sunnudagur, desember 02, 2007

71. Björgunarafrekið mikla við Trashi Yangtse

Morgunverður var snæddur á sömu búllu og maturinn kvöldið áður og var Pemba farinn fótgangdi niður í bæ til að athuga hvað þeir ættu til og hvort betra væri að snæða á öðrum stað. Anan keyrði bílinn niðureftir og það í fyrsta skiptið sem við sjáum hann keyra.


Rafmagnshitarinn er gerði nóttina bærilega.

Pemba var að sjálfsögðu inni í eldhúsi á staðnum og var þar að steikja fyrir okkur brauðsneiðar - ekki ónýtt að hafa svona kúnna sem vinna verkið sjálfir. Brauðið reyndist það ágætasta og borðuðum við okkur södd - áttu reyndar ekkert Espresso frekar en aðrir staðir í landinu en ég verð að draga frá einkuninni fyrir það þó nánast enginn viti hvaða görótti drykkur það er.


Pemba í eldhúsinu ásamt eigendanum.


Þriðjudagar eru jafn slæmir í Bútan og mánudagar í hinum vestræna heimi.


Á öðrum stað höfðu menn nú fundið einfalt en gott ráð við þessum ómannúðlegu lögum ... eitt pennastrik.


Pemba og Anan snæddu með okkur morgunmat.


Börn eigandans.


Börnin byrja ung að vaska upp - Ég og Anan rýnum í haganlega raðaða bita.

Við Sonja fengum okkur stuttan göngutúr um miðbæinn í steikjandi sólinni - soldið eins og Ísland á góðum degi að í skugga er kalt en sólin sjóðbrennandi heit.

Anan hafði hringt í vini sína og ekki miklar líkur á að við gætum skoðað þá tvo staði í bænum sem við höfðum hug á að gera - börnin í trésmíðaskólanum voru úti í skógi þennan daginn að safna efnivið og stúlkurnar dansskólanum voru í útillegu einhverstaðar uppi á fjalli. Hinsvegar hefði sést til 7 "Black necked cranes" eða bara Svarthálsakrana þar sem þeir flugu niður að sléttunni fyrir ofan bæinn. Þessir fuglar eru í útrýmingahættu og fláráðir fuglaskoðarar koma hvaðanæva af úr heiminum til að ná af þeim tali.
Sonja hafði reyndar séð þá fljúga upp frá sléttunni þegar við fórum í göngutúr og smellt af þeim mynd og sýndist þeir reyndar vera á leið í burtu.

Við ákváðum að rölta uppeftir og sjá hvort við sæum þá - þurftum að ganga í gegnum anddyri á húsi og hálfvegis vaða yfir hrísgrjónaakur við húsið til að komast á sæmilegan útsýnisstað. Engan sáum við Svartkragann á sléttunni og snérum við. Þegar við gengum aftur hjá anddyrinu sáum við pínulitla hvolpa koma hlaupandi til okkar. Sonja tók strax við að strjúka þeim og leika við þá en einn urraði aðeins og hljóp tvo metra í burtu og lagðist þar niður. Annar hvolpur lét sig hverfa en sá þriðji sem var öðruvísi en hinir fyrir þær sakir að vera rauðhærður, eða með rauðhan hárbrúsk ofaná hausnum, en virist við fyrstu sýn vera heilbrigður að öðru leyti.

Hann kom strax til Sonju, sleikti hana, virtist glaður og lagðist síðan á hliðina alveg við hana - þá sáum við að band, svona jólagjafaband, var utanum aðra afturlöpp hans og hafði greinilega verið þar lengi. Ég tók varlega um fótinn og hann grét aðeins en gerði sig ekkert líklegan til að færa sig þó hann hefði léttilega getað það. Í ljós kom að bandið var orðið mjög stíft utanum fótinn og ef skoðað var hinum megin á hann var bandið komið í gegnum allt hold og líklegast alveg við bein - gröftur virtist vera þar og þetta því frekar ljótt.

Við slepptum honum, stóð hann þá upp og sleikti okkur og vældi smávegis - við Sonja höfum aldrei fundið jafnt sterkt fyrir því að dýr sé að biðja um hjálp sem yrði því miður sennilegast af skornum skammti frá okkur.


Lítið tár rennur niður kinnar mínar í hvert skipti sem ég horfi á þessa mynd.

Við báðum Anan að hringja í Pemba og fá hann til að koma með rakvélablað eða hníf sem hann og gerði og kom Anan stuttu síðar með beitt blaðið. Við reyndum í sameiningu að sarga bandið þar sem sást mest í það og grét hvolpurinn af sársáka á meðan. Við náðum að sarga það í sundur á einni hlið en þar sem það var komið inn í skinnið allt í kring þá létum við það gott heita. Það að bandið er a.m.k. komið í sundur ætti það að minnka þrýstinginn og löppin gætin jafnvel vaxið eðlilega því bandið myndi opnast meira þegar vöxturinn dregur það til en hvolpurinn var nú þegar orðin ansi haltur og okkur þótti líklegt að hann myndi missa fótinn ef ekkert yrði gert.


Pemba og Anan gera að hvolpinum.

Eftir að við slepptum hvolpinum sárþjáðum og grátandi lagðist hann aftur rétt við okkur eins og hann hefði fullan skilning á því að við hefðum verið að reyna að hjálpa honum og horfði á okkur. Við klöppuðum honum aðeins og kvöddum hann - vonandi mun hann eiga sársaukalausara líf framundan.

Þessir hundar eru villihundar eins og nánast allir hundar í Bútan, og má segja að þetta sé plága eins og víðast annarsstaðar. Þegar gengið er inn í þorp eru hundar sofandi út um allt og sjá þeir um að borða afganga og eru ekkert hræddir við mannfólk, sofa jafnvel við dyr á búðum og þarf þá að klofa yfir þá. Enginn heldur hund sem gæluhund nema í undantekningatilfellum og því ganga þeir alveg sjálfala.
Bútanar nefna beljur sínar og hesta en engin nöfn eru til að nefna hunda, engum myndi detta það í hug. Kettir falla í sama flokk og hundar, þeir eru bara þarna þótt þeir reyndar megi ganga meira um húsakynni en hundar.
Þar sem lönd eins og Bútan eru með langflesta sem Búddatrúar þá vill fólk ekki gera nokkru lifandi dýri mein og því dettur fólki ekki í hug að aflífa hundana - ekki einu sinni ef þeir eru slasaðir eða hafa misst útlim. Það er reyndar eitthvað verkefni í gangi eins og víðast hvar á Indlandi að gelda hundana svo þeir nái ekki að fjölga sér - vonandi mun það skila einhverjum árangri.

Ég sá frétt um hundaplágu í indversku dagblaði um daginn en þar sem talað var um slys þar sem fólk brann til bana en það sem olli mestu umróti var að villihundarnir lögðu líkin sér til munns.

Talandi um dráp á dýrum þá borða bútanir gríðarlegt magn af hrísgrjónum, chilli og kjöti. Kjötið borða þeir oftast í litlum bitur með grjónunum og chilliinu og það í talsverðu magni, helst bæði í hádegismat og kvöldmat. Á árum áður dugðu sjálfdauð dýr í Bútan ásamt litlum innflutningi frá Indlandi til að anna eftirspurn en ekki lengur. Fólk borðar meira og meira af kjöti auk þess sem túristar vilja mikið kjöt og það sem er flutt inn frá Indlandi dugir ekki og ekki það sjálfdauða. Það er því einhverju magni slátrað hérna þó að það standist alls ekki trú þeirra og lífsviðhorf - þetta er því svona hlutur sem enginn talar um og enginn vill vita af.


Börn að leik - aumingjans börnin, eiga þau ekki Playstation?

Eftir björgunarafrekið mikla héldum við til baka sömu leið og við höfðum komið kvöldið áður og sáum nú landslagið í dagsbirtu sem var heldur skemmtilegra.

"Stúlkurnar horfa allar á Pemba og brosa" sagði Anan hálf pirraður á kvennhylli hans.
"Pemba er myndarlegur!" sagði Pemba og skellihló og horfði á Anan til að benda honum á að það væri kannski ekki eins fyrir honum komið með það.
"Já, þú ert með meira hár og átt fleiri börn." sagði Anan með vonleysi í röddinni.
"Og hann á fleiri konur!" bætti ég við til að láta honum örugglega líða verra.
"Pemba er myndarlegur!" Pemba aftur og hló hærra en áður svona til þess að undirstrika hver munurinn væri á honum og Anan sem horfði þögull út um gluggann.

Við gerðum stopp í litla þorpinu Duksam sem var á miðri leið okkar til bæjarins Tashigang sem var lokaáfangastaður okkar um daginn. Skriða féll á litla þorpið fyrir um tveimur árum síðan og felldi nokkur hús. Stjórnvöld samþykktu þá að flytja þorpið á annan öruggari stað en ekkert hefur enn gerst í því máli og þorpið því í einhverskonar biðstöðu. Þorpið er því ekki í mikilli endurnýjun og virðist ekki mikið vera að gerast þarna en fólkið situr flest úti og slappar af. Við gengum um og ræddum við heimamenn og tókum nokkrar myndir, sérstaklega af börnunum sem höfðu afskaplega gaman af því.


Þorpið er ekki stærra en þetta og er þetta nokkuð algeng stærð á þorpi.


Þessi börn sátu fyrir utan litla búð.


Veggskreyting á bar/veitingahúsi.


Börn og hundur fyrir utan búð - Þessi kona stóð við bænahjólið og snéri því og snéri.


Afkvæmi manna eru jafn mismunandi og þau eru mörg - Barnafár.


Börn í gegnum vefstól.


Fyrir utan búðina.

"What is the name of this village?" spurði ég Pemba þegar ég fór út úr bílnum.
"Duksem sir"
"Duksemsir?"
spurði ég, hafði ekki alveg heyrt rétt.
"No, Duksem sir"
"Duksmemsir?"
"Duksem!"
"OK, Duksem."


Pemba kallar mig alltaf Sir eins og áður hefur komið fram og því varð þessi skemmtilegi ruglingur. Allir virðast kalla vestræna karlmenn sir hérna og það væntanlega kennt strax í skóla því minnstu skólabörn gera það líka. Reyndar eru titlar mikið notaði í bútönsku og fer það allt eftir stöðu þess sem er ávarpaður hvaða titill er notaður, það liggur því líklega mjög beint við að nota Sir.

"Pemba neytar að kalla mig sir!" sagði Anan hálf súr þegar við vorum einhverntíman að ræða þetta.


Þessar konur höfðu gengið í um 10 tíma og voru komin góða leið áleiðis í bæinn XXX til að vera viðstaddar hátíðina. Þær gengu eftir malarstígum berfættar enda sést hvað fæturnir eru lúnir. Þegar við fórum á hátíðina daginn eftir hittum við þær aftur.

Upp úr kl. 14 komum við í bæinn Tashigang þar sem við myndum gista þessa nóttina. Eina gistiheimili bæjarins er rekið af munkaklaustrinu því munkar koma allstaðar að einu sinni á ári og tilvalið að reka það fyrir almenna ferðamenn fyrir utan þann tíma. Sá sem rekur gistiheimilið og er í vinnur fyrir aðalmunkinn í klaustrinu er gamall skólafélagi Anan frá Indlandi og því gaman fyrir hann að koma þangað og hitta gamla félaga sinn - þess má geta að Anan var að koma í fyrsta skiptið á þessar slóðir í um 5 ár því fáir ferðamenn fara svona austarlega eins og áður hefur komið fram og hann hefur verið meira á skrifstofunni heldur en úti að þvælast með túristunum.


Boltaleikur fyrir utan gistiheimilið.


Anan virðir fyrir sér útsýnið frá gistiheimilinu.


Hlíðin hinummegin í dalnum.


Akrar.


Maður á gangi með bláan hatt og blá stígvél.

Eftir hádegisverð fórum við í síðdegisbíltúr upp að öðru þorpi ofar í fjallinu og töfðumst á leiðinni vegna fjölda skólabarna sem vildu láta mynda sig bak og fyrir - það þurfti nánast að láta þau mynda biðröð á meðan við fjögur tókum af þeim myndir í miklum mæli.


Sumir glaðir - aðrir frekar súrir.


Afskaplega myndvæn stúlka - ætli hún verði ekki bara fyrirsæta þegar hún hefur aldur til að stripplast uppi á sviði eða 14 ára eins og þær eru flestar þegar þær byrja.


Hissa á svipinn - Þessar stúlkur sungu nokkur lög fyrir okkur og dönsuðu, ... hérna eru þau að taka lag sem við þekktum, höfuð, herðar, hné og tær.


Hinn fallegi leikur spilaður á akrinum.


Pemba tók nokkrar myndir af börnunum á sína vél.


Já, nú er það gult.


Hluti af hópnum.


Innkast.

Við höfðum aðeins rætt ljósmyndun kvöldið áður - Pemba var með okkur og hlustaði á það sem fram fór. Anan sagðist hafa verið að skoða fyrir kvöldmatinn myndir í tölvunni sem hann hafði tekið og Pemba væri harður gangrýnandi og fannst það listræna sem hann tók ekkert spennandi en ef mörg börn voru brosandi á myndunum og mikið um liti fannst honum þær góðar. Þar sem Anan var með tvær myndavélar og notaðist bara við aðra datt okkur í hug að það væri þjóðráð að Pemba myndi reyna fyrir sér þennan daginn að taka myndir sem hann tók vel í. Hann tók vélina úr bílnum þegar við fórum frá honum og var að taka myndir þegar við sáum ekki til - var reyndar spéhræddur við að sýna okkur að hann væri að taka myndir. Líkur manni sem ég þekki vel.

Það var komið myrkur þegar við loksins náðum í þorpið og gengum við því frekar stutt um það og héldum til baka á gistiheimilið enda orðin svöng.


Þessi smali varð afar hissa þegar við opnuðum gluggana á bílnum og smelltum af honum myndum. Hann gleymdi sér yfir að glápa á okkur og þegar við hættum að taka myndir rauk hann af stað á eftir geitunum sem voru komnar upp á fjall.


Kvöldmaturinn hjá þessari - kát börn.


Sæt mynd.

Gistiheimilið er með skemmtilegan matsal með sófasettum og við komum okkur þar fyrir með tölvurnar - tæmdum kort og skoðuðum myndir hjá hvoru öðru. Anan setti myndirnar hans Pemba inn á tölvuna sína og við skoðuðum þær saman og hann hafði greinilega mjög gaman af að sjá sínar eigin myndir því hann hefur aldrei átt myndavél sjálfur og þetta því ný lífsreynsla. Myndirnar hans voru sumar hverjar alveg prýðilegar og ætlum við Sonja að prenta þær út og senda honum þegar við komum heim ásamt landslagsbók af Íslandi.

"Anybody can play guitar."

Stóri hópurinn sem hafði alla ferðina verið á svipuðum slóðum og við síðustu dagana í Butan var staddur á gistiheimilinu þessa nóttina og fóru fljótlega að safnast inn í salinn þar sem við vorum að vinna. Sumt af þessu fólki er virkilega skemmtilegt en annað ómerkilegur pappír að okkar mati. Einn af þeim ómerkilegu er maður um fimmtugt með hvít yfirvaraskegg og hár og alltaf klæddur vígalegu ljósmyndavesti. Hann er með tvær Canon myndavélar af dýrustu gerð og tekur þetta áhugamál því nokkuð alvarlega eins og fleiri. Við sáum að hann blandar lítið geði við hópinn, virkar hrokafullur og ánægður með sig. Skemmtileg hjón í þessum sama hóp sem eru ákaflega þægileg og skemmtileg staðfestu við okkur Sonju þennan grun okkar um innræti þessa manns, sögðu að hann héldi greinilega að hann væri að vinna fyrir National Geographic eða eitthvað slíkt. Þegar hann tekur myndir af t.d. börnum í þorpi og einhver annar úr hópnum tekur mynd af þeim þá verður hann mjög fúll og segir: "Þetta er mín mynd!". Hvernig nennir fólk að pæla í svona hlutum og taka sjálft sig svona hátíðlega? Ef maður er í hópferð í þrjár vikur og kemur svona fram við aðra í hópnum er maður ekki mikið að pæla í því að blandast hópnum vel og við hverju bjóst maðurinn þegar hann pantaði hópferð - fólk er fífl, a.m.k. sumir.

Síðan var sest við matarborðið þennan síðasta eiginlega dag í Bútan því morgundagurinn færi nánast allur í akstur að landamærabæ við Indland.

"Can I get a cold beer here?" spurði ég.
"No, enough of beer - we drink something else tonight!" svaraði Anan ákveðinn.
"Will everybody drink?" spurði ég því Anan drekkur eiginlega bara Baily's og Pemba drekkur ekki neitt nema svokallað smjörte.
"Yes, Pemba will also drink, everyboyd drinks tonight!" sagði Anan jafn ákveðið.
"No." svaraði Pemba.
"Pemba is such a boring guy!"

Við Sonja fengum okkur rauðvín með matnum og Anan stóð ekki við stóru orðin því hann fékk sér rétt botnfylli og ekkert meira - hann reyndi oft að fá mig til að drekka viskí og allskonar drykki en er það lítill drykkjumaður sjálfur að hann treysti sér aldrei til að fá sér í glas með mér þannig að það varð lítið úr slíkri drykkju - verð bara að bíða með það þangað til ég hitti vinnufélagana heima.

Hinn hópurinn plantaði sér í sófasettið eftir matinn og einn bílstjórinn, bútanískur strákur spilaði og söng á gítar nokkur lög við feiknargóðar viðtökur viðstaddra. Við göntuðumst aðeins með það við Sonja og Anan að fá Pemba til að dansa fyrir fólkið við undirleik hins bílstjórans en Pemba sjálfum þótti það greinilega ekki sniðugt því hann hvarf stuttu síðar en hann er mikill einfari og því fannst okkur það ekkert óeðlilegt. En Anan var að hugsa um að senda hann í söng- og gítarskóla fyir næsta ferðamannatímabil.
Sonja fór á klósettið stuttu síðar í herberginu okkar en til þess þarf hún að fara út úr húsinu og sá þar Pemba liggja á glugganum og horfa á tónlistarflutninginn og fylgjast með. Brá honum þegar Sonja spurði hvað hann væri að gera og varð vandræðalegur. Hann kom því aftur inn til okkar og sat með okkur út kvöldið.


Spilað á gítar fyrir túristana.

Hinn hópurinn leystist fljótlega upp og fólk fór í herbergi sín fyrir utan tvær bandarískar stúlkur, 25 og 35 ára um það bil. Þær sátu þarna sullandi í rauðvíni miklum mæli og var djammglampi í augum þeirra. Þær döðruðu við þrjá bútanska bílstjóra sem sátu hjá þeim og fór ekkert á milli mála að þær voru til í tuskið. Við hlustuðum með áhuga á þessa tilburði þeirra og sáum t.d. sá eldri þeirra stúlkna sem var öllu frakkari taka upp video af unga bílstjóranum sem hafði sungið og sagði að nú ætti hann að tala inn á videoið eins og um auglýsingu fyrir stefnumótaþjónustu væri að ræða og lýsa kostum sem hann vildi fyrir konu. Hann skildi ekki mikið hvað hún var að fara og svaraði feimnislega spurningum hennar:

"Á hún að vera ljóshærð?"
"Já."
"Á hún að vera hávaxin?"
"Já."
"Á hún að vera góð móðir?"
"Já."
"Á hún að vera skemmtileg"
"Já."
"Á hún að vera gáfuð."
"Já."


Ég hélt fyrst að hún ætlaði að lýsa sjálfri sér með spurningunum og sannfæra hann þannig að sofa hjá sér um nóttina en seinni spurningarnar áttu alls ekki við hana þannig að sú kenning fór forgörðum.

Sonja hafði keypt disk af stráknum eftir flutninginn en hann hafði 20 diska til sölu með tónlist sinni. Sú frakkari af bandarísku stúlkunum spurði hann þarna um kvöldið þar sem við sátum rétt hjá þeim:

"Af hverju gat ég ekki keypt diskinn þinn en algjörlega ókunnugt fólk fékk að kaupa hann?"

Þar sem við vorum sú einu sem keyptum diskinn sem vorum ekki í hópnum þá var alveg greinilegt að hún var að tala um okkur og ekkert að fela það. Við fengum reyndar gallaðan disk, alveg galtómann, þannig að við hefðum betur selt henni hann aftur á uppsprengdu verði.

Sonju heyrðist Bútanbuddurnar spyrja einn af bílstjórunum síðar um kvöldið hvort ekki væri hægt að biðja okkur um að fara svo þau fengju meiri frið þarna - það fékk okkur bara til að sitja enn fastar á rassgatinu eins og það væri gert úr blýi. Stúlkurnar voru þá farnar að falast eftir höndum bílstjóranna og greinilega eitthvað var í gangi.

"Ég er hálf leið yfir því að vera að yfirgefa Bútan eftir morgundaginn!" sagði Sonja en hún var þegar farinn að kvíða því að fara frá þessu yndislega landi yfir í baráttuna á Indlandi.
"Ég er leiður yfir því að launaða fríið mitt endi." sagði Anan en hann hafði áður sagt okkur að þetta ferðalag væri ekki eins og vinna heldur eins og launað frí.
"Og ókeypis kennslustundirnar í myndvinnslu hætti." bætti hann við.

Anan gaf okkur ljósmyndabókina sína áritað og nokkra minjagripi með myndum eftir sig áður en við héldum í rúmið um kvöldið. Gaman að eiga minjagripi sem leiðsögumaðurinn okkar átti þátt í að búa til.

"Only Pamela loves me!" sagði frakkari stúlkan við ringlaða bílstjórana þegar við gengum út eftir ákaflega skemmtilegt kvöld.

1 ummæli:

Burkni sagði...

Ertu semsagt loksins orðinn til í viskísötur, eða líturðu enn á guðdómlegan eimaðan maltsafa sem magameðal?