fimmtudagur, nóvember 22, 2007

67. Hakakrossinn

Við ætluðum okkur í morgungöngu í þorpið litla en sváfum aðeins yfir okkur og því varð ekkert úr því að við sæum morgunsólina sem reyndar var eitthvað feimin og faldi sig bakvið ský fyrsta klukkutímann. Við sötruðum te í setustofunni og fengum morgunmat á borðið rétt í því sem við vorum að ganga út í morgungönguna þannig að við töfðumst enn meira sem var í góðu lagi.

Lumman mín var stórmerkileg fyrir þær sakir að hakakross (öfugur þó) var á henni svo skýr að ekki tel ég að tilviljun hafi getað ráðið þessu þó Anan hafi talið það líklegast. Kannsi var þetta eitthvað merkjamál hjá leynireglu kastalans sem hefur blóðugar athafnir undir honum í skjóli nætur og hafa verið að athuga hvort ég væri í sömu leynireglu. Önnur skýring gæti verið að Dolli sjálfur hafi verirð að senda mér skilaboð frá gröfinni. Svona leit þetta út:



Við fengum okkur göngutúr um bæinn eftir morgunverðinn dularfulla - rákumst fyrst á bæjarbúa troða saltlaust ofaní nokkur naut í miðju þorpinu. Við stóðum þar dágóða stund og áttuðum okkur allt í einu á því að við vorum umkringd fnæsandi nautum sem voru að gefa okkur gaum en þorps-eldhugarnir hlupu til og fældu þau með valdi í burtu.


Við enduðum þarna í miðri hjörðinni.


Fnæsandi naut fyrir aftan konuna.


Stúlkan virðist eldri en hún er á vinstri myndinni - þarna er hún með vinkonu sinni.


Kona með tóma körfu á bakinu að sækja meira hey.

Við heyrðum kyrjandi munka í fjarska sem var nokkuð undarlegt því ekkert klaustur er í þorpinu, við gengum á hljóðið sem reyndist koma úr reisulegu íbúðarhúsi skammt frá torginu þar sem við höfðum rétt áður verið í lífshættu. Munkur rak hausinn út um gluggann á efri hæðinni og heilsaði okkur, undarleg tilviljun en hann átti heima í húsinu sem við heimsóttum kvöldið áður og því þekkti hann okkur. Glaðlegur maður bauð okkur í heimsókn sem við þáðum og gengum inn í svipaða setustofu og kivöldið áður.
Hver fjölskylda í Bútan fær til sín munka í lok eða byrjun hvers árs til að biðja fyrir góðri lukku og tekur það um einn til tvo daga, fer allt eftir fjölda munka en slík athöfn átti sér einmitt stað inn á heimilinu. Mörg þorp í Bútan eru ansi langt frá klaustrum og því tiltækum munkum en mjög gjarnan eru nokkrir fyrrverandi munkar í þorpunum sem geta séð um ýmsar athafnir. Ef munkar vilja þá geta þeir yfirgefið klaustrið, haldið aftur í þorpin sín, gifst og lifað daglegu lífi líkt og hver annar þorpsbúi nema hvað þeir hafa enn trúarlegum skyldum að gegna við vissa atburði. Í raun er það mjög nauðsynlegt fyrir afskekkt þorp að hafa slíka fyrrverandi munka því margar trúarlegar athafnir er ómögulegt að framkvæma nema menn kunni skil á sanskrít.
Japchu, maðurinn glaðlegi sem hét sem hafði boðið okkur inn bauð okkur strax heimabrugg þegar við höfðum sest við kamínuna en klukkan hafði rétt slegið tíu að morgni svo við afþökkuðum pent. Hann gafst ekki upp, bar við að þetta væri siður og lítið hægt að segja við þeim rökum þegar við þykjumst vera hér til að kynna okkur menningu og siði! Við fengum gott mjólkurglas af drykknum Ara sem við höfðum ekki getað drukkið kvöldið áður en sem betur fer var ekki hrært egg í þessum og hann ekki eins hræðilega sterkur, því drykkjarhæfur.
Japchu reyndist tala ágætis ensku enda kennari og var í heimsókn með fjölskylduna hjá tengdafjölskyldunni - við ræddum töluvert við hann um ýmis mál og enduðum við á að skiptast á netföngum því hann hafði áhuga á að vera í tölvupóstsambandi við okkur.
Eftir að okkur hafði tekist að tæma glösin voru munkarnir aftur farnir að kyrkja inni í herbergi eftir stutt hlé svo Japchu bauð okkur að fara inn í altarisherbergið og fylgjast með munkunum biðja fyrir góðri lukku næsta árið. Við sátum þarna inni í um klukkutíma og hlustuðum á þá kyrja upp úr gömlum bókum og spila á hljóðfæri undir. Öðru hvoru komu fjölskyldumeðlimir inn og hneygðu sig, beygðu og færðu gjafir á altarið. Dóttir Japchu sem hét Tashi var forvitin um okkur, við buðum henni sæti hjá okkur þar sem við sátum næstum í fanginu á munkunum. Hún gat talað við okkur á ensku þó hún væri ung á árum og hafði hún gaman af því að taka myndir á vélarnar okkar.


Múnkurinn sér okkur út um gluggann og býður okkur inn.


Inni í setustofunni.


Myndarlegar systur.


Myndarlegt par.


Kennarinn með dóttur sinni.


Þarna erum við inni í bænaherberginu.


Úr þessari bók söngluðu munkarnir en hver athöfn er yfirleitt eitt svona hefti og ef munkarnir eru fleiri þá gengur þetta hraðar.


Amman á heimilinu sem var afskaplega illa farin af vinnu og nánast eins og F í laginu þegar hún gekk um.


Munkar með lúðra en við keyptum einmitt svipaðan lúður í Leh og því getum við blásið góða lukku út í eitt.


Amman að kveðja okkur þegar við fórum.

Þegar við töldum nóg komið af menningu og munkum gengum við aðeins lengra inn í þorpið, hittum þar fyrir tvo gamla karla og eina kerlingu sem voru að vinna fyrir utan húsið sitt við að þurrka ýmislegt matarkyns. Anan spurði konuna hvort þau ætti gömul eldhúsáhöld sem þau væru hætt að nota, konan fór inn og náði í tvo hluti sem hefðu annars líklegast farið í glatkistuna. Þau áttu í erfiðleikum með að verðleggja þetta enda litu þau ekki á þetta sem einhver verðmæti og komumst þau að samkomulagi eftir að Anan stakk upp á upphæð. Eldri kona í næsta húsi kom hlaupandi með trépott einn álitlegan og vildi endilega selja hann og samþykktum við Sonja að kaupa hann eftir smá málarekstur. Við erum ekkert mjög hrifin af því að kaupa hluti af fólki, það endar með því að það fer að opna litlar búðir í þorpunum þar sem allir þeirra hlutir eru til sölu - í þessu tilfelli létum við til leiðast því konan var mjög fátæk að sögn hinna og potturinn hafði greinilega ekki verið notaður lengi. Elsti maðurinn sat allan tímann á sama stað, skrældi radísur, brosti út að eyrum allan tímann og talaði við okkur á máli sem ekki einu sinni Anan skildi enda líklegast orðin elliær. Hann lét það ekkert á sig fá að enginn skildi hann heldur talaði út í eitt og benti í allar áttir. Já, það er sennilegast betra hlutskipti í ellinni að sitja úti í góða veðrinu með fjölskyldunni sinni og nokkrum dýrum, vinnandi dagleg verk í stað þess að vera maðurinn í herbergi 84.


Hittum þennan bónda fyrir utan sem við sáum fyrr um morguninn með nautin.


Þessi gamli maður var ákaflega kátur og spjallaði mikið þótt fáir skildu hann.


Húsmóðirin - nágraninn kemur hlaupandi með tréskál.

Við snæddum hádegisverð í kastalagarðinum með útsýni yfir dalinn. Maturinn var líklegast ágætur en hann samanstóð af nokkrum réttum sem allir innihéldu bragðsterka og skrítna osta þannig að ég borðaði mikið af hrísgrjónum. Ég ákvað að smakka réttinn sem Anan var að borða en vegna óhóflegrar notkunar á chilli (eldpipar) geta ferðamenn og innlendir sjaldnast borðað sama mat. Ég var áður búinn að nefna að Loja (fyrri leiðsögumaðurinn) heldur því fram að meðalréttur er um fjórum sinnum sterkari en það sem mexíkanar éta og er það víst sterkt. Hann er búinn að dvelja í Evrópu í nokkurn tíma og vill því helst borða sama mat og ferðamenn - kominn úr æfingu. Reyndar er það svo að þótt bragðlaukarnir venjist öllu þessu chilli þá á maginn erfiðara með það og eru alls konar magavandamál algeng hér í Bútan skv. Anan. Rétturinn í kastalagarðinu samanstóð af rauðum hrísgrjónum, miklu chilli ásamt sterkri sósu sem chilli-ið liggur í líklegast til að gera það sterkara. Ég fékk mér einn góðan bita hjá Anan - fyrstu kynni voru ágætis bragð en það breyttist fljótlega í sterkt bragð, næstum brennandi. Ég hafði rétt áttað mig á þessu þegar sviði barst í varirnar sem dofnuðu fljótlega, minnti einna helst á nálardofa. Eftir það fór nefrennslið í yfirdrif - ég var ánægður að vera með klósettpappír við hendina því eitthvað varð að taka á móti öllum vökvanum sem rann úr vitum mínum. Á endanum fór mér að svíða í endaþarminn. Ég fékk mér vatn og reyndi að hafa það í munninum til að kæla niður en með litlum árangri - ég varð bara að taka þessu eins og karlmaður.


Lítil stúlka með systur sína á bakinu.


Setið fyrir utan kastalann og beðið ... sumir til Búdda en aðrir að eitthvað gerist í þorpinu.


Ákaflega óheppinn maður með útlit sem vann í kastalanum - sveitalegur strákur.


Útsýnið.


Setið að snæðingi.

Eftir matinn skoðuðum við einkasafnið í kastalanum sem dóttir fyrrum héraðshöfðingjans rekur en hún er góður vinu Anan á. Þegar fyrsti kóngurinn sameinaðir landið, hann var áður einn af héraðshöfðingjunum en vann hina alla í stríði, þá var lögum í landinu breytt og faðir hennar sem var ekki lengur jafn mikilvægur losaði sig við mikið af munum sem voru í kastalanum. Dóttir hans fór í það á seinni árum að safna þessum munum aftur ásamt því að komast yfir ýmsa muni frá héraðinu svo búin er að koma sér upp virkilega flottu safni í kastalanum á þremur hæðum. Við tókum um klukkutíma í að skoða það og höfðum gaman af.


Grímur í safninu.


Kastalagarðurinn.

Pemba hafði farið niður í bíl snemma um morguninn því það eru brögð að því að hrekkjalómar og smáglæpamenn í sveitinni brjóti spregla og annað á bílum,jafnvel brjótist inn til að verða sér úti um aur. Við gengum því þrjú niður fjallið í átt að bílnum en fórum lengri leið í þetta skiptið því við komum við í öðru þorpi á leiðinni en gerðum þar aðeins stutt stopp þar sem við vorum farin að vera nokkuð sein, líkt og svo oft áður. Eftir þorpið gengum við með engjum eftir ánni þangað til við komum þreytt en ánægð að bílnum okkar sem Pemba hafði gott auga með.


Akur.


Fjölskylda sem var að hlaða vörubíl af kartöflum.


Ein úr fjölskyldunni.

Anan hafði uppáhalds þáttinn sinn í útvarpinu á leiðinni heim sem spilar gamlar lummur frá um 1990 - þar fengu að hljóma lög eins og "Fire", "Baby baby" og "Final Countown" sem Anan hafði mjög gaman af að heyra og sagði okkur sögur af því þegar hann var unglingur og var í partíum að dansa við þessi lög með vinum sínum. Þáttastjórnandinn endaði þáttinn með orðunum: "Thank's for listening - I hope you enjoyed it.". Anan tók vel undir þetta og öskraði upp yfir sig "YES, YES!".


Pemba stillir sér upp fyrir myndatöku.

Við gistum aftur á sama gistiheimilinu í Jakar um nóttina og orðin nokkuð vön að meðhöndla kamínu en fengum samt Pemba til að koma og kynda vel upp fyrir okkur nóttina.

Daginn eftir tókum við að mestu rólega enda hafði veirð mikil törn á okkur undanfarið og við farinn að lígjast enda eldri en þegar við höfum ferðina. Við kíktum aðeins í klaustur sem er skammt frá gistiheimilinu fyrir hádegi og í virkið sem var afskaplega rólegt og eiginlega ekkert að sjá í því. Við birgðum okkur upp að snakki, kóki og súkkulaði áður en við fórum aftur upp á gistiheimili því við ætluðum að vinna í tölvunni það sem eftir lifði dags og gott að hafa eitthvað eldsneiti. Við plöntuðum okkur fyrir framan stóru kamínuna í matsalnum, auðvelt því við vorum einu gestirnir og Anan kom með sína tölvu og við unnum í tölvunni og spjölluðum það sem eftir lifði dags.

Við fundum það þegar við vorum búin að ákveða að taka afslöppunardag hvað við vorum orðin þreytt - það er einhvernvegin þegar maður er að fara eitthvað þá gírar maður sig upp í það en þegar afslöppun er framundan fann maður vel hvað maður var orðinn þreyttur. Hvíldin var því kærkomin og nauðsynleg fyrir mikla keyrslu næstu dagana.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hæ elskurnar mínar
Gaman að fá aftur blogg frá ykkur. Mikið ævintýri á ferðinni.
Það er ótrúlega fallegt þarna og allt öðruvísi en á Indlandi. Vona að það verði gott myndakvöld þegar þið komið heim :-)
Allir biðja voða vel að heilsa
Knús frá múttu og pabba

Hjörleifur sagði...

Ég hrópa oft YES YES þegar ég spila gamlar upptökur af uppáhaldsútvarpsþáttunum mínum.

Svo hrópa ég líka YES YES þegar ég er loksins búinn að lesa allt bloggið og búin að ná ykkur í dögum, en um leið hellist yfir mig tómleikatilfinning vegna þess að nú hef ég ekki meira blogg að lesa og græt þar til ég sofna vært og mig dreymir um persónur úr Farside sem sitja og drekka te. Daginn eftir er þetta yfirleitt liðið hjá.

kv
Hjölli

Nafnlaus sagði...

fékk enginn annar hakakross? Var þetta ekki bara panna sem e-r þjóðverji gaf þeim? Svo er líka öfugur hakakross allt annað tákn Jóhann minn svo þetta er allt í lagi!!!