"Ég gæti aldrei hugsað mér að vera meðlimur í klúbbi sem hefði menn eins og mig sem meðlimi!" sagði Woody Allen einhverntíman og mér verður eiginlega svipað innanbrjóst þegar við hittum aðra ferðamenn hérna í Bútan og ég veit að Sonja er sama sinnis. Við viljum eiga Bútan með húð og hári ein og sitja að óskiptri unaðslegri rjómakökunni. Þegar við hittum aðra ferðamenn sem eru oftast frá Bandaríkjunum eða Vestur-Evrópu finnst mér það sammerkt með þeim að þeir eru sjálfumglaðir og eru í fasi eins og þeir líti niður á íbúa hérna án þess sennilegast að gera sér grein fyrir því eða vilja neitt vont. Málið er bara að það að koma fram við aðra af fullkomnu æðruleysi og líta á fólk sem jafningja sína er meira að segja það og mér finnst það mest áberandi frá fólki fyrir vestan haf að það heldur að það sé æðsti kynstofn jarðarinnar og aðrir ættu að vera þakklátir fyrir að fá tækifæri til að komast í návígi við sjálfan sig. Ég er alls ekki að segja að ég sé eitthvað betri og vísa til þess í upphafssetninguna, hugsa að við séum flest svona frá Evrópu og Ameríku - höldum að við eigum þennan heim.
Jæja, ég læt meinhorni dagsins lokið sem var í boði McDonalds og yfirstjórnar Barnahjálpar Sameinuðuþjóðanna.
Það var stórkostlegt sjónarpil ljóss og skugga sem blasti við okkur þegar við skriðum á fætur kl. 7 og fórum út og horfðum yfir dalinn. Sólinn var ekki enn komin upp og skýjahnoðrar blöstu við fyrir neðan okkur á stöku stað í dalnum. Þegar geislar sólarinnar fóru að skjóta sér yfir fjallið og lentu í hlíðum dalsins steig upp gufa úr dalnum sem bjó í fyrstu til fallegt mistur en breyttist að lokum í þoku sem sólin átti þó furðu auðvelt með að komast í gegnum. Ég hugsa að flestir morgnar séu svona á þessum slóðum en þetta er með því fallegra sem ég hef séð lengi og er það þónokkuð því speglar eru hérna í hverju hótelherbergi.
Við tókum góðan tíma í að snæða morgunverðinn þennan morguninn því hótelið er frábærlega staðsett þar sem gluggarnir í veitingasalnum eru frekar stórir - við vorum því í stúkusæti.
Fugl leikur sér að sólargeislunum.
Þessi maður gekk hring eftir hringd í kringum hjólið til að biðja fyrir, hugsa að hann geri það daglega og er byrjaður um 5 um morguninn. Þegar við komum heim aftur á hótelið seinnipartinn var hann enn að.
Sólargeislarnir gægjast yfir hæðina.
Anan blótaði túristarútu sem við sáum um morguninn og hafði verið að flækjast á sömu slóðum og við dagana áður. Við Sonja sögðum nánast í kór: "Já, við hötum öll túrista!" - við erum túristar og Anan hefður atvinnu af túristum.
Við byrjuðum daginn að fara í þorp sem heitir Isha og er rúmlega klukkustunda akstur suður frá Tongsa. Þetta var eins og flest þorp hérna virðast vera mjög líflegt og skemmtilegt, sem sagt myndefni á hverju horni. Anan spjallaði við konu sem var að leggja hrísgrjón til þurkar á palli útfrá efri hæðinni. Eftir smá stund sagði hann við okkur að við mættum kíkja inn til hennar og sjá hvernig fólk í Bútan lifir. Við gengum inn í stórt rými sem angaði af reyklykt ekki ósvipaðri og er í reykkofum til sveita heima á Fróni. Það var mikið af dóti þarna inni, við innganginn var töluvert af dóti bæði á gólfinu og hangandi á veggjunum og til hægri voru 15-20 strigapokar fullir af hrísgrjónum og öðru matarkyns ásamt ýmsum öðru sem þarf til heimilishalds. Nánast allt pláss við veggi var nýtt til að geyma hinu ýmsustu hluti sem nauðsynlegt er til að lifa af á þessum slóðum.
Innst inni var eldstóin umkringd pottum og áhöldum til matargerðar ásamt litlum trjékollum.
Til hægri þegar gengið var inn er lítið herbergi með altari og litlu öðru, slíkt herbergi er nauðsyn á hverju heimili hér í Bútan. Altarið sjálft var stútfullt af bikurum, helgimyndum, blómum og öðru sem notað skal til helgihalds. Á veggjunum í kring voru margar myndir af kónginum ásamt ýmsum myndum sem tengjast Búddatrú. Við veggina var eins og annarsstaðar mikið af ýmsu dóti. Flest hús eru svona uppbyggð, þ.e. stórt sameiginlegt rými (eldhús, stofa, svefnherbergi, forstofa) og svo lítið altarisherbergi en því ríkari sem fjölskyldan er því fleiri eru herbergin. En klósettin virðast vera útikamrar hjá háum sem lágum nema auðvitað nær höfuðborginni þar sem inni-vatnsklósett eru möguleg.
Mannlíf við innganginn í þorpið.
Mjög myndvæn stelpa sem sat við brunn og fylgdist með móðir sinni þvo þvott.
Hrísgrjón unnin á palli við húsið.
Inni í bænaherberginu.
Aðalrými húsins.
Ýmislegt geymt í pokum í horninu, sennilegast þó aðallega hrísgrjón og annað matarkyns.
Þrjú þögul á palli.
Við gengum lengra inn í þorpið og heimsóttum þar aðra konu sem bjó í húsi sem var mjög svipað að utan en töluvert öðruvísi að innan því eldhúsið var eitt herbergi og stofan/svefnherbergi annað. Inni í eldhúsinu var húsmóðirin að stumra yfir pottum og keypti Anan af henni kornflögur í poka - gott er að geta endurgjaldað gestrisnina með að kaupa einhverjar vörur af fólkinu. Á gólfinu sat gamall maður og saumaði saman strigapoka og virtist ekkert taka mikið eftir okkur þar sem við vorum þarna inni að spjalla við konuna.
Þessar dýnur eru teknar fram á kvöldin til að sofa á. Dagblöð virðast mikið nýtt á veggina.
Eldri maður sat á eldhúsgólfinu og saumaði fyrir strigapoka - Konan útbýr kornflögur í poka sem Anan keypti af henni.
Við héldum áfram för og komum næst að húsi þar sem eldri kona stóð í dyrunum og bauð hún okkur nánast strax inn. Húsið hennar svipaði mjög til hússins sem við heimsóttum síðar, allt stúkað niður og veggir betrekaðir með dagblöðum. Anan spjallaði við hana í góða stund, fékk að kíkja eftir gömlum áhöldum uppi á háalofti og keypti af henni vínsekk og tréskál sem höfðu greinilega ekki verið snertar í áraraðir. Hún skildi ekkert í því að hann vildi eignast þetta eldgamla úrelta drasl og ætlaði fyrst ekki að taka við greiðslu en gerði það að lokum.
Konan sem við heimsóttum.
Dóttir konunar fylgdist með okkur þegar við gengum í burtu - eldri maður virðir okkur fyrir sér.
Síðasta húsið sem við heimsóttum var í útjaðri þorpsins og stökk Anan inn því konan hafði séð hann með þessi gömlu áhöld og hún lumaði á einhverju. Inngangurinn var á annarri hæð svo ég klifraði upp tröppurnar á meðan ég beið og sá þá inn um gluggaopið mjög myndvænan gamlann mann sem sat rétt við gluggann og saumaði. Vandamálið var að ég gat ekki tekið mynd af honum nema að nánast klifra upp í gluggann og mér þótti það nú heldur dónalegt. Ég hugsaði því aðeins ráð mitt teygði mig svo upp að gluggaopinu og starði inn á kallinn sem tók ekki eftir mér. Eftir mikla íhugun hvort ég ætti að sleppa þessu tækifæri og fara niður eða vera óþolandi túristi og nánast hanga utaná glugganum með myndavélina og taka mynd inn í húsið af aumingjans manninum sem átti sér einskis ills von, ég valdi seinni kostinn.
Það fyrsta var að láta hann taka eftir mér til að geta metið hvort ég færi lengra með málið. Ég tók því í gluggann, hallaði mér frá tröppunum þannig að ég sæi inn, reyndi að láta sjást eins mikið í mig og mögulegt var og ræskti mig örlítið en samt ekki þannig að ég væri að reyna að láta taka eftir mér. Hann sá mig þar sem ég góndi brosandi inn um gluggann sennilega eins og geðsjúkur gluggagæjir að svipast um eftir nöktu kvennholdi inni í húsinu. Hann brosti strax mjög vinalega, nánast hló og hafði greinilega gaman af því að sjá mig þannig að eftirleikurinn var auðveldari en ég bjóst við. Ég teygði því myndavélina að glugganum með annarri hendinni og hann brosti enn breiðar, hafði greinilega ekkert á móti því að gluggagægir myndi taka af honum myndir sem ég gerði svo sannarlega. Ég kvaddi hann með virtum og hann bað mig að senda sér myndir sem ég að sjálfsögðu lofaði og mun standa við.
Kornvinnsla - þessi eldri maður er líka í rauðum stígvélum eins og skólabörn.
Maðurinn káti sem sat við gluggann.
Þar sem skegg mitt er ansi úfið og ég ljós á hörund þá minni ég óneitanlega á víking og yngsta kynslóð þorpanna ber ekki kennsl á slíkar kynjaverur. Af þeim sökum verða sum börn virkilega skelfd þegar ég birtist, nánast öskra upp yfir sig ef ég hætti mér of nálægt og hlaupa bakvið mæður sínar eða inn í hús og láta ekki sjá sig aftur. Það gerðist nokkrum sinnum í þessu ágæta þorpi eins og öðrum bæjum og er það bara skemmtilegt - maður verður að hafa húmor fyrir því að vera ljóti kallinn. Þegar ég sat á tröppunum sem liggja upp á veginn frá þorpinu rétt áður en við fórum kom þar gangandi upp ung kona og sonur hennar. Hún gekk á undan og fór framhjá mér en hann stoppaði svona þremur metrum fyrir neðan mig í tröppunum, virtist ekki alveg vita hvað hann ætti að gera og tók því á það ráð að klifra upp frá tröppunum og taka stóran hring í kringum þær til þess að ég myndi ekki éta hann með húð og hári.
Ef þetta er ekki skelfingarsvipur þá veit ég ekki hvað.
Næsti viðkomustaður var snyrtilegt þorp sem lá í hlíðinni fyrir neðan veginn. Í miðju þorpinu er stór kastali með virkisveggjum í kringum og var þetta á árum áður vetrarkastali annars kóngs Bútan. Við gengum inn í opinn kastalagarðinn og var þar enginn á ferli enda var kastalinn yfirgefinn kringum 1930 og hefur ekkert verið notaður síðan en umsjónamaður sér um að halda honum við. Við stöldruðum smá stund í garðinum, tókum myndir og þar komu að þrjár ungar stúlkur sem eru greinilega eitthvað tengdar umsjónamanninum. Sonju datt það snjallræði í hug að fá þær til að fara inn í kastalann og stilla sér upp í einum glugganum þannig að við gætum tekið myndir af þeim. Ég nýtti því tækifærið á meðan Sonja og Anan mynduðu þær og fór inn í kastalann og svipaðist um. Hann er nánast alveg tómur og kannski ekki mikið að sjá nema skraut og freskur á veggjunum sem voru aðeins farin að láta á sjá. Á milli hæða er brattur tréstigi,fór ég alveg upp á þriðju hæð og skoðaði hin ýmsu herbergi - ekki ónýtt að vera einn að skoða gamlan yfirgefin kastala.
Stúlkurnar í einum glugga kastalans.
Svipmyndir af kastalananum að innan.
Beljur fyrir framan kastalann.
Á túninu fyrir framan kastalann voru skólabörn að undirbúa skemmtiatriði og skraut fyrir afmæli konungs sem haldið yrði um allt land daginn eftir. Við slökuðum á í dágóða stund á túninu og spjölluðum við börnin og fylgdumst með undirbúningnum áður en við snérum við og héldum aftur til Trongsa.
Hlið sett upp á túninu.
Mikið líf var á túninu.
Börn fyrir framan tjald sem var ætlað undir merkilegu gestina daginn eftir.
Nemendur við vinnu á túninu.
Ég var orðinn hálf slappur þegar við komum til baka, með hausverk og almennt slen þannig að við fengum að leggja okkur í herberginu áður en við myndum snæða hádegisverð og skila af okkur herberginu, en klukkan var orðin eitt. Við sváfum yfir okkur og vöknuðum ekki fyrr en klukkan var orðin hálf þrjú en hugmyndin hafði verið að leggja sig bara í 30 mínútur enda löng bílferð framundan á næsta áfangastað.
Við borðuðum í fljótheitum, hentum dótinu í bílinn og keyrðum niður í virki sem eru í raun svipuð og kirkjur í Evrópu nema bara mun líflegri því í þeim lifa og starfa munkar auk þess sem mikið er um að vera á daginn þegar bæjarbúar þurfa að stússast í sínum málum.
Við innganginn var bogkeppni í fullum gangi en engir áhorfendur aðeins tvö lið að spila. Anan leist nú ekki á þetta og sagði okkur að hlaupa á eftir sér þegar hann hentist eftir gangstéttinni sem liggur um 2 metrum frá mjórri brautinni og við sáum bogamann í 140 metra fjarlægð munda bogann og miða að því virtist beint að okkur. Við sáum ekki örina í loftinu en heyrðum hana lenda beint í markinu rétt fyrir aftan okkur þar sem við nálguðumst innganginn að virkinu - alveg er með ólíkindum þessi hittni hjá þeim þótt Anan virðist ekki treysta á hana.
Fyrsta portið var því sem næst mannlaust fyrir utan fjóra unga munka sem voru að leika sér í blaki í einu andyrrinu skammt frá. Við horfðum á þá spila þessa íþrótt í munkakuflunum sínum í skamma stund þar til eldklerki var nóg boðið og skoraði á þann sem virtist vera bestur. Hann gaf upp góðan bolta en ég náði að hamra hann aftur í helvískan munkinn sem átti fótum sínum fjör að launa því önnur eins þruma hefur varla sést í virkinu síðan almennileg stríð og skærur hættu í landinu - "Hvar er Búdda núna þegar þú þarft á honum að halda?" hugsaði ég með mér nokkjuð brattur. Hann gaf aftur upp einkennilega góðan bolta en náði ég aftur að þruma honum í mark framhjá undrandi andliti munksins sem þó náði að brosa vandræðalega. Ég fór að hugsa með mér að kannski væri takmarkið ekki að knésetja andstæðinginn og breytti því um spilamennsku og fór að spila upp á að hann myndi ná boltunum mínum og það stóð heima - leikurinn gekk í raun út á að spila sem oftast á milli með einni snertingu án þess að boltinn færi í gólfið. Ég spilaði því eftir þessum stúlknareglum í dágóðan tíma og þakkaði síðan fyrir mig - smössin voru samt góð.
Fláráður eldklerkur spilar við munk eða er eldklerkur bara að taka dansspor?
Við gengum lengra inn í virkið og mættum fyrir framan klausturpartinn þegar bænahaldi var nýlokið. Við skildum fyrst ekki hvað var að gerast þegar gulklæddur munkur kom fram á troppurnar fyrir ofan okkur með þykkt og mikið leðurbelti og sló því ítrekað í jörðina svo glumdi í. Hann gekk þannig niður tröppurnar og ekki löngu seinna fylgdu munkarnir í beinni röð - þetta hefur eitthvað með það að gera að hræða í burtu illa anda áður en stórheilagir munkarnir kæmu. Þegar þeir höfðu allir skilað sér út og niður í port og þaðan inn í aðra byggingu komu út munkar sem voru í fjólubláum klæðnaði og hófu að dansa eða stíga fimleg spor uppi á pallinum, fyrsta hugsun mín var að þeir væru drukknir og komnir í tjúttgírinn. Svo gott reyndist það ekki vera því þeir voru að deila/dreifa þekkingu sinni með þessari aðferð.
Munkur með svipu - þekkingunni deilt.
Virkisgarðurinn.
Við hlupum sem fætur toguðu aftur úr virkisdyrunum í bílinn okkar því bogamótið var enn í fullum gangi fyrir utan og menn líklegast orðnir drukknari en áður og ekki gott að tefla á tvær hættur.
Við fengum óþarflega áminningu um það hversu áfengi er mikið vandamál þegar austar dregur í landinu þegar við keyrðum út úr bænum og keyrðum framhjá manni sem lá áfengisdauður á nánast miðri götunni um hábjartan dag.
Keyrslan frá Trongsa til Jakar var löng, 3-4 tímar og þar af síðustu tveir tímarnir í svarta myrkri. Við mættum á fábrotið gistihúsið um kvöldmatarleyið þar sem þreyttra ferðalangra beið vel kynnt herbergið með snarkandi kamínunni og rúm vel búin teppum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Skelfilega eru mörg börn þarna skítug með hor....??!?
Skrifa ummæli