Brottför frá Kargil var kl. 7 þennan þungbúna og grámyglulega morgunn. Við borðuðum frekar slappan morgunmat í veitingasal hótelsins sem var verulega farinn að láta á sjá eftir líklegast áratuga umhirðuleysi. Lítill en furðu hraustur burðarsveinn tók báða bakpokana okkar, hélt á þeim niður í bíl og síðan lögðum við af stað til Srinigar. Við höfðum aðeins ekið um 100 metra þegar við komum að flutningabíl sem stíflaði götuna og voru fjórir menn að hlaða bílinn. Bílstjórinn okkar var nú ekki á því að leyfa þeim að klára þessa fjóra glugga sem eftir voru heldur keyrði alveg upp að bílnum og flautaði í sífellu. Burðarmennirnir urðu mjög stressaðir og lyftu höndum til að biðja um að fá að klára en að lokum þurftu þeir að færa bílinn til að hleypa okkur framhjá. Þeir voru allir mjög rólegir, tóku þessari óþolinmæði bílstjóra vors með fullkomnu jafnaðargeði. Við reyndar komumst að því á síðustu dögum okkar í Leh að það er ein mesta synd í samfélagi þeirra að reiðast, m.a.s. meiri synd en að halda framhjá. Ef maður reiðist er maður eiginlega útskúfaður úr samfélaginu þannig að það er ekki tekið létt á stuttum þráðum. Þetta skýrir kannski að einhverju leyti hversu menn voru rólegir þegar bílstjóradrusslan sem keyrði okkur frá Manali keyrði inn í kindahópa með flautuna þannda - óvandaðir menn nýta sér þetta líklegast.
Riwez Ahmed bílstjórinn okkar virtist vera nokkuð merkilegur maður. Í hinu svokallaða Kargil stríði upp úr 1990 fór hann til Kargil með tvo sjónvarpsfréttamenn frá C-News og varð að dveljast þar í mánuð á meðan stríðið stóð sem hæst í bænum og nágrenni hans. Um 600 manns dóu á einum mánuði í þessu harða stríði og sá hann margt ljótt eins og er gangur styrjalda. Hann eyddi nóttunum á sama hóteli og við nú en keyrði fréttamennina á milli þorpa á daginn. Bíllinn hans lenti fjórum sinnum í skothríð þannig að hann lenti þó nokkrum sinnum í lífshættu og þakkar Allah fyrir að hafa komist lífs af.
Fyrsta stopp var í þorpinu Drass sem er víst næstkaldasta byggða ból í heimi á eftir Síberíu. Metkuldi þarna er -62 gráður, sem ég held að hafi verið síðasta vetur. Flest íbúðahús í bænum eru með kjallara sem fólkið býr í 2 mánuði yfir háveturinn.
Við gerðum stutt stopp í dekkjaverkstæði bæjarins sem er við aðalgötuna og Riwer bílstjóri henti inn varadekkinu sem var sprungið. Ég fór útúr bílnum og bílstjórinn renndi af stað án mín en stoppaði stutt frá verkstæðinu á bílaþvottastöðinni, þ.e. við vatnsbunu sem er nógu löng og há til að vatnið sprautist yfir bílana. Þegar hann kom aftur sagði hann mér sigri hrósandi að hann hafi farið í kalda sturtu með Sonju.
Dekkjaverkstæðið var timburhús í dæmigerðum Kashmír-ískum stíl ef ég má orða það svo, frekar illa farið en gegnir sínu hlutverki væntanlega ágætlega. Fjórir ungir menn/piltar unnu á verkstæðinu og tók sá elsti þeirra, sem líklegast er verkstjóri eða eigandi við dekkinu til viðgerðar. Hann notaði hluta af malbikaðri götunni við meðhöndlun á dekkinu en i miðjum klíðum kom vörubíll og heimtaði að verkstjórinn færði dekkið því vörubíllinn þurfti að komast að loftinu, eitthvað lítið eftir í dekkjunum. Ég veit ekki hvort þeir hafi þekkst, og það af illu, en verkstjórinn harðneitaði að færa dekkið og upphófst smávægilegt rifrildi. Vörubílstjórinn gaf svo eftir og lagði bílnum bara þar sem hann var, eiginlega á miðri umferðagötunni, og tók loftslönguna til að dæla í eitt dekk bílsins. Þegar verkstjórinn þurfti að blása í dekkið okkar sem hann hafði bætt var vörubílstjórinn enn að nota loftið og vildi greinilega ekki láta eftir slönguna. Þá rölti verkstjórinn inn í skúr og slökkti á loftpumpunni þannig að ekkert loft kom svo bílstjórinn skilaði slöngunni fúll á svip. Þegar við vorum að renna í burtu var vörubílstjórinn að dæla aftur í sín dekk og yngsti strákurinn var í hálfgerðu reipitogi við hann um slönguna því hann þurfti að setja loft í dekk sem hann var að gera við. Já, ekki er öll vitleysan eins.
Harðir naglar í Drass.
Hænum slátrað í drullupolli fyrir neðan veginn.
Aðalmaðurinn á dekkjaverkstæðinu.
Starfsmaður á verkstæðinu sem sést fyrir aftan hann.
Vörubílstjórinn bíður óþolinmóður eftir loftslöngunni og ungi starfsmaðurinn sem fór í reipitog við hann um slönguna er lengst til hægri.
Heyið er oft geymt ofaná húsum til að nýta það sem einangrun.
Ef landslagið á leiðinn daginn áður var fallegt þá sló landslagið þennan daginn því við og vel það. Við byrjuðum á því að klifra upp hátt fjall með hrikalegum fjallstindum allt í kring og eftir því sem okkur miðaði áfram fór ögn meiri gróður að skreyta landslagið, gras, tré og jafnvel fjölbreyttari blóm. Sumstaðar var eins og gríðarlegu magni af ljósum sandi hefði verið stráð yfir fjöllin, mjög sérstakt. Þetta er mest áberandi við klaustrið Lamayuru og þorpið þar í kring. Þegar við síðan komum yfir fjallið breytist landslagið skyndilega og það er eins og að vera komin í svissnesku alpana. Það er einmitt þar sem Kashmir byrjar - maður nánast tók andköf yfir stórfenglegu landslaginu. Gríðarlega brattar og háar hlíðar þakktar trjám með stórbrotnum snæfi þökktum fjallstindum einkenna þessa náttúru sem kom okkur skemmtilega á óvart. Kashmir hefur löngum verið þekkt sem perla Indlands enda mjög gjöfult land af gróðri sem gerir þetta svæði einstakt miðað við legu þess. Þegar lengra inn í Kashmir er komið má sjá hrísgrjónaakra og annað sem gleður augað, allstaðar er verið að rækta matjurtir, ávexti, grænmeti og fólk að vinna á ökrunum, enda er uppskerutíminn núna.
Hérna koma nokkrar myndir frá Kashmir sem við tókum á leiðinni sem vonandi ná gefa hugmynd um landslagið:
Vegagerðamaðurinn að týna smásteina.
Þegar við vorum nánst komin efst í fjallið, rétt áður en komið var inn í Kashmir, keyrðum við fram á bíl sem var undarlega skorðaður á veginum svo að húddið stóð eiginlega undir klettinn líkt og hann hefði sveigt frá hengifluginu hinum megin vegarins. Bíllinn var fullur af fólki og reyndist bílstjóri bílsins vera vinur bílstjóra okkar og sjúkdómsgreining á bílnum var að stýrið hafði dottið úr sambandi. Ef bíllinn hefði tekið upp á því að sveigja í hina áttina hefði hann líklegast steypst niður bratta hlíðina og ekki stoppað fyrr en í ánni neðst í gljúfrinu. Já, mikill er Allah.
Við hittum einnig þarna efst uppi nokkra sígauna með fáeina hunda að reka risastóran fjárhóp eftir veginum og tók dágóðan tíma að mjaka bílnum í gegnum kindahópinn. Það var falleg sjón að sjá fjárhópinn þarna innan um klettaveggina og sígaunana í kring.
Fjárhópur rekinn eftir mjóum veginum - þverhnýpi er niður í gjánna, örugglega nokkuð hundruð metrar.
Fjárhirðirinn.
Fjárhirðirinn í fjarska í rolluhafi.
Eftir að við vorum nýkomin yfir fjallið og framundan löng leið niður hinummegin með útsýni yfir Kashmir þá sprakk á bílnum okkar - spurning hvort bílstjórinn sé skyggn. Ég hjálpaði honum að skipta um dekk og rölti síðan aðeins upp hlíðina til að virða fyrir mér útsýnið og var þar næstum búinn að stíga ofaná hausinn á hermanni sem lá þar í litlu hlöðnu vélbyssuhreiðri í fullum feluskrúða. Aðeins munaði nokkrum sentimetrum held ég að ég hafi stigið á hann og var félagi hans sofandi í öðru hreiðri rétt hjá. Ég veit ekki hvað hermaðurinn hefur haldið þegar ég var þarna að spígspora rétt við hann - spurning hvort það hefði verið skilgreind sem innrás Íslendinga ef ég hefði troðið hann niður þarna, góð tilbreyting væntanlega frá endalausum fjárfestingainnrásum okkar sem engann mann bætir.
Kashmir.
Séð til baka þaðan sem við komum.
Hermaðurinn sem ég var næstum því búinn að troða undir skítugum skónum mínum.
Skipt um dekk á bílnum.
Hirðingi sem við hittum á leiðinni.
Við þurftum að bíða í dágóða stund á meðan mennirnir puðuðu við að ýta þessum trjábol yfir veginn.
Einn af þeim sem var að rembast við trjábolinn.
Sígaunafjölskylda - sígaunarnir dvelja þrjá mánuði á sléttunum uppi í fjöllunum yfir heitustu mánuðina en færa sig niður til Jammu yfir köldustu mánuðina og eru þeir þá 2-4 vikur að fara með allt sitt dót og búfénað eftir umferðagötunum.
Sígaunastúlka.
Flautan á bílnum okkar brann yfir áður en við komum inn í Srinigar og því gat Riwer bílstjóri ekki látið stóra flutningabíla vita að við værum að læðast við hliðina á þeim þegar við fórum framhjá. Þetta ásamt gríðarlegum glannaakstri gerði síðustu tvo tímana í ferðinni frekar erfiða fyrir taugar okkar og geðheilsu. Eins undarlegt og það er þá varð maður fyrst hræddur þegar bíllinn varð flautulaus - þetta er gríðarlega mikilvægt samskiptatæki í umferðinni.
Þegar farið er inn í Srinigar verður maður einna fyrst var við fjölda hermanna á verði, þeir eru á nánast hverju horni búnir vélbyssum. Ef þeir eru ekki með vélbyssu í hönd þá liggja þér í stórum vélbyssuhreiðrum og gægjast óárennilegir út um lítil göt á illa byggðum hreiðrunum. Um göturnar keyra einnig stórir brynvarðir bílar með lítil byssuhreiður á toppnum þannig að það borgar sig varla að láta dólgslega í þessari borg.
Rétt áður en komið var inn í borgina.
Við báðum bílstjórann um að skutla okkur á Grand Hótel þegar við þóttumst vita að við værum að nálgast miðja borgina. Hann brást mjög undarlega við og spurði hvort við hefðum ekki ætlað í húsbát og ég neitaði því, sagðist ætla á hótel. Hann varð hissa, greinilega búinn að tala við húsbátaeiganda og fær líklega með prósentur af túristasauðum sem hann nær að smala í fang húsbátaeiganda. Hann stoppaði bílinn, hringdi, talaði stutta stund í símann og rétti mér hann síðan. Ég spurði rólegur hver væri á línunni og var það víst sá sem seldi okkur bílferðina í Leh. Ég talaði við hann en þetta var ekki sá sem við höfðum verið í sambandi við og sagði ég honum að við hefðum aldrei sagst ætla að taka húsbát heldur að byrja á hóteli. Við höfðum reyndar spurt sölumanninn í Leh hvort hann vissi um góðan húsbát en tókum það skýrt fram að við ætluðum ekki að panta strax heldur skoða þegar við værum komin á staðinn svo hann hefur kannski misskilið og haldið að við ætluðum strax að skoða við komuna til borgarinnar en svo var aldeilis ekki.
Hestvagn í Srínigar.
Aðeins um húsbáta í Kashmir. Borgin er þekkt fyrir misflotta húsbáta sem ferðamenn dveljast á í stað hefðbundinna hótela og eru þeir flestir um 30-40 ára, þ.e. frá þeim tíma sem borgin var sem vinsælust hjá ferðamönnum. En nokkurra ára stríðsástand í héraðinu varð til þess að ferðamennska féll alveg niður og stóðu bátarnir auðir í nokkur ár sem var eigendum þeirra mjög erfitt. Núna er ferðamannabrannsin allur að koma til en er bara brot af því sem þetta var á sínum tíma, sem veldur því að það eru gríðarleg barátta um ferðamennina og mjög mikið svindl í gangi. Bandaríkjamaður sem við hittum í Leh sagði okkur frá því að hann hafi verið fangi í sínum bát, ekki fengið að fara í land og sölumönnum var dælt um borð til að ná örugglega hverjum dollara af honum. Hann náði að múta öðrum bátaeiganda til að ferja sig í land og slapp þannig frá fláráðum bátaeigandanum sem hélt honum þarna í gíslingu. Mörg önnur svipuð dæmi eru þekkt þannig að það þarf að fara varlega í þessum viðskiptum.
Já, neyðin kennir fátækum bátaeiganda að svindla.
En áfram með smjörið. Bílstjórinn breytti um stefnu eftir símtalið og keyrði okkur í átt að Grand Hotel. Á leiðinni stoppaði lögregla okkur og opnaði afturhurðina þar sem ég sat og settist upp í bílinn. Riwez var auðsjáanlega brugðið og lögreglumaðurinn gaf honum einhverjar skipanir svo hann keyrði af stað með lögguna í bílnum, tveim mínútum síðar gaf hún stoppmerki og fór út - var greinilega bara að húkka sér far.
Á Grand voru bara tvö herbergi laus, á 6. og 7. hæð lyftulauss hótelisins og herbergin auk þess lítt spennandi, annað þeirra var t.d. með hjónarúm og tvö önnur rúm í litlu plássi. Ég fór því aftur niður og sagði bílstjóranum að ég vildi kíkja á hitt hótelið, Adhoos, en Sonja beið með farangur okkar í bílnum á meðan. Bílstjórinn varð skrítin í framan og spurði hvað væri að þessu hóteli og virtist vilja að við dveldum þarna. Eftir smá orðaskipti samþykkti hann loksins að skutla okkur á hitt hótelið en hann hafði m.a.s. reynt að ljúga því að mér að það væri lokað vegna Ramadam. Hann keyrði úr húsasundi Grand hótels og þá blasti við Adhoos sem reyndist galopið, hefðum við ekki rekið augun í hótelið hefði hann sjálfsagt keyrt okkur að e-u lokuðu hóteli án skiltis.
Á meðan ég var uppi að skoða herbergi Adhoos reyndi hann ákaft að sannfæra Sonju um að Adhoos væri mun verri kostur því þar væri of miklu skellt saman, þ.e. hóteli, veitingastað og bakarí (Grand hótel var einnig hótel og veitingastaður), auk þess sem Adhoos væri alltaf fullt af fólki í viðskiptaerindum, bílastæðið alltof fullt(Grand Hotel hafði ekki einu seinni eitt bílastæði!) auk þess sem hann gæti reddað mjög góðum afslætti á Grand. Hann var greinilega á samningi við Grand Hotel.
Við tékkuðum okkur inn á Adhooso sem er í stærri kantinum og líkt og svo margt annað hér mætti gjarnan fríska upp a það en það er ekki hægt að biðja um mikið þegar lítið hefur verið um peninga í 20 ár.
Við fengum okkur síðdegismat á hótelinu og enn og aftur var matseðillinn aðallega til sýnis en maturinn var gómsætur. Við fórum svo í síðdegisgöngutúr til að kynnast nánasti umhverfi en það var erfitt á köflum því gaddavír var víða á götum og sumstaðar sandpokar, menn greinilega viðbúnir öllu. Við skoðuðum ríkisminjagripaverslunina sem er í stóru og reisulegu húsi í vel afgirtum garði. Nánast enginn var á ferli og þegar við gengum inn um hliðið sáum við stórt og mikið vélbyssuhreiður, eða jafnvel fallbyssuhreiður, með byssu sem miðaði beint á okkur þar sem við stóðum og hermaður þar fyrir aftan, hreiðrir var klætt með bárujárni og gaddavír svo við hröðuðum ferð okkar til að vera ekki í skotlínu.
Á leðinni til baka kom að máli við okkur maður sem spurði fyrst hvaðan við værum og gekk síðan með okkur langa vegalengd og spjallaði mikið. Okkur grunaði strax að hann væri að reyna að selja okkur eitthvað en það er erfitt að eiga við menn sem eru mjög almennilegir og ræðnir og eru að segja okkur frá borginni sinni, maður veit aldrei hverjir meina vel og hverjir ekki. Við sögðum honum að við værum á Resident hotel sem er alveg við okkar og þar sem hann svo gott sem fylgdi okkur að hótelinu ákváðum við bara að fara þar inn og fá okkur drykk á veitingastaðnum. Þetta er eitt flottasta hótelið í borginni og eitt það nýjasta enda kostar nóttin hátt í 20þ krónur. Það er óhefðubundið að innan, svalir mynda hálfhring, glerlyfta í miðjunni og móttaka fyrir framan lyftuna. Búðir eru á fyrstu tveim hæðunum en fyrir ofan það herbergin á svölum sem snúa að lyftunni og tómarúminu í miðri byggingunni. Veitingasalurinn er á efstu hæð og við sáum engan í móttökunni þannig að við gengum inn í lyftuna og hún tók ukkur upp á efstu hæð. Þegar lyftan lagði af stað upp sá ég strákinn í móttökunni veifa til okkar og hlaupa að stiganum. Ég hugsaði ekki mikið um það en þegar við vorum að ganga inn í veitingasalinn kom hann móður og másandi upp stigann, greinilega ekki alveg sáttur og sagði að hann yrði að fylgja okkur upp og við hefðum átt að tala við hann fyrst. Við báðum hann afsökunar enda virtist hann frekar þreyttur sem er ekk furða núna á Ramadan, hann hafði ekkert borðað né drukkið síðan 4 um morguninn.
Hann stóð yfir okkur á borðinu á veitingasalnum í hátt í klukkutíma svo til sleitulaust. Var að segja okkur frá borginni, sjálfum sér og sagðist vera að æfa enskuna sína. Hann sagði okkur margt merkilegt eins og að hann kynni að taka sundur vélbyssu og setja saman aftur á mettíma, hann væri tilbúinn að grípa til vopna ef þörf væri á, Bandaríkjamenn væru vondir, kínverjar væru mesta ógn heimsins og þegar Kashmir væri með einhvern kjaft hóta Kínverjar alltaf að ráðast á Ísrael o.flr. o.flr. Hann sagði okkur m.a.s. stolltur að hann væri aðhylltist sömu múslimatrú og Bin Laden. Hann var líke yfir sig hrifinn af Sonju og spurði mikið hvort við ætluðum að gifta okkur og annað um okkar hagi. Hann þreyttist ekki á því að lýsa yfir aðdáun sinni á Sonju þó að við hefðum reyndar þreyst á því, eða allavega ég.
Á leiðinni upp á herbergið á Adhoos mættum við þjónninum af Adhoos-veitingastaðnum frá því fyrr um daginn og var hann með klósettrúllu á leið inn í eitt herbergið. Það er gott til þess að vita að þjónninn framreiðir bæði matinn fyrir okkur og þrífur klósettin líka. Já, það er gott að vera þúsundþjalasmiður.
Um kvöldið fórum við snemma að sofa eftir að ég hafði byggt vélbyssuhreiður við gluggann til að verja okkur frá illum mönnum úti í hinum vonda heimi.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli