Við byrjuðum daginn að skoða elsta klaustur Bútan sem er frá því um árið 700 - skrítið að sjá svona haganlega smíðað klaustur sem var byggt um 300 árum áður en Ísland fannst. Við stoppuðum ekki lengi í klaustrinu skoðuðum það aðeins að innan og hlustuðum á munk sem sat kyrjandi á gólfinu.
Hótelið okkar - herbergið okkar var í byggingunni fyrir innan húsgarðinn.
Herbergið okkar.
Baðherbergið var það stærsta sem við höfum haft í ferðinni.
Við héldum næst í Paro Dzong sem er feiknastór bygging sem hefur tvíþáttan tilgang - annarsvegar munkaklaustur og hinsvegar héraðsskrifstofur. Hvert hérað í Bútan er með sambærilega byggingu sem hefur þennan tvíþátta tilgang. Ástæðan er sú að áður en Bútan varð eitt land þá var hvert hérað/dalur sér eining og æðsti maður hennar var einnig æðsti maður klaustursins og því eru þessar byggingar bæði trúarlegar og pólitískar. Fyrsti konungur Bútan var því trúarlegaur en hann sigraði öll hin héröðin og sameinaði þannig heröðin í eitt ríki. Í miðju hvers klaustur er stór bygging og er önnur bygging er byggð í kring sem er annarsvegar skrifstofurnar og hinn helmingurinn bústaðir munka. Atriði í myndinni Little Buddha með Keano Reeves var tekin upp í portinu á milli byggingana í Paro Dzong og segir það sennilega sitt um það hversu tilkomumikil þessi bygging er.
Þrjár stöður Búdda.
Það að fylgjast með lífinu í virkisgarðinum er eins og að stíga aftur í aldir ef ég má orða það þannig því allir eru þjóðlega klæddir þarna. Búningur karlkynsbútana er hnésíður kyrtill og hnéháir sokkar og er þetta notað í sama tilgangi og jakkaföt heima, þ.e. notaður þegar fólk er að vinna eða sinna opinberum erindagjörðum. Þeir Bútanir sem koma inn í virkið til að sinna vinnu eða erindagjörðum á skrifstofurnar verða að vera í þessum klæðnaði og auk þess setja á sig borða sem segir til um stöðu þeirra hjá ríkinu. Hvítur borði er almenningur en síðan er litaður borði sem segir til um stöðuna og kann ég ekki nákvæmlega að tilgreina hvað hver litur þýðir en veit að hreppstjórinn sem stendur næstur fyrir neðan kóng er með rauðan borða og náði ég frekar neyðarlegri mynd af honum sem ég ætla ekki að setja inn hérna.
Vinstra megin er Loja að setja á sig borðann sem hann þarf að vera í til að komast inn og hinum megin er einhver maður í virkisgarðinum.
Munkur með Avril Levagne bók - þvílík hámenning.
Miðjuturninn í Paro Dzong.
Munkur í virkisgarðinum.
Nokkrir menn í virkisgarðinum að sinna embætisverkum.
Fyrir utan skrifstofurnar.
Maður kemur inn í virkisgarðinn með borð á bakinu.
Ég og Loja á vinstri myndinni á trébrúnni frægu - strákur í fótbolta skammt frá brúnni.
Eftir að hafa skoðað klaustrið kvöddum við Loja en hann var aðeins leiðsögumaður okkar fyrstu þrjá dagana á meðan bróðir hans Anan var að klára annað verkefni en Anan er sá sem við höfum haft samband við fyrir ferðina auk þess sem hann er aðaleigandi ferðaskrifstofunnar. Við kvöddum því Loja með þeim orðum að bróðir hans hefði stóra skó að fylla því Loja hafði staðið sig mjög vel sem leiðsögumaður og félagi þessa fyrstu dagana.
Næsti hópur sem Loja var að fara að taka á móti var par frá Mexíkó sem kom á einkaþotu og ætlaði að dvelja í 4 daga í Bútan og gista á 5 stjörnu hótelum á meðan dvölinni stæði. Fáein 5 stjörnu hótel hafa sprottið upp í Bútan á síðustu árum og kostar nóttin á þeim þúsund dollara.
Kveðjustund fyrir utan minjagripabúð sem Anan á hlut í ásamt öðrum eldri bróðir sínum
Pemba bílstjórinn okkar keyrði okkur því í höfuðstað Bútan sem heitir Thimpu og var aksturinn um 3 klukkustundir þó að leiðin væri ekki löng. Nánast alla leiðina voru vegagerðamenn frá Indlandi að breikka og laga veginn og því var leiðin hægfarin og mikið ryk í loftinu. Bútanir vilja helst ekki vinna mikið og alls ekki erfiðisvinnu og því er nánast allt vinnuafl sem vinnur í vegagerð og við húsasmíði innflutt frá Indlandi. Auk þess sem Indland er helsti styrktaraðili vegavinnunar hér og útvegar því vinnuafl, af því eiga þeir nóg.
Vegavinnufólk.
Indverjar að taka möl af vörubíl.
Við hittum Anan á hótelinu okkar sem heitir Hotel Riverview og héldum strax á matsölustað í borginni þar sem við snæddum hefðbundna bútaníska máltíð. Það var ekki hægt að fá kjúklingakjöt á þessum veitingastað frekar en flestum öðrum því innflutningur á fuglakjöti frá Indlandi er bannaður þessa dagana vegna fuglaflensunnar. Því er bara í boði kjúklingur frá Bútan og ekki eru til nægar birgðir innanlands, þeir flytja inn 80% af öllu kjöti sem er í boði því þeir vilja ekki slátra sjálfir. Pemba bílstjóri er mjög feiminn eins og flestir bílstjórar hérna og vill hann ekki snæða með okkur heldur hendir í sig mat og bíður síðan í bílnum. Bútanir líta á það að borða sem mjög einfaldan og eðlilegan hlut, svipaðan og hafa hægðir sem menn bara gera á nokkrum mínútum og án þess að vera að tala við einhvern á meðan. Þeir borða alltaf sama réttin og finnst mjög óþægilegt að sitja við matarborð og tala á meðan matseld fer fram. Mynduð þið vilja sitja á klósettinu og spjalla við útlending sem kæmi til Íslands sem væri vanur því?
Anan er eini leiðsögumaðurinn í Bútan sem er vel að sér í ljósmyndun og hefur hann búið til ljósmyndabók sem er til sölu í minjagripabúðum hérna. Myndir eftir hann prýða langflest póstkort sem fást í búðum hérna í Bútan þannig að hann hefur komið ár sinni ágætlega fyrir borð í þessum geira. Við vorum því virkilega heppin að fá hann til að vera með okkur en hann hefur minni tíma núorðið til að sjá um leiðsögn en ákvað að koma með okkur í þetta ferðalag.
Þar sem það var nokkuð liðið á daginn gerðum við ekkert mikið það sem eftir lifði dags, skoðuðum eitt klaustur sem hefur gott útsýni yfir borgina og var það ágætis byrjun því við náðum að glöggva okkur betur á staðháttum og Anan.
Tvær andlitsmyndir.
Bænahjól.
Konur að snúa bænahjólum.
Fólk gengur oft hring eftir hring allan daginn og biður, það er aðallega gamla fólkið því það hefur nægan tíma. Það er þó einnig mjög mikilvægar barnapíur og því eru þau gjarnan eina fólkið heima við á dagainn.
Kvöldmatur var snæddur á hótelinu og farið snemma að sofa.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
11 ummæli:
Ég get nú bara rétt ímyndað mér hversu STÓRFENGLEGT allt hefur verið þegar Keanu Reeves var á svæðinu, ó já félagi
Bíðið við, hinn hefðbundin bhutani vill helst ekki vinna, en samt er gamla fólkið að passa börnin, er þá hin dæmigerði bhutíski dagur svona
unnið 1 klst, beðist fyrir 7 klst svo farið heim að gæta bús og barna?
Og annað sem ég er að velta fyrir mér og væri eflaust hægt að gúggla hvað er málið með þessi bænahjól hvaða tilgangi gegna þau ef nokkrum? Er þetta eins konar rúlletta að hitta á rétta táknið eða eru táknin öll eins?
Annars skil ég indverjana vel að ábyrgjast landamærin annars yrði þetta hugsanlega annað tíbet
Maður getur ekki verið annað en hrifinn af þessu landi það er soldið spes, verður gaman að lesa meira
með kveðju frá fróni
Ok ok búinn að lesa um bænahjólin, þetta eru snilingar þetta eru tæknivæddar bænir, já eða fjöldaframleiðsla á bænum, í hverju hjóli er bæn og það að snúa henni einn hring jafngildir því að fara einu sinni með bænina, mun fljótlega og einfaldara að snúa bara, spurning hvort kaþólikkar ættu ekki að taka þetta sér til fyrirmyndar?
Vona að þig komist sem fyrst í netsamband svo maður fái meira að lesa.
Ótrúlegt land þetta Bútan, búinn að skoða það í Google Earth og eru til fullt af loftmyndum af því í góððri upplausn og magnað að skoða þetta í þrívídd. Ótrúlega gróið og mikið af fjöllum, reyndar bara fjöll.
kveðja
Hjölli
Svo sá ég líka nokkra dali, en held að fjöllin hafi verið fleyri.
Svo er ég búinn með 3 bjóra og þar af var einn þeirra 7% Trapise dubbel og allt.
Eruð þið búin með netkvótann ykkar í bhutan? Ýmsar samsæriskenningar eru í gangi um þessa dularfullu blöggþögn
Maður bíður alveg spenntur eftir framhaldinu.....
Kveðja, Elsa Karen.
10 dagar frá síðasta blöggi? Hvað á ég eiginlega að lesa með laugardagsmorgunkaffinu þessa vikuna?
Er bannað að blogga í Bútan? -Vonandi er þetta bara smá leti og í versta falli netbilun en ekkert annað. :s
Hallo hallo.
Vid hofum verid netlaus sidan sidasta blogg en nu mun thad lagast. Thad ma buast vid fullt af bloggum naestu daga af aevintyrum i Butan.
S&J
Mér finnst að þið ættuð að senda Avril Lavigne þessa mynd!!!
Skrifa ummæli