"Hér grenja karlmenn í myndböndum!" sagði Sonja þegar við horfðum á indverska tónlistarrás í sjónvarpinu á flugvellinum.
"Það er nú mikil þversögn í því."
Við vorum mætt nokkuð snemma á alþjóðaflugvöllinn í Katmandu eða um 2,5 klst. fyrir flugið til Bútan. Á móti okkur á flugstöðinni tók um 60 metra röð inn í flugstöðina sem var nú ekki árennileg. Hún gekk nú ótrúlega fljótt fyrir sig og við innritunarborðið var engin biðröð. Ástæðan fyrir biðröðinni fyrir utan er sú að það þarf að gegnumlýsa farangur sem fer í farangursgeymslu vélarinnar við innganinn í flugstöðina.
Við fórum í verslun og keyptum þar lyf (koníak) sem læknir (móðir Sonju) hafði) bent okkur á að kaupa. Það hefur verið nokkuð erfitt að finna koníak á Indlandi þrátt fyrir yfirgripsmikla leit okkar. En það er greinilega ALLT til í Nepal. Það voru alls þrír starfsmenn sem afgreiddu Sonju við þessi kaup þó að ekkert hefði verið að gera í búðinni. Einn tók flöskuna sem við bentum á og setti hana á borðið og tók við 50 dollara seðlinum og rétti hann næsta manni. Sá setti seðilinn í skúffu og tók upp afganginn sem var $20 og rétti hann þriðja manninum. Sá rétti Sonju peninginn og flöskuna. Það er óhætt að segja að hér sé mikil sérhæfing á hinum ólíklegustu stöðum.
Bútan er 46.500 ferkm að stærð og eru íbúar tæplega 700.000.
Þetta 50 mínútna flug til Bútan þykir eitt fallegasta flug sem um getur og skiljum við vel af hverju. Við báðum um sæti vinstra megin í vélinni eins og okkur hafði verið ráðlegt og þvílíkt útsýni. Everest gnæfði við hliðina á okkur en við flugum í um 300 metra hæð hærra en tindurinn stendur og aðeins í um 5-7 km. fjarlægð. Þar sem við flugum mun hærra og lengra en í útsýnisfluginu fengum við einnig nasaþefinn af Tíbet.
Vélin lækkaði sig til lendingar og flugum við inn Paro dalinn og var flogið ansi neðarlega svo manni var hætt að standa á sama því mér fannst vængirnir vera í um 20-30 metra fjarlægð frá fjallshlíðunum. Þegar vélin var nánast farin að sleikja landið fyrir neðan og maður bjóst við að hún færi að lenda þá lagðist hún á aðra hliðina og tók krappa beygju til að fylgja dalnum eftir - maður var ekki viss um hvort vélin væri hreinlega að hrapa eða hvort þetta væri eðlilegt því þessu bjóst maður ekki við. Vélin lenti svo stuttu síðar þegar hún hafði náð sér á strik aftur í lárétta stöðu.
Þetta er eini flugvöllurinn í landinu og aðeins eitt flugfélag má lenda á honum, Hið konunglega flugfélag Druk Air sem á reyndar bara tvær flugvélar þannig að það er ekki mikil umferð um völlinn. Þessi takmarkaði fjöldi flugvéla heldur ferðamannastraumnum inn í landið í skefjum, um 17 þúsund í dag en t.d. fimm árum voru það einungis 7þ manns. Enda hefur flugferðum þessara tveggja véla fjölgað mikið og þær eru ansi vel nýttar alla daga vikunnar. Ekki þýðir fyrir þá sem fá ekki flugfar að fara landleiðina og eru margar ástæðar en tvær helstu eru að það eru bara tveir vegir inn í landið og eru ferðamenn skyldugir að fljúga annaðhvort inn eða út.
Landið var opnað fyrir ferðamönnum árið 1974 og hefur fjöldi ferðamanna aukist jafnt og þétt en konungur stjórnar mjög vel flæðinu því þeir vilja læra af mistökum annarra þjóða í ferðamennsku sem er mjög góður hlutur. Eitthvað sem Ísland mætti tileinka sér - að læra af mistökum annarra þjóða og fara aðrar leiðir. Ein ástæðan fyrir að aðrar flugvélar geta ekki einu sinni lent á flugvellinum er að það þarf að þjálfa flugmenn sérstaklega til að lenda á þessum erfiða velli. Hugsanlega gætu þeir flugmenn sem eru vanir að fljúga til Ísafjarðar fengið í stöðu hjá Hinu bútanska konunglega flugfélagi ef í harðbakkann slær.
Flugvélin fima og Sonja með svima eftir áhættuflugið.
Léleg mynd af fallegri flugstöðinni.
Mér leið eins og ég væri lentur á flugvelli úti á landi á Íslandi þegar vélin lenti. Úti um gluggann blasti við grasbali fyrir utan flugbrautina þar sem börn voru í fótbolta og hlíð tók við með lágum gróðri. Þegar ég svipaðist betur um sá ég flugstöðina sjálfa sem er sú fallegasta sem ég hef séð - byggð eins og risastórt litríkt munkaklaustur - virkilega gaman hvernig fólk hér heldur í hefðir sínar. Það reyndar má ekki byggja hús í Bútan nema þau standist kröfur um að vera í þjóðlegum stíl og er það vel. Við heima mættum nú taka þetta til fyrirmyndar t.d. í miðborginni þar sem þarf alltaf að hola niður risastórum járn, gler og steinhrúgöldum þegar myndast gap á milli gamalla og virðulegra bygginga - aldrei virðist hægt að byggja þjóðlegt og fallegt með kannski einhverjum nýjum áhrifum. Fólk ræður svo alveg hvernig það innréttar húsin sín, þetta er bara spurning um samræmi og fegurð.
Eins og svo oft áður þurftum við að fylla út lítinn bleðil við innkomu í landið og ég skrifaði "Programmer" sem starfsheiti en var reyndar að spá í að skeyta ljósmyndari og forritari saman í eitt orð og hafa þetta "Prographer", "Phogrammer" eða bara "Progogrammer".
Loja fararstjórinn okkar beið eftir okkur fyrir utan - hann er maður með tagl, skegg og gáfulegt andlitsfall ekki ósvipað mér. Við hentum dótinu okkar í nýlegan Hyundai Tucson sem verður fararskjóti okkar hérna í Bútan þessa 18 daga og keyrðum upp á hótel. Hotel Gangtey Palace sem er staðsett í Paro er eina hótelið í landinu sem var áður kastali og er eins og að ganga inn í búddíska ævintýrasögu (ef það er þá til) að ganga upp og inn í herbergið okkar sem er gríðarlega stórt og með baðherbergi sem er næstum jafn stórt og stofan okkar heima.
Hluti af herberginu okkar sem er um helmingi stærra.
Áður en við héldum í'ann fengum við okkur dæmigerðan bútanískan hádegisverð sem hafði þó verið "chillaður niður" - leiðsögumaðurinn fékk sér hinn hefðbundna bútaníska rétt sem er nánast borðaður í öll mál hérna, hrísgrjón með chili. Þetta er gríðarlega sterkur réttur og Loja telur að þetta sé um fjórum sinnum sterkari matur en það sem gerist sterkasta í Mexíkó. Bútanar eru gríðarlega hrifnir af chilli og nota það bara eins og salt. Það er að brjótast út hérna með túrismanum fjölbreyttari matargerð, sérstaklega á hótelum, en þessi réttur er það eina sem margir borða hérna - ekkert verið að flækja málin þar. Þeir borða reyndar einnig mikið af kjöti og er það ansi flókið mál hvernig búddistar réttlæta kjötát.
Við fórum í stutta skoðunarferð um þjóðminnjasafnið á hlaupum því við rétt náðum fyrir lokun, en það var svosem ágætt því við erum ekkert mjög mikið safnafólk - höfum a.m.k. ekki mjög mikla þolinmæði en það er gaman að skoða í stuttan tíma. Það var mikið af merkilegum hlutunum þarna inni eins og búddalíkneski sem sum voru yfir 1000 ára gömul og allskonar fánar og annað sem snýr að trúnni. Heill veggur var undirlagður fyrir frímerki því Bútan er þekkt fyrir flott og hugmyndarík frímerki, en sennilegast hefur gullöld frímerkjanna staðið sem hæst á 7. og 8. áratug síðustu aldar. Sem dæmi var mikið um Disney frímerki, frímerki tileinkuð heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu ásamt óhefðbundnari frímerkjum eins og nokkur sem voru kringlótt og hægt að spila þau á venjulegum plötuspilara. Þetta var þeirra leið til að reyna vekja athygli á sér í heiminum.
Borgin Paro er ekki nema um 30 ára en samt hefði maður alveg trúað því að hún væri yfir 100 ára því eins og lög gera ráð fyrir eru húsin öll með hefðbundnu sniði sem gerir bæinn mjög fallegan. Húsin eru öll með verslunum á fyrstu hæð og íbúðum á efri hæð og er götumyndin mjög hrein og bein - húsin mynda snyrtilega röð með götum á milli.
Horft yfir Paro.
Kona í þjóðlegum búningi og sólstafir fyrir aftan.
Bíllinn og bílstjórinn sem við höfum til umráða í 18 daga.
Munkur í glugga.
Aldagömul trébrú og Paro Dzong fyrir aftan.
Dæmigerð verslun í Paro.
Sonja phone home.
Ég hafði spurt Loja um það hvort það væri mögulegt að horfa á knattspyrnuleik í enska boltanum einhverstaðar í bænum. Ég ætlaði ekkert að gera neitt vesen, bara vita hvort það væri staður sem við gætum kíkt á því Arsenal - Manchester United er nú enginn hversdagslegur viðburður. Hann tók vel í þetta enda hefur hann sjálfur gaman af fótbolta og þekkir flesta þessa kappa og stakk upp á að við færum á veitingahús um kvöldið sem hefði sjónvarp og það hljómaði ansi hreint vel.
Við hvíldum okkur aðeins upp á hóteli áður en Pemba bílstjóri náði í okkur stundvíslega kl. 19 og fór með okkur á veitingahús niðri í bæ. Það var skrítið að fara inn í veitingastaðinn því hann leit úr eins og gömul íslensk blokkaríbúð að innan - þ.e. gangur gekk í gegnum staðinn og frá honum var hægt að ganga inn í lítil herbergi þar sem snætt er og svo stór veitingasalur við endann. Við hittum þar fyrir Loja sem greinilega var nýkominn og var að fletta á milli stöðva til að finna leikinn góða. ESPN var að sjálfsögðu þarna eins og allstaðar og leikurinn var þegar byrjaður, um 20 mínútur liðnar en ekkert mark komið þannig að við höfðum ekki misst af neinu.
Bjór, Bútan og Bolti - er hægt að hafa það betra?
Við sötruðum bjór, spjölluðum og horfðum fyrri á hálfleikinn ásamt fleiri mönnum sem voru inni í herberginu hjá okkur og sáum United leiða leikinn 0-1 þegar gengið var til hálfleiks. Um leið og fyrri hálfleikurinn kláraðist fór allt rafmagn og það varð svartamyrkur inni. Eftir smá stund var búið að planta tveimur kertum á borðið hjá okkur og var greinilega allt rafmagn í borginni farið. Við sátum í um klukkustund og biðum eftir rafmagninu sem kom ekki fyrr en leikurinn var yfirstaðinn en þetta var samt bara skemmtilegt því við spjölluðum þeim mun meira. Loja er mjög skemmtilegur og áhugaverður náeungi sem hefur mjög ákveðnar skoðanir á nútíð og framtíð Bútans. Hann einn af fáum Bútanbúum sem hafa farið erlendis í nám en hann var að klára nám í Austurríki í hótelstjórnun og almannatengslum.
Fljótt fór bjórinn að tala hjá okkur og kom í ljós að honum líkar ekki bara illa við Indverja eins og öllum Bútanbúum heldur hatar hann þá innilega og gat fært góð rök fyrir máli sínu - eins er honum illa við Þjóðverja. Ég sagði skoðanir mínar umbúðalaust á USA, Kína og Ísraelsmönnum þannig að þetta var kannski farið að líkjast aðalfundi hjá Kynþáttarahatarafélaginu.
Þessi stund sem við áttum í rafmagnsleysinu var virkilega skemmtileg og fróðleg, eitt af þeim augnablikum sem gerir ferðalög í framandi deildum jarðar ógleymanlegar.
Rafmagnsleysið í algleymingi.
Þarna erum við búin að snæða hinu ágætustu máltíð.
Að lokinni góðri kvöld- og matarstund keyrði bílstjórinn okkur aftur upp á herbergið en ég hafði þá náð að svolgra í mig þrjá og hálfa kófdrukkna bjóra sem hver var 650ml og áfengið farið að stíga ágætlega í. Ég átti þá þessa fleygu setningu við Sonju í gríni:
"Vandamálið er ekki hvað ég er fullur heldur hvað þú ert edrú!"
Mér var síðan trillað upp í rúm í hjólastól og sængin breidd yfir mig.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
6 ummæli:
Annað hvort er ritskoðun á því sem frá ykkur fer og allar myndir bannaðar, ellega þá það hefur ekki verið runnið nægjanlega af þér Jóhann minn þegar þú sendir þetta. Svo mikið er víst að engin kom myndin.
Annars er það aldeilis auðséð á aðflugslýsingu þinni að Ísafjörður er flottur æfingarvöllur fyrir Bútaníska. Munurinn er þó sá að á Ísafirði er ljósgrá rönd í fjallinu fyrir ofan bæinn þar sem flugmenn renna hægri vængnum eftir kletabeltinu til að fá rétta stýringu á innflugsstefnu.
Já ég gleymdi víst að skrifa undir kommentið áðan.
Úr því verður ekki bætt héðanaf, Þið verðið því bara að reyna að giska hvur þetta var sem þar skrifaði.
Kveðja PA
Reyniði að koma á vináttulandsleik milli Íslands og Bútan í einhverri íþróttagrein (helst einhverju sem við erum góðir í, eins og t.d. að horfa á fótbolta, drekka bjór og spila pool og svo ein og ein skák á eftir).
Spurning hvort þið gætuð ekki reynt að sannfæra konunginn um að hefja beint flug til Íslands.
Hmmm... ég gerði smá rannsóknarvinnu og fann Paro í Google Maps og viti menn þar eru 3 flugvélar á vellinum
http://maps.google.com/maps?f=q&hl=en&time=&date=&ttype=&q=Paro,+Paro+Bhutan&sll=37.0625,-95.677068&sspn=31.095668,82.265625&ie=UTF8&cd=1&geocode=0,27.440531,89.415482&ll=27.407357,89.424376&spn=0.008496,0.020084&t=h&z=16&om=1
En það er magnað að skoða þetta í Google Earth með upplyftu landslagi og allt
kv.
Hjölli
Þið hafið 18 daga til að skoða land sem er minn en helmingur af Íslandi að flatarmáli - ætlið þið að taka mynd af hverju einasta mannsbarni í landinu?
Shit hvað allt er flott þarna!!! Er maturinn betri en á Indlandi? Emý Sara var allavega alveg steinhissa að maturinn í Vestmannaeyjum væri eiginlega bara alveg eins og í Reykjavík, ekkert líkur matnum á Tenerife... hún er nú meira krúttið!!
En annars vona ég að þið veikist ekki meira, er þetta ekki komið gott? Koníakið hlýtur allavega að gera góðahluti, mamma læknir veit allt :)
Með kærri kveðju,
Steinunn litla sys
Skrifa ummæli