Ég er oft mættur í morgunmat á undan Sonju því hún er yfirleitt að klára einhver mál uppi á herbergi og sendir mig niður til að panta svo hlutirnir gangi fljótlegra fyrir sig.
Ég panta mér þá það sem ég vill fá og bendi síðan á tóma stólinn fyrir framan mig og segi:
"Hún ætlar að fá ristað brauð og safa."
Ég segi þetta hugsunalaust, geri yfirleitt ráð fyrir að þeir viti að hún sé rétt ókomin en þennan morguninn varð þjónninn, strákur á unglingsaldri, hálf skrítinn í framan, horfði á stólinn og færði síg síðan nær stólnum til að sjá ofaní setuna, greinilega að athuga hvort einhver lítil manneskja væri þar sem næði ekki upp á borðið. Hann sagði síðan, "Ok, sir." og gekk ringlaður í burtu - hefur greinilega haldið að ég væri snargeðveikur maður sem væri með ímyndaðan ferðafélaga með í för. Eftir þetta þá fór ég að hugsa og hef nokkrum sinnum í ferðalaginu fengið skrítin svip þegar ég bendi á stólinn en aldrei pælt neitt í því.
Dagurinn fór í að skoða borgina Thimphu sem er stærsta og sennilegast eina borg Bhutan, um 70.000 manns. Við byrjuðum á dæmigerðum túristastoppustað sem var pappírsgerð en þar er handgerður pappír með hefðbundnum bútanískum úr trjáberki. Við stoppuðum ekki lengi enda verksmiðjan mjög lítil og maður fljótur að skilja öll stig framleiðslunnar ef ég má orða það þannig.
Trjábörkurinn soðinn í upphafi framleiðslunnar.
Arkirnar mótaðar.
Við keyrðum næst upp á fjallið bakvið borgina þar sem útsýni yfir nágrenni borgarinnar og borgina sjálfa var mjög gott. Þarna uppi er feikilega mikið af bænaflöggum sem blakta í vindinum. Það er eitthvað við bænaflögg sem mér finnst mjög myndvænt og á ég því orðið þó nokkuð mikið af myndum af þeim. Bænaflögg finnast í flestum þeim löndum sem aðhyllast búddisma og yfirleitt í sem mestri hæð eða nálægt ám, til að vindurinn/áin beri bænina áfram. Við höfum séð samansafn af flöggum á þeim punktum þar sem vegur nær hæst yfir fjöll og einnig í klaustrum sem eru byggð í mikilli hæð ásamt ákveðnum stöðum eins og stórum brúm o.flr. Bænir eru prentaðar á bænaflöggin eins og nafnið ber til kynna og þau eru strengd þar sem vindurinn feykir þeim til og frá og er trú Búddista að bænirnar fari þannig með vindinum til himna. Það má ekki fjarlægja flögg sem eru úr sér genginn, vindurinn skal klára þau og koma hverjum þráði af þeim til himna. Flögg í 5 litum, sem maður sér oftast eru fyrir góðri lukku en oft sér maður aðrar tegundir svosem langa fána, einlita fána o.flr.
Bænaflögg og borgin í bakgrunni.
Anan að segja mér að hann hafi slökkt í stærri stubbum en mér.
Uppi á hæðinni var þjóðardýr Bútan til sýnis í stórri girðingu en það heitir Takin - það ullar á okkur.
Virkið í Thimphu.
"School of arts and crafts"" eða bara "Iðnskólinn" var næstur í röðinni en það var mjög gaman að heimsækja hann. Skólinn er í tveimur stórum byggingum og er skipt niður í skólastofur sem hver tilheyrir ákveðinni list- og iðngrein, svosem útskurði, útsaumi, málun, leirmótun o.flr. Við gátum gengið um stofurnar, fylgst með handbrögðunum og tekið myndir að vild. En það er spurning hvenær það leggst af því 17.000 túristar á ári sleppur en spurning hvenær það fer að hafa of mikil truflandi áhrif á nemendur.
Krakkarnir voru áhugasamir um okkur svo við spjölluðum töluvert við þau og virtust þau hafa mjög gaman af því sem þau voru að gera enda er skólinn orðin mjög vinsæll og þarf að vísa nemendum frá.
Ég spjallaði við tvo stráka sem eru að læra teikna helstu trúarlegu táknin og gaf annar þeirra mér að lokum mynd af Lótusblómin ,sem er eitt af 8 heillamerkjunum, sem hann hafði teiknað. Ég sagði þeim að ég væri með unnustu minni sem héti Sonja, en hún var þá stödd í annarri kennslustofu, forvitni þeirra var vakin og spurðu hvort ég hefði mynd af henni inni á myndavélinni. Ég rúllaði snögglega í gegnum myndirnar en hafði enga mynd og gerði því bara það næstbesta og náði í hana sjálfa - Sonja spjallaði lengur við þá en ég og að lokum fengum við höfund myndarinnar til að árita hana fyrir okkur.
Móðir með barn á baki og trésmíðaverkstæði skólans.
Saumað og mótað.
Strákurinn til vinstri gaf okkur umrædda lótusblómalukkumynd.
Menn spila í þorpi rétt utan við borgina.
Dæmigerð þorpsbúð.
Stúlkur á gangi í þorpinu.
Fleiri skólastúlkur.
Nýlegt hús í borginni fylgir byggingastíl Bútan en er þó með nútímalegu sniði.
Engin umferðarljós eru í landinu og því stjórna lögregluþjónar umferðinni.
Við skoðuðum dagblað á kaffihúsi seinnipartinn og urðum hissa þegar við sáum frétt um að maður sem var ekkert þekktur hafði hengt sig. Hann var nafngreindur, sagt hvernig reipi þetta var, í hvaða herbergi, hvernig konan hans kom að honum - semsagt farið nokkuð vel í hnútana. Það var m.a.s. talað við nágranna hans sem var í sjokki og bjóst aldrei við að hann myndi fremja sjálfsmorð. Það er greinilegt að sjálfsmorð eru mun óalgengari hérna en heima á Íslandi eða nánast hvar sem er annarsstaðar.
Ég á kaffihúsinu að drekka ágætan frappó og munkar sem við sáum á leiðinni heim.
Sonja fór í kasmírísku náttfötin mín þegar við komum upp á hótel og lagði sig í stutta stund áður en við fórum í mat. Hún gerði síðan það sem ég hafði gert kvöldið áður og fór í þeim niður í kvöldmatinn. Ég hafði ekki sagt henni hvað mér leið illa þegar ég gekk inn í salinn og sá suma horfa afar undarlega á mig þannig að hún fór galvösk niður svona klædd. Þetta kvöldið var mun meira fólk og töluvert mikið af mjög fínu fólki enda þetta eitt af betri hótelum borgarinnar. Við sáum t.d. enska aðalsmenn í tweet jökkum og konur þeirra upstrílaðar eins og páfuglar. Það voru því enn skrítnari augnarráð en kvöldið áður sem Sonja tók betur eftir núna enda beindust þau að henni. Hún sat því eins og illa gerður hlutur við borðið okkar sem var sem betur fer úti í horni og ég þurfti að sækja mat fyrir hana á hlaðborðinu.
Þegar við vorum að gera okkur líkleg til að fara mættum við fólki á leiðinni út sem sat fyrir miðjum sal sem við höfðum hitt í Leh í Ladakh, ótrúleg tilviljun það. Við þurftum því að spjalla aðeins við þau fyrir framan allan salinn og Sonja var eins og sýningagripur. Hún varð skyndilega veik, ekki af spéhræðslu, heldur samblandi af hæðarveiki og matnum svo hún rauk út í skyndi og rétt náði upp á herbergi til að æla í klósettið. Já, það er erfitt að vera prinsessa og viðkvæmur eftir því.
Þessi hjón eru á miðjum aldri og mjög skemmtileg. Þau virðast ferðast mikið og eiga það til að vera afskaplega ósammála um hluti/staði/upplifanir:
"Mér fannst Amritsar frábær en hún hataði hana!"
"Mér fannst asramið fáránlegt en honum fannst það stórkostleg lífsreynsla!"
"Mér finnst frábært að ferðast í lestum en hún þolir þær ekki!"
Þetta eru aðeins þrjú dæmi enda hafa kynni okkar verið afar stutt en þau eru ekkert að reyna að fela það hversu ósammála þau eru stundum, virðast góðir félagar og kunna að hagræða hlutunum þannig að það hvað þau eru ólík gerir bara ferðalög þeirra skemmtilegri.
Sonja er í góðu lagi núna en ég er þakklátur fyrir að við fluttum ekki upp í Breiðholt því hún hefði eflaust fengið háfjallaveiki á 3 degi og við þurft að selja með hraði! :-)
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Er ekki málið með þetta fólk sem þið hittuð að honum finnst hlutirnir frábærir og gaman að ferðast en henni ekki?
Já, hún virkar frekar neikvæð þessi kelling!!!
Skrifa ummæli