miðvikudagur, nóvember 21, 2007

64. Linsuvandræði

Við vöknuðum snemma um morguninn og vorum komin út fullklyfjuð um kl. 7.30 sem er ansi snemmt fyrir okkur skal ég segja ykkur. Við gengum svipaðar slóðir og kvöldið áður og hittum börn sem voru á leið í skólann enda hafði það verið tilgangurinn með því að fara svona snemma á stjá. Linsan sem ég hef notast nánast alfarið við í ferðinni bilaði í gönguferðinn, vildi okkur alls ekki hlýða og er það ansi slæmt að missa þennan gæðing þegar maður er kominn á staði sem við teljumst heppin að hafa rafmagn. Við settum hana í viðgerð í Katmandu fyrir um 10 dögum síðan og hefur hún virkað eins og draumur þangað til núna þegar hún sagði loks stopp og virðist ekkert hægt að tjónka við hana. Ég hef reyndar aðra linsu en það er frekar víð linsa og ekkert þys ("súm") þannig að myndir mínar verða eitthvað takmarkaðri það sem eftir er ferðar en það verður bara að hafa það.


Hótelið okkar.


Skólabörn snemma morguns.


Eldri bróðir fylgir litlu systkinum sínum.


Rauðu gúmmístígvélin eru hluti af skólabúningnum, spurning hvort drengir heima fengjust til að vera í kjól og rauðum stígvélum.


Sonurinn fylgist með ömmunni sem fylgist með beljunni borða.

Eftir morgunverð héldum við áfram ferð okkar austur í gegnum Bútan og var næsti viðkomustaður bærinn Trongsa. Þetta er undir venjulegum kringumstæðum um þrjár og hálf klukkustund en að sjálfsögðu vorum við Sonja næstum heilan dag á leiðinni enda skoðum við mikið og tökum enn meira af myndum.

Við stoppuðum í einu þorpi á leiðinni sem Anan hefur sjálfur aldrei komið í og því nokkuð úr alfaraleið hins dæmigerða ferðamanns. Við gengum inn í þorpið og þar blasti strax við fallegt hús, amman stóð í hurðinni með barnabörnin tvö og tók hún strax við að greiða börnin og girða svo við gætum tekið af þeim mannsæmandi myndir. Sú eldri var reyndar svo feimin að amman þurfti að hafa sig alla við að draga hana öskrandi út úr húsinu okkur til yndisauka.


Amman.

Það voru frekar fáir í þorpinu enda flestir þeir ungu fluttir á þægilegri stað samkvæmt konu á miðjum aldri sem við hittum. Við spurðum hana hvað þorpið væri gamalt og vissi hún það ekki þó hún hefði búið þarna alla sína tíð, sagði samt að það væri nú eitthvað gamalt því að langamma hefði búið þarna. Við skoðuðum þetta skemmtilega þorp en það hefðu mátt vera fleiri á ferli en það koma önnur þorp síðar.


Svona bænafestum halda margir á og telja allan daginn hring eftir hring kúlurnar um leið og þeir fara með bænirnar.


Maður situr uppi á svölunum sínum.


Börn í þorpinu.


Ég lofaði þessum manni vinstra megin að senda honum mynd en hann sat í garðinum sínum og baðst fyrir. Hitt fólkið stóð fyrir framan klaustrið.

Anan dó reyndar ekki ráðalaus, hann kallaði einhverjar skipanir að Pemba sem hljóp til, upp á pall fyrir framan gamalt hús og beið þar þolinmóður þangað til Anan kallaði "action" og gekk þá af stað á meðan hann var myndaður fram og til baka. Hann er því ekki bara bílstjóri heldur einnig fyrirsæta.


Action!

Við sáum mikið af jakuxum sem eru að koma niður úr fjöllunum nú þegar farið er að kólna, eru að koma úr 4-5000m hæð í um 3000 metra hæð. Þessi voldugu dýr voru rétt við bifreðina þegar við keyrðum hægt á milli þeirra en þeir verða varir um sig þegar maður fer út úr bílnum, líkt og íslenska rollan, en þeir eru hin ágæstustu skinn og gera mönnum sjaldan mein.


Jakuxi uppi á fjöllunum, um 3000 metra yfir sjávarmáli.


Sveitabýli uppi á fjöllunum.

Við stoppuðum á túristaveitingastað á leiðinni og snæddum þar hádegisverð. Aldrei þessu vant sagðist Anan ætla að borða inni í eldhúsi með Pemba bílstjóra sem snæðir aldrei með okkur. Maturinn var ekki sá besti, ólseigir kjötbitar og annað sem hefði mátt verða betra. Eftir matinn sagði Anan að eldhúsið fyrir bílstjórana og leiðsögumennina væri sennilegast það besta í landinu og því hefði hann snætt þar en hann væri oft búinn að segja þeim að þeir þyrftu líka að leggja áherslu á túristamatinn enda væru þeir að koma með þá. Hann borðar yfirleitt ekki á þessum veitingastað því hann kann ekki við þessa stefnu staðarins en þar sem við vorum orðin sein þá þurftum við að borða þarna ef við ætluðum að fá einhvern hádegismat. Það er nokkuð sniðugt hjá veitingastaðnum að hafa úrvalsmat fyrir leiðsögumennina því það eru þeir sem koma aftur og aftur og ráða för - ferðamennirnir skipta engu máli enda búnir að borga fyrir allt fyrirfram og hafa lítið að segja.


Sonja að snæðingi - matarúrvalið.

Við fengum mjög oft svipaða rétti að borða út um allt Bútan, þetta er hið dæmigerða úrval:


Rauð hrísgrjón - alltof steikt kjöt sem er eins og leður undir tönn - Shamu (sveppir og kál)


Baunir og gulrætur - Datshi (ostur og baunir) - Spínat. Bútanar eru mjög hrifnir af því að setja ýmsa hluti í ostasósu.

Pemba bílstjóri er mjög rólegur og þægilegur maður en átakanlega feiminn við útlendinga. Hann vill alls ekki umgangast okkur nema nauðsyn brjóti lög en Anan hefur þó náð að plata hann að setjast aðeins með okkur þegar við fáum okkur kaffisopa á ferðalögum okkar. Hann situr þá aðeins fyrir utan borðið, rýkur út í bíl langt á undan okkur og bíður þar átekta. Hann er bóndi og á bú nálagt höfuðborginni (Timphu) þar sem hann býr með konu, börnum og húsdýrum. Hann er mjög duglegur, er alltaf að dytta að bílnum eða snattast í kringum okkur að redda málum og er búinn að koma ár sinni ágætlega fyrir borð í lífinu. Hann átti hótel með bróðir Anan sem fór á hausinn þegar þriðji bróðir Anan fór að skipta sér of mikið af málum ásamt því að þeir væri ekki nægilega góðri businessmenn. Núna á Pemba þennan sveitabæ ásamt því að eiga leigubíl og er hann sennilegast alltaf vinnandi. Með honum býr eiginkona hans sem er 12 árum yngri, nýskriðin yfir 20 árin, pabbi hans og systir ásam tveimur börnum hans. Þau eru með 6 beljur og 4 hænur.
Í gærkvöldi fóru Anan og Pemba að hitta vinnufélaga og var fundarstaður bar hérna í nágreninu. Pemba sat frekar óþolinmóður því hann er voðalega lítið fyrir einhverjar svona samræður og vill fara að sofa um klukkan tíu. Bútanískt par kom að máli við þá og settist hjá þeim í einhvern tíma til að spjalla. Þegar þau voru farinn spurði Pemba Anan frekar hneykslaður hvað þetta fólk væri eiginlega að gera úti svona á kvöldin, af hverju þau væru ekki bara heima hjá sér því þau hefðu jú hvort annað. Hann hefur engin áhugamál, það að skemmta sér eða gera eitthvað til dægrastyttingar er ekki til hjá honum og hann horfir ekki einu sinni á sjónvarp. Við fórum á litla hátíð einn daginn og hann vildi alls ekki fara með, finnst svona hátíðir leiðinlegar og tilgangslausar. Hann virðist vera mikið gæðablóð og gott að hafa hann með okkur í ferðalaginu.


Þetta var málað á bergið fyrir myndina Travellers & Machicians.


Sveitabær með Himalaytafjöllin í baksýn - maður á gangi.

Þjóðaríþrótt Bútana er bogfimi og er verið að keppa í þessari íþrótt víða þar sem við komum. Yfirleitt er langur og mjór grasvöllur með hærri stöllum á endunum til að taka við örvunum ásamt mörkum til að skjóta á. Mörkin eru lítil tréspíta með litlum hring sem er ekki breiðari en 20 cm með hvítu svæði í kringum. Ég er ekki viss um hvað spítan er stór en gæti giskað á hálfan meter á hæð og 25 cm á breidd en það er bara skot í myrkri. Það sem er hvað merkilegasta við þetta er að bogamennirnir eru í 140m færi frá markinu litla og því er færið ansi langt í burtu, ég sé það varla þegar ég stend á öðrum endanum (reyndar segja sumir að það sé 120m og annar 240m, það er a.m.k. 120m og sennilegast 140m). Liðin tvö sem keppa eru á sitthvorum enda vallarins og skiptast á að skjóta á milli skotmarkana sem eru á báðum enda vallarins. Yfirleitt drekka menn staup þegar þeir hafa hitt í markið sem gerist alveg lygilega oft. Ég stóð t.d. og horfði á þrjú skot sem öll fóru beint í markið af þessu gríðarlega langa færi og fólk situr báðum megin við völlin og því þarf ekki að skeika nema um 3-4 metra á hvorri hlið til að illa fari. Þegar menn hitta þá dansa þeir fyrir framan skotmarkið og ögra andstæðingunum og er það einn stærsti hluti leiksins að gera lítið úr andstæðingnum sem gæti þessvegna skotið ör í bræði og þá færi illa. Menn leika sér við það að standa við markið og færa sig frá örinni á síðustu stundu til að sýna karlmennsku sína sem gerir þessa íþrótt meira spennandi en maður heldur í fyrstu.
Ungar konur klæddar í þjóðbúninga standa á hliðarlínunni og syngja lög á meðan keppt er, gegna sama hlutverki og amerískar klappstýrur en eru ansi ólíkar stöllum þeirra fyrir vestan haf. Það er mikið sungið og þegar við vorum viðstödd voru dómararnir tveir ekki að horfa á leikinn heldur að syngja með klappstýrunum fyrir áhorfenduna sem voru fáir.
Það er yfirleitt notast við hefðbundna bútanska boga en í kringum þéttbýlið í vestri eru menn farnir að nota ameríska keppnisboga meira og meira og voru þær tegundir brúkaðar þegar við fylgdumst með.
Menn eru semsagt að hitta fáránlega vel í markið af 140 metra færi í pínulítið skotmark drukknir með fullt af fólki allt í kring sem er að fylgjast með - ég hitti varla í klósettið þegar ég er drukkinn.


Bandaríski veiðiboginn mundaður.


Munkar fylgjast með leikunum.


Sungið til að gera lítið úr andstæðingunum.


Dómararnir syngja með klappstýrunum á meðan leikurinn heldur stjórnlaus áfram.

Við komum á áfangastað seinnipartinn og fengum okkur þá kaffisopa saman á veitingasal Yanghkil Resort, gististað okkar í Trongsa. Við tókum Anan í fyrstu formlegu kennslustundina í Lightroom, sátum með honum í um 3 tíma kenndum og spjölluðum um bókaútgáfur, ferðamannaiðnaðinn o.fl.


Sólstafir.


Gullin birta kvöldsólarinnar.


Virkið í Trongsa.

Við fórum snemma að sofa þetta kvöldið enda þreytt eftir akstur dagsins.

Engin ummæli: