Við hrukkum upp af værum blundi kl. 5 um morguninn við gríðarleg læti líkt og djöfullinn sjálfur væri að messa yfir okkur með miklum hávaða. Þetta reyndist vera morgunmessa sem kom úr kallkerfi mosku stutt frá hótelinu og var hljóðkerfið stillt hærra en hæsta enda þarf boðskapurinn að ná til sem flestra og vekja fólk því á Ramadan vakna allir á þessum tíma og biðja í moskum. Við lágum í rúminu, hlustandi á bænirnar óma allt í kringum okkur og var skrítið að heyra úr mismunandi áttum bænahjalið. Þetta hljómaði eins og hundsgól sem byrjar á einum hundi en breiðist síðan út til nálægra hundkvikinda.
Við náðum að sofna aftur og sváfum til kl. 8, sem er snemmt hjá okkur en okkur hefur reyndar tekist að snúa sólarhringnum ágætlega við og reynum að fara snemma að sofa, ekki seinna en 23 og vakna fyrr.
Hótelherbergið okkar sem var óvenjulega stórt.
Eftir morgunmat rauk ég beint á netið á einu tölvu hótelsins sem ætluð er gestum,vsetti minnislykilinn í samband og keyrði tölvuna upp. Þegar tölvan hafði ræst sig gat ég ekki séð að hún hafði fundið minnislykilinn okkar og það var örlítil brennslulykt í loftinu sem ég pældi ekkert mikið í. Mér datt þá í hug að ég hefði kannski snúið lyklinum öfugt og tók hann út og prófaði að setja hann á hinn veginn inn en tölvan slökkti þá strax á sér. Úbbs hugsaði ég, tók lykilinn úr tölvunni og prófaði að kveikja á henni en það kom aðeins ljós á rofatakkann og hún slökkti þvínæst strax aftur á sér. Ég hafði eyðilagt einu tölvu hótelsins og nú yrði herinn sendur á mig.
Ég kallaði á herbergisþjóninn sem sat hinum megin við skilrúmið og hafði greinilega ekki orðið vitni að aðferðum mínum við að eyðileggja tölvugarminn sem var sennilegast eldri en maðurinn. Ég sýndi honum að ég gæti ekki kveikt á tölvunni en hann talaði litla sem enga ensku og því var ég ekkert að flækja málið með að segja honum að ég hefði valdið þessu með því að troða lyklinum öfugt í. Hann prófaði nokkrum sinnum að kveikja, yppti þvínæst öxlum svo ég þakkaði fyrir mig, gekk fyrir hornið á ganginum og hljóp síðan upp í herbergi. Ég ákvað að vera ekkert að segja þeim strax frá því hvað hafði gerst, betra að athuga hvort þeir gætu kallað til mann til að gera við þetta því þeir væru alveg líklegir til að rukka mig um hálfa landsframleiðslu Kashmir fyrir tölvuna sem var nú ekki mikils virði. Þegar við fórum niður í andyrri og út sá ég að þeir höfðu kallað til viðgerðarmann og því fór ég áhyggjulaus út eða næstum því, hafði reyndar smá samviskubit en það er eitthvað sem maður getur lifað við.
Þegar maður gengur út á aðalgötuna þá er eins og maður sé lítill kjötbiti sem hent er fyrir hundahóp svo maður haldi áfram með hundasamlíkingar, því betlarar og verra fólk sem kallast sölumenn reyna að plata mann í allskonar vitleysu, elta mann uppi og maður þarf að vera sterkur að þykjast ekkert taka eftir fólkinu.
Við ákváðum að byrja á því að taka tuk-tuk að húsbátaleigunni sem hótelstjórinn í Leh hefði mælt með því við treystum honum ágætlega, eða a.m.k. eins langt og maður getur treyst mönnum sem vinna í þessum bransa. Við sömdum um verð við tuk-tuk bílstjórann að vatninu sem bátaleigan var við og héldum af stað. Þetta er reyndar ekki við vatnið sem er næst miðbænum og sölumaðurinn á Little Tibet hafði reyndar sagt okkur að gista alls ekki við þetta vatn því það væri ekki öruggt, best væri að vera í miðbænum. Við ákváðum að skoða a.m.k. aðstæður - maður tapar engu á því nema rúbínum.
Þegar við komum að vatninu sögðum við bílstjóranum að við værum að fara til Wangnoo houseboats sem var nafnið á fyrirtækinu og virtist hann ekki vita hvar það væri að finna og spurði vegfarenda sem sagði okkur að taka smábát þarna stutt frá því þetta væri alveg hinum megin við vatnið. Við fórum að ráðum hans og settumst í bát sem er ekki ólíkur þeim bátum sem tíðkast í Feneyjum en reyndar styttri og örlítið breiðari. Við sömdum um báðar leiðir við hann því við ætluðum bara að kanna aðstæður og verð. Það tók um 25 mínútur að sigla yfir og finna fyrirtækið og stigum við frá borði á land milli báta Jewel of Kashmir húsbátafyrirtækisins. Við gengum inn í lítið hús sem var í miðjum skrúðgarði, virtist góður staður til að slaka á, og ræddum þar við eigandann sem var maður um rúmlega 70 og biðum eftir syni hans sem stjórnar öllu þarna. Hann sýndi okkur einn bátinn sem var með þremur herbergum og einu lúxusherbergi ásamt borðstofu, betri stofu og góðri verönd á enda bátsins til að slaka á og horfa yfir vatnið. Báturinn var sannkölluð fljótandi höll og þar sem enginn gestur var í neinum báta þeirra, erum utan ferðamannatímabilsins, þá gátum við verið með bátinn (eða ætti maður að kalla þetta skip?) ein og sér, og verðið var nokkuð ásættanlegt. Feðgarnir voru mjög þægilegi, töluðu góða ensku og við treystum þeim alveg með að þetta væri allt hið besta mál og þeir lögðu mikla áherslu á það að við ættum ekki að hafa neinar áhyggjur og slaka á í bátum þeirra. Við ákváðum að taka lúxusherbergið og byrja á einni nótt með fullu fæði.
Við sendum bátakallinn sem ferjaði okkur aftu til baka án okkar því eigandinn bauðst til að gefa okkur far niður í bæ því skrifstofa hans var á sömu götu og hótelið okkar. Þar sem hann þurfti síðan að fara aftur í bátana um 3 leytið þá bauð hann okkur far tilbaka með allan okkar farangur sem auðveldaði okkur sporin og við eyddum því 3 tímum í bænum áður en við fórum í húsbátinn okkar góða.
Á siglingu að finna húsbát.
Mikill gróður er í vötnunum Srinigar.
Við gengum framhjá Resident hótelinu á leið eftir verslunargötunni og strákurinn var þar úti sem hafði spjallað svo lengi við okkur (en aðallega Sonju) daginn áður svoi við spurðum hann um netkaffihús, og hann benti okkur á að fara aðeins út götuna og það væri til hægri við hliðina á Womans Collage. Við kvöddum hann og gengum í áttina sem hann benti okkur að fara og hann kvaddi með orðunum: "Good to meet you again.", og bætti síðan við orðunum til Sonju: "Especially you!".
Á leiðinni á netkaffihúsið gengum við framhjá litlu veitingahúsi með skillti fyrir utan "Ask for our Espresso inside!". Ég stökk hæð mína í loft upp í fullum herklæðum (þung myndavél + 2 álíka þungar linsur) og þegar ég hafði lent á tveim jafnfótum tilkynnti ég Sonju að ég ætti erindi þarna inn svo við settumst upp á efri hæðina og ég beið spenntur eftir fyrsta Espressóbollanum frá því í Róm. Á næsta borði var hippapar um sextugt, bæði gráhærð og grindhoruð - greinilega svokallaðir atvinnuferðamenn, eins og ég kýs að kalla þá sem gera ekkert annað en að þvælast um heiminn, eyða sem allra minnst og gera ekkert gagn - mér er illa við svona fólk. Þetta reyndist reyndar hið ágætasta fólk og þau sögðu mér að búast ekki við Espresso heldur venjulegu kaffi sem reyndist rétt því þetta var venjulegur nescafé-kaffibolli með sykri og mjólk ... svindl!
Dæmigert útlit á mönnum í Srinigar.
Dæmigerð götumynd í borginni.
Dæmigerður herbíll með vélbyssuhreiðri á toppnum og geitarhóp fyrir framan.
Við ákváðum að sleppa netkaffihúsinu og skoða frekar aðstæður við hitt vatnið sem kallast Dal. Okkur leist ekki jafn vel á aðstæður þar og vorum ánægð með val okkar á húsbáti. Þarna var mun meiri hávaði frá miðbænum, sérstaklega bílflaut, og ekki hægt að komast í land úr bátnum nema að vera ferjaður sem býður upp á mikið svindl og svínerí. Auk þess var útsýnið úr bátunum bara beint yfir miðbæinn og þá hefði maður eins getað verið á venjulegu hóteli.
Þar sem minnislykillinn okkar var ónýtur eftir baráttu mína við hóteltölvuna þá leituðum við aðeins að búðum sem selja slíkar tæknivörur en var tjáð af vegfaranda að það væri ekkert slíkt að finna í hverfinu og sagði okkur nafn á búð sem við gætum verslað nýjan lykil. Við stukkum upp í tuk-tuk sem keyrði okkur beint á Resident hótelið en þar innanhús eru nokkrar búðir. Graði hótelstrákurinn tók brosandi á móti okkur og gekk með okkur að búð stutt frá sem gæti haft græjuna til sölu en ekki reyndist það ferð til fjár. Hann fór með okkur í aðra búð en ekki seldi hún heldur minnislykil. Hann spurði mig hvort ég ætlaði að giftast Sonju og ég sagðist ekki viss um að ég vildi það, yrði að sjá til og varð hann frekar hneykslaður. Ég heyrði hann síðar vera að tala við Sonju í lágum hljóðum fyrir aftan mig á meðan við gengum, ég átti greinilega ekki að heyra það sem hann sagði. Hún sagði mér síðar að hann hafi verið að spyrja af hverju hún væri með mér, sannfæra hana um að vera ekkert að giftast mér og útlista eigið ágæti - við hlógum bæði að þessari örvæntingafullu tilraun hans. Ætli ég hafi ekki bara persónuleika í stað fyrir útlit :-)
Farooq lánaði okkur einn af starfsmönnum sínum til að ná í farangur okkar á hótelið og síðan var haldið í Paradís - Jewel of Kashmir húsbátana.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
hæ þetta er hreynt ótrúlegar myndir greinilega stórkostlegur staður og frábært ferðalag
langar mest að taka flugið til ykkar
kv siggi óli
Vá, takk fyrir allar frábæru sögurnar og myndirnar úr ferðinni ykkar. Ég spái bók fyrir jól 2009.
Kveðja,
Böddi
Gat Eldklerkur ekki bara opnað glugga og messað yfir skrílnum á móti?
Hæ hæ. Frábærar myndir og gaman að lesa ferðasöguna. En vantar ekki eitthvað upp á "húsbátssöguna" ??
Kveðja, Elsa Karen.
Skrifa ummæli