólksmergðina allt í kringum vatnið baða sig - þetta er helgasti dagurinn vegna þess að það er fullt tungl og því meira en vanalega af fólki að baða sig. Við sáum undarlega sjón þegar framhjá okkur gengu karlmenn í konufötum með slæður og allar græjur ásamt því að vera málaðir í framan. Þetta eru menn sem vinna fyrir sér með því að fara á milli brúðkaupa og láta fólk þar borga sér fyrir að fara því það þykir til ólukku að menn séu í kvennafötum, hvað þá í brúðkaupi manns ... talandi um "Wedding crashers". En þar sem Indverjar eru svipaðir og Bútanir með það að stjörnufræðingar þurfi að reikna út góða daga fyrir allt og ekkert þá gildir það líka um brúðakaup. Þetta árið eru víst 21. og 25. nóvember sérlega góðir dagar og því mikið að gerast í borginni.

Konur bera ferðatöskur. Þessi höfuðburðartækni er mjög nytsamleg þar sem hendurnar eru lausar en við höfum þó ekki enn skellt bakpokunum ofan á hausinn.

Fyrir framan hof.

Brosandi konur.

Þessar ekki jafn brosmildar.

Fólk baðar sig í vatninu.

Enn ein tannfríð kona.

Karlmennirnir geta líka verið myndvænir.
Í örtröðinni á aðalgötunni urðum við fyrir því óláni að það var hnuplað smáræði úr töskunni okkar og þurftum við því að koma við á lögreglustöðinni til að gefa skýrslu til að fá eitthvað bætt úr tryggingunum þó að þeir nái eflaust einhvernveginn að snúa sér út úr því að greiða okkur krónu ef ég þekki þá rétt.
Á lögreglustöðinni gengum við inn um stórt hlið og á hægri hönd var búr með um 10-15 smákrimmum sem sátu súrir á svip og horfðu á okkur. Við sögðum erindi okkar og okkur var vísað á feitlaginn og yfirlætislegan lögreglumann sem sat á plaststól í portinu. Hann sagði að þetta væri okkur sjálfum að kenna, hefðum átt að gæta okkur betur sem kannski er rétt en örtröðin er slík á sumum stöðum að maður á erfitt með að gæta að öllum stöðum og því fór sem svo. Þess má geta að í öllu ferðlaginu hefur ekki verið hnuplað svo mikið sem 10 RS frá okkur þótt Sonja geymi gjarnan allt upp í 200 RS í frekar opnum vasa á hlið buxna sinna. Hann fyllti út skýrslu um "Missing" hlut og fékkst loks að skrifa "(stolen)" á skýrsluna þó að letrið á því hefði verið miklu minna - var greinilega meinilla við að viðurkenna að þessu hefði verið stolið.
Eftir að við höfðum fyllt út skýrsluna þurftum við að bíða þarna fyrir utan á meðan annar myndi fylla út skýrslu á Indversku úr enska plagginu sem feitlagni lögregluþjónninn hafði fyllt út með semingi.
Á meðan við biðum kom grátandi gömul kona sem hafði greinilega lent í einhverri ólukku og hálf grátandi ungur maður sem hafði einnig lent í einhverju.
Tveir lögreglumenn í borgaralegum klæðnaði ruddust inn um hliðið með tvo hálfgrátandi menn í fanginu sem brutust um og báðu sér vægðar. Þeir hentu þeim inn í herbergið sem við biðum fyrir utan - tóku upp drapplitaða svipu og byrjuðu að berja mennina sundur og saman og því öskruðu þeir og æptu. Það voru a.m.k. 20 hörð högg og öskur í kjölfarið en sem betur fer sáum við ekki mennina sem lágu á gólfinu, aðeins lögregluna með svipuna í höndinni. Mikið verk fyrir höndum fyrir Amnesty International hérna á Indlandi.
Við gáfum skýrslu á indversku inni í sama herbergi og fanganarnir sem stuttu áður höfðu verið lamdir í kótilettur voru, þeir lágu á gólfinu við hliðina á okkur ásamt öðrum föngum sem eflaust höfðu fengið sömu meðferð áður en við komum.
Í hádegismatnum hittum við mjög skemmtilegt enskt par sem við höfðum hitt kvöldið kvöldið áður á sama stað, Seven Heaven.
"Einmitt fólkið sem við vorum að vonast eftir að hitta." sagði maðurinn en hann hafði einmitt lent í því óhappi að veskinu hans var stolið fyrr um daginn en veskið innihélt m.a. nafnspjaldið mitt sem ég hafði gefið honum daginn áður. Enski maðurinn sagðist hafa hitt annan mann, frakka, fyrr um daginn sem hafði lent í því að peningunum hans hafði verið rænt úr magaveskinu og það engin smá upphæð .... 100.000 Rs eða um 160þ krónum. Þetta var eldri maður sem hafði verið að safna fyrir ferðinni í þrjú ár og þurfti eftir þennan þjófnað að redda sér fari heim því hann hafði ekki efni á að ferðast lengur eftir þennan peningamissi. Skrítið og ekki til eftirbreytni að geyma svona miklar fjárhæðir á sér í utanáliggjandi magaveski. Spurning hvort að stjörnufræðingar hefðu getað séð að þetta væri góður dagur fyrir vasaþjófa.
Þetta enska par hefur ferðast töluvert um Indland.
"Our first trip to India was in 1976 ... you know, hippies!"
Þau eru mikið fyrir dýr og hafa skoðað nokkra þjóðgarða hérna og staði sem dýralíf er fjörskrúðugt. Þau eru sérstaklega hrifin af regnskógum.
"Ég veit ekki hvort þið hafið komið í regnskóga en það eru alveg æðislegir, rosalega mikið líf út um allt, kannski ekki mikið af fuglum en skordýr.". sagði hann með mikilli áherslu og brjálæðisglampa í augunum.
"Það hljómar nú ekki æðislega í mínum eyrum." svaraði Sonja og þau hjón hlóu.
"Ég veit ekki hvort þú ert hrifinn af köngulóm en það er stökkkönguló skríðandi á öxlinni á þér. Þær eru mjög skemmtilegar og vel til þess fallnar að vingast við." sagði hann, benti á öxlina á mér og tók hana af mér þegar hann sá skelfingarsvipinn í andlitinu á mér.
Afganginn af deginum notuðum við í að ganga um og virða fyrir okkur öngþveitið í bænum sem er engu líkt. Á veitingahúsinu í Seven Heaven í hádeginu heyrðum við pilt um 25 ára sem var að segja öðrum ferðalangi að hann hafði ekki höndlað að vera í bænum, hafði komið um morguninn með unnustu sinni og þau þurftu að snúa við eftir 15 mínútna göngutúr því þeim ofbauð allt brjálæðið. Viðmælandi hans tók undir þetta - ég verð að segja að ég skil ekki svona, þau eru komin alla þessa vegalengd að skoða Phuskar sem á sennilega engan sinn líka þessa daga ársins og geta ekki gengið um bæinn og virt þetta fyrir sér.

Reykjandi karlmenn.

Leigubíll.

Litríkar konur.

Fleiri litríkar konur.

Þessar voru kátar.

Betlarar eru út um allt.

Konuhópur.

Fleiri myndvænar konur, nóg var af þeim þarna.

Annar konuhópur.

Einn flottasti kallinn sem við sáum í Phuskar - Kvöldsólin gaf fallega birtu á þennan myndarlega mann.

Konan hægra megin er eiginkona hvítklædda mannsins að ofan.

Reykingar - tannfríður karlmaður til tilbreytingar.

Svona er öngþveitið á götunum.

Og drasl safnast upp.

Stúlkan með grænu augun - karlmannleg kona.

Allstaðar er verið að matreiða.

Konur.

Konur með nóg af armböndum að versla - Tannfríðar konur.

Hár túrban - Látið ekki svona strákar, komið þið!
Þegar við vorum á leið að vatninu seinnipartinn stoppaði okkur strákahópur af snyrtilegum piltum sem vildu taka í hönd okkar og fá að taka myndir af okkur á gemsana sína. Við vorum bæði þreytt og urðum við tilmælum þeirra með kannski hangandi hendi því við höfðum lent í þessu ótal sinnum um daginn og þetta er ansi mikið áreiti. Ég fékk reyndar spark í rassinn þegar sá snyrtilegasti og mælskasti af þeim sagði:
"Takk, takk fyrir að tala við okkur - við munum ekki gleyma þessum degi svo lengi sem við lifum." sagði hann einlækt. Þetta hljómar líklega mjög hallærislega á prenti en Indverjar eru oft mjög opnir og öðruvísi en við frostpinnarnir heima á Íslandi. Við þessi orð breytti ég gjörsamlega framkomu minni og við Sonja gengum með þeim á litla hliðargötu og ræddum málin við þá í dágóða stund.
"Ég bið þess auðmjúklega að þú takir af okkur mynd með henni." sagði hann og benti á Sonju sem við að sjálfsögðu gerðum og munum senda þeim mynd innan tíðar. Það er skrítið að lenda í svona hlutum og vera nánast eins og stjórstjarna en það venst furðu fljótt og maður er í raun hættur að taka eftir þessu þó þetta óneitanlega kitli þetta hégómagirndina.

Strákahópurinn.
Við rétt misstum af sólarlaginu við vatnið því við lentum í afar myndasjúkum hóp, fólk nánast slóst um að fá mynd tekna af sér og eyddum við góðri stund þar sem olli því að við misstum af stórkostlegu sólarlaginu. Við stöldruðum dágóða stund við vatnið því við höfðum heyrt að fólk myndi fleyta kertum í þusundatali við vatnið þetta kvöld en það var nú ekki jafn mikið og við höfðum búist við. Ég reyndi að fá að taka mynd af fleytingunum hinum megin á vatninu en heilagi maðurinn sem var á verði nálagt mér vildi fá 50 Rs í eigin vasa fyrir að fá að leyfa það þannig að ég stalst bara og komst upp með það í þetta skiptið.

Strákar við vatnið.

Vörður sem passar að engar myndir séu teknar við vatnið.

Kerti sett á flot.
Tveir ungir menn frá Phuskar rúmlega 20 ára tóku okkur tali því þeir hafa mikinn áhuga á að læra ensku og tala mikið við útlendinga til að þjálfa enskuna sína sem var hin ágætasta. Þeir töluðu mikið um trúmál, annar þeirra var múslimi og hinn hindúi og sögðu þeir að það skipti engu máli hvaða trú menn aðhyllast, við erum öll af holdi og blóði og eins að grunni til og því á trú ekki að skipta máli. Sá sem talaði meira sagði að hinn væri besti vinur sinn sem myndi alltaf hjálpa honum í blíðu og stríðu og hann elskaði hann útaf lífinu og hann myndi gera það sama fyrir hann.
"I'm the stupid one and he is the intelligent one!" sagði hann og benti á vin sinn.
"No, I'm the stupid one and he is the intelligent one!" svaraði hinn að bragði.
"You are both stupid!" sagði ég en ég held að þeir hafi ekki skilið að ég var að grínast því þeir brostu ekki, horfðu bara stóreygðir á mig, þannig að ég gerði þeim það ljóst að þetta hefði verið saklaust grín.
Ég tók myndir af þeim með Sonju og lofaði að senda þeim, þurfti að lofa því a.m.k. 10 sinnum og mun að sjálfsögðu standa við það. Við héldum heim á leið í gegnum hlandlykt, sofandi fólk út um allar trissur, hávaða og líf og fjör.

Strákarnir.

Á tröppunum.
Í framtíðinni þegar Sonja gleymir að þvo klósettið heima mun lyktin bera okkur aftur í tímann í huganum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli