þriðjudagur, nóvember 06, 2007

59. Gönguferð upp að Tígrishreiðrinu

Bútan stendur á milli tveggja fjölmennustu landa heims, Indland í suðri og Kína í norðri. Það gerir utanríkismál landsins mjög flókin því bæði löndin hafa mikilla hagsmuni að gæta að hafa ítök í þessu frjósama landi. Indland hefur í gegnum árin séð um utanríkismál fyrir landið og ástæðan fyrir því er löng og flókin. Í stuttu máli þá afsöluðu Bútanar sér allri stjórn utanríkismála eftir að hafa rænt prinsi frá Indlandi svo Bretar skárust í leikinn og gerðu samning um að ráðast ekki inn í Bútan ef þeir myndu skila þessum ágæta prinsi og afsala sér utanríkismálavöldum sínum. Á þeim tíma var kóngurinn í Bútan ekki vel að sér í enskri tungu né heldur ýmsum lagakrókum svo hann gekkst að samningnum og þegar Indland varð sjálfstætt stóð þessi samningur enn. Nú á tímum sjá Bútanar alfarið um utanríkismál sín þó maður viti að sjálfsögðu ekki hvað gerist að tjaldabaki.

Loja sagði okkur frá því að Indverjar gæta landamæranna í norðri við Kína og hafði ekki svör um af hverju það er þannig - það er bara þannig eins og hann orðaði það. Hann spurðist fyrir í kringum sig og enginn hafði svör á reiðum höndum um hversvegna það er bundið svona um hnútana. Sennilegast gera Indverjar þetta án þess að spyrja hund né kött því þeir hafa hagsmuna að gæta að Kínverjar komi hvergi nærri Bútan eins og áður sagði.


Klaustrið séð frá hótelinu okkar um morguninn.


Fallegt morgunmistur.


Paro.

Við byrjuðum daginn á því að fara á helgarmarkaðinn. Þar var mikið af fólki og flestir að selja matvörur þar sem grænmeti, hrísgrón og kjötmeti eru í aðalhlutverki. Við tókum eftir því að það var mjög lítið um ávexti, nánast ekki neitt þrátt fyrir að hér í Bútan vaxi kynstrin öll af hinum ýmsustu ávöxtum og er ástæðan fyrir því að Bútanar eru ekki fyrir sæta hluti og því selja þeir nánast alla (um 80%) ávaxtauppskeru sína, sem er töluverð, til Indlands. Þeir hafa t.d. heldur ekki tekið við sér í gosdrykkjum né öðrum vestrænum sætindum og t.d. fór kók verksmiðjan sem sett var á fót fyrir nokkrum árum síðan mjög fljótlega á hausinn.
Sonja grennslaðist fyrir um hvað uxahaus kostaði sem var þarna á markaðnum og var hann falur fyrir 300 Rúbís (margfaldað með 1.6 til að fá íslenskar krónur).
Mjög margt fólk á markaðnum, þó aðallega það eldra, var jórtrandi Doma sem er ákveðin tegund af hnetum og laufi sem verður eldrautt þegar það er tuggið svo fólk verður frekar ófrýnilegt þegar það brosir - svona eins og það sé að tyggja stóran blóðugan kjötbita þar sem blíðið lekur hálfvegis út. Áhrifin af þessu eru svipuð og af eiturlyfjum auk þess sem þetta er gríðarlega ávanabindandi.


Tvær sölukonur á markaðnum.


Eldpipar.


Hundurinn horfir soltinn á kjötbitann.


Börn taka þátt í markaðslífinu.


Hrísgrjón til sölu.


Eins og sést í bakgrunni eru nýleg hús öll með klassískum stíl.


Þessir eldri herramenn eru báðir með nýstárleg höfuðföt.


Munkur með skegg og sölumaður.

Stuttu frá borginni gerðum við stutt stopp við fallega húsaþyrpingu. Þar fyrir utan var tjald með táknum og inni voru munkar að kyrja. Þetta reyndist vera jarðaför og í Bútan stendur hún yfir í 49 daga og er það dýrasta sem fjölskyldur hér í landinu taka sér fyrir hendur. Alla þessa daga hafa þau veitingar tilbúnar fyrir gesti og gangandi ásamt því að sjá um uppihald fyrir munkana sem sjá um þessa maraþonathöfn. Fólk hér trúir því að það taki 49 daga að komast úr líkamanum og á betri stað. Stjörnuspekingar reikna út frá dánartímanum hvenær á að brenna líkið og ef manneskjan hefur dáið innandyra út um hvaða hlið húsins líkaminn skal fara. Ef engin er hurð á þessari hlið er veggurinn brotinn til að flytja líkið út, þó að veggurinn hafi staðið óhreyfður í hundruðir ára.


Barn gægist út um gluggann.


Jarðarfararathöfn í tjaldinu.


Lítið hús eins og úr ævintýri.

Aðalverkefni dagsins var gönguferð upp að Tiger's Lair (Taktsang) sem er þekktasta táknmynd landsins og svar þeirra við Hallgrímskirkju okkar Íslendinga. Þetta er musteri byggt á klettasyllu með hengiflugi fyrir neðan og skilur maður ekki hvers vegna menn fóru í að byggja annað en dúfnakofa á þessari sillu. Klaustrið var byggt árið 1692 og gnæfði yfir Paro dalinn allt til ársins 1998. Það ár brann klaustrið til kaldra kola og var ekkert hægt að sporna við brunanum því það var mikill eldsmatur, mið nótt og enginn vegur upp að klaustrinu. Ómetanlegir dýrgripir sem voru í miklu magni í klaustrinu glötuðust og olli þetta miklu sjokki í landinu og víðar. Sá sem sá um klaustrið hvarf en beinagrind fannst í rústunum en ekki er vitað nákvæmlega hvort þetta hafi verið hann eða einhver annar og hefur það fleygt samsæriskenningum á flug. Í fyrsta sinn sem Bútan komst í heimsfréttirnar var þegar klaustrið brann.
Eftir að sérfræðingar frá Indlandi höfðu gefið grænt ljós á að endurbyggja klaustrið á syllunni eftir að hafa skoðað bergið fyrir ofan sem hitnaði gríðarlega var hafist handa við uppbyggingu sem er nú að mestu lokið, og er það mikið þrekvirki því erfitt er um vik þarna uppi.

Gangan var nokkuð strembin og tók um 5-6 tíma að ganga upp fjallið og niður aftur með góðum ljósmyndastoppum og kaffipásu. Hækkunin var um 700 metrar sem er ekki mjög mikil en göngustígurinn sikksakkar upp fjallið svo maður gengur mun lengra en t.d. við að fara upp Esjuna. Að sjálfsögðu eru komnir ýmsir litlir stígar á milli þar sem fólk styttir sér leið. Loja var nú ekki ánægður með það því honum finnst að fólki eigi að nota þá stíga sem hafa verið gerðir, nógu mikið rask er af þeim. Hann er líka á móti þeim 6-7 minjagripasölukonum sem voru á leiðinni, finnst að leiðsögumenn eigi að ráðleggja kúnnum sínum að versla ekki af þeim því þá hverfa þær af gönguleiðinni - held að það sé mikið til í því hjá honum.
Útsýnið þegar við vorum komin upp að hlið Tígrishreiðursins var stórkostlegt og alveg þess virði að hafa gengið þessa erfiðu leið. Fólk sem var að ganga niður þegar leiðin upp var að styttast sögðu flest að við værum rétt ókomin og að það væri þess virði að ganga alla leið upp - alveg rétt hjá þeim.

Leiðin liggur upp fjallið hinum megin við gilið og hæsti punktur er samhliða klaustrinu. Það þarf þá að ganga niður í gilið og yfir brú sem er rétt fyrir neðan fallegan foss og upp aftur að klaustrinu. Í gilinu um 40 m fyrir ofan brúnna er lítið hús sem er notað til bæna og það ekkert í 15-20 mínútur í hvert skipti - nei venjulegur tími er í 3 ár án þess að hitta aðra manneskju. Aðstoðarmaður sér um að koma með mat sem settur er við dyrnar á ákveðnum tímum og því hittir sá sem er að biðja enga manneskju allan þennan tíma.


Þarna áttum við eftir að ganga upp nánast allt fjallið upp að Tígrishreiðrinu.


Bænaflögg og hreiðrið í bakgrunni.


Uppgefinn en ánægður - klaustrið hinummegin við gjánna.


Fólk að snæðingi.


Klaustrið fræga.


Rétt áður en við héldum niður.

Þegar niður var komið rétt fyrir fjögur fórum við á mjög þjóðlegt lítið veitingahús sem var skammt hjá enda orðin svöng, höfðum ekkert borðað síðan í morgunmatnum. Mjög hugguleg stúlka afgreiddi og ég mælti með því við Loja að stíga í vænginn við hana og sýndist mér á honum að hann væri eitthvað að pæla í því. Hún var 24 ára og virtist á lausu þannig að það er aldrei að vita hvað hann gerir. Hann reyndar hætti með unnustu sinni þremur dögum áður en við komum til landsins og þegar við spurðum hann hvort honum liði ekki illa þá glotti hann og sagði að honum liði sko ekki illa því það hafi verið hann sem ákvað að hætta þessu.
Loja eyddi þremur árum í Austurríki við nám, eins og áður hefur komið fram, og bjó lengst af hjá fjölskyldu í Vín svo hann komst vel inn í menninguna en einnig hefur hann verið á Spáni og fleiri stöðum í skemmri tíma. Hann var einn af fyrstu leiðsögumönnum Bútans þegar það var að opna en fór svo utan í lengri tíma og hafði því að nokkru leyti auga gestsins þegar hann kom aftur fyrir ári síðan. Hann hefur mjög sterkar skoðanir á því í hvaða átt Bútan á að fara í sambandi við ferðamenn og er pirraður á sumu. Hann er gríðarlega stoltur af landinu sínu og hefur mikinn áhuga á ferðamennsku sem kemur vel fram í því hversu hann er fróður og hefur gaman af segja frá.
Aðeins tvær ferðahandbækur hafa verið gerður um Bútan, önnur frá Lonely Planet að sjálfsögðu og hin eftir franska konu sem ferðaðist um landið. Loja er ekki fullkomlega sáttur við þessar bækur og er þessvegna langt kominn með að gera sína eigin ferðahandbók sem verður vonandi vinsæl enda fyrsta ferðahandbókin sem skrifuð er af innanbúðarmanni í landinu. Hann stakk m.a.s. upp á því að einhverjar af myndum okkar gætu hugsanlega prýtt bókina - það yrði gaman.


Sólstafir.

Við afturkölluðum kvöldverð sem hafði verið pantaður fyrir okkur á hótelinu því klukkan var orðin 17 og við nýbúin að borða og auk þess þreytt eftir gönguna.

Við fórum því snemma að sofa eftir góðan dag.

2 ummæli:

Burkni sagði...

Datt í hug að þér (Jóa) myndi hlýna um hjartaræturnar við að sjá þessa gleðilegu frétt:
http://svali.landspitali.is/lsh_ytri.nsf/htmlpages/blodbankinn.html

Burkni sagði...

Urr ... klúðraðist, taka tvö:
http://svali.landspitali.is/lsh_ytri.nsf/pages/bb_0064