Það er kannski við hæfi að útskýra smá landafræðina hérna í Himalayafjöllum Indlands. Allt svæðið heitir stjórnarfarslega séð Jammu & Kashmnir en í raun þá miðast Ladakh við svæðið í kringum Leh, svo telst Kargil vera annað svæði, Srinigar og Jammu telst svo í raun vera hið hefðbundna Kashmir. Þegar maður keyrir um er þetta nokkuð ljóst því Leh og Kargil eru ansi hrjóstrug svæði og ekkert í líkingu við það sem Kasmhir stendur fyrir. Svo fer maður yfir ákveðið fjall og þá birtist manni skyndilega Kasmhir í allri sinni dýrð - í raun eins og Ladakh nema bara með trjám lengst upp í hlíðar, vötnum, lækjum og grænt svo langt sem augað eygir. En byrjum á byrjuninni.
Við höfðum beðið bílinn að koma rétt fyrir 10 um morguninn því við þurftum að byrja á að fara í minjagripabúðina, taka þar pakkana okkar innsaumuðu og fara með þá á pósthúsið. Við snæddum eins og oft áður morgunmatinn fyrir utan og á næsta borði var stúlka sem við höfðum séð glitta í á hótelinu undanfarna daga. Bíll kom upp úr 9 og hún ásamt leiðsögumanni stigu um borð og brunuðu í burtu. Einn þjóninn spjallaði við okkur stuttu síðar og spurði hvað planið væri hjá okkur um daginn og við sögðumst vera á leiðinni til Srinigar um 10 leytið. Hann sagði okkur þá að stúlkan sem var þá nýfarinn hafi verið á sömu leið og við hefðum því mögulega getað farið á sama bíl, sparað okkur bæði peninga og minkað mengun því þessi bílar eyða sínu, en það var of seint að hugsa um það.
Þegar ég var að borga reikninginn spyurði sá starfsmaður sem við höfðum verið í mestum samskiptum við hvort kokkur hótelsins, eiginkona hans og dóttir gætu fengið far með okkur til bæjarins Khalsey, sem var á leiðinni. Við sögðum það sjálfsagt mál enda bara skemmtilegra að hafa einhverja farþega með.
Bílinn renndi í hlaðið og með glaðlegum bílstjóranum var eiganda skrifstofunnar sem kom með til að segja okkur að hann hafi náð að kría út smá afslátt hjá bílstjóranum. Bíllinn hafði komið með farþega frá Srinigar til Leh og því betra að nýta bakaleiðina. Það var því nokkuð þétt setinn jeppi sem keyrði niður í bæ í minjagripabúðina, alls 7 manns en reyndar eitt barn.
Pakkarnir voru tilbúnir þegar við komum í búðina og ekkert annað að gera en að skrifa viðtakanda utan á þá á meðan afgreiðslumaðurinn kyrjaði úr kóraninum. Vonandi var hann ekki að biðjast fyrirgefningar á því að hafa skipt út hlutunum okkar fyrir grjót. Það tók hátt í klukkutíma að sækja pakkana og senda þá á pósthúsinu því það þarf að fylla út ýmsa pappíra. Á meðan beið allur skarinn þolinmóður í jeppanum uppi á aðalgötunni. Síðan var haldið í'ann og við höfðum smávegis á tilfinningunni að við værum að fara úr paradís í helvíti.
Til vinstri í íþróttagalla er eigandi ferðaskrifstofunnar að tala við einhvern félaga sinn - stóri maðurinn er bílstjórinn og sá minni kokkurinn sem fékk far með okkur.
Eftir um tvo tíma komum við til Khalsey og var það kjörinn staður til að snæða hádegisverð. Kokkurinn var tengdur veitingahúsi við aðaltorgið í bænum, þóttu okkur það góð meðmæli og borðuðum þar. Inni á þessum litla stað sem hafði gott útsýni yfir torgið voru 4 borð og lítill söluskenkur en maturinn kom úr eldhúsi einhverstaðar fyrir utan. Kannski gott að maður sér ekki eldunar- og uppþvottaaðstöðu á stöðum sem þessum. Við fengum okkur nepalskan og kínverskan mat sem smakkaðist bara nokkuð vel.
Á næsta borði við okkur sátu 3 búddamunkar og á hinu borðinu þrír alvopnaðir hermenn - nokkuð miklar andstæður þar á ferðinni. Á fjórða borðinu sátu fjórir strákar sem voru reffilegir, allir klæddir í föt sem ég geri ráð fyrir að þeir haldi að séu vestræn tískuföt - þeir hafa sennilega þótt töffarar í þorpinu. Einn var í rauðum samfestingi úr leðri með gulu munstri efst, tveir í snjáðum jakkafötum og sá fjórði í gallabuxum og bol með sólgleraugu. Það var kannski ekki það sem vakti athygli okkar enda vön að sjá margbreytilegan útgang á fólki hérna. Heldur að einn þeirra var með skjalatösku og í lok máltíðar setti hann hana upp á borðið og var hún full af grasi, engu öðru - og það grænu grasi eins og vex úti á túnum, ekki það sem menn reykja.
Við spurðum þjóninn þegar hann kom til okkar hvort hann ætti kók og hann svaraði því játandi. Um 10 mínútum síðar kom annar þjónn og spurði hvort við vildum eitthvað að drekka og við spurðum aftur hvort hann ætti kók, en hann svaraði því til að þau væru aðeins með Pepsi, sem við samþykktum enda betri drykkur. Þegar við vorum byrjuð að drekka veigarnar kom fyrri þjónninn hlaupandi upp tröppurnar og inn á staðinn með tvær kók - hann hafði greinilega hlaupið bæinn á enda til að verða við kröfum okkar. Þar sem við vorum þá komin með þrjá gosdrykki gáfum við eina flöskuna þegar við vorum komin út af staðnum.
Þessi töffari sat fyrir utan veitingahúsið.
Þessi börn voru frekar feimin.
Landslagið á leiðinni var stórbrotið eins og oft áður á þessum slóðum svo ég ætla ég ekki að reyna að lýsa fegurðinni í orðum. Aðeins að segja að það var nokkuð hrjóstugt en hrikalegt og fórum við í gegnum gríðarleg gljúfur og upp fjöll á leið okkar, var landslagið oft svipað og gerist á Íslandi nema bara allt stærra og meira. Ætli myndirnar verði ekki bara að sannfæra lesendur:
Gljúfrið sem við keyrðum eftir - ef glögglega er skoðað má sjá vörubíl neðst í því.
Eyðimörk.
Hlykkjóttur vegur.
Hæsti punktur ferðarinnar.
Hæstu tindarnir gældu við skýin.
Fjöllin voru sum hver hrikaleg - þetta var tekið með gleiðlinsu til að ná öllu á mynd þannig að fjöllin gnæfa meira yfir manni en sýnist hér og eru hærri.
Landslagið eftir að við fórum aftur að lækka okkur.
Fallegur tindur - og eins og oft áður er þetta ekki ósvipað því sem maður sér á Íslandi.
Vinnubúðir vegagerðarmanna eru víða og eru tjöld oft hrörleg þó að þessi líti vel út.
Þessir voru að skýla sér fyrir sandroki.
... og þessir að þrífa sig.
Endastöð fyrri dags ferðarinnar var bærinn Kargil, um miðja vegu á milli Leh og Srinigar. Þetta er bær sem liggur við stóra á og breiðir úr sér báðum megin í hlíðunum. Húsin eru frekar hreysisleg í miðbænum en reisulegri hús eru samt á víð og dreif og algengari í úthverfum bæjarins. Gríðarlegur fjöldi fólks er í miðbænum þar sem fólksbílar og flutningabílar keyra á miklum hraða í gegn þenjandi flauturnar og maður veltir fyrir sér hversu mörg umferðaslys verða í bæ sem þessum. Þar sem úrslitaleikurinn í heimsmeistaramótinu í krikket á milli Indlands og Pakistan var í fullum gangi þegar við komum inn í bæinn þá voru stórir hópar af fólki fyrir utan búðir sem höfðu sjónvarp innandyra, allir að horfa á leikinn.
Horft á leikinn í búðarglugga.
Við byrjuðum á hóteli sem bílstjórinn mælti með og var dágóðan spöl frá miðbænum en lkeit ekkert sérstaklega vel út auk þess sem iðanaðrmenn voru að vinna í afgreiðslunni. Okkur sýndist bílstjórinn vera á prósentum hjá þeim því hann spjallaði við þjónana eins og hann þekkti þá vel og vildi vita af hverju okkur leist ekki á hótelið þegar ég sagði honum að ég vildi skoða síðari kostinn. Ég sagði honum bara að við vildum samanburð, hann samþykkti það og keyrði okkur á hið seinna. Bílstjórinn mælti reyndar líka með því en auk þess var það nefnt í Lonely Planet (LP). Það var betur staðsett nánast alveg í miðbænum og leit örlítið betur út en það fyrra og við ákváðum að taka það bara. Við fengum okkur stuttan göngutúr um bæinn, kíktum á netið og hringdum heim þar sem ekkert hafði heyrst frá okkur í vku. Netstaðurinn var pínulítil kompa með fjórum tölvum sem voru allar í lokanlegum básum. Hversvegna fólk þarf að loka að sér veit ég ekki en það sem lyklaborðið var svart af drullu og mikill skítur á milli takkanna þá fór hugmyndaflugið af stað. Ég spurði hvort hægt væri að tengja minnislykil við tölvuna því ég þurfti að setja inn blogg fyrir lesþyrsta aðdáendur mína og fjölskyldumeðlimi. Afgreiðslumaðurinn tók fram tölvuna og við það hrundi borðið undir lyklaborðinu í sundur með látum og lyklaborðið flaug beint á gólfið ásamt smámunum sem voru á borðinu. Þegar hann var búinn að setja borðið aftur upp hrundi önnur hliðin af tölvunni. Hraðinn var eftir þessu.
Við snæddum kvöldverð á hótelinu sem var með fjölbreyttan matseðil. En eins og grunsamlega oft áður þá var nánast ekkert til á matseðlinum, þetta eru yfirleitt ansi haldlitlir bleðlar. Okkur er farið að gruna að þetta sé góð aðferð hjá veitingastöðum, að vera með gríðarlega flotta og ýtarlega matseðla en síðan er bara fátt eitt til sem skiptir ekki máli því viðskiptavinurinn svangi er búinn að bíta á öngulinn. Bjórinn þarna var sá dýrasti sem við höfum rekist á, um 250 RS sem er 4x dýrara en við höfum séð áður og því varð ég að láta mér lynda vatn því gosdrykkir voru heldur ekki til.
Við sáum í sjónvarpinu áður en við fórum að sofa fagnaðarlæti Indverja, þeir sigruðu Pakistana og stóðu með titilinn í höndunum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Bíddu ... heimsmeistaramótið í krikket var í vor í V-Indíum, getur verið að þetta hafi verið endursýning?
Skrifa ummæli