Okkur var sagt áður en við fórum upp á þakið þar sem borðin eru með útsýninu að myndatökur væru stranglega bannaðar og auk þess voru skillti út um allt á veggjunum uppi. Ég ákvað því að taka ekki mynd og þykjast ekki hafa vitað að það mætti ekki ... hefði þurft lögfræðing til að ljúga sig út úr því.
Það var morgunmistur yfir vatninu og borgin öll böðuð ævintýraljóma sem erfitt er að lýsa - held að myndavélin hefði ekki náð að fanga þetta með okkar ljósmyndaþekkingu. Við eyddum því rúmlega klukkustund þarna uppi og horfðum á þetta mikla listaverk sem maður og náttúra vinna saman. Taranga með Prem Joshua var ágætis tónlist til að auka enn áhrifin af útsýninu í góðum græjum veitingahúsins. Erfitt að slá út þennan morgunmat (og þið fíklar: kaffi og sígó slær þetta ekki út!).
Við röltum um kamelsvæðið sem hafði mun færri kameldýr en kvöldið áður Sonju til mikils ama því kameldýr eru víst hátt á listanum hennar yfir sæt dýr. Held að þau hafi tekið framúr beljum og náð þannig fyrsta sætinu yfir þau dýr sem eru sætust. Ég ætla að reyna að setja upp topp 5 hjá henni eftir minni:
1. Kameldýr
2. Beljur
3. Fílar
4. Kisur
5. Svín
6. Eldklerkar
Ég næ ekki toppsætinu enda et ég kappi við fallegustu dýr jarðar eins og svín og beljur - ég er ofarlega og er ánægður með það (held að það sé líka jákvætt að hún flokki mig með villidýrum en ekki viss).

Hringar í nefjum.

Fleiri hringar.

Ætli þær séu báðar brosandi?

Sama hurðin.

Skrautlegt fólk og kameldýr.

Þessi unga stúlka leik sér að því að ganga eftir kaðlinum og rugga honum fram og til baka.

Matur og drykkur á kamelsvæðinu.
Við drifum okkur aftur upp á hótel með stoppi í skyrtubúð þar sem ég keypti létta hvíta skyrtu til að vera í hitanum. Við þurftum að færa okkur um herbergi því einhver pempían þurfti endilega að fá herbergi með sér baðherbergi og við því að fara í herbergi á efri hæðum með sameiginlegu baðherbergi. Eigandinn vildi samt ekki slá af verðinu þrátt fyrir miklar samningaviðræður en að þrátta við óheiðarlega Indverja ætti að vera skilyrði í námi þeirra sem eru að læra til MBA. Þumalputtareglan er að hafa enga peninga í vösunum þegar maður er að reyna að fá lægra verð fyrir eitthvað því annars endar maður á því að borga meira áður en við er litið.
Nýja herbergið var snyrtilegra en það gamla og ein ástæðan fyrir því sennilegast sú að gauðskítugt baðherbergi var ekki þar inni en Indverjum finnst engin ástæða til að þrífa klósett á gistiheimilum - skvetta úr vatnsfötu á það og hugsanlega eina stroku yfir setuna sjálfa og málið er dautt en líf grasserar samt í settinu. Fyrir neðan vatnsyfirborð á klósettinu eru brúnirnar döggbrúnar og renna yfir í svart á stöku stöðum og setan sjálf virðist nokkuð hreinleg en ef það er strokið yfir hana með rökum klút verður hann brúnn. Ég skil samt ekki hvað Sonja er að kvarta því maður notar setuna að sjálfsögðu ekki þegar maður pissar (nema að maður sé þjóðverji því þeir eru allir sitjupissarar ... munið það næst þegar þið haldið að einhver þjóðverji sé töff).
Moskítóflugurnar í gamla herberginu voru taldar í tugum eftir fjöldamorð mitt en áður en ég náði að byrja í þessu herbergi sá ég sennilegast hundruðir flugna sveimandi í gluggunum og í loftinu. Þetta var því töpuð barátta en ég náði að fella slatta áður en ég gafst upp - held að grindin sem er fyrir gluggunum sé of gróf til að halda öðru en tarantúlum og kakkalökkum úti.
Eftir hádegisverð héldum við aftur í eyiðmörkina þar sem kamelhirðarnir halda til og röltum um svæðið. Indverskur ljósmyndari sem var að taka myndir á svipuðum stað heilsaði upp á okkur - sagði okkur síðan frá hvar best væri að taka myndir og hvernig ætti að höndla fólk sem biður um peninga fyrir myndir ... ekki gefa þeim svo mikið sem krónu. Hann var öruggur í fasi og greinilega vanur maður sem kom reyndar í ljós þegar hann sagði okkur að hann væri aðalljósmyndari Indi Times, sem er stórt blað á heimsmælikvarða ef maður dæmir eftir fjölda lesenda ásamt því að hafa gefið út ljósmyndabók og með tvær í burðarliðunum. Hann var duglegur að kalla á okkur þegar hann sá efnilegar myndir eða flotta menn sem hann bauð okkur að taka myndir af á sama tíma á hann - ekki oft sem ljósmyndarar af þessari gráðu eru þetta vinalegir, flestir vilja frekar reka mann í burtu.

Kamelhirðar.

Við fengum að halda en kameldýr virðast vera þrjósk og erfið dýr - held að Hérge hafi hitt naglan á höfuðið þegar hann lét kameldýr (eða var það úlfaldi) sprauta vatni framaní Kafteininn.

Kameldýr.

kamelhirðiririnn Sharwan.
Við enduðum með honum upp á hæð og fönguðum þar sólarlagið ásamt nokkrum öðrum ljósmyndurum. Það var ótrúlegt að sjá fjölda ljósmyndara með stórar linsur á hátíðinni - maður fór að hugsa með sér til hvers maður er að eyða svona miklu púðri í að taka myndir, það eru svo margir sem eru að gera svipaða hluti og sumir miklu betur. En við höfum a.m.k. gaman af þessu og það er það sem heldur okkur við efnið - erum löngu hætt að pæla í að gera einhverja merkilega hluti með myndunum, það að vinir mínir hafi mynd eftir mig innrammaða upp á vegg er eitthvað sem gerir þetta þess virði.

Maliram frá Sikjar brynnir dýrunum sínum.

Kameldýr í kvöldsólinni.

Feðgar sem voru að gæta kameldýra og hests síns uppi á hæð.

Ungur drengur að reyna að tjónka við dýrin
Eftir að sólin var sigin til viðar kom konan hans Raj með barn þeirra og við gengum með þeim aftur í bæinn. Hún var mjög skemmtileg, ljósmyndari eins og hann sem vinnur hjá stærstu tímaritakeðju Indlands eru eru þau bæði að mynda Phuskar fyrir fyrirtæki sín. Við tókum góðan tíma í að ganga til baka og þegar leiðir skildust spurðu þau okkur hvort við vildum borða með þeim um kvöldið því þau voru ekki alveg nægilega hress með hvað við þekktum nöfnin á fáum Indverskum réttum (nöfnin eru oft löng og flókin og því á ég afskaplega erfitt með að muna þau).
Rétt fyrir klukkan níu fundum við hótelið þeirra sem var alveg miðsvæðis. Móttakan var niðri á götu og okkur var bent að fara upp þegar við sögðumst ætla að hitta Raj í herbergi 106. Herbergin sem innangengt var inn af svölum sem snéru út á götu voru öll ómerkt og því vorum við ekki viss um hvað gera skildi, þangað til við sáum að eitt herbergið var með lykil í skráni sem merktur var 104. Ég nýtti alla mína stærðfræðiþekkingu til að finna út hvaða herbergi væri sannarlega nr. 106 og bankaði laust. Maður sem sat á rúminu fyrir innan opnaði litla rifu og horfði út og spurði ég hvort þetta væri herbergi 106 og hann opnaði hurðina alveg. Eiginkona Raj, Bianca stóð fyrir innan og heilsaði mér og gekk í inn - þetta hafði verið Raj sem opnaði þó mér þætti hann breyttur og afsakaði ég lágt að hafa ekki þekkt hann, ljósið hefði verið lítið. Ásamt þeim og barni þeirra voru þarna móðir Bianca og bróðir hennar, viðkunarlegur strákur um 25-30 ára. Eftir stutt kurteisisspjall gekk Raj inn í sömu ljósmyndafötunum og hann hafði verið í daginn eftir - sá sem opnaði reyndist vera bróðir hans sem var mjög líkur honum.

Raj til vinstri og Bianca situr og horfir til vinstri.
Við gengum öll út úr hótelinu og niður í fjölmennið fyrir neðan og fylgdum þeim yfir á næstu hliðargötu sem var ekki eins fjölmenn en samt gríðarlegur fjöldi fólks á ferli. Þar settumst við á ótúristavænt veitingahús með plaststólum og ekki miklu sjáanlegu hreinlæti. Þau sögðu að þetta væri besti matur bæjarins, höfðu leitað víða og enginn slægi þessum út sem voru mikil meðmæli með staðnum þar sem þau eru öll mikið matarfólk. Við hliðina á okkur voru tveir eldofnar og voru tvær litríkt klæddar konur sem sátu við þá og bjuggu til brauð í miklum mæli ásamt öðru vel lyktandi fæði.
Við vissum að við værum að spila með eldinn með að borða þarna því bæði var afgreiðslufólk og kokkar ekki mikið að pæla í hreinlæti auk þess sem var fólk sofandi á götunni rétt við okkur og fara Indverjar ekki langt til að gera þarfir sínar. Enda var megn hlandlykt yfir matarborðinu og við skiljum núna af hverju þeir vilja hafa mat sinn svona bragð- og lyktarmikinn. Þau pöntuðu fyrir okkur matinn og sögðu okkur frá öllum réttum sem við brögðuðum og kenndu okkur að borða þetta almennilega með fingrunum því engin voru hnífapörin. Fyrir matinn spurði Bianca mig hvort ég vildi þvo hendurnar og tók ég eina vatnskönnuna og þvoði mér út á götu því ekkert klósett né vaskar voru á staðnum. Maturinn var sérlega ljúfengur, allt grænmetisréttir því við vorum á helgum stað, borðaði ég mig pakksaddann og rúmlega það því þau vildu ekki taka því að ég væri saddur, tróðu svoleiðis ofaní mig góðgætinu. Sonju fannst þetta ekki alveg jafn gott en borðaði sitt enda höfðu þau pantað þá rétti fyrir hana sem voru minnst kryddaðir.
Eftir matinn fengum við Papadam sem þau eru vön að fá fyrir mat enda frá Delí en í Rajasthan er venja að borða það síðast.
Við reyndum að fá að borga matinn fyrir alla en þau tóku það ekki í mál og borguðu fyrir okkur. Verðið á matnum fyrir 8 manns þar sem flestir borðuðu mjög mikið og því fjöldinn allur af réttum var 190 Rs, rúmlega 300 krónur íslenskar.

Konurnar búa til Chapatti fyrir okkur.

Móðir Biöncu, sonur þeirra hjóna og Raj.

Setið að snæðingi.
Amman og barnabarnið fóru upp á hótel eftir matinn en við fórum í göngutúr niður að vatninu helga. Allstaðar var fólk sofandi enda mun fleira í bænum en hægt er að veita gistingu. Sumar hliðargötur voru með óbærilega hlandlykt og lá fólk sofandi í moldinni stutt frá þessum götum eins og allsstaðar annarsstaðar - það er svo sannarlega upplifun að vera hérna.
Í kringum allt vatnið eru hof með tröppum niður í vatnið og eru myndatökur bannaðar þar allstaðar því fólk baðar sig í vatninu og þá gjarnan klæðalítið - það er verið að passa að menn séu ekki að taka nektarmyndir í ógöfugum tilgangi, fólk verður að geta stundað trú sína án þess að eiga slíkt í hættu. Þarna um kvöldið var enginn að baða sig enda orðið frekar kalt í veðri og sagði Raj mér að ég mætti taka myndir eins og ég vildi - varð ég frekar hissa á því en hlýddi enda vel upp alinn. Ég fór ásamt bræðrunum tveim sem eru báðir ljósmyndarar (greinilega mikil ljósmyndafjölskylda) niður tröppurnar og tók nokkrar myndir þó að mér væri ekkert of vel við það. Kallkerfið glamaraði skyndilega yfir öllu og heyrði ég orðið "Photo" í öðru hvoru orði en þetta reyndist ekki vera til okkar. Þegar ég hafði lokið mér af snéri ég við og gekk nánast beint í fangið á fullvopnuðum öryggisverði sem stóð rétt fyrir ofan og fylgdist með mér. Raj var að spjalla við hann og var honum greinilega alveg sama þó við værum að taka myndir enda tilgangurinn sennilega bara að verja baðgesti.
Við gengum aðeins lengra eftir vatninu og Raj og Bianca fengu tvær skálar með kertum og við Sonja settum annað saman á flot fæyrir góðri lukku á meðan Raj myndaði okkur á bak og fyrir ofanúr vatninu en hann hafði vaðið út í það til að ná betra sjónarhorni. Ég tók mynd af þeim tveimur þegar þau settu sína skál á flot.
Raj tók nokkrar myndir af okkur í tröppunum þar sem hann stillti okkur upp út um allt og sagðist senda okkur þær fljótlega - kannski koma þær í Indverskum dagblöðum, hver veit.

Hofin raðast í kringum vatnið.

Kerti sett á flot.

Raj og Bianca.
Heilagur maður varð stjörnuvitlaus þegar einhver í hópnum fór í skóm niður að vatningu og hélt langan reiðilestur yfir okkur á háu nótunum þangað til við létum okkur öll hverfa áður en meiri læti myndu skapast.
Þetta var virkilega skemmtilegt og fróðlegt kvöld þar sem matur, indverskar giftingar og margt annað var rætt og vitum við Sonja mun meira um indverska menningu en áður. Þau voru öll mjög skemmtileg og létt í skapi og getur vel verið að við þiggjum heimboð þeirra þegar við komum til Delí í fimmta og síðasta skipti í þessari ferð í byrjun desember.
Við kvöddumst við margmenna götu - stoppuðum og mynduðum hring og tókumst í hendur. Eins og alltaf í svona tilfellum stoppuðu allir sem voru á leið hjá, aðallega yngri karlmenn og stöðru á okkur þangað til mannfjöldinn var orðinn eins og eitthvað stórmerkilegt væri að gerast. Raj snéri sér að þeim og sagði "Suss, suss" og benti þeim að fara og það virkaði vel.
Þegar við höfðum kvatt fór ég í búð stuttu frá og skildi Sonju eftir og það var við manninn mælt að þegar ég kom til bara höfðu safnast í kringum hana um 20 ungir Indverjar líkt og hún væri Audrey Hepburn eða Angelina Jolie. Þeir voru allir að mynda hana í bak og fyrir á farsímana sína og fengu einnig að taka í hönd hennar.

Mannsöfnuður í kringum Sonju.

Menn sofandi í moldinni fyrir utan gistihúsið okkar.
Ég átti erfitt með að sofna því mismunandi tónlist ómar hátt úr öllum áttum og gluggarnir á herberginu okkar þunnir enda halda þeir ekki moskítóflugum hvað þá meira.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli