sunnudagur, desember 02, 2007

72. Síðasti dagurinn í Bútan


Ég ætla að byrja blogg dagsins á spurningu til lesenda. Konan í miðjunni er eiginkona leiðinlega ljósmyndarans sem ég talaði um í síðsta bloggi. Spurning min er sú hvort hárið á henni sé svona af náttúrunnar hendi eða hvort hárgreiðsludaman hennar sé einnig óvinur hennar? Hægra megin situr önnur Bútanbuddan, skelþunn eftir annasamt daðurkvöld og drykkjudag.

Við vöknuðum við skarkalann í stóra hópnum þegar þau voru að búa sig til brottfarar. Við höfðum hlerað hvenær þau ætluðu að leggja í'ann og planið var að fara um hálftíma síðar.

Anan hafði gist hjá félaga sínum í þorpinu um nóttina því gistiheimilið var fullt en Pemba svaf í bílnum eins og svo oft áður.

Morguninn var sérstaklega fallegur, sáum við sólina koma upp og baða klaustrið geislum sínum rétt fyrir neðan okkur í dalnum.


Útsýnið - listamaður hendir í blýantsskissu af staðháttum.

Við komum við á hátíðinni í Tashigang en hún hafði byrjað þennan daginn, þ.e. æfingin og því upplagt að fylgjast með henni áður en við myndum hefja langa keyrslu dagsins.


Hátíðin var í þessu virki eða Dzong-i eins og þeir kjósa að kalla það.

Sonja hafði verið veik þegar við Anan fórum á hátíðina í Mongar og því gaman fyrir hana að sjá smá hluta af þessari til að missa ekki alveg af þessu. Atriðin voru nánast þau sömu og áður þannig að það má segja að hún hafi ekki misst af miklu. Töluvert af aðkomufólki úr sveitum héraðsins var komið til að fylgjast með og var það sem gladdi hvað mest augað að sjá fólkið í sveitunum horfa á skemmtiatriðin og skemmta sér konunglega.

Yngri stúlkan af þeim Bandarísku frá kvöldinu áður var greinilega skelþunn, sat allan tíman á stétt með stór sólgleraugu og leit ótt og títt á klukkuna. Pemba hafði njósnað um það hvernig kvöldið fór hjá þeim eftir að við fórum í háttinn og gerðist ekkert, allir fóru í sín herbergi þannig að einhver hefur kannski verið vonsvikinn.

Hérna komar nokkrar myndir frá hátíðinni sem skýra sig sjálfar:




















Þetta fólk tilheyrir hirðingjum austast í Bútan af svæði sem ferðamönnum er ekki heimilt að koma á.

Við gengum aðeins um í þorpinu í Tashigang - fengum okkur Momo's á litlu veitingahúsi og tókum því rólega áður en langur akstur dagsins myndi hefjast. Kona kom til okkar þar sem við vorum að stíga um borð í bílinn og bauð okkur vefnað til sölu sem hún hafði sjálf unnið. Þetta var fyrirtaks minjagripur frá Bútan þannig að við borguðum henni uppsett verð en það er engin hefð fyrir prútti í Bútan.


Barn í hurð.

Framundan var um 8 tíma akstur að landamærabænum Samdrup Jongar þar sem við myndum gista síðustu nóttina í Bútan áður en við færum yfir til Indlands.

Við keyrðum framhjá eina háskólanum í Bútan sem stór bygging ásamt háskólaþorpinu Kanglung. Anan glápti á stúlkurnar og sagði Pemba að keyra rólega svo hann sæi örugglegar allar stúlkur vel sem kæmu nálagt bílnum. Hann sagði að strákarnir sem þarna stunduðu nám væru heppnir að búa svona nálagt svona stórum hóp af álitlegu kvennfólki, þetta væri besti staðurinn í öllu Bútan.

"Pemba is such a stupid guy, he lived close to here for three months and never once came here!" sagði Anan.
"Such a stupid guy!" bætti hann við og Pemba brosti, fannst þetta greinilega ekki svaravert.

Við snæddum hádegisverð uppi á fjallinu rétt fyrir ofan lítið þorp. Íbúar voru að bera steina niður í þorpið fyrir hleðslur og það var ekki skemmtileg sjón að sjá drengi undir 10 ára bera þunga steinana á bakinu.


Setið að snæðingi.


Bænaflögg í hlíðinni hjá litlu þorpi rétt við þar sem við borðuðum hádegisverð.


Munkaklaustur.


Nemendur við klaustrið.


Þorpið.

Stuttu síðar keyrðum við framhjá kletti uppi í fjöllunum og var þar stór ljós api að gæða sér á pappa. Við stoppuðum bílinn og ég náði einni mynd af honum áður en hann stökk í burtu og þaut upp fjallið. Anan vill meina að þetta sé api sem sést eiginlega aldrei á þessum slóðum enda í útrýmingahættu - ætlar að kanna hvort það geti verið rétt að þetta hafi veirð sú tegund en ef svo er má kalla það merkilegt að hafa séð hann þarna, hvað þá í um tveggja metra fjarlægð.


Hann stökk í burtu áður en ég náði almennilegri mynd af honum.

Keyrslan um daginn var mjög bugðótt upp og niður fjallshlíðarnar og fallegt landslagið skartaði sínu fegursta biðjandi okkur að koma aftur til landsins. Eftir hádegi var mikil þoka sem er víst algeng á þessum slóðum - spurning hvort við höfum ekki bara verið í skýjunum, vorum a.m.k. í skýjunum með ferðalag okkar um þetta stórkostlega land.


Akrar í eftirmiðdagssólinni.


Bóndabær uppi á hæð.


Þoka fyrir ofan bæinn.


Einn einn bærinn uppi á hæð.


108 bænaflögg til minningar um skyldmenni sem fallið er frá.


Sólargeislar í hlíðinni.


Síðustu geislar sólarinnar.


Við Pemba.


Þoka seinni hluta ferðarinnar.

Stuttu eftir að það tók að dimma sáum við sléttur Indlands í fjarska en það eru mjög skýr skil þar sem fjöllin enda og miklar sléttur Indlands taka við. Indland var baðað síðustu geislum sólarinnar sem við sáum í gegnum skýin í myrkrinu - þetta minnti okkur á að við vorum að kveðja Bútan og fara aftur í litadýrðina og æsinginn sem einkennir Indland. Við fundum fyrir söknuði þar sem við sátum í myrkrinu á leið niður fjöllin því endir Bútanævintýrsins var að verða að veruleika.


Sléttur Indlands enn baðaðar í kvöldsólinni en fjallendi Bútan í skugga. Við höfðum ekki áttað okkur á því fyrr en þarna að það er í raun ekkert sólsetur í Bútan því sólin er í raun enn mjög hátt á lofti þótt hún hverfi bak við há fjöllin.

Hótelið var ágætt, snyrtilegt þó það væri mikil rakalykt inni í herberginu, sérstaklega á baðherberginu sem var líklegast með mestu rakalykt sem ég hef fundið, maður gat varla andað þar inni. Við snæddum síðustu kvöldmáltíðina með Anan og Pemba á veitingahúsi hótelsins - fengum að sitja í betri stofunni því stóri hópurinn hafði lagt undir sig matsölustað hótelsins. Pemba sagði eitthvað við Anan á Bútönsku og Anan þýddi fyrir okkur:

"Pemba sagði að hann væri búinn að keyra fyrir mjög marga hópa og þið eruð besti hópurinn sem hann hefur nokkurntíman keyrt." Okkur þótti mjög vænt um að heyra þetta frá honum því það fáa sem hann segir meinar hann og þetta virtist koma beint frá hjartanu.
Ég kíkti á netkaffi skammt frá ásamt þeim félögum og notaðist við tölvuna á meðan Anan reyndi að semja við afgreiðslustúlkuna um að borga minna fyrir símtal ef hann hringir collect eða eitthvað slíkt - hann gafst loks upp á samningaviðræðunum og fór út, ætlaði að bíða þar. Stuttu síðar komu þeir aftur inn og ég sagði þeim bara að fara upp á hótel, ég myndi hitta þá þar. Þegar ég fór út var afgreiðslustúlkan mjög óróleg yfir því hvort ég myndi rata eða ekki, ég þurfti að lofa því að koma til baka og hún myndi fylgja mér ef ég fyndi ekki hótelið. Þar sem hótelið var aðeins í 400m fjarlægð tókst mér, ótrúlegt en satt, að finna hótelið án þess að villast nokkuð.

Við fórum snemma að sofa síðasta kvöldið í Bútan.

Ferðalag okkar um Bútan þessa 17 daga var ævintýri líkast - að fá að sjá land sem er svona ómengað af túrisma eru forréttindi en á sama tíma er maður leiður yfir því að þetta er allt eftir að breytast því túrisminn í landinu á eftir að aukast á næstu árum og þá verður Bútan eins og hvert annað land í Asíu. Það er því með blendnum tilfinningum sem maður ferðast um svona svæði því það er mjög erfitt að viðhalda menningu landa og jafnvægi þegar ferðamenn flykkjast til landsins með alla sína peninga og vestrænu háttu sem er eins og illgresi sem étur alla aðra menningu í sig og skilur lítið eftir nema þörf innfæddra fyrir meiri peninga og fleiri ferðamenn.

Landslagið í Bútan er ekki það sem gerir landið sérstakt því það svipar til margra landa í Asíu eins og t.d. Tailands og Laos. Það sem gerir Bútan einstakt er menningin og mannlífið sem hefur sinn eigin karakter og virðist vera óspillt ennþá. Fólk er brosmillt og ánægt og hvergi er verið að reyna að selja manni eitthvað, hvað þá plata mann eins og víða annars staðar. Það að fá tækifæri að fara inn til fólks og sjá daglegt líf þeirra var bæði fróðlegt og mjög gefandi - maður vonandi mun vera þakklátari fyrir það sem maður hefur heima.

Ferðamenn í Bútan eru í dag um 17.000 á ári en voru aðeins um 5.000 fyrir þremur árum síðan. Önnur stærsta ástæðan fyrir því að svo fáir heimsækja landið eru mjög strangar reglur um það hvert ferðamenn mega fara og eins verða allir að borga tiltölulega hátt daggjald en það er allt innifalið í því gjaldi nema drykkir. Við Sonja greiddum t.d. $230 á dag á mann í 17 daga og þarf nú ekki öflugan útreikning til að sjá að þetta kostar sitt. Innifalið í gjaldinu er gisting á hótelum, bíll með einkabílstjóra, leiðsögumann og fullt fæði. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að svona fáir koma til Bútan en það er búist við að það verði gerð einhver breyting á þessu gjaldi á næstu árum og þá til að hvetja ferðamenn til að vera lengur í landinu en þeir eru núna. En auk þess þá eru mjög strangar reglur um það með hvaða leiðum ferðamenn mega koma inn í landið nema hvað Indverjar hafa fullt frjálsræði.

Núna í desember fara fram fyrstu lýðræðiskosningar í landinu þar sem Bútanir kjósa menn á þing og er það breyting á því sem hingað til hefur verið að konungur skipar menn og fer sjálfur með yfirvald. Það sem er kannski merkilegt er að konungur ákvað sjálfur þessar breytingar, þurfti ekki byltingu eða annað slíkt til að ná þessu fram. Margir Bútanir eru ekki hrifnir af þessari breytingu, treysta konungi betur en spilltum stjórnmálamönnum sem maður skilur nú að mörgu leyti en þeir hafa hingað til verið afskaplega heppnir með konunga. Munkar munu ekki hafa kjörgengi því ein af reglum þeirra er að fylgja yfirboðara sínum í einu og öllu og því yrðu þeir að kjósa það sama og yfirmunkur Bútana sem myndi gera þá of volduga pólitískt séð.

Miklar breytingar eru framundan í landinu.

Hvað ætli það hafi margir Íslendingar komið til Bútan? Anan og Loja leiðsögumennirnir okkar þekkja eiginlega alla leiðsögumenn Bútans og Loja hefur starfað við þetta síðan landið var opnað - þeir hafa hvorugir heyrt um Íslendinga sem hafa heimsótt landið fyrir utan okkur. Loja vill meina að fjöldi Íslendinga sé alls ekki meira en 10 - Anan vill hinsvegar meina að við séum fyrstu Íslendingarnir sem heimsækja landið en ég hef ekki mikla trú á því.

Við kveðjum Bútan með söknuði en munum eflaust heimsækja landið aftur í komandi framtíð.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

i luv your sense for harmonize and your style of composition. nice nice nice :)

pseudofotograf.blog.cz :)