föstudagur, nóvember 23, 2007

68. Kaldur morgun löng bílferð

Við heyrðum í Pemba vesenast eitthvað við bílinn fyrir utan - heyrðum vatnsskvettur og ályktuðum að hann væri að þvo bílinn. Eldurinn í kamínunni var löngu kulnaður og því nístingskuldi í herberginu, ansi ólíkt þægilegum hitanum þegar við sofnuðum. Þegar við höfðum legið smá stund og safnað í okkur kjarki hentumst við fram úr rúminu, í fötin og stuttu síðar fram í matsal þar sem starfsstrákurinn var búinn að kveikja í kamínunni - það var gott að fara í hitann.


Herbergið okkar, kamínan í horninu.


Setið að snæðingi.

Við urðum heldur betur hissa þegar við komum inn í matstofu og sáum út um gluggann því það var hél yfir öllu, greinilega verið frost um nóttina en klukkan var bara um 6.20 og sólin því ekki komin upp yfir fjöllin ennþá. Ég stökk inn, náði í myndavélina, rauk út í kuldann og tók nokkrar myndir. Pemba var búinn að koma bílnum í gang en hann hafði helt sjóðandi heitu vatni yfir sérvalda hluta bílsins en Anan var hræddur um að við værum strandaglópar til 10-11, þ.e. þegar blessuð sólin hefði yljað allt en það er mjög algengt þegar það verður víðlíka næturfrost að bílsar fari ekki í gang á snemma morguns. Við skildum núna vel af hverju það hafði veirð svona kalt í herberginu okkar þó að þetta hafi nú ekki veirð jafn slæmt og hjá mömmu minni í gamla daga í Hvestu í Arnarfirði þegar hún vaknaði stundum með gegnfrosið vatnsglasið við hliðina á sér.

Morgunverðurinn var óhefðbundinn ef frá er tekið ristað brauð með sultu. Það sem kannski stakk mest í stúf voru franskar kartöflur - mér er ansi illa við að borða franskar fyrir kl. 7 á morgnana en lét mig þó hafa það í þetta skiptið og kláraði diskinn. Við skoluðum kræsingunum niður með te og kaffi úr gömlum pastelgrænum krúsum sem stóð á "Happy birthday".

Eftir morgunverð lögðum við af stað, brunuðum í gegnum fjöll og sveitir mið-Bútan, nutum fallegs landslangsins og horfðum á gras og tré böðuð hvítum feldi þó ekki hefði snjóað sem var virkilega fallegt - lá við að maður fengi heimþrá en þó ekki.


Kuldalegur morguninn.


Mistur yfir sveitinni.

Börn voru á leið í skólann með trefla fyrir andlitum og vettlinga á höndum en annars ekki nægilega klædd að manni fannst miðað við kuldan. Sonja rak augun í konu sem var að mjólka belju út í kuldanum og náði af henni mynd - ekki oft sem maður sér belju mjólkaða við slíkar aðstæður. Við keyrðum framhjá vörubíl sem var stopp vegna kuldans - þrír menn voru að hita undir honum með brennandi spreki. Vinir Anans sem voru á tveimur nokkuð nýlegum bílum voru einnig stopp - biðu bara eftir að blessuð sólin kæmi upp og baðaði bílana heitum geislum sínum. Það gekk eftir því þeir brenndu framhjá okkur síðar um morguninn.


Hjólandi í skólann.


Sennilegast sömu strákarnir.


Með trefil fyrir andlitinu.


Hestar bíta köld stráin.


Tankurinn hitaður.


Maður á leið til vinnu.


Kýrnar mjólkaðar í kuldanum.

Ég hafði verið að kvefast dagana á undan og var nú orðinn mjög kvefaður - það lak úr nefinu og hóstaköstin ágerðust þegar leið á daginn. Við vorum ekki með neitt hóstameðal með okkur en ákváðum að prófa magameðalið (koníakið) sem hafði góð áhrif á hóstann. Ég dreypti nokkrum sinnum á koníakinu yfir daginn um daginn og hefði helst viljað vera með koníaksglas því það hefði verið ansi svalt að sitja í aftursætinu á bílnum akandi um sveitirnar með einkabílstjóra, leiðsögumann og koníaksglas eins og ekta spjátrungur.

Löng keyrsla dagsins sem endaði í 9 klukkustundum fór með okkur up í 4000m hæð í hæsta vegspotta Bútan niður í 1200m sem var með nánast hitabeltisloftslag, hrísgrjónavöllum og bananatrjám - við fórum því úr snjó niður í hitabeltisloftslag á fáum klukkustundum.. Gríðarlegt magn er af trjám í landinu, eru heilu fjöllinn þakinn í trjám án þess að maður sjái svo mikið sem lítill blett af grasi eða bergi.


Anan vippaði sér upp á kranann til að ná betri myndum.


Gengið niður stíginn.


Móðir og barn.

Pemba og Anan rökræddu aðeins um það hvað börn væru orðin ókurteis og það vantaði aga í þau. Pemba vann eitt ár austanmegin í landinu og vildi meina að börn þeim megin væru mun kurteisari en fyrir vestan en Anan var ekki alveg að kaupa það. Ég er reyndar ekki sammála því að börn hérna séu ókurteis en hef kannski ekki gott viðmið með börn á íslandi og svo að hluta til á Indlandi. Þegar við gefum börnum hérna t.d. blýanta eða eitthvað slíkt smádót þá taka þau undantekningalaust við gjöfunum með báðar hendur útréttar með annað handabakið í lófanum á hinni hendinni. Börn bjóða líka mjög oft góðan daginn. Pemba fékk uppreisn æru þegar við komum austar en líkt og svo oft áður ókum við fram á skólabörn á heimleið. Börnin stilltu sér upp þegar við keyrðum framhjá og snéru inn á veginn og hneygðu sig þegar bíllinn fór framhjá þeim. Við héldum að þetta væri bara eitthvað grín hjá fyrsta hópnum en öll börn gerðu þetta þegar við keyrðum framhjá, Pemba til gríðarlegrar ánægju.


Börn stilla sér upp með þorpið Uru í baksýn.


Brosandi strákar.


Strákarnir vildu ólmir vera með á myndinni.


Svipsterkur drengur.


Pemba gefur börnunum kex - takið eftir hvernig þau taka á móti með báðum höndum.

Við snæddum hádegisverð í vegakanti uppi á fjalli en gistihúsið hafði útbúið matarbakka fyrir okkur. Pemba tók tvær mottur úr bílnum og setti á jörðina svo við gætum setið og borðað en þeir tveir sátu á hækjum sér. Við fengum samlokur með eggjasalati og kalda kjötbita í álpappír og öllu var þessu skolað niður með þykkum og bragðvondum mangó safa. Af einhverjum ástæðum þá er yfirleitt mangósafi í boði allstaðar nema maður biðji um annað, hvort hann er sá vinsælasti eða verið að koma út aukabirgðum á túrista vitum við ekki.

Eftir að við höfðum náð hæsta punkti og matast var vegurinn allvarasamur - rúta fór t.d. þarna útaf ekki fyrir löngu og allir í henni létust. Pemba var greinilega ekki hrifinn af veginum og sagði oft "Very dangerous road sir!". Við erum nú orðin ýmsu vön eftir miklar svaðilfarir í indverska hluta Himalayafjalla þannig að við kölluðum allt ömmu okkar sem hent var í okkur þennan dag í formi hættulegra vega.


Bænaflögg á hæsta punktinum.


Útlínur svipsterks og gáfulegs manns í bænaflöggum.


Sonja faðmar einhvern síðskeggjaðan öldung.


Himalayafjöll í baksýn.


Dalur.


Setið að snæðingi í vegakantinum.


Þegar neðar var komið voru akrarnir grösugri.

Eftir hádegi var Pemba orðinn svangur:

"Pemba, do you want apple?" spurði Sonja.
"Yes sir."
"Do you want me to clean it for you?"
spurði Sonja en við hreinsum alltaf okkar epli með flöskuvatni.
"No no - Pemba is used to eat dirt!" svaraði Anan þá.

Anan varð reyndar heimspekilegur þar sem við tveir vorum eitthvað að fríka út með myndavélarnar að taka einhverjar mosamyndir:

"I'm older than Pemba."
"That doesn't mean that you are old."
svaraði ég.
"Well I'm at least getting older and the fact that I don't know what I will be in next live sometimes depresses me!"
"Do you believe in live after death?"
spurði ég.
"Of course!"

Það er gott að trúa svona fast á líf eftir dauðann og það er einmitt tilgangur með trúarbrögðum að mínu mati að sættast á dauðann ásamt því að boða góða siði og félagslega hegðun.


Við Sonja enn einu sinni.


Skammtaður matur ofaní munka í klaustri.


Eldhúsáhöld.


Sótugur inngangurinn.


Glaðlegir drengir - munkur í klaustrinu.


Bogakeppni.


Markið.


Bogamennirnir fá sér snæðing.


Hallandi stúlkur.


Kodd' og kysstu mig.

Við komum á hótelið í Mongar seinnipartinn - þetta nýja hótel var stæðilegt með útsýni yfir dalinn, stendur rétt fyrir ofan bæinn sjálfan. Móttakan er mjög stór en alltof tómleg, svona tilfinning eins og að ganga inn í tóma nýbyggingu að koma þar inn. Eigandinn, kona á besta aldri tók á móti Anan og talaði og talaði og sagði okkur frá öllu þarna sem var orðið frekar langdregið í lokin því við vorum orðin þreytt eftir erfiðan dag. Við sluppum að lokum.


Druk 11000 er vinsælasti bjórinn enda 8% og ódýrari en þeir sem eru um 5%.

Kvöldverðurinn var mjög af skornum skammti - grænar núðlur í skál með smá þeyttun rjóma. Við héldum að þetta væri forrétur en vorum ekki viss þannig að ég kláraði minn rétt og hluta af Sonju, biðum síðan þolinmóð eftir aðalréttinum sem kom aldrei. Við fréttum af því daginn eftir að margir gestir á hótelinu hefði verið óánægð með kvöldverðinn og kvartað sem ég skil að mörgu leyti.

Gott var að fara í sofa í snyrtilegu og rúmgóðu hótelherberginu.

3 ummæli:

Burkni sagði...

Heitir hann Druk af því að maður verður druk-kinn af honum?






Badda-búmm-tiss!!

Nafnlaus sagði...

Hrikalega flottar myndir af morgunhélunni vvváááa´
the pink lady

Nafnlaus sagði...

Nenniði að ræna einum svona krakka handa mér? Þau eru svo sæt!!! Samt ekki með hor nös, ekki jafn sæt...!!!
Voðalega er sonja orðin e-ð hraustleg! Er það af því hún er orðin lofuð kona eða af því Jóhann er hættur að taka myndir af henni þeyttri og veikri....