mánudagur, nóvember 19, 2007

62. Næturveiðar

Á Indlandi er sterk hefð fyrir því að foreldrar ákveði hverjum börnin skuli giftast og oftar en ekki ráða fjölskyldutengsl og viðskiptasjónarmið þessum ráðahag. Þessi hefð er svo sterk að þó fólk flytjist til vestrænna landa þá halda þau oft í þennan sið. Þó að Indland liggi við fótskör Bútan og það síðarnefnda beri oft sterkan keim af hefðum hversdagsleikans þá er það yfirleitt ástin sem ræður ríkjum. Foreldrar reyna kannski í sumum tilfellum að hafa áhrif á giftingaplön barna sinna en það er mjög sjaldgæft að þau beiti neitunarvaldi eða séu með valdboð þegar kemur að tilhugalífinu.
Bútanar giftast aldrei Indlendingum og segir það kannski sitt um hvaða álit Bútanar hafa á Indverjum - ætli þetta sé ekki svipað sjokk og heima ef Reykvísk mær ætlar að giftast Hafnfirðingi? Samkvæmt báðum fararstjórum okkar er þetta án undantekninga, Bútanir giftast ekki Indlendingum.

Hjónavígslur í Bútan eru mjög fábrotnar og lítið mál að skella sér í hjónaband - það þarf nánast ekki athöfn eða nokkra pappíra, bara ákveðið að núna er fólk gift. Skilnaðir eru sömuleiðis lítið mál og skilnaðir algengir samkvæmt því. Það er reyndar núna verið að reyna að leiða í lög að það þurfi að skrá hjónabönd en það hefur ekki þurft eða verið venja fram að þessu.

Samkvæmt Loja er erfitt að stíga í væng við bútanskar stúlkur, tekur tíma,er vesen og hann nennir yfirleitt ekki að standa í þessari vitleysu. Fyrst þarf að hitta stúlkuna oft og mikið fyrir framan mikið af fólki og nánast kynnast fjölskyldunni hennar betur en henni áður en eitthvað safaríkt fer að gerast. Það er þó undantekning á því - "Nighthunting" eða næturveiðar sem mér finnst ansi merkilegur hlutur.

Kynlíf er ekkert mjög alvarlegur hlutur, fólk stundar það af miklum móð fyrir hjónaband og það er því langt frá því að vera nokkuð feimnismál líkt og á mörgum stöðum í heiminum. Að sumu leyti er þetta mjög jákvætt því vegna þessa frjálsræðis er engin áhersla lögð á meydóm stúlkna og hvað þá að þær þurfi að sanna hann á brúðkaupsnóttina. Það er spurning hvort ofannefndar næturveiðar séu orsök eða afleiðing - hvort kom á undan, hænan eða eggið? Næturveiðar lýsa sér þannig að ef strákur hittir t.d. stúlku á akrinum og líst vel á gripinn þá getur hann tekið hana á spjall og endað á því að spyrja hana hvar hún búi og hvar í húsinu hún sofi. Ef stúlkan svarar þessum spurningum skilmerkilega þá er hún að bjóða honum upp í dans og hlakkar til komandi næturævintýra. Um kvöldið þá klifrar piltur upp í umræddan glugga, sem er ekki auðvelt því vistaverur fólks eru alltaf á 2. hæð, og kemur sér einhvernvegin inn um hann. Hann þarf að gera þetta alveg óséður og án þess að nokkur verði hans var sem væri kannski auðvelt ef stúlkan myndi gista ein í herbergi - en þar sem að öll stórfjölskyldan gistir saman í stóru herbergi er þetta ekki auðveldur leikur. Hann fálmar sig um í myrkrinu og skríður upp í til stúlku og þar eiga þau saman næturgaman og allt þarf þetta að gerast án þess að nokkur verði þeirra var. Dæmi eru um að seinheppnir piltar bregði sér upp í vitlaust rúm, t.d. til móður stúlkunnar en veit ég ekki hvernig menn gera upp úrslit leiksins ef það gerist.
Hann þarf síðan að komast óséður burt úr húsinu sömu leið áður en fólk vaknar en hér er fótferðartími um eða upp úr 5.30.
Komist piltur í burtu óséður þá verða engir eftirmálar og foreldrum stúlkunar og öðrum sem komast að þessu skiptir þetta engu máli enda kynlíf ekkert litið mjög alvarlegum augum. Ef þau eru hinsvegar gripin í bólinu, bókstaflega, þá eru þau orðin gift - punktur og prik. Ef stúlka verður ólétt af næturstundinni þá eru þau líka orðin gift - þarf í hvorugu tilvikinu að vesenast með einhver formlegheit eða veislur. Þetta er því gríðarlega spennandi en oft afdrifaríkur leikur.

Fyrri hluti dags fór í akstur frá Thimphu til Wangdue sem var um 3 klukkustundir. Þetta er skemmtileg leið og þurfum við að keyra yfir fjall, hæsti punktur í um 3400m sem telst nú bara hóll fyrir reynslubolta eins og okkur. Uppi á hæsta punkti var útsýnið mjög fallegt í norður yfir bútaníska hluta Himalayafjalla en mætti hafa verið aðeins léttskýjaðra. Yfir þessi fjöll er ein frægasta gönguleið Bútans sem kallast "Snowman" og þykir ein erfiðasta gönguleið sem hægt er að komast í. Gengið er í mánuð eftir fjallstoppunum í nýstingskulda og snjó og aðeins fyrir hraustasta fólk. Loja gekk þessa leið fyrir einhverjum árum og sagðist aldrei ætla að gera þetta aftur, skildi í raun ekkert í fólki að fara þetta því þetta er það erfitt og í raun brjálaði að hans sögn. Auk þess sem hann er mjög á móti öllum öfgum og finnst honum mánaðarganga falla þar undir. Þarna á hæsta punktinum hittum við fyrir bútanskan fararstjóra sem sagði okkur frá því að hann væri búin að fara þessa leið tuttugu sinnum sem fararstjóri og ætlar aðeins að fara þetta einu sinni enn og þá er hann hættur. Ég held að þetta væri fínasta ganga fyrir félaga minn heima sem kýs að láta kalla sig Hlemminn - þetta er kannski aðeins of létt fyrir hann enda er hann fáránlega hraustur maður.


Snowman-gangan fræga er m.a.s. eftir þessum fjallstoppum.


Pemba og ungur drengur að kveikja í greni uppi á fjallinu.


Bænaflögg uppi á fjallinu.

Eftir að hafa skráð okkur í hótelið okkar sem var hið ágætasta á rólegum stað við rólega jökulá héldum við í nálægasta bæ til að snæða hádegisverð. Við fórum í göngutúr en Anan og Pemba fóru á veitingahúsið til að panta máltíð fyrir okkur og hugðumst við hittast þar um hálftíma síðar. Þessi litli bær er skrítin að því leyti að hann mun hverfa fljótlega, það er verið að byggja betri bæ (sem lýtur skipulagi og allar lagnir í lagi) stutt frá svo þessi óskipulagða hrúga af hreysum verður afmáð - fólk flytur í nýjan bæ. Ástæðan fyrir þessum tilfærinum eru tvær, eldri bærinn er að mestu leyti verslanir sem byggðust upp í skipulagsleysi og áttu alltaf að vera til bráðabirgða auk þess sem staðsetning er mjög erfið og plássleysi þar sem þetta er eiginlega upp á kletti. Eftir að hafa gengið um bæinn í stutta stund komu félagar okkar með þær fréttir að það var ekki hægt að borða í bænum, annað veitingahúsið var fullsetið af ferðamönnum en hitt var upptekið að útbúa mat fyrir vinnustað í bænum. Anan var mjög pirraður að fyrra veitingahúsið gat ekki troðið okkur 4 inn - hann sagði að þetta væri dæmigert fyrir lélegt viðskiptavit, Indverjar myndu bjóða manni inn og redda málum en Bútanir eru ekki mikið að pæla í að fá meiri pening í budduna. Við þurftum því að keyra til baka og fara á hótel sem var í um 40 mínútur frá bænum og fengum við ekki hádegisverð fyrr en um tvöleytið - matur var kærkomin.


Drengur í garði í bænum.


Myndvænt fólk í bænum Wangdue sem verður fluttur.


Börnin hér eru mikið í kringum foreldra sína hvort sem þau vinna í matvörubúð eða áfengisverslun.


Þessi börn voru við veginn með foreldrum sínum að selja grillaðan maís.

Við skoðuðum virkið Punakha Dzong sem er stærsta virki í Bútan af 22 virkjum. Hvert hérað var með eitt virki eða Dzong og eru þau byggð á tíma þegar þurfti að byggja virki til að vernda íbúa fyrir árásum. Fljótlega eftir að Bútan var sameinað í eitt konungsdæmi 1907 var þessum virkjum breytt í klaustur og bæjarskrifstofu eins og áður hefur verið sagt.
Við gengum yfir langa trébrú yfir ána fyrir neðan virkið og svo upp háa tröppur í þetta magnaða virki. Við gengum um virkið og nutum þess að skoða þetta án þess að nokkurn ferðamaður væri þarna að trufla okkur ekki, aðeins munkar sem voru að sinna daglegum verkum. Árið 1982 brann um helmingur virkisins í eldsvoða og var klaustrið endurbyggt næstu 10 ár eftir því virkið er stórkostleg bygging og mikil vinna að enduryggja það. Þar sem ekki má taka myndir inni í klaustrum, þ.e. hofinu sjálfu, þá var engin ljósmynd til af innviðum klaustursins og því þurfti að endurbyggja klaustrið að innan eftir minni fróðra manna og munka.
Í klausturhlutanum fyrir utan hofið sat ungur munkur með stóran hana í fanginu og tók ég nokkrar myndir af honum. Vopnaður vörður sem var að tyggja hina hefðbundnu hnetu og lauf tók eftir því að ég var að taka mynd og vildi endilega taka þátt í þessu svo hann lét múnkinn vefja gyllt perluhálsmen, gæti hafa verið bænaband, utanum hanann og hafði afskaplega gaman af því að skoða myndina. Skrítið að hafa vopnaðan vörð sem er undir áhrifum eiturlyfja.
Þegar við fórum aftur yfir trébrúnna sáum við tvo unga munka sitja við ána, baða fætur sínar og slaka á - á því augnabliki fannst mér allt í einu að það væri kannski ekki svo slæmt að vera munkur og er það í fyrsta skipti sem ég hef fundið þá tilfinningu.


Fallegt landslag á leiðinni að virkinu.


Virkið.


Anan á gangi í virkisgarðinum.


Munkar slaka á í tröppum upp í klaustrið - vörður við innganginn.


Þessi brú er til bráðabirgða á meðan gamla reisulega brúin er endurbyggð.


Reyndar eru 5 ár síðan að gamla brúin fór í flóði en það tók langan tíma að finna styrktaraðila. Flestar endurbygginar og viðhald á þjóðarverðmætum er kostað af erlendum stofnunum og því þarf oft að bíða í lengri tíma þar til peningur finnst.


Munkar á gangi í virkisgarðinum.


Munkurinn og haninn með gylltu perlufestina.


Gult og blátt.


Ég að gera tilraun til að stjórna einhverju og munkar að brenna sorp fyrir utan klaustur.

Ein af drottningunum keyrði framhjá okkur á síðasta áfengastað dagsins - munaði 5 mínútum að við hefðum hitt hana í þessum litla iðnskóla en hún stóð fyrir stofnun hans og er einskonar verndari hans. Skólinn er lítill og stendur einn langt frá öðrum húsum og það var enginn á sama tíma og við. Stúlka sýndi okkur hinar ýmsu iðnir sem þar er verið að kenna en einnig er farið yfir hluti eins og markmið, koma sér upp fyrirtæki og halda bókhald.

Fólk virðist ekkert taka því hátíðlega að hitta konungsfjölskylduna enda eru þau mjög alþýðleg. Báðir leiðsögumenn okkar hafa t.d. spilað körfubolta við kónginn þegar hann mætir allt í einu á körfuboltavöllinn og spyr hvort hann megi vera með. Bæði eldri og yngri kóngarnir búa í mjög litlum húsum og virðist ekki til valdhroki í þeim enda eru þeir báðir vinsælir. Auk þess sem nýjasti kóngurinn, sá fimmti, er jafngamall Anan svo þeir voru mikið saman í skóla og teitum. Kóngarnir virðast hafa verið svona frá upphafi, 1907, og t.d. setti sá 3ji það í lög að fólkið gæti kosið kónginn burt ef því þætti hann ekki stjórna af neinu viti. En ástæðan fyrir fjölda drottninga er sá að kóngarnir giftust ávallt systrum og í tilfelli 4ja kóngsins voru þær fjórar - telst þetta ekki pakkatilboð, fjölskyldupakki? En til að halda sönsum þá hefur kóngurinn komið öllum sínum drottningum fyrir í öðru húsi og tekur tæpa klst að keyra á milli. Ástandið núna er nokkuð flókið því það eru eiginlega tveir kóngar, bæði faðrinn (4) og sonurinn (5), við völd þar til á næsta ári en þá verður sonurinn krýndur. Þessu til viðbótar þá verður hér lýðræði frá og með 2008 en kóngurinn situr samt áfram sem valdpersóna. Fólk hér almennt er mjög ánægt með sinn kóng og eru margir af þeim sem búa í sveitum landsins ekki mjög sáttir við þetta lýðræðisvesen, finnst bara fínt að kóngurinn sjái um að stjórna landinu.

Um kvöldið héldum við um klukkustundar kynningu á Lightroom, hugbúnaðinum sem við vinnum myndirnar okkar í, fyrir Anan. Hann virtist vera mjög áhugasamur um hugbúnðinn, var fljótur að ná því sem við vorum að útskýra og því var hann góður nemandi.
Eftir kennslustundina fórum við að sofa en hann fór að leita sér að herbergi því ekkert var laust á hótelinu.

Anan endaði á því að sofa í bílnum því ekkert fann hann herbergið - hann hefði kannski átt að spyrja föngulega stúlku í hvaða herbergi hún gisti.

1 ummæli:

Burkni sagði...

Það mætti halda að ég hafi samið allar siðvenjur og helgisiði í Bútan!