sunnudagur, desember 02, 2007

75. Dans eyðurmerkurblómsins

Phuskar er bær staðsettur í austanverpi Rajasthan í norð-vestur Indlandi. Fyrir Hindúa er þessi tæplega 15.000 manna staður pílagrímabær með sín 400 klaustur, mörg röðuð utanum vatnið sem stendur í miðjum bænum og er heilagt.

"Ekkert kjöt og ekkert áfengi? Er ég kominn í helvíti?" var svar mitt þegar Sonja færði mér þessar fréttir. Staðurinn er svo heilagur að slíkar vörur eru bannaðar, allt kjöt og m.a.s. egg.

Á hverju ári í hindúamánuðinum Kartika koma kamelættbálkar allstaðar frá eyðumörkinni eftir langa göngu og setjast að í bænum fyrir fullt tungl. Yfir 200.000 manns koma í bæinn með um 50-60þ kameldýr og annan búfénað, helst hesta og uxa fyrir Phuskar Camel Fair eða kamelmarkaðinn þar sem dýrin eru keypt og seld. Á svipuðum tíma koma Hindúar til borgarinnar til að baða sig í tjörninni helgu á heilagasta mánuði ársins þegar tungl er fullt. Þessir tveir atburðir á sama tíma valda því að borgin er troðin og mikið gengur á.

Við byrjuðum fyrsta daginn að skipta um hótel því við höfðum ekki náð gistingu á ódýra hótelinu sem við fundum og tókum því fyrstu nóttina á dýrara hóteli. Þeir redduðu bíl til að skutla okkur á milli, ljótt gamallt rúgbrauð sem við þurftum að greiða fyrir.
Þegar við keyrðum inn í hliðið á Raghav Resort sem yrði dvalarstaður okkar næstu næturnar og stigum út úr bílnum fann Sonja að hún var rennblaut á afturendanum. Sætið hafði verið gegnsósa en hún ekki tekið eftir því fyrr en upp var staðið - þetta var einhver gulleitur vökvi. Sonja þurfti því að henda öllum fötunum í þvott á hótelinu og buxunum mínum því ég hafði setið að hluta til í þessu ferðaklósetti einhvers.

Hótelstjórinn var með borð fyrir utan húsið því það var greinilega það fullt að hann kæmist ekki sjálfur fyrir í því. Fyrir utan þessa viku er reyndar lítið að gera í bænum og því er ég viss um að þetta sé ekki annað en íbúðarhúsið hans þegar færri gestir koma til borgarinnar.

Við sátum hjá honum í góða stund á meðan hann var að afgreiða fólk sem var að fara frá hótelinu. Hann leit út svona eins og dæmigerður Indverji sem er í smárekstri og gerir allt til að plata allar mögulegar krónur úr hverjum sem er. Feitlaginn, með hörkulegt augnaráð og ekki ósvipaður og Djöfulinum í Delí™.

Þegar loks kom að okkur fylltum við út hefðbundnar upplýsingar um okkur í þartilgerða bók og fylgdum honum síðan að herberginu okkar ef herbergi skal kalla. Hann var með nokkur hústjöld í garðinum og við áttum greinilega að sofa í einu af þeim.

"Bíddu við, við pöntuðum hjá þér hótelherbergi og þú ætlar að láta okkur gista í tjaldi?" spurði ég meira hissa en pirraður.
"Þau eru mjög þægileg." svaraði hann.
"Áttu ekki hótelherbergi?"
"Jú, skoðið þetta fyrst og sjáið hvort ykkur líki þetta ekki."

Ég kíkti inn í tjaldið með fýlusvip og verð að viðurkenna að þetta var alveg ok með sturtu og baðherbergi en ég er mikill prinsip maður og ætlaði ekki að láta hann komast upp með þetta.

"Er þetta ekki í fínu lagi?" spurði hann.
"Ég vil fá að sjá hótelherbergi." nánast krafðist ég.
"Ok, komið." sagði hann og við gengum inn í húsið sem var lítið en á 3 hæðum og inn í lítið herbergi. Herbergið var frekar ósnyrtilegt og eins einfalt og um getur en við vildum heldur vera þar því við erum með dýr tæki ásamt því að við þurfum að komast í rafmagnstengi á kvöldin.

"Ok, þið getið fengið þetta herbergi en bara í 2 nætur því þá er það upppantað - síðustu tvær næturnar verðið þið að vera í tjaldi." sagði hann.

Við tókum þessu bara, ekkert mikið annað að gera í stöðinni því allar gistingar borgarinnar upppantaðar þessa dagana og við í ekkert sértakri samningsstöðu. Við greiddum honum því 4500 Rs (sem er 5-10X hærra en aðra daga ársins) og komum okkur fyrir í herberginu og héldum síðan út í ævintýraleit.

Það er lyginni líkast að ganga um þröngar götur borgarinnar þessa hátíðardaga. Konurnar eru langflestar með litríkar slæður bundnar utanum sig og margar með mikið skraut í andlitunum eins og t.d. stóra nefhringi og annað svipað. Konurnar gera allt mjög litríkt því þær eru ekkert að festa sig í ákveðnum litum heldur er fjölbreytileikinn sem gildir og verður þetta mikið sjónsarspil. Karlmennirnir eru ekki eins litríkir en í flottum samfestingum með túrbana, yfirvaraskegg og oft skemmtilegir. Yngri karlmenn eru í meira vestrænum fötum enda verða þeir að halda í cooli-jóið.
Um allt eru betlarar og óklædd börn sem biðja um peninga - um göturnar skríða vanskapningar sem maður getur varla horft á því maður skilur ekki hvernig þeir geta lifað svona eða orðið svona. Einn var með nánast fót útúr skökku og skældu bakinu, hálfar hendur og hausinn nánast út úr bringunni. Við höfum séð alla flokka vanskapninga held ég sveimerþá og það er oft ansi erfitt að horfa framhjá þeim en maður getur ekki haldið þeim öllum uppi.


Konur eru mjög litríkar.


Litir í for- og bakgrunni.


Hópur af litríkum konum.


Karlmennirnir eru ekki eins litríkir en samt myndvænir.


Frumbyggjakonur.


Feitlagið borgarbarn á kameldýri í fjöldanum.


Kamelsvæðið.


Fallegir litir - þessi kona var með sérstakar tennur.


Hérna er ég að sýna henni myndina.


Þessi maður var að borða eitthvað léttmeti fyrir utan hof en það eru óteljandi hof í Pushkar.

Heilögu beljurnar sem húdús (heilagir menn) standa með út um allt eru oft einnig vanskapaðar en á þann hátt að þær hafa aukalappir út úr bakinu. Sáum nokkur svona tilfelli en spurning hvort þetta sé eitthvað fiff til að fá meiri peninga úr trúhræddum pöpulnum.


Skreytt kameldýr - heilög belja með fætur út úr hálsinum.

Það tók tíma að komast í gegnum bæinn og að rótum eyðimerkurinnar þar sem eiginleg skemmtiatriði og annað tengt kamel hátíðinni eiga sér stað. Við fundum eftir góða leit Mela völlinn en þar var auglýst yfirvaraskeggkeppni og fylgdumst við með henni. Skemmtilegasti keppandinn var án efa maður með mikið svart skegg - þegar hann dró það út tók hann bakföll og hló hátt og snjallt. Leiðinlegasti keppandinn var rauðhærður túristi sem var voða sniðugur að taka þátt með sitt suttta rauða skegg sem varla gat talist skegg.


Tveir töffarar sem tóku þátt í keppninni.


Sennilegast var þessi með lengsta skeggið.


Þessi var samt myndarlegastur.


Og þessi var eiginlega bara snargeðveikur.

Við gengum aðeins um svæðið og horfðum á risavaxin kameldýrin í hundraðatali ásamt fólki að sýna allskonar listir. Ég var t.d. á gangi, leit við og horfði í augun á kobra slöngu sem virtist vera í fullri herstöðu hvæsandi með augun negld á mig. Hún var ekki í nema svona 40 cm fjarlægð frá andlitinu á mér og tók ég því ósjálfrátt skref til baka en þetta var sennilegast meinlaust dýr því slöngutemjari hélt á henni og trúi ég ekki öðru en það sé búið að taka alla eiturkirtla úr svona kvikindum.
Þegar gengið er um eyðimörkina sér maður víða göt í jörðinni svona 4cm á breidd og er það víst eftir eiturslöngur, kobra og annað sem fara ofaní sandinn svo það er víst ekki gott að vera mikið á ferli þar að næturlagi.


Matur og drykkur.

Við fengum okkur hádegisverð á veitingahúsi á annarri hæð með yfirsýn yfir eina fjölförnustu götu bæjarins. Ég stóð upp með stóru vélina og stóru linsuna og tók nokkrar myndir yfir götuna frá hinum enda salarins. Þegar ég var að ganga til baka hitti ég vestrænan strák sem ávarpaði mig (hver hefur ekki lent í svona neyðarlegum samtölum):

"Are you working for a magazine or on an assignment or something?" spurði hann og benti á linsuna.
"No, I'm just an amataur, It's just an expensive hobby."
"Yes, I can see that - why is this lens so big?"
"Well, it's got a stabilizaa"
"Oh, that's the reason it's so big." svaraði hann.
"Yes, and also it is very bright - F2.8." svaraði ég.
"Ok, very impressive, where are you from?" spurði hann.
"I'm from Iceland." sagði ég og bjóst við einhverju af eftirtöldum svörum: "Oh, very cold.", "Ok, Ireland", "Iceland is very nice" en varð hissa á svarinu.
"Ó, hmmm .... já, ég er líka frá Íslandi, sæll." sagði hann hálf skömmustulegur.
"Sæll, þú ert sá fyrsti sem ég hef hitt í tæplega þriggja mánaða ferðalagi."
"Já, og þú sömuleiðis sá fyrsti í 4ja mánaða ferðalagi mínu."

Við ræddum málin í nokkrar mínútur í viðbót .... á íslensku.


Sonja borðar og horfir út á götuna fyrir neðan.


Kamelvagn.


Líf á götunni fyrir neðan.


Skerandi augnarráð.

Þegar við gengum aftur upp á hótelherbergi æfðum við að jánka eins og Indverjar. Þegar Indverjar segja Já með haushreyfingum þá hreifa þeir hausinn ekki upp og niður eins og við heldur vagga honum til hliðana sem er þó ólíkt okkar Nei. Það er kannski líkara því sem við gerum þegar við erum að segja Nei og því hefur það oft valdið ruglingi hjá okkur. Við æfðum þessa hreyfingu á meðan við gengum á hótelið þangað til hjólreiðamaður hjáolaði framhjá okkur og horfði undarlega á okkur og gerði bendingu eins og við værum blindfull, hristi síðan hausinn og hjólaði í burtu.

Við fórum aftur út í eyðimörk seinnipartinn og horfðum á kvöldsólina síga til viðar og verða eldrauðan hnött sem gaf eyðimörkinni flotta ásýnd. Kameldýr voru svo langt sem augað eygði þar sem við stóðum upp á lítilli hæð og um leið og sólin var um það bil að setjast lagðist yfir mistur sem gerði útsýnið enn áhrifameira.


Maður að ganga frá kamelvagni.


Kameldýr og svæðið fyrir aftan.


Tunglið fyrir ofan þessu mæðgin.


Þetta var að leggja sig.


Við brynningarkerið.

Sígaunar erum mikið þarna að reyna að betla peninga að fá peninga fyrir að leyfa fólki að fólki að taka myndir af sér og eru algjör plága því þær eiginlega meira heimta myndir. Þetta eru yfirleitt ungar stúlkur sem hafa glætt sig upp í sín bestu föt og hlaðið sig ódýrum glitrandi skartgripum. Sonja lenti aðeins í því að tvö börn héngu í fótum hennar þannig að hún gat sig varla hreyft eftir að hún hafði tekið mynd af kameldýrunum þeirra. Eldra fólk í kring hló bara og gerði engar tilraunir til að reyna að siða óþekktarormana til.


Sölumenn gætu lært mikið af þessari mynd að gefast aldrei upp.

Fátt markvert gerðist um kvöldið enda fengum við okkur að borða á svipuðum stað og áður með útsýni yfir vatnið öðrum megin og verslunargötu hinummegin. Skrúðganga gekk þar framhjá sem reyndist vera gifting - brúðguminn var aftastur, allur hvítklæddur á hvítum fák. Þar sem mikið rafmagn og ljósasjóf þar í svona gott brúðkaup var maður með litla og háværa bensínrafstöð aftastur í skrúðgöngunni.


Brúðguminn á hestinum.


Brúðkaupsgestir fylla götuna.

Eitt það skemmtilegasta þennan daginn var að sjá skrautlega ættflokkakonu í eyðmörkinni stíga dans í kvöldsólinni.

1 ummæli:

Burkni sagði...

Fyrri mottugaurinn er líklega svalasti einstaklingur sem ég hef nokkurn tímann borið augum.