Við byrjuðum morguninn á því að ég fór og vann aðeins í tölvunni á "hang-out" staðnum okkar "Seven Heaven". Þetta hótel er magnað, vildum að við hefðum getað gist þar en það var fullt þannig að við eyddum nánast öllum kvöldum á efstu hæðinni sem er veitingahús með hengirúmum, bókum, þráðlausu neti og slíku.
Sonja fór í aðrar erindagjarðir - láta pakka inn fleira dóti til að senda heim til að létta á bakpokunum okkar. Hún fór á sama stað og hún hafði notast til að senda daginn áður - strákurinn sem hafði aðstoða hana daginn áður var upptekinn en henti öllu frá sér þegar Sonja kom til að afgreiða hana þó aðrir starfsmenn væru lausir.
Eftir að hann var byrjaður á verkinu fór hann að spyrja Sonju:
"Ertu gift?"
"Nei." svaraði hún.
"Líkar þér við Indverja?"
"Indverskt fólk?"
"Já."
"Já, það er mjög vinalegt."
Hann varð þögull í smá stund en hélt síðan áfram:
"En hvað um indverska menn?"
"Mér líkar ágætlega við þá."
"Eiga þeir séns eða eru þeir einskis nýtir?"
"Ég þekki eiginlega enga indverska menn og auk þess líkar mér vel við unnusta minn."
"Eru Indverskar konur einskis nýtar?"
"Hvað ertu gömul?" sagði hann án þess að svara spurningu Sonju.
"28" svaraði Sonja og þá urðu augun á honum og hinum á stærð við undirskálar.
"Þú ert miklu eldri en ég." sagði hann hálf vonsvikinn og hætti að spyrja - greinilega lítið fyrir gamlar kellingar.
Á meðan Sonja var þarna inn komu fullt af strákum úr nágreninu, störðu á Sonju þarna inni og voru eitthvað að grínast við strákinn á indversku. Strákar m.a.s. lágu á glugganum þegar plassið í hurðinni var ekki nægilegt fyrir fjöldann.
Eftir pökkunina var pósthúsið næst á dagskráni sem reyndar virtist lokað, aðeins ein hurð opin sem virtist vera starfsmannahurð því hún var til að komast bakvið afgreiðsluborðið. Sonja bankaði og yngri maður heilsaði fyrir innan hurðina og bauð henni inn.
"Er opið, er í lagi að ég komi inn svona bakdyramegin?" spurði Sonja hálf hissa.
"Heyrðu vinan, á Indlandi er allt mögulegt." sagði hann smjaðurlega.
"Sendið þið böggla?"
"Farðu þarna í gegn í næsta herbergi."
Sonja fór í gegnum dimmt herbergi og inn í böglaherbergið þar sem smávaxinn og uppburðalítill maður sat og rétti henni eyðublöð til útfyllingar.
"Ertu að ferðast ein?" spurði hann þegar Sonja var í miðju kafi.
"Nei, ég er með unnusta mínum." (hún sagði reyndar "kærasta mínum" en aðalritstjóri ferðasögunar ákvað að breyta þessu).
"Hvar er hann?"
"Hann er að stússast eitthvað."
Þegar hún var búin að fylla út plögginn kom inn annar maður með te og gaf okkur, fór inn í herbergið fyrir aftang bauð Sonju sígarettur.
"Nei, takk - ég reyki ekki."
"Af hverju ekki?"
"Af því að það er óhollt og maður verður andfúll."
"Að reykja er það hollasta sem þú getur gert." sagði hann brosandi og tók stóran smók.
Hádeginu eyddum við að mestu í vin okkar í eyðimörkinni og geðveikinni, Seven Heaven hótelið - gott að slappa þar af, borða góðan mat, kíkja á netið og vera fjarlægur hávaðanum, örtröðinni, þvögunni, lyktinni og áreitinu fyrir utan.
Við fórum aftur í leiðangur og gengum í átt að kamelsvæðinu. Á leiðinni var gullfaleg uppbúin stúlka á svölum og kvikmyndatökulið fyrir neðan að gefa henni allskonar tilmæli með hvernig hún ætti að ganga og sveifla blæjunum. Þetta var fyrirtaks augnablik til að stela myndum og taka myndir því hún var flott á svölunum í kvöldsólinni. Þetta reyndist vera upptaka á tónlistarmyndbandi fyrir indverska Idolið og var hann þarna svartklæddur en virtist leiðast og var mest í símanum. Hann lét þó tilleiðast að lokum að gefa nokkrum börnunum eiginhandaáritanir.

Fyrirsætan og idol stjarnan.

Það eru ótal svona matarbúðir í bænum.

Með höndina ofaní pönnunni.

Hölög belja og heilagir menn sem gera lítið annað en að betla peninga af fólki. Kröfðu mig um borgun fyrir þessa mynd en ég sagð að þeir hefðu átt að segja það áður en ég tók myndina og gekk í burtu með þá næstum hangandi utaná mér.

Hresst fólk á leiðinni.

Allstaðar er verið að matreiða kræsingar.

Tölvuleikjasalur með sjónvarpum.

Frumbyggjakonur.

Blátt á bláu.

Tannfríð.
Þegar við vorum loks komin inn á kamelsvæðið var þessi upptökuhópur komin þangað og var búinn að fá í lið með sér nokkrar ættbálkastúlkur sem voru uppmálaðar fyrir myndatökur ferðamanna. Við nýttum því tækifærið vel að taka myndir af þeim án þess að þær gætu komið og rukkað okkur en fengum kuldaleg augnaráð. Þeim var mun meira í mun að birtast í myndbandinu örskotsstund heldur en að hugsanlega fá 10 RS frá okkur.
Við tókum stutta hringferð um svæðið á kamelvagni sem var skemmtileg tilbreyting frá því að arka þetta sjálf því það er satt að segja ansi strembið að ganga mikið í eyðumerkursandi. Vagninn okkar var mjög einfaldur trévagn en kameldýrið vel skreytt eins og mörg hérna. Sumir vagneigendurnir auglýsa loftkælingu en við sáum satt að segja ekki alveg hvernig það virkaði - hugsa að það sé meira fyrir feita Ameríkana. Ferðin var hin rólegasta og mjög þægilegt þangað til við báðum strákinn að skila okkur á annan stað en hringferðin sagði til um og lét hann þá kameldýrið spretta úr spori - vagninn var demparalaus og því var þetta erfið ferð fyrir afturendana á okkur ... eins og þeir hafi ekki átt nógu erfitt í ferðinni fyrir.

Stollt móðir.

Kamelhirðar fyrir framan tjald sitt.

Sumar konur mála sig upp til að fá peninga fyrir myndatöku frá túristum - ég borgaði ekki, laumaðist til að taka þessa mynd.

Hópur af kameltdýrum.

Kamelfjölskylda.

Mikið líf og fjör á svæðinu.

Hvítklæddir menn.
Sonja kíkti aðeins inn í litla búð sem seldi vefnað, var eitthvað að pæla í pilsum. Ég beið fyrir utan og stuttu síðar kom maður út úr búðinni sem var nánast alveg eins og John Goodman leikari með skegg eins og hann var með í myndinni XXX eftir Cohen bræður. Hann var að flýja gjörsamlega óþolandi eiginkonu sína sem talaði með mjórri og óþolandi röddi með meiri suðurríkjahreim en maður á að þurfa að heyra. Hún pirraði það ekki aðeins afgreiðslumennina heldur einnig Sonju sem þurfti að skoða með henni í þessari litlu búð.
Eiginmaðurinn ávarpaði mig strax þegar hann kom út (skulum hafa þetta á ensku svo fólk eigi betur með að ímynda sér suðurreíkjahreiminn):
"What's up?"
"What did you say?" spurði ég því ég áttaði mig ekki alveg á því hvað hann var að segja.
"What's up?" sagði hann hærra svo ég skildi hann.
"Good, how are you?" svaraði ég.
"Pretty good - where are you from?"
"Iceland."
"Oh, long way from home!"
"Yes, where are you from?"
"Texas!" sagði hann með meiri hreim en áður - ég hefði kannski átt að segja Gullbringusýslu þegar hann spurði hvaðan ég væri.
"Oh, the home of George W. Bush." sagði ég svona til að stríða honum aðeins.
"Yes!" sagði hann mjög stolltur.
Ég talaði ekki mikið við hann en hann virtist miklu þægilegri en konan hans - Sonja kom út skömmu síðar og við héldum ferð okkar áfram og skoðuðum innganginn (Ghat) að einum af baðstöðunum við vatnið sem heitir Varah Ghat. Þar er gaman að koma því stórir apar eru þar út um allt, aðallega uppi á þakinu og ofaná steyptu hliðinu við innganginn. Fólk gefur þeim að borða og eru þeir mjög gæfir, taka jafnvel mat úr höndum fólks. Stundum hlaupa þeir yfir gangstéttina til að fara yfir hinummegin og hrekkur þá fólk oft við, því maður veit aldrei upp á hverju þessi kvikindi taka.

Apar fyrir ofan hliðið.

Fyrirtaks fyrirsætur.

Óskup lítill og ljótur - Þessi var heldur betur að slappa af.

Lítill og spéhræddur.
Við hittum þar fyrir ljósmyndara sem við töluðum við í um 20-30 mínútur en hann hafði verið svipað lengi í borginni og við. Það sem einkenndi þessar samræður var að hvorki hann né við spurðum hvers lenskur hinn aðilinn var - hélt að það væri svona grunnspurning en hann hefur líklegast verið frá Englandi.
"I love you!" kallaði unglingspiltur til Sonju þegar hann gekk í burtu eftir að hafa fengið að taka í höndina á henni þar sem við gengum dauðþreytt eftir góðan dag heim á hótel.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli