föstudagur, nóvember 02, 2007

57. Veikindi í Katmandu

Ferðaskrifstofustrákurinn vildi ekki endurgreiða okkur alla ferðina, enduðum á að borga honum 1500 Nrs fyrir hótelið sem hann var búinn að panta og daginn áður greiddum við fararstjóranum 600 Nrs - við enduðum því á því að greiða rúmlega 2000 Nrs fyrir þetta sem er nú ekkert voðalega mikill peningur. Til þess að yfirfæra þessar upphæðir úr Nrs sem er Nepalise Rupies, eða Nepalskar rúpínur þá margfaldið þið upphæðina með 1 eins og áður hefur komið fram.

Dagurinn fór að mestu leiti í afslöppun bæði á kaffihúsinu í bænum og á hótelinu. Það er afskaplega þægilegt að sitja og sötra ómótstæðilega kaffidrykki á stað sem er með þráðlaust net. Við nýttum það vel.


Aðal hótelbyggingin.

Við gengum stuttan hring um túristahverfið á meðan við biðum eftir myndum úr framköllun. Þá var á vegi okkar þetta gistihús:



Já, við vorum hissa að sjá gistihús sem heitir Iceland og til að svala forvitni okkar kíkti Sonja inn til að athuga hvort það væru kannski íslenskir eigendur eða einhver tenging við landið - samtalið hljómaði svona (hef það á ensku því ég held að það skiljist betur þannig):

"Hello." sagði Sonja við slánalega reykjandi afgreiðslustrákinn í litlu þröngu andyrrinu.
"Yes mam."
"Why is the guesthouse called Iceland?"
"It's the name of the guesthouse."
svaraði hann og kunni greinilega ekki mikið í ensku.
"Yes, I know that - but why?"
"It's the name!"
"Is there a connection to the country Iceland?"
"This is the name of the guesthouse!"
"Yes, I know - I come from Iceland!"
"The guesthouse?"


Ég fylgdi Sonju upp á hótelherbergi og lagði síðan af stað í leiðangur um þröngar göngugötur eldri hluta borgarinnar - engar konur með í þessari ferð. Markmiðið var að ná í linsuna góðu úr viðgerð um 5 leytið og ég hafði því um þrjár klukkustundir til að skoða borgina þangað til ég yrði að vera kominn á New Road sem er fyrir sunnan hverfið okkar. Ég var með kort með mér en þegar ég er einn á ferð í skoðunarferðum er ég ekki að pæla mikið í því hvar ég er staddur og ráfaði bara um endalausar hliðargötur og lét borgina draga mig áfram og stjórna ferðinni. Á hliðargötunum eru oft lítil sund, ekki hærri en 1,5m að hæð sem liggja inn í lokaða bakgarða svo maður gengur úr skarkalanum inn í rólega steinsteypta garða þar sem fólk situr fyrir utan hús sín og börn að leik.
Einhvernvegin rataði ég á götuna um hálftíma fyrir tilætlaðan tíma - sýnir ágætlega hvað borgin er góður fararstjóri. Viðgerð á linsunni með varahlut kostaði 5000 kr. íslenskar og tel ég það bara vel sloppið. Hún virðist vera skörp og í meðhöndlun eins og ný linsa - ég er ánægður með að við ákváðum að skoða viðgerð hérna í Kathmandu.


Konur vinna í húsaskoti.


Dæmigerð gata í Katmandu.


Þessi mynd sýnir litadýrðina sem er oft á götunum án þess að láta viðfangsefnið trufla mann.


Barn málað til verndar gegn illum öndum.

Ég hélt áfram að villast um hverfin en reyndi að fikra mig norður í átt að Tamel kverfinu. Það gekk ekkert voðalega vel að finna ferðamannahverfið því ég var búinn að þvælast um í góðan tíma og skyndilega helltist myrkrið yfir borgina.
Borgin var greinilega rafmagnslaus því ekkert ljós var að sjá - búðir fóru að setja upp kerti á búðarborðunum og einstaka búðir voru með varðelda fyrir utan.
Ég var nú ekki á því að gefast upp enda var ég farinn að sjá stöku túrista á götunum og ég hlyti því að vera að nálgast túristahverfið. Stuttu síðar var ég kominn á götu í Thamel sem var troðfull af túristum en ég þekkti ekki götuna sjálfa og hélt því áfram göngu í áttir sem mér þótti líklegar. Ég passaði mig ekki og fór einhverjar spennandi hliðargötur og áttaði mig ekki fyrr en ekki nokkurn ferðamann var að sjá. Ég hafði greinilega farið í kolvitlausa átt og ákvað því að snúa við og fara í betri átt. Ég gekk í dágóða stund og ákvað að taka ekki hjólavagn fyrr en í fulla hnefana - það var ekki mikið af þeim þarna þannig að það hefði sennilegast verið skynsamlegast að taka vagn við fyrsta tækifæri. Ég gekk áfram og var kominn í vafasamt hverfi að mínu mati svona að kvöldi til og gekk því að hjólavagni sem stóð og beið eftir mér stutt frá mér. Maður um fertugt og sonur hanns um 12 ára voru í vagninum og stukku á fætur þegar ég kom.

"Hvað kostar að fara á Nirvana Garden Hotel?"
"Hversu mikið viltu borga?"
"Segðu mér bara hvað það kostar!"
"120 rubís."
"Ég borga 40 rúbís!"
sagði ég því fyrsta verð hjá þeim er alltaf út úr korti og ég vissi reyndar ekkert hvað við vorum langt frá hótelinu.
"100 rúbís."
"Nei 40!"
"80 rúbís."
"Nei 40!"
"Síðasta boð 70!"
sagði hann ákveðið.
"Ok, takk fyrir - þá geng ég bara." sagði ég og hélt áfram göngu minni.
"Ok, 50." sagði hann þá.
"Nei." sagði ég og hélt áfram göngu minni þangað til hann kallaði á eftir mér.
"Ok, 40 - snúðu við."

Ég snéri við og settist upp í vagninn og 12 ára strákurinn hjólaði af stað. Hann hjólaði í þveröfuga átt við það sem ég var að ganga, beygði þar til vinstri og um 100 metra þar áfram og þá vorum við komnir. Ég hafði borgað alltof mikið fyrir ferðina og þeir ákváðu að samþykkja lokaboð mitt þó að ég hefði "hótað" þeim með því að ganga í þverögu átt frá hótelinu þegar ég sagðist ætla að ganga. Báðir græddu, ég komst á lífi á hótelið en gatan var að verða alveg myrkvuð fyrir utan nokkra elda og kerti á búðarborðum og þeir fengu ansi vel borgað fyrir 5 mín hjólatúr.


Vinnumaður vinnur að kvöldlagi.


Svartamyrkur þegar ég var að reyna að ramba á áfangastað.

Við fórum aftur í hverfið fyrir sunnan Tamel daginn eftir og nú var Sonja með í för. Hún hefur það fram yfir mig að þegar hún gengur hverfi sem hún hefur séð kort af þá myndast smátt og smátt kort af staðnum í hausnum á henni sem hún getur síðan nýtt að sumu leiti til að rata nokkurnvegin aftur á svipaðar slóðir - hún hefur líka góðan skilning á áttum. Það er eitthvað annað en ég sem þarf ekki annað en að ganga inn í búð og man oft ekki alveg úr hvorri áttinni ég kom úr þegar út úr búðinni er komið. Ég skil vel að sumir vilji vita hvar þeir eru og finnst það góður kostur - ég hinsvegar hef mjög gaman að villast svona um borgir og vita ekkert hvað er bakvið næsta horn eða hvert för ber mig.

Göngutúrinn með Sonju var samt skemmtilegri því ég fann mig betur í myndatökunni (og líka skemmtilegra að vera með Sonju) og við tókum lengri tíma í að skoða okkur um. Við skoðuðum mikið af hliðarstrætum, bakgörðum og er oft magnað að sjá litla brunna fyrir framan hús með yfir 1000 ára gamla útskorin ljón í kring, maður rétt sér móta fyrir ljónslaginu á styttunum. Það er margt um slíka gripi út um alla borg enda hefur hún verið kölluð sögulegt listasafn undir berum himni. Götulífið er líka sérstaklega líflegt og oft er ekki hægt að komast áfram fyrir fjölda af fólki.


Kona fyrir framan dæmigert hús hérna - þetta virðist orðið frekar óstöðugt.


Þessi hlið á húsi var í bakgarði - gluggarnir eru sérstakir.


Maður býr sig undir að halda á nokkrum plötum sem virðast vera þungar. Hafið þið einhverntíman séð mann halda á fjórum sjónvörpum í einu?


Góðir vinir á saumastofu.


Coca-Cola er helst í hendur við ferðmannaiðnaðinn.


Svið og annað af sauðkind.


Grænmetissali.


Nokkrir dæmigerðir réttir héðan.


Rauðklædd eldri kona.


Fisksalinn.


Séð niður á götu frá hofi sem við klifruðum upp í.


Stolt amma.


Rauður og blár.


Kona hvílir sig á meðan beðið er eftir viðskiptavinum.


Ungur kornsali.

Það er samt ekki jafn auðvelt að taka myndir af fólki hér eins og t.d. í Amritsar og öðrum borgum sem eru með færri túrista. Fólk virðist á mörgum stöðum búið að fá nóg og brosir ekki einu sinni þegar maður brosir til þeirra og býður góðan daginn. Við skildum það á göngu heim og á undan okkur gengu fjórir kínverjar með videovélar á lofti í annarri hendi og venjulegar myndavélar í hinni - sveiflandi þessu framan í allt og alla. Svona gengur þetta dag eftir dag þangað til maður mætir og vill líka fá að taka myndir.
Ástandið batnaði þó aðeins þegar við komum lengra úr aðal túristahverfinu þar sem fólk nánast stökk í felur þegar það sér myndavélar.

Við skoðuðum Durbar torgið sem er samansafn af stórum hofum á litlu svæði í miðju borgarinnar. Hofin eru flest úr tré og eru sum mörg hundruð ára gömul - það er merkilega er að á neðstu hæð eru pínulitlar búðir sem selja allskonar hluti, allt frá minjagripum í fisk og kjöt. Þessar búðir hafa ekki breyst mikið í gegnum aldirnar.
Þar sem búddismi og hindú lifir í miklu samkrulli hérna þá eru sömu hofin oft notuð fyrir bæði trúarbrögðin þá er mjög gaman að fylgjast með fólki allt í kring iðka trú sína.


Neðstu hæðir hofana eru oft með pínulitlum verslunum.


Poppsalar, hér virðast vera 5 mismunandi gerðir af poppmaís í boði.


Fjölskyldulíf.


Við á torginu - svarthvítar hetjur.


Stúlka þvær sér í almenningsþvottalaug.


Andlitsmálning til sölu fyrir trúaða.


Barn hreinsar til fyrir framan hindúa líkneski.


Líkneskin eru gjarnan mjög litrík.


Gaman er að virða fyrir sér tréútskurðinn á hofunum sem er orðinn veðraður á mörgum stöðum.


Túristar og heilagur maður.


Móðir og barn.


Þarna erum við komin á lítið kaffihús við Durbar torgið.


Við höldum að þetta sé hin frægi ljósmyndari Yann-Arthus Bertrand en kunnum ekki við að spyrja þar sem hann var þarna með fjölskyldu sinni.


Skrítinn maður sem var að laga hár sitt við eitt hofið.


Sölustúlka.


Þessi kona fær sér lúr á tröppum eins hofsins.


Setið á hækjum sér.


Stúlka með sjal yfir sér.

Við borðuðum kvöldverð á La Dolce Vita við kertaljós því rafmagn var ekkert í borginni og aðeins einstaka staðir sem eru með varaaflstöðvar.

Þegar við vorum að ganga heim á hótel fórum við framhjá búð teppasala sem við höfðum skoðað teppi hjá tveimur dögum áður. Hann stoppaði mig fyrir utan og sagði:

"Ég er með sérstök verð fyrir þig í dag!"
"Nú, af hverju eru verðin betri í dag?" svaraði ég þreytulega því dagurinn hafði verið langur og ég ekki í teppahugleiðingum.
"Af því að ég á afmæli."
"Nei, þú átt ekki afmæli!" svaraði ég.
"Víst!"
"Nei!"
"Víst, komdu bara inn og sjáðu."
"Ok" sagði ég og gekk inn í búðina - var forvitinn að vita hvernig hann myndi sýna fram á að hann ætti afmæli og Sonja fylgdi treglega á eftir.
"Komdu upp á efri hæðina, teppin eru þar." sagði hann og gekk upp.
"Sannaðu fyrst fyrir mér að þetta er afmælisdagur þinn!" sagði ég.
"Hvernig á ég að sýna fram á það?" spurði hann hissa yfir að ég væri ennþá að hugsa um afmælið.
"Sýndu mér skilríki!" sagði ég ákveðið og reyndi að brosa ekki - verð að viðurkenna að ég hafði sérstaklega gaman af þessu. Aðrir starfsmenn sem voru þrír fylgdust með þar sem þeir sátu við afgreiðsluborðið.
"Komdu upp og ég skal sýna þér skilríki."

Ég gekk á eftir honum upp og og hann blaðaði þar í veskinu sínu og tók upp skilríki sem hann skoðaði. Ég tók það og skoðaði það sjálfur.

"Afmælisdagur kemur ekki fram á skilríkjum hérna í Nepal." sagði hann.
"DOB 03/03/1973 stendur hérna skýrum stöfum! Þú átt afmæli í mars."
"Hvað er DOB?"
"Date-of-birth."
sagði ég sigri hrósandi.
"Hvað gerir það mig þá gamlan?"
"34 ára!" sagði ég eftir töluverða umhugsun.
"Nei, það getur ekki verið, ég er 40 ára."
"Ha, það stendur hérna skýrt að þú sért 34 ára og að afmælið þitt er í mars. Þú átt ekkert afmæli í dag!"
"Víst!"
"Nei!"
"Þetta er eitthvað rugl - ég ætla að bjóða þér mitt besta verð á silkiteppinu!"


Ég hætti að nenna að þrátta við hann um afmælisdaginn því málið var svo gott sem dautt þegar hann vildi ekki viðurkenna dagssetninguna sem stóð á skilríkinu og auk þess skipti þetta engu máli - ég vildi bara sjá hvernig hann myndi snúa sér útúr þessu.

Ég skoðaði aftur teppið flotta og við þráttuðum um verðið einu sinni enn og komumst ekki að neinni niðurstöðu. Hann reyndi öll brögð til að sýna fram á glæsileika og gæði teppisins eins og teppasala er von og vísa nema rétt áður en ég fór þrammaði hann fram og aftur um gólfið með teppið vafið utanum sig og sagði að það væri meirað segja hægt að nota það sem sjal. Ég þakkaði fyrir mig og fór brosandi út.


Ég stalst til að taka mynd af umræddu teppi á meðan sölumaðurinn stökk niður eftir málbandi.

Það mætti kannski halda að ég standi í endalausum rifrildum hérna en því fer fjarri - það er bara oft gaman að spjalla við sölumenn og aðra og rökræða því þannig er nánast allt götulífið hérna, menn að þrátta um verð og miklar tilfinningar í gangi.

Ég get ekki beðið eftir að biðja um launahækkun þegar ég kem heim - ég er í æfingu að þrátta um verð.

Að kvöldi þessa næstsíðasta dags í Nepal var Sonja kominn með svaka magaverki sem héldu fyrir henni vöku alla nóttina. Morguninn eftir, síðasti heili dagurinn í Nepal, fór að mestu í klósettferðir svo það þótti ekki ráðlegt að hún færi að þvælast út fyrir herbergið. Þetta virtist hafa verið ný matareitrun því nú fylgdi engin ógleði. Ég fór í það að redda dollurum fyrir Bútan en það er enginn hraðbanki í landinu og þeir taka bara við stærstu gjaldmiðlunum ásamt sínum eigin.
Ég gerði óformlega könnun á verði á dollurum á peningabásum í bænum sem skipta á milli gjaldmiðla. Ég fékk verð allt frá 65,5 krónur sem ég þurfti að greiða fyrir hvern dollar niður í 63,8 - sem er orðinn sæmilegasti munur í gjaldmiðlum. Einn sagði mér að þeir sjálfir myndu borga 63 dollara sjálfir og afgangurinn væri þóknun þeirra. Á öllum peningabásum stendur "No commission" og ég held að þetta sé það eina sem þeir gera þannig að ég skil málið ekki alveg.

Ég beið með að fara á þann peningabás sem mér leist best á því ég ætlaði að reyna að nota þekkingu mína á því hvað aðrir væru að bjóða til að fá betri kjör. Einn gjaldeyrissalinn sem bauð mér 64,8 trúði mér ekki þegar ég sagði að aðrir hefðu boðið undir 64 dollara þannig að ég held að þetta sé sæmilegt verð sem sumir voru að bjóða mér.
Eins og áður sagði þá endaði ég á þeim bás sem mér leist best á enda var hann snyrtilegastur, stærstur og kona sem sá um afgreiðslu, treysti þeim meira þegar kemur að peningum því karlmenn breytast oft í slefandi brjálæðinga þegar kemur að peningum - konur eyða þeim bara.
Hún bauð mér 64,5 og ég sagði henni að mér hefði verið boðið 64,8 á næsta bás - hún gæti spurt hann ef hún trúði mér ekki. Ég vissi vel að sá maður sem var feitur og fúll myndi aldrei viðurkenna að hann hefði boðið mér þessi kjör því hann öskraði á eftir mér þegar ég gekk út að ég fengi ekki þessi kjör nema að ganga frá gjaldeyriskaupunum strax. Hún hugsaði málið aðeins, spurði hvað ég ætlaði að skipta miklu sem var dágóð upphæð og ráðfærði sig við samstarfsmann sinn. Hún bauð mér síðan 63,7 sem var það besta sem mér hafði verið boðið og gekk ég að því.

Mér leið eins og "big-shot" bankamanni þegar ég gekk á milli, kannaði kjörinn hjá hverjum og einum og reyndi að semja um besta verðið. Það eina sem vantaði upp á var klipping, vatnsgreiðsla, rakstur, sturta, rakspíri, jakkaföt, skjalatöska og óbragð í munninn ... eða nei, það vantaði ekki óbragðið því ég var sennilegast andfúll ofaní allt og það gæti vel verið að það hafi hjálpað mér í samningaumleitunum því fólk hefur viljað losna við mig úr básunum sínum.

Það verður gaman að sjá hvernig maður verður við heimkomuna með prúttið. Ég sé fyrir mér að ég fari í Bónus:

"Ha, 5000 krónur? Ég borga ekki krónu meira en 500 krónur. Ég fer þá bara í krónuna og þið missið öll viðskipti við mig!"

Eða þá þegar ég er að semja um húsnæðislán:

"Ég borga ekki punkti meira en 4.6% vexti!"
"Ha?"
segir bankamaðurinn hissa.
"Já, ef þú gengur ekki að kröfum mínum fer ég með öll mín viðskipti annað!"
"Annað hvert? Allir vextir og kostnaður er ákveðinn sameiginlega af bönkunum þannig að það eru sömu kjör allstaðar og þú getur alveg reynt að fara annað fíflið þitt!"


Á morgun er för heitið til Bhutan eins og áður hefur komið fram og vitum við ekki hvort eða hvernig netsambandi er hagað þar. Við getum því ekki lofað að það komi mikið hingað inn en við gætum slysast á hótel með neti öðru hvoru. Í versta falli hendum við inn allri 3 vikna Bútan ferðasögunni í einu eftir og fólk verður bara að taka sér frí þann 20. nóv eða bara að lesa þetta yfir jólin.

Magn skiptir meira máli en gæði - það er löngu sannað.

3 ummæli:

Burkni sagði...

Heldur þykir mér síðra fyrir Jóhann að hafa verra áttaskyn og ratvísi en kona sín, þar sem þetta eru karllægir eiginleikar og þetta sannar svo ekki verður um villst hver er í buxunum á þessu heimilinu!

Þar að auki er þessi teppasölusaga það týpiskasta sem ég hefði getað ÍMYNDAÐ mér Jóhann gera, en þetta vakti mikla kátinu hjá starfsmönnum AGR ...

Pálmi sagði...

Já en á einhvern óskiljanlegan hátt hefur ykkur tekist að vera bæði með magn og gæði, þetta er að mörgu leyti besta blöggið til þessa.

Ef gengi á nepölsku rúpiunni og ísk kr er nákv 1 í dag þá er athyglisverður munurinn á genginu það eru um 59 kr fyrir 1 dollara á íslandi í dag, kannske er þarna komið virði á þetta no commision þeirra

Hjörleifur sagði...

þetta http://www.kob-one.com/photos/a10688_TACT41.jpg
er Yann Arthus Bertrand og er hann nokkuð eldri og gráhærðari en sá sem að þið tókuð mynd af, svo það var kannski bara eins gott að þið spurðuð hann ekki. Kannski er þetta bara bróðir hans eða eitthvað.

"Rautt og blátt" myndin á að sjálfsögðu að heita bleikt og blátt því aðalliturinn er bleikur þar en ekki rauður.

"Vinnumaður vinnur að kvöldlagi" er frábær mynd.

Bakhliðin á húsinu er mjög skrítin.

Og húsið er mjög óstöðugt, eiginlega skrítið að það skuli standa. Maður gæti búist við að það hryndi ofaná mann bara við það eitt að opna hurðina.

Góða ferð til Bútan og Sonja láttu þér batna.

kveðja
Hjölli