fimmtudagur, nóvember 22, 2007

66. Afmæli konungs

Margir heima hafa spurt okkur af hverju við séum að þessu ferðabrölti, af hverju við komum ekki upp fjölskyldu og nýtum árin þegar börnin eru farin að heiman til að ferðast.

Mér finnst þetta svolítið eins og að spyrja mann sem er í námi af hverju hann sé að nota árin þegar hann er ungur í að mennta sig, af hverju hann noti ekki tímann þegar hann fari á eftirlaun til að stunda nám. Það að ferðast er ekki bara skemmtilegt fyrir þá sem hafa gaman af því heldur held ég að maður læri ekki aðeins mikið um aðra siði og menningu heldur einnig líka um sig sjálfan. Það að ferðast um erfið lönd eins og Indland er ekki eintóm hamingja og þægindi eins og t.d að liggja í sólbaði á Lanzanum eða versla frá sér ráð og rænu í Dublin. Félagi minn sem er mikill fjallagarpur sagði að það sem gerir fjallamennsku á erfiðum slóðum gefandi er "suffer" eins og hann orðaði það, eða að þurfa að hafa virkilega fyrir hlutunum og líta til baka þegar maður er kominn á erfiðann tind. Indland, Nepal og Bútan eru tindarnir okkar úr þessu ferðalagi, við tökum ekki aðeins með heim óhóflegt magn af minjagripum heldur minningar og lífsreynsla sem maður mun búa að síðar og getum hugsanlega orðið betri manneskjur og foreldrar - vonandi. Svona ferðalög eru líka ansi góður prófsteinn á hvaða samband sem er, vinir eða par, og það er ágætt að vita getu okkar áður en við förum að raða niður börnum og buru.

Afmæli konungsins Bútan er haldið hátíðlegt um allt land og yfirleitt í tengslum við skólana/skólann á svæðinu. Við vorum komin niður á hátíðarsvæðið rétt fyrir níu en þá áttu skipulögð hátíðarhöld að hefjast og standa fram undir hádegi. Við fylgdumst með miklu magni af fólki koma inn á svæðið og í kjölfarið skrúðgöngu einkennisklæddra manna og kvenna sem gengu í halarófu inn á svæðið og staðnæmdust fyrir framan tjald tignarmannanna. Við nýttum morguninn að ganga um svæðið og fylgjast með fólkinu sem sumt var komið langt að til að verða vitni að hátíðarhöldunum. Það var reyndar mjög erfitt að taka myndir þarna því það spratt upp fjöldinn allur af ljósmyndurum með stórar linsur sem slógust nánast um hvern feitan ljósmyndabitann. Við Sonja héldum okkur því frekar til hlés og vorum ekki að taka mikið af myndum þarna, nýttum frekar tímann í að fylgjast með.


Þáttakendur að stilla sér upp fyrir hátíðarhöldin.


Konungurinn hylltur.


Fimir drengir að æfa sig fyrir sýninguna.


Sviðið í baksýn.


Hluti af þáttakendum.


Barn fylgist áhugasamt með mönnum marsera framhjá.


Hópurinn marserar framhjá og flestir áhorfendur virtust þekkja einhverja í hópnum enda voru þetta skólabörnin í þorpinu.


Áhorfendur.


Fleiri áhorfendur.


Slökkviliðsbíllinn loksins notaður í eitthvað gagnlegt.


Samanlímd gleraugu - nefskraut.


Þessi stúlka fylgdist áhugasöm með skemmtiatriðinum.

Við skunduðum til Himalayan-pizzu rétt áður en hátíðarhöldunum lauk því við höfðum fengið frétt af því að það væri sæmilegur flatbökustaður í göngufæri við hátíðarsvæðið. Anan leist nú reyndar ekkert of vel að fara á pizzastað því honum finnst Bútananar og pizzagerð ekki eiga saman en við létum okkur samt hafa það og prófuðum staðinn. Staðurinn var í litlu bakherbergi í lágreistu gömlu og illa förnu timburhúsi, var staðurinn í raun bara lítið herbergi með sófa í kring fyrir um 10 manns og eldhúsið var fyrir innan. Pizzurnar voru sæmilegar og minntu einna helst á svona frosnar pizzur sem maður skellir í ofninn og sömu sögu var víst að segja um hrísgrjónin og chilli-ið sem Pemba og Anan fengu sér, ágætis magafylli en ekki mikið meira.


Móðir með ákaflega skelft barn - ansi veðurbarið barn.


Pizzastaðurinn.


Dóttir eigandans til vinstri og Pemba þúsundþjalasmiður til hægri.

Anan hafði fengið símtal frá þeim sem rekur safnið sem við ætluðum að gista í daginn eftir og höfðu plön breyst því margir úr þorpinu voru að fara með kartöfluuppskeruna til borgarinnar og því yrðu fá ljósmyndatækifæri daginn eftir. Það var því ákveðið að bregða kvæði okkar í kross og drífa okkur í þorpið án tafar. Við náðum í handfarangur fyrir eina nótt en skildum stóru bakpokana eftir og drifum okkur af stað.


Landslag á leiðinni.

Á leiðinni hlustuðum við á bútanska útvarpsstöð þar sem allt tal er á ensku. Þrjár ungar stúlkur voru með þátt og voru undir miklum vestrænum áhrifum, notuðu ýmsa frasa sem þær höfðu kannski ekki fullt vald yfir og var bráðskemmtilegt að hlusta á þær, auk þess sem þær voru skemmtilegar og hressar. Þær fóru að tala um afmæli kóngs og sungu saman "Happy birthday" og Anan grenjaði úr hlátri af undrun og hneykslun því það skal aldrei syngja fyrir konung né heilsa honum né bjóða góðan daginn því hann er í guða tölu, litið á hann sem guð að hluta til en ekki mennskan. Stúlkurnar voru því algjörlega að brjóta allar reglur og hefðir. Þær bitu síðan nálina af skömminni strax eftir annars ágætan söng sinn og spiluðu bandarískt rapplag sem hét Happy Birthday.

Við ræddum aðeins um afmæli við Pemba og Anan og þeir sögðu okkur að það væri ekki hefð fyrir því að halda uppá afmæli í landinu og í raun er ekkert spáð í því hvaða dag fólk á afmæli. Pemba veit ekki hvaða dag hann fæddist og veit ekki einu sinni hvaða ár hann er fæddur og hefur því aðeins óljósa hugmynd um það hvað hann er gamall. Móðir hans lést þegar hún fæddi hann og það er því greinilega ekki skráð heldur því annars ætti hann nú að vita hvað hann er gamall. Anan veit ekki heldur hvaða dag hann er fæddur en móðir hans segir að hann sé fæddur 1976 en hann er ekki sammála því og vill meina að hann sé fæddur 1974 því hann hefur stjörnukort sem benda fremur til þess. Við fæðingu barns þá er útbúið stjörnukort og með því að þýða það fékk Anan út 1974 en þær þýðingar eru víst ekki mjög nákvæmar. Hér eru munkarnir líka stjörnufræðingar og er þarf ávallt að ráðgast við einn slíkan áður en farið er í ferðlag, reist nýtt hús, látnir brenndir eða annað mikilvægt.

Áfangastaður okkar, þorpið Tang er afskekkt þorp sem er ekki mjög fjölsótt af ferðamönnum. Kastali er fyrir ofan þorpið sem héraðshöfðingi einn hafði átt á árum áður þegar 22 héraðshöfðingjar réðu landinu. Barnabarn hans sem Anan þekkir mjög vel á kastalann núna og rekur í honum einkasafn af munum úr nágreninu sem margir hverjir voru áður í eigu fjölskyldunnar. Hugmyndin var að heimsækja safnið og hafa eigendur þess byggt lítið gistiheimili með 4 herbergjum í kastalagarðinum því sumir hópar vilja gista þar sem ökuferðin er nokkuð strembin.

Vegurinn er erfiður í þorpið en um tvo og hálfa klukkustund tekur að keyra þessa 40 kílómetra en fyrsti hálftíminn af þeim akstri er á málbiki þannig að fólk getur ímyndað sér hvernig vegurinn er. Við lögðum af stað strax eftir pizzuna og vorum komin í þorpið um 5 leytið eftir akstur um fallega skógi vaxna dalina. Þá tók við tæplega klukkustundar ganga með farangurinn upp í fjallið að kastalanum sem gnæfir þarna yfir og var þetta erfiðari ganga en við höfðum búist við auk þess sem Anan var nokkuð stressaður yfir myrkrinu vegna bjarndýranna sem eru í skóginum allt í kring.
Það var komið svartamyrkur þegar við loksins gengum inn í kastalahliðið og inn í sameiginlega herbergið sem við höfðum til umráða.

Eftir tebolla og smá hvíld spenntum við á okkur hausljósið góða sem Nína frænka Sonju gaf okkur og gengum út í náttmyrkrið með stjörnubjartan himininn fyrir ofan okkur en leiðin var ansi krókótt og þótti okkur Sonju að gera okkur grein fyrir hvert för var heitið en enduðum fyrir utan lítið heimahús í þorpinu sem liggur að kastalanum. Við klifruðum upp stigann og börðum á dyr en Anan hafði sagt okkur að við myndum fara og smakka bútanskt brennivín og sáum við fyrir okkur einherja sveitakrá. Hurðin opnaðist, inni var lítil ljósglæta og kona á miðjum aldri bauð okkur inn. Lítil kamína var í stóra sameiginlega rýminu í þessu fábrotna tréhúsi og í kringum hana sat stórfjölskyldan og var að borða kvöldverð við kertaljós. Okkur var strax boðið til sætis á teppi á gólfinu og okkur réttar litlar skálar með drykk úr potti sem var á kamínunni. Þessi heimagerði drykkur kallast Bang Chang og er búinn til með að hella heitu vatni í gerjuð ("fermented") hrísgrjón og drukkinn heitur. Drykkurinn smakkaðist alveg ágætlega, vel hægt að drekka hann og hann ekki of sterkur.
Við sátum hátt á aðra klukkustund með fólkinu á heimilinu og spjölluðum við dóttirina sem var í heimsókn en hún býr á Ítalíu og var því ágætlega að sér í ensku en eldra fólkið talaði ekki stakt orð í því ágæta tungumáli. Anan fékk reyndar vækt sjokk því eiginmaður þessarar stúlku var gamall kunningi hans sem hann bjóst alls ekki við að hitta þarna og hvað þá giftur þessu vænlega kvonfangi.


Setið við kamínuna.


Húsmóðirin gantast við barnið.


Þessi hafði ákaflega gaman af því að slökkva á kertunum, efnilegur slökkviliðsmaður.

Við kvöddum, þökkuðum góðar móttökur og fínar veitingar og gengum í myrkrinu aftur í kastalann en rákumst ekki á neina skógarbirni á leiðinni. Allajafna eru menn ekki mjög stressaðir á rekast á óargardýr inn í þorpum en í hallargarðinum er víst ávaxtatré sem mjög heillar birni og því ekki ráðlegt að ráfa um þann garð að næturlagi. Við fengum okkur te þegar við komum aftur í sameiginlega herbergið sem við höfðum til umráða og við kenndum Anan meira á ljósmyndahugbúnaðinn og eyddum við þannig kvöldinu. Hann pantaði aðra tegund af áfengum drykk af staðarhaldaranum sem heitir Ara sem er gerður úr hveiti og mun sterkari. Í þetta skiptið var hann blandaður með hrærðum eggjum og þvílíkann viðbjóð ef ég má nota svo sterkt orð hef ég aldrei á ævinni smakkað. Drykkurinn var alltof sterkur, eggin gerðu hann gruggugann og bragðið var hryllilega vont. Ég reyni nú alltaf að drekka heilt glas þegar mér er boðinn drykkur til að vera ekki ókurteis en ég gat með engu móti drukkið meira en einn sopa sem reyndar fylgdi mér allt kvöldið því bragðið fór ekki þó ég tannburstaði mig. Anan fékk sér aðeins einn sopa og gat ekki meira og ekki heldur Sonja þannig að full glös stóðu eftir okkur þegar við gengum til náða.


Maðurinn sem kyndir kamínuna okkar - Pemba.

Við fórum inn í herbergið okkar en Pemba hafði kynnt upp í kamínunni nokkru áður og fórum sátt inn í draumalandið eftir frábæran dag.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Er veðurbarða barnið ekki með down syndrome? Kannski var það skilið eftir e-rs staðar....???!!!?!?!