mánudagur, nóvember 19, 2007

63. Í fögrum fjallasal

"Ég er ekki með höfuðverk, magaverk, óglatt, beinverki, svima, niðurgang né uppgang!"
"Nú, þá hlýtur þú að vera eitthvað veik!"


Um klukkan 8 að morgni stöðvaði Pemba bílinn fyrir neðan lítinn göngustíg svo ég, Sonja og Anan gengum af stað upp í þorpið Rinchhengang sem er frá um 16. öld. Um 10 mínútum síðar komum við að húsþyrpingunni sem er frekar óhefðbundin fyrir Bútan því þorp eru yfirleitt ekki svona þéttbyggð, a.m.k. ekki í bröttum hlíðum. Í garði fyrsta hússins var stórt svín í lítilli einkastíu, lítill kálfur í annarri og var húsfreyjan að gefa kálfinum mjólk með því að hella henni í stuttan bambus, troða bambusinum síðan upp í kálfinn og ofaní kok. Lítið barn hjálpaði móður sinni og amman sat á palli fyrir ofan og fylgdist með.


Útsýnið frá hótelinu okkar.


Útsýnið frá Rinchengang.


Kálfinum gefin mjólk.

Við gengum lengra upp hlíðina á milli húsa og komum að því sem við álitum vera torg en þetta var autt svæði í hlíðinni þar sem fólk var að sýsla við ýmis verk. Á staur á miðju svæðinu var stórt og óárennilegt naut sem gekk í hringi og reyndi einstaka sinnum að slíta sig frá spottanum sem virkaði ekki mjög sterkur og var manni ekki rótt þegar maður sá þessi átök. Einstaka sinnum fóru börn óþarflega nálagt nautinu og öskraði þá eldra fólkið á þau hástöfum.
Til hliðar var útbreiddur dúkur og var eldri kona að dreifa þar korni til vinnslu, barnabörnin og tveir hundar fylgdust gaumgæfilega með. Eldra fólkið sat við hús sín og fylgdist gaumgæfilega með því sem fór fram á torginu og þá sérstaklega okkur enda ekki á hverjum degi sem fúlskeggjaður víkingur kemur með kvonfang sitt á þessar slóðir.


Illvígt naut bundið í miðju þorpsins.

Börnin voru ekki lengi að uppgötva okkur, nánast stilltu sér upp fyrir framan myndavélarnar þó við værum að reyna að taka myndir af einhverju allt öðru en það gerir þetta bara skemmtilegt. Sum þessara barna voru bæði afskaplega myndvæn og myndraleg en það fylgir ekki alltaf að og vorum við komin í sannkallaðar álnir í þessum fallega þorpi. Börnin fylgdu okkur eftir á meðan við gengum um þorpið þannig að það var sannkallað líf og fjör og stundum einum of mikið þegar börnin fóru að slást um athyglina en þá var eldra fólkið fljótt að stökkva til og húðskamma börnin.


Nokkur barnanna í þorpinu - Sonja með fylgismönnum sínum.


Krakkaskrattar myndaðir af brjáluðum túristum.


Hvernig er hægt að segja nei við að taka myndir í miklum mæli þegar börnin hafa svona gaman af því.


Stillt sér upp við húsvegg.

Húsin voru mörg hver mjög falleg og að sjálfsögðu öll í hefðbundnum stíl, útskorin og allskonar myndir máluð á þau aðallega til varnar illum öndum. Flest íbúðahús í Búthan eru byggð með mjög svipuðum byggingastíl enda er það í lögum landsins að öll hús verða að fylgja þjóðlegum stíl í byggingalist og þarf að fá samþykki áður en hafist er handa.
Hið dæmigerða hús í þorpi er á tveimur hæðum með opið rými á milli efri hæðar og þaks. Á jarðhæð voru húsdýr geymd á veturna en það telst ekki sérlega heilsusamlegt og því reyna yfirvöld að fá fólk til að hætta því. Á efri hæðinni eru hýbýli fólks og stígur hitinn af húsdýrum upp á efri hæðina og heldur hita á kroppum þegar kaldast er. Efri hæðin er þó yfirleitt bara tvö herbergi, í öðru er sofið, unnið og eldað en hitt er bænaherbergi með altari. Í rýminu á milli efri hæðar og þaks er aðallega geymt hey en einnig annað sem gott er að loft leiki um auk þess sem hey er ágætis einangrun svo notarlegur hitinn sleppi ekki út.
Þar sem dalurinn er þekktur fyrir að vera vindasamur voru sum þökin spennt niður með vírum. Mjög fallegt þorp og ætli það mætti ekki segja að skoða svona þorp sé eins og að skoða lifandi listasafn undir beru lofti.


Barn og naut.

Við rákumst á villisvín sem lá steinsofandi fyrir utan eitt húsið og hefði það smellpassað í Ástríkssögu. Held að við höfum aldrei séð svona svín í návígi nema kannski í dýragarði eða á diski. Villisvín eru þó mikill skaðvaldur því á næturnar þykir þeim fátt skemmtilegra en að leika sér á hrísgrjónaökrunum og ef þau komasgt inn í garða þá eru þau búin að róta öllu upp stuttu síðar. Þetta svín virtist þó vera hálfgert gæludýr eða svo langt sem það nær því fólk hér heldur ekki dýr sér til skemmtunar, t.d. á eiginlega enginn hundana heldur gefa þeim allir bara að borða en kettirnir virðast þó halda sig innandyra hjá ákveðnum fjölskyldum.


Villisvínið.

Anan var frekar þreyttur eftir svefnlitla nótt í bílnum en var ekki að stressa sig mikið á því, hann hefur oft þurft að láta sér slíkar næturvistir duga. Við spurðum hvað hann og aðrir leiðsögumenn gerðu á kvöldin þegar túristarnir væru komnir inn á herbergi og var svarið að þeir fengju sér kannski að drekka eða spjölluðu bara. Við spurðum hvort hann væri með góðar bækur með sér en þá varð hann skrýtinn á svipinn og sagðist helst ekki lesa og almennt þá lesa bútanar ekki en hann ætti nokkra vini sem lesa bækur. Við minntumst þá á húslestrarhefðina heima á Fróni og varð hann hvumsa.

Eftri þessa þorpsheimsókn var för okkar heitið í hinn fallega dal Phobjikha sem liggur fyrir vestan Black Mountain og var þetta um 4 tíma akstur með stoppi í þorpi á leiðinni. Dalurinn er víður, ótrúlega myndrænn og friðsæll enda er ekkert rafmagn í öllum dalnum þó að lítið þorp og sveitabæjir séu þarna. Hótelið okkar var með eigin rafstöð sem framleiðir rafmagn á milli 17-21 en ekkert rafmagn er að hafa þar fyrir utan.
Hótelið sjálft er hið glæsilegasta þar sem það situr ofarlega í hlíðinni með útsýni yfir dalinn. Hótelstjórinn sjálfur, ungur og vinalegur piltur, bar sjálfur farangurinn okkar inn í herbergið og þvílíkt herbergi sem þetta var. Við höfðum átt pantað herbergi í gistiheimili skammt frá vegna þess að hótelið var fullt en það losnaði eitt herbergi á síðustu stundu og reyndist þetta vera flottasta herbergi hótelsins. Þetta var efra hornberbergið, hótelið var 2ja hæða, með útsýni í þrjár áttir úr stórum gluggunum þar sem hægt var að sitja í stólum og gæða sér á útsýninu. Fyrir miðju var ristastórt hjónarúm og við dyrnar kamína til að halda okkur heitum. Þetta var án efa flottasta herbergi ferðalagsins og þarf eitthvað mikið til að slá það út. Við höfum aldrei áður skilið tilgang "setustofahorna" á hótelum en þarna hefði verið rugl að hafa ekki stólana.


Þorp sem við keyrðum í gegnum sem mun verða flutt fljótlega.


Þorparar við þorpstorgið.


Stúlka við annað þorp á leiðinni.


Markaður.


Hótelherbergið góða með útsýni yfir dalinn.


Herbergið okkar var á efri hæð þarna á endanum.

Þegar við höfðum komið okkur fyrir, fengið okkur kaffi- og tebolla í veitingasalnum sem var með stórri kamínu og útsýni yfir dalinn þar sem regnbogi gladdi gestsaugað héldum við í göngutúr. Við gengum í gegnum þorpið, spjölluðum við heimafólk, tókum nokkrar myndir og gengum þvínæst í áttina að skólanum sem lá fyrir utan þorpið við botn dalsins. Þar á miðri leið komum við að brú einni þar sem fimm skólastúlkur stóðu upp á stólpunum og sungu og dönsuðu af mikilli innlifun. Við settumst niður og hlustuðum á þessa ágætu hljómleika við undirleik lækjarins og stórkostlegt leiksviðið í baksýn. Við dvöldum þarna í um klukkustund því þetta var ein af hinum óvæntu töfrastundum ferðalaga; veður, náttúra og skemmtunin var eins og best verður á kosið.


Hús í þorpinu.


Strákar á leið úr skólanum.


Fleiri skólabörn.


Nokkrir nemendur stilla sér upp með dalinn í baksýn.


Bleikklædd systkin.


Tannfrítt fólk.


Ég hlýði á einkatónleika.


Það var dansað og sungið.

Ég hugsa að margir verði hissa þegar þeir koma til Bútan og sjá veggskreytingar utaná húsum hérna. Við skulum sýna smá dæmi:





Þetta mála Bútanar víða utaná hús sín og eru sumar myndirnar ansi svæsnar verður að segjast. Þetta eru ekki frjósemistákn eins og við héldum í byrjun heldur verndartákn og á rætur að rekja til þess til manns sem var uppi á öldum áður og kallast "The divine madman". Menn trúa því að kvenndjöflar séu rót alls ills og ef menn veikjast eða eitthvað slæmt kemur fyrir er það ekki tilviljun ein, veirur eða annað sem veldur því heldur verk illra anda og þá kannski helst þessara kvenndjöfla. Reistur limur er því vörn gegn þeim og það er ástæðan fyrir því að fólk málar þetta á hús sín, til að dreifa athygli djöflanna. Limurinn spilar einnig stórt hlutverk í hátíðum sem haldnar eru víða um Bútan allt árið. Þar eru gjarnan trúðar sem sjá um að fólk drepist ekki af leiðindum yfir löngum dönsum munka og annarra atburða sem a.m.k. yngsta kynslóðin hefur ekki endalausa þolinmæði að horfa á. Þessir trúðar ganga um sviðið, sem oft eru virkisgarðar og gera grín að þeim sem eru að sýna listir sínar og er hlutverk þeirra kannski helst á milli atriða að halda fólki við efnið. Einn trúðanna er gjarnan með stóran gervilim, sveiflar honum og beitir af kúnstarinnar reglum og skiptir engu máli hvort hann er að sveifla þessu tóli fyrir framan stúlkur sem eru að syngja eða börnin sem sitja blásaklaus og horfa á skemmtiatriðin.




Trúður með gerfilim úr tré.

Við kvöldmatinn uppi í veitingasalnum söfnuðust fararstjórar og bílstjórar ásamt öðru starfsfólki í kringum kamínuna enda kalt þegar sólin fór og gerði það skemmtilega stemmingu í salnum.

Við vorum komin inn í herbergi fyrir kl. 21 og komum okkur vel fyrir undir sænginni ásamt sjóðheitum hitapokunum sem við hefðum fengið afhenta fyrr um kvöldið. Ég kynnti kamínuna því ekki borgar sig að Sonju verði of kalt en fór aðeins of mikinn því við tókum skyndilega eftir að önnur hlið kamínnar var orðin þrútin og rauðglóandi, hefði ég helst trúað að ef ég hefði ýtt í hliðina þá hefði komið gat. Þetta fór þó allt vel og herbergið heitt og notalegt.

Dalurinn og aðbúnaðurinn var sæmandi konungsfólki.

3 ummæli:

Burkni sagði...

Þess má geta að ég samdi allar siðvenjur og helgisiði Bútana.

eyjo sagði...

Afhverju eru allir krakkar í Bútan í svona flottum rauðum gúmmístígvélum?

Nafnlaus sagði...

Vá geðveikt útsýni af hótelinu ykkar!!! Frekar spes myndskreytingarnar þarna, allvega fyrir okkur, spéhræddu vesturlandabúa!!!