sunnudagur, desember 02, 2007

73. Aftur í fjörið

Í landamærabænum Samdrup Jongar urðum við að skilja við Anan og Pemba því þeir hafa ekki leyfi til að vinna í Indlandi. Indverskur bílstjóri myndi keyra okkur þessa 3,5 klst leið á flugvöllinn en þar myndum við taka flug til Delí.

Anan og Pemba höfðu tvo möguleika til að fara tilbaka til Timphu, annaðhvort að keyra sömu leið (2-3 dagar) eða fara til Indlands og keyra fyrir neðan Bútan en það tæki samt tvo daga og er víst ansi hættuleg leið fyrir bútanska bíla jafnvel þótt þeir séu í lest með indverskum hertrukkum.
Ein af ástæðunum fyrir því að það er ekki sniðugt fyrir bútanskan bíl að keyra inn í þennan hluta Indlands er nokkuð flókinn. Héraðið sem liggur upp að Bútan heitir Assam og það var úr því héraði sem skæruliðar komu og bjuggu um sig í skógum Bútans fyrir þó nokkrum árum síðan í óþökk Bútana og Indverja. Þrátt fyrir miklar friðsamlegar tilraunir Bútana til að fá skæruliðana til að flytja sig um set og fara úr landinu tókst það ekki þannig að það varð að grípa til annarra ráða. Indlandsstjórn þrýsti mjög á Bútana að grípa til hernaðaraðgerða gegn þessum hópum sem Bútönum hefur líklegast verið erfitt að hafna því Indverjar greiða allan kostnað af Bútanska hernum og má því kannski segja að hann sé sérstök deild innan Indverska hersins.

Konungur kom sjálfur að landamærunum fyrir um fjórum árum síðan og tók við herstjórninni í hernaðaraðgerðum gagnvart skæruliðahópunum og féllu margir úr röðum skæruliðana. Konur og börn ásamt þeim hermönnum sem lifðu af voru rekin aftur inn í Assam og síðan hafa verið einhverjar skærur á svæðinu og ástand því viðkvæmt. Líkur eru á því þegar börn þeirra sem féllu verða fullvaxta að ástandið versni því einhverjir vilja líklegast hefna fyrir þetta þó Bútanir hafi kannski verið í rétti.

Anan man vel eftir þegar skæruliðar voru á svæðinu, þeir voru ekkert í felum í skóginum heldur gengu um með vélbyssur og því var kannski brýnna að koma þeim í burtu. Þegar við vorum að nálgast landamærabæinn kvöldið áður stoppaði bíll við hlið okkar sem kom úr gagnstæðri átt og Anan varð frekar skelfdur því þetta er aðferð sem skæruliðar nota oft þegar þeir taka yfir bíla með valdi - a.m.k. notuðu þessa aðferð áður.

Konungur bað landsmenn að bjóða sig fram í herinn á meðan styrjaldarástandinu stóð og bjóst við um 7000 sjálfboðaliðum en fékk aðeins 700.

"Ég ætlaði að bjóða mig fram, en ferðamannatímabilið var að hefjast og ég var búinn að festa mig í allskonar verkefni að ég varð að hætta við, ég býð mig bara fram í næsta stríði!" sagði Anan og hélt áfram: "Konungurinn var reyndar mjög vonsvikinn ... ekki yfir því að ég skyldi ekki bjóða mig fram, heldur að það buðu sig aðeins fram 10% af þeim fjölda sem hann bjóst við."

Nokkrum sinnum í viku fer fer bílalest frá landamærabænum vestur í gegnum Indland og inn í Bútan vestan megin. Bútanskir bílar mega vera í þessari lest því meginuppistaðan eru herbílar úr indverska hernum og því nokkuð öruggt að vera á bútönskum bílum. Indverjar verða reyndar gríðarlega reiðir þegar eitthvað óhapp gerist eins og t.d. um daginn þegar bútanskur bíll lenti í slysi og tveir Indverjar létust. Við það rústuðu indverskir vegfarendur öllum bílum með bútanskar númeraplötur - mjög blóðheitir menn. Anan var reyndar hneykslaður yfir þessu því slíkt myndi aldrei gerast í Bútan, slys er slys og svona vitleysa á ekki rétt á sér.

Bílstjórinn okkar sem færi með okkur á flugvöllinn var um 25 ára og frekar feitlaginn með hár sem farið var að þynnast. Bíllinn var lítill Suzuki en við komumst ágætlega fyrir og ekkert yfir fararskjótanum að kvarta. Anan og Pemba fylgdu okkur að landamærunum sem voru í um 10 mínútna fjarlægð og gengu frá öllum málum fyrir okkur, við létum þá hafa vegabréfin áður en við lögðum af stað enda treystum við þeim fullkomlega. Eftir smávægilega bið á meðan málin voru afgreidd kvöddum við þá með faðmlögum og héldum inn í Indland á nýjan leik.

Strax og við komum yfir landamærin varð mikil breyting á lífinu í kringum okkur. Umferðin á götunum var meiri, ekki bara bílar heldur reiðhjól, gangandi vegfarendur og allskonar dýr, beljur, geitur og annað. Hávaðinn varð mun meiri og lykt í kring af mat, mengun og skít fyllti skilningarvitin og bauð okkur velkomin til Indlands. Við sáum í blaði að Indland er næstverst statt af löndum í heiminum hvað varðar hreinlæti og telja flestir að ef salernismál kæmust í lag mundi það skjóta þeim upp um mörg sæti á umræddum lista. Þó þetta hljómi kannski neikvætt þá er það alls ekki þannig því það er gríðarlegt líf og fjör og allt að gerast - maður sér nýjan og skrítinn hlut á hverri mínútu og hvergi lognmolla.

Þar sem við vorum komin niður á sléttur Indlands voru aðeins fjöll að baki og við tók beinn og langur vegur. Þvílík breyting frá sikksakki gærdagsins í fjöllum Bútan þar sem nánast hvergi er beinan veg að sjá. Leiðin út á flugvöll var að mestu leiti eins og að gera þjóðveg 66 í Bandaríkjunum, aðeins bein leið og engar hæðir né hólar. út um allt var fólk að vinna eða fara leiðar sinnar með hinum ýmsustu fararskjótum og umferðin mikil.


Dæmigert útsýni.

Bílstjórinn byrjaði á því að fara heim til sín sem var þarna rétt hjá og sagðist vera í 5 mínútur, við nenntum ekki að tuða yfir því. Stuttu síðar kom hann út með systir sinni sem kom að bílnum og heilsaði okkur. Faðir hans, frekar feitlaginn og hálf sköllótur maður með svitadropa í andlitinu kom út úr húsinu og settist í framsætið eftir að við höfðum bjargað þaðan tölvutöskunni. Hann ætlaði greinilega að fá far með okkur en við höfðum ekki verið spurð út í þvað hvort það væri í lagi en nenntum ekki að gera mál úr því - þetta var hvort sem er ekki það löng leið, aðeins rúmlega þrír tímar. Hann sat þarna eins og klessa í framsætinu alla leiðina, hallaði sér fram og sagði nánast ekki orð þannig að hann var nú ekki mikil truflun fyrir okkur.

Stuttu eftir að við fórum frá heimili hans þurftum við að fara inn á landamærastöð fyrir erlenda ferðamenn. Við gengum inn í lítið steinsteypt hús þar sem ungur drengur tók á móti okkur og sagði okkur að setjast í lágt sófasett og fór síðan að leita að verðinum sem var líklegast faðir hans. Við heyrðum köll fyrir utan og skömmu síðar kom snyrtilegur og glaðlegur maður inn með stór og mikil gleraugu og settist fyrir framan okkur og gnæfði yfir okkur þar sem við sátum í lágu sófasettinu. Strákurinn dró frá gluggum og kveikti ljós fyrir ofan borðið á meðan maðurinn gramsaði í stórri skúffu á borðinu og tók loks fram stóra og mikla bók og skellti henni á borðið fyrir framan okkur og fór að blaða í henni. Hann fann loks síðuna sem skyldi geyma upplýsingar um okkur og fór að spyrja okkur allskonar spurninga eins og við hvað við störfum og annað slíkt. Eftir nokkrar mínútur þarna inni gátum við loks farið aftur í bílinn og haldið áfram för okkar á flugvöllinn.

Ég hef áður sagt frá umferðinni hérna í Indlandi og þvílíkt öngþveiti og læti sem einkennir hana en fólk verður bara að prófa sjálft að koma hingað til að sjá þetta sjálft því þetta er lyginni líkast. Farartæki hérna eru eins og seglar sem dragast sjálfvirkt að öllu sem heitir umferðarteppa og ef bílar stoppa eru komnir fullt af flautandi bílum allt í kring. Heima er notast við flautuna til að lýsa óánægju með eitthvað í umferðinni en hérna er flautan það tól á bílnum sem menn nota mest, sennilegast flautar hver bíll 20-30x á mínútu ef ég á að skjóta á eitthvað meðaltal þegar umferð er mikil. Stundum virðast menn flauta þó það sé akkúrat engin ástæað fyrir því, enginn bíll eða gangandi vegfarandi nálagt ... þeir flauta "for the hell of it." eins og maður segir stundum.


Oft eru margir um hvern bíl ólíkt á Íslandi þar sem tæplega einn er í hverjum bíl.

Það vafasamasta sem við sáum á leiðinni var nýlegur jeppi með um 6-7 grænklædda menn ofaná með svartar lambúshettur allir með vélbyssur í hendinni. Ætli þeir hafi ekki bara verið á leið út í búð að kaupa mjólk eða klámblöð.

Þegar við vorum um hálfnuð á leiðinni á flugvöllinn sikksakkandi og flautandi í gegnum umferðina lentum við næstum í slysi. Það var sjúkrabíll fyrir framan okkur og skyndilega rak einhver hausinn út úr honum og ældi út á götuna rétt fyrir framan okkur þannig að ælan var næstum lent á húddinu á bílnum okkar. Við vorum ásamt sjúkrabílnum að taka fram úr vörubílbíl þegar þetta gerðist en sjúkrabíllinn keyrði við þetta skyndilega út í kant til þess að sá veiki gæti stigið út en þar var annað farartæki fyrir, fíll (ekki bíll heldur fíll) með menn ofaná sér sem sjúkrabíllinn næstum keyrði á og sveigði því aftur inn á götuna og næstum á vörubílinn sem var við hliðina á okkur og bílarnir á móti okkur nálguðust - vörubíllinn sveigði því inn í okkur og við út í kant. Við sluppum við að lenda á vörubílnum en þetta hefði verið mjög skrítið bílslys svo ekki verði meira sagt. Við erum reyndar orðin svo sjóuð að við blikkum varla auga þó að svona hlutir gerist - virðist alltaf reddast einhvernvegin á óskiljanlegan hátt og svona atvik hægja ekki einu sinni á bílstjórum.


Sjáið þið fyrir ykkur árekstur á milli Eldklerks, sjúkrabíls með sjúkling hangandi út um gluggann, vörubíl af stærstu gerð og fíls?

Hérna er reyndar ekkert sem heitir að lenda næstum í árekstri því umferðin hérna er eitt stórt lenda-næstum-í-árekstri, annaðhvort gerist það eða ekki.

Flugvöllurinn var frekar fámennur og því gekk það hratt fyrir sig að skrá okkur inn - það var því um 2,5 klst bið eftir að flugvélin myndi fara. Við plöntuðum okkur á mjög tómlekt veitingahús á efri hæðinni sem var með Espresso á matseðlinum mér til mikillar ánægju.
Þjónninn kom með bollann og ég fékk mér sopa á einu versta kaffi sem ég hef smakkað lengi og langaði til að frussa því framan í hann og öskra:

"Kallar þú þetta Espressó kaffi svikuli kaffigerðarmaðurinn þinn?"

Þar sem ég er vel upp alinn kyngdi ég kaffinu og þakkaði brosandi fyrir en leyfði afgangnum. Sonja fékk ananassafa sem var eins og bræddur ananasfrostpinni svo hún leyfði honum líka.
Rafmagnið fór af flugvellinum í nokkrar mínútur sem minnti okkur á að við vorum komin til Indlands - þvílíkt sem rafmagn í landinu er skeikult sem stafar væntanlega af því að eftirspurnin er svo gífurleg og eykst bara dag frá degi svo að rafmagnsverin anna þessu ekki.

Ég settist á stól úti í horni með tölvuna því þar var eina innstunga veitingasalsins og vann á tölvuna í góða stund með ekkert í kringum mig, ekki einu sinni mynd á veggjunum. Þegar ég hafði setið smá stund varð mér mál að fara á klósettið en ekki það mikið mál að ég nennti að taka tölvuna saman og fara. Eftir nokkrar mínútur varð mér meira mál og fór að spá í hvort ég gæti beðið eftir klósettinu í flugvélinni sem yrði væntanlega hreinlegra en almenningssettið niðri í biðsal. Ég ákvað að rölta niður og athuga í leiðinni hvort það væri farið að hleypa okkar flugi í gegnum öryggishliðið en það er ekki gert fyrr en um 40 mínútum fyrir flug. Ég gekk af stað og þegar ég var komin áleiðis fór maginn að vera frekar skrítinn, allskonar kraum og þrýstingur fór að magnast upp. Ég hraðaði för, þrýstinguirnn magnaðist enn sem og magalæti þannig að ég hljóp síðasta spölinn á klósettið og skransaði inn í básinn og náði með glæsilegri hreyfingu að girða niður um mig buxurnar í sömu andrá áður en ég hlammaðist á settið. Það mátti ekki miklu muna - ef ég hefði verið nokkrum sekúndum síðar hefði sennilegast myndast brúnt skransfar á gólfinu.
Maginn lagaðist eftir þetta og var ég fínn í vélinni sem betur fer.


í tölvunni og maginn ekki farinn að stríða mér ennþá.

Ég sá í Hindu Times í vélinni að í heiminum deyja 5000 börn á dag af völdum niðurgangs ... það er fáránlegur fjöldi.

Það er merkilegt hérna í Indlandi að þar sem leita þarf á kvenfólki, t.d. á flugvöllum þá er sér hlið fyrir konu og það girt af með tjaldi svo karlmenn glápi ekki á þær þegar verið er að leita á þeim - indverskir karlmenn stara mjög mikið.

Á hverju ári deyja 10.000 manns í Delí af völdum loftmengunar.

Við lentum ríflega þremur klukkustundum síðar í "Base-Camp ", öðru nafni Delí í 4ja skiptið í ferðinni - þetta er farið að vera eins og að koma heim. Við borguðum 250 Rs í fyrirframgreiddann leigubíl og biðum í stutta stund eftir að það kæmi að okkur í röðinni. Þegar við vorum nýlögð af stað bað fýldur og önugog við afhentum hana.

"Connaught Place?" spurði hann eftir að hafa rýnt lengi í seðilinn.
"Já." sögðum við.
"Hvaða hótel?"
"Það er við F-legg á miðhringnum."
sagði Sonja leiðsögumaður.
"Það kostar þá 50 Rs meira." sagði hann eftir smá umhugsun án þess að blikka auga.
"NEI!" sögðum við í kór - "Við sögðum nákvæmlega hvert við vorum að fara þegar við greiddum fyrir ferðina og borgum ekki neitt aukalega."

Hann sagði þá að þetta væri kostaboð, ekki 50% meira heldur bara 50 RS en við sögðum aftur NEI í kór. Hann reyndi þá að klína þessu á bílinn, þ.e. þetta væri nýr bíll og því dýrari en hinar druslurnar. Við kóruðum aftur NEI og þá hætti hann, hafði greinilega verið í lagi að prófa þetta - virkar sennilegast í einhverjum tilfellum og þá græðir hann. Hann keyrði aðeins áfram og spurði þá:

"Hvað borgið þið fyrir nóttina?"
"3000 Rs."
lugum við - borgum eitthvað meira en höfðum áhuga á því að heyra hvað hann myndi segja.
"Allt of mikið!" fullyrti hann án þess að vita hvaða hótel nákvæmlega við vorum á leiðinni á því mörg hótel eru við þessa götu og hélt áfram: "Ég get reddað miklu ódýrara hóteli hérna rétt hjá flugvellinum, aðeins 2000 Rs og það er mjög hreint."

Svona hélt hann áfram hálfa leiðina þrátt fyrir dræm og nánast engin viðbrögð okkar - ættli hann haldi ekki sömu ræðuna fyrir alla erlenda gesti. Maðurinn var ákaflega leiðinlegur, svo mikið er víst en reyndi ekkert að rukka okkur meira eins og hann gerði tilraun til, kvaddi okkur hinsvegar ekki þegar við fórum úr bílnum, ekki alveg sáttur við okkur.

Við gistum á öðru hóteli en því sem keyrði okkur á söluskrifstofuna hjá djöflinum eins og við kusum að kalla hann en hann plataði inn á okkur stóran ferðapakka sem við greiddum morð fjár fyrir en tókst með harðfylgi að losna útúr eins og dyggir lesendur muna kannski eftir.

Jukaso Inn er ekki jafn gott og fyrra hótelið en er við sömu götu og alveg ágætis hótel. Þegar við vorum búin að koma okkur fyrir fór Sonja niður og spurðist fyrir um lestarferðir til Puskhar og opnunartíma lestarstöðvarinnar því þangað þurftum við að komast daginn eftir. Þegar að við gistum á þessu hóteli síðast höfðu þeir sagt okkur að þeir væru með sína eigin ferðaskrifstofu og því fyrirtaks hugmynd að fá þá til að athuga hvort hægt væri að fara með lest daginn eftir.
Sonja kom upp stuttu síðar hálf skrítin í framan og sagði að þeir hefðu hringt á ferðaskrifstofu og látið hana sjálfa tala við sölumanninn:

"Þarftu að komast til Phuskar á morgun?" sagði kunnugleg rödd í símanum.
"Já, er möguleiki að komast á morgun?"
"Jájá, allt er hægt - við náum í þig og við göngum frá málunum."
sagði hann ákveðinn.
"Neinei, við ætlum aðeins að skoða þetta og verðum kannski í sambandi þegar við erum búin að ákveða hvað við ætlum að gera." sagði Sonja og var farin að kannast við kauða - þetta var djöfullinn sjálfur sem við höfðum átt við erfiða glímu um mánuði áður.
"Best er að gera þetta núna, við náum í þig og keyrum aftur á hótelið þér að kostnaðarlausu." sagði hann jafn ákveðinn og áður.
"Hvað heitir skrifstofan þín?" spurði Sonja til að fá grun sinn staðfestan um að þetta væri sá sami.
"Tourist Informations."
"Ok, takk fyrir við verðum kannski í sambandi - bless."
sagði Sonja, kannaðist ekki alveg við nafnið á fyrirtækinu en þetta hljómaði svipað og skrifstofa djöfulsins.

Við ákváðum að bíða bara með þessar lestapælingar þar til daginn eftir, faran bara og fá okkur kvöldmat því klukkan var orðin nokkuð margt. Niðri í afgreiðslu sögðum við hótelstarfsmaninum sem stóð á bakvið borðið að við ætluðum bara að sjá um þetta sjálf. Hann benti þá á tiltölulega ungan strák sem stóð upp við borðið hjá honum og horfði á okkur, sagði að þetta væri strákur frá fyrirtækinu. Þeir höfðu greinilega komið þó að við höfðum sagt nei eða þá að þetta var annað fyrirtæki. Hann sagði að lestin færi næsta morgun kl. 6 og svo önnur kl 9 og við yrðum að ganga frá þessu um kvöldið til að komast til Phuskar daginn eftir sem við urðum eiginlega að gera, búin að panta hótel þar. Verðið á lestinni sem hann gaf okkur upp var einnig frekar ódýrt, 350 Rs eða um 500 kr. íslenskar á mann. Við ákváðum því að kýla bara á þetta, lítil peningauppphæð og betra að ná á staðinn á réttum tíma. Auk þess sem hann sagði að ferðaskrifstofan væri á efri hæð lestarstöðvarinnar. Næsti kostur var að rjúka sjálf út á lestarstöðina næsta morgun í von um miða.

Við sögðum honum frá því þegar við komum í bílinn að við hefðum lent í slæmri reynslu við ferðaskrifstofu þegar við vorum hérna síðast og því værum við mjög vör um okkur núna.

Eftir stuttan akstur runnu á okkur tvær grímur því bíllinn stemmdi á götuna sem skrifstofa djöfulsins var til húsa. Við vonuðum að það væri bara tilviljun og þetta bara á svipuðum slóðum en við nálguðumst skrifstofuna jafnt og þétt. Þegar við fórum að sjá hana vonuðum við að hann myndi ekki stoppa þar fyrir utan ..... sem hann að sjálfsögðu gerði.

"Er þetta skrifstofan?" spurði ég vonsvikinn.
"Já, bara inn um þessar dyr." svaraði hann.
"Þetta er skrifstofan sem ég sagði þér frá áðan - vorum plötuð hérna upp úr skónum síðast!" sagði ég pirraður.
"Nú, hvenær var það?" spurði hann sakleysislega.
"Fyrir mánuði síðan."

Hann hugsaði sig um heillengi og sagði síðan:

"Ok, þið getið séð allar upplýsingar á tölvuskjánum, við leggjum enga þóknun ofaná verðið - það er það sama hjá okkur og á lestarstöðinni.".

Mér leið ekkert betur að heyra að þeir væru að vinna þessa þjónustu og sækja okkur á hótelið í sjálfboðavinnu en við ákváðum samt að fara inn. Við fórum á öðrum stað inn á skrifstofuna en síðast og sáum því ekki djöfulinn sem sat við hinar dyrnar - laumuðum okkur í sætið og settum næstum því upp dagblöð fyrir framan okkur svo hann sæi okkur ekki.

Eftir smá leit á netinu sýndi hann okkur að 9-lestin væri full en 6-lestin hefði laus sæti - verðið í hana væri 1200 Rs á mann. Við sögðumst ætla að hugsa málið og gengum út. Við þurftum að ganga til baka, þeir buðu ekki upp á bíl enda höfðu þeir ekki fengið neina peninga úr okkur í þetta skiptið. Ég gægðist inn fyrir skilrúmið hjá djöflinum þar sem hann sat og japlaði á ferskri bráð.

Við tókum Tuk-Tuk beint á lestarstöðina - fínt að klára málið þar sem við vorum komin í gír að finna lest. Á efri hæðinni er skrifstofa fyrir erlenda ferðamenn og þar inni tók þægilegt starfsfólk á móti okkur og bókaði okkur í sömu lestina og skrifstofa djöfulsins hafði fundið í tölvunni hjá sér. Verðið var reyndar 600 Rs á lestarstöðinni en 1200 hjá hinum en það gæti vel verið að þeir hafi gefið okkur upp heildarverðið þó mig gruni að þeir hafi ætlað að plata okkur með að greiða tvöfallt verð.

Þar sem þetta var eina lestin til Pushkar daginn eftir og fór eldsnemma um morguninn var í raun gott að ákafur sölumaðurinn fékk okkur til að ganga í þessi mál strax - annars hefðum við þurft að sleppa fyrstu nóttinni á hóteli í Phuskar sem við vorum búin að borga fyrir og redda okkur gistingu í Delí.

Einhver vakir yfir okkur eins og mamma segir stundum.

Engin ummæli: