Við dröttuðumst á fætur kl. 5 og fórum með farangurinn niður í afgreiðslu. Strákurinn sem var á vakt fór út í kalda nóttina og kallaði á Tuk-Tuk sem kom skömmu síðar.
"Hvað kostar á lestarstöðina?" spurði ég.
"80." sagði ökumaðurinn.
"Nú, það kostaði aðeins 40 í gær þegar ég fór sömu leið."
"Það er nótt og þið með farangur." sagði hann réttilega.
"50" sagði ég með tóni eins og ég væri ekki til umræðu um annað.
"Ok" sagði hann - ég var undrandi á að hann reyndi ekki að harka meira.
Lestarferðin tók um 6 tíma og var hin þægilegasta. Ég tók svefntöflu og náði því að sofa mestan hluta ferðarinnar og er því ekki til frásagnar um hvernig landslag var á leiðinni eða hvort eitthvað markvert hafi gerst. Sonja var líka hálfdottandi þó hún þurfi ekki svefntöflur til þess og getur því lítið sagt.
Lestin fór til Ajmer en þaðan þyrftum við að taka rútu um hálftíma leið til Phuskar. Gríðarlegt áreiti var fyrir utan lestarstöðina af leigubílastjórum og sölumönnum en okkur tókst að brjótast í gegn og fengum okkur hádegisverð á litlu veitingahúsi skammt frá - tókum þar á eftir tuk-tuk á rútustöðina.
Rútustöðin var mjög fábrotin, ílangt hús og ómalbikað plan með um 10 gömlum rútum sem stóðu út um allt plan. Allstaðar var fólk að bíða, sumt sofandi á drullugri jörðinni en annað sitjandi innan um allan farangurinn. Við náðum á endanum að spyrja hvar við myndum kaupa miða í rútuna - svarið var að miðar eru aðeins seldir um borð og við yrðum að vera fljót inn í rútuna því margt fólk væri að bíða eftir henni enda stór hátíð byrjuð í borginni.
Rútan rann í hlað þegar við vorum á leiðinni á réttan stað til að bíða svo við hlupum því síðustu metrana og skelltum okkur í þvöguna sem myndaðist á undraskömmum tíma við dyrnar, með stóru bakpokana á bakinu og þrjá litla sem við héldum á. Flestir tróðu farangrinum sínum inn um gluggana til þeirra sem höfðu náð að troða sér snemma inn og taka frá sæti. Mér tókst með harðfylgi að troða mér inn og ná tveggja manna bekk fremst í rútunni sem snéri þversum - hefði ekki getað fengið betra sæti því bakpokarnir okkar hefðu varla komist fyrir í venjulegum sætum.
Margir þurftu að standa en allir sem ætluðu með rútunni virtust komast inn enda Indverjar sérfræðingar að troða sem flestum inn í farartæki. Rútan keyrði í nokkrar mínútur þar til okkur til mikillar furðu að hún stoppaði fyrir hópi af farþegum sem allir tróðu sér inn í rútuna. Ég bjóst ekki við að þeir kæmust allir og var farinn að spá í að fletta upp símaanúmerinu hjá umferðarlögreglunni en ég held reyndar að lögreglan sé mjög frjálsleg í svona málum. Við keyrðum áfram í nokkrar mínútur og aftur var stoppað og annar hópur tróð sér inn. Eldri maður þurfti að troða sér á milli mín og næsta manns sem sat upp við vegginn sem hefði kannski verið í lagi ef meira en 10cm bil hefði verið á milli okkar. Hann sat því eiginlega ofaná öðru lærinu mínu það sem eftir var ferðar og voru buxurnar rennandi af svita þegar við komum á áfangastað - ég vona a.m.k. að þetta hafi verið sviti.
Þeir sem voru í kringum okkur: Hávaðasamur maður í hvítum fötum - heyrnarlaus heilagur maður, glittir í þann sem ég sat undir til vinstri - þrjár konur með hringa í nefinu ásamt litlu barni.
Við vorum rúmlega hálfnuð þegar maður sem stóð í hurðinni kallaði á bílstjórann að stoppa, sem hann gerði. Þegar rútan hafði staðnæmst stökk rúmlega tvítug stúlka, sem hafði setið ofaná töskum rétt hjá okkur alla ferðina, út úr rútunni og hljóp í burtu. Mikið bölv og öskur heyrðist aftarlega úr rútunni þegar gjaldkeri rútunnar sem hafði verið í óða önn við að rukka fólk tróð sér fram en það var orðið of seint að elta stúlkuna en ekki of seint að skamma strákinn sem hafði beðið rútuna að staðnæmast, sennilegast í góðri trú. Gjaldkerinn byrjaði að úthúða stráknum og slá til hans en hann sem svaraði fyrir sig og varð þetta hið mesta rifrildi sem endaði nánast á slagsmálum. Bílstjórinn hélt áfram för þegar hann heyrði að þeir voru farnir að róast en skömmu síðar byrjaði strákurinn að rífast aftur í gjaldkeranum og urðu lætin í þeim þó nokkur enda báðir öskrandi. Bílstjórinn, fullorðinn, hávaxinn og hörkulegur maður rauk út og dróg strákinn út og helti sér gjörsamlega yfir hann með skömmum og svívirðingum. Mér var næst skapi að borga sjálfur þessar 14 krónur íslenskar sem stúlkan hefði átt að borga til að róa mennina. Eftir nokkra mínútna rifrildi þeirra þriggja þarna úti þar sem öll rútan starði á þá komu þeir allir aftur inn og héldu áfram för eins og ekkert hefði í skorist.
Þegar leikurinn var að ná hámarki.
Rútann rann koks í hinn heilaga bæ Pushkar um 15-leytið - þröng og lyktsterk rútuferð senn á enda. Rútan keyrði inn í bæinn og hægði á sér á stað sem leit út fyrir að vera lokastopp við ósnyrtilegan veg. Fólk fór að streyma út en þar sem við vorum með svo mikið dót vorum við ekkert að stressa okkur að fara út. Ökumaðurinn hörkulegri hóf þá að öskra skammir og formælingar af miklum krafti og við það virtist fólk flýta sér meira út. Ég sagði Sonju að við ættum kannski ekki að vera síðust því þessum geðsjúklingi lá greinilega mikið á að komast áfram - kannski væri næsta stopp geðsjúkrahúsið þar sem hann ætlaði að gera langt stopp.
Öskrin í honum voru eins og vel valin ræða Hitlers - hann gerði lítið hlé á formælingunum og náði Sonja að troða sér í gegn á undan þeim nokkrum síðustu - ég yrði bara að vera síðastur. Þegar konan sem var á undan mér var í tröppunum keyrði hann af stað og náði hún að stökkva út og ég á eftir - hef aldrei áður þurft að stökkva úr rútu á ferð en náði góðri lendingu og því varð mér ekki meint af.
Við gengum af stað með allt dótið á okkur því Sonja hafði séð auglýsingu með hótelinu okkar smá spöl áður en rútan "stoppaði". Við gengum þangað og beygðum inn á hliðargötu en gangan var lengri þaðan að hótelinu - um 20-30 mínútur og ég í flíspeysu í eyðimörkinni. Þetta hafðist og sveittir og þreyttir ferðalangar duttu inn á gólfið í afgreiðslunni eins og sigurvegarar í langhlaupi.
Sonja skaust seinnipartinn til að láta pakka inn póstsendingu. Hún fór á litla stofu sem sér um slíkt og voru að sjálfsögðu fjórir piltar að vinna á henni - einn sér um límbandið, annar um te, þriðji fór til skraddarans til að sauma pokana og fjórði sat en beið og kláraði svo að sauma fyrir pokann.
Þeir voru allir í kringum Sonju eins og flugur á heitum skít og spurðu mikið um hvort hún væri gift og aðrar spurningar sem lúta að málum hennar.
Sonja er spurð svipað oft hvort hún sé gift eins og hvaðan hún sé - ég hef aldrei verið spurður hvort ég sé giftur. Er þetta sanngjarnt? Nei!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli