föstudagur, október 12, 2007

Til McLeod Ganj

Kl. 6 skreið ég á fætur - þreyttur eftir að hafa horft á knattspyrnuleik um nóttina til kl. 2 en góð knattspyrnustöð var í sjónvarpinu á hótelherberginu.
Planið var að skoða hofið í morgunsólinni því við höfðum bara farið seinnipartinn og birtan á morgnana allt öðruvísi. Þar sem Sonju var brátt í brók treysti hún sér ekki að fara og ég fékk því að fara einn með því loforði að gera enga skandala og koma beint heim eftir hofið því ég er ekki sá besti í að rata og væri sjálfsagt komin til Katmandu áður en ég vissi af.

Ég náði morgunsólinni þar sem hún skein í gegnum morgunmisstrið og baðaði hofið með heitum tónum. Það voru mjög margir að biðja þótt árla væri var löng röð í gullnu hvelfinguna. Ég gekk alls fjóra hringi í kringum tjörnina og spjallaði aðeins við forvitna vegfarendur og endaði á því að virða fyrir mér eldhúsið sem er undir skyggni í útjaðri hofsins - það eldar fyrir 30.000 manns á dag en allir sem koma í hofið geta fengið ókeypis máltíð og skiptir staða né stétt engu máli - allir eru jafnir þarna. Þetta er víst mjög algengt í hofum Sikh-manna.


Menn í einkennisbúningi Sikh-manna sitja í morgunsólinni.


Heilagt vatn sótt í tjörnina.


Skrautlegt höfuðfat.


Gullna hvelfingin í bakgrunni.


Potturinn í eldhúsinu stóra.

Nokkrir strákar sátu við tjörnina nálagt útganginum og báðu mig með handabandi að setjast hjá sér sem ég og gerði. Þegar ég var ný sestur bættust um 15 manns við hópinn, menn af öllum aldri og snéru sér að mér líkt og þeir sem voru þarna fyrir. Ég sat því í miðjunni á þessum hópi eins og einhver trúarleiðtogi og þeir horfði stíft á mig og hlustuðu vel á allt sem ég sagði. Þar sem lítill snertiflötur var á tungumálaþekkingu minni og lærisveinanna var talið mjög einfalt - þeir spurðu mig nafns, hvaðan ég væri o.s.frv. og flóknara tal var eiginlega ekki mögulegt. Tveir af þeim réttu mér penna og blað og vildu að ég myndi skrifa nafn mitt á það líkt og um eiginhandaráritun væri að ræða og síðan var vandræðaleg þögn - þeir horfðu á mig með eftirvæntingu eins og þeir væru að bíða eftir einhverju miklu spakmæli eða að ég myndi fremja kraftaverk sem ég reyndar hefði ekki haft neitt á móti og þá helst að svífa í burtu því þetta var orðið frekar óþægilegt.
Þegar ég var í þann mund að fara að segja þeim að þeir ættu ekki menn að deyða, þeir skildu heiðra foreldra sína og ekki girnast kellingar nágranna sinna, jafnvel blessa þá og segja þeim að fylgja mér þá kom vörður í loftköstum með atgeir sinn á lofti og leysti upp hópinn mér til mikils léttirs.


Strákahópurinn sem ég settist hjá - hópurinn þrefaldaðist þegar ég hafði sest niður.


Betlari fyrir utan hofið.


Þessi hópur af mönnum stillti sér upp og pantaði mynd.

Ég náði að leggja mig aðeins þegar heim var komið um 9 leytið og sváfum við til kl. 11 og rukum þá á fætur því við vorum að fara til McLeod Ganj, dvalarstað Dalai Lama, og var brottför kl. 12 - aðeins klukkustund síðar. Ég dreif mig af stað á ferðaskrifstofuna til að greiða fyrir bílinn sem myndi aka okkur á leiðarenda og Sonja sá um að pakka dótinu okkar sem var orðið ansi fyrirferðarmikið vegna minjagripafíknar okkar.

Þegar ég kom til baka var hálftími þangað til við skyldum skila herberginu og bíllinn kæmi - við pöntuðum morgunmat og lögðum lokahönd á pakkningu - við náðum að klára þetta allt rétt rúmlega tólf. Bíllinn var afar smár, ekkert mikið stærri en kokteilsósu Pólóinn minn gamli og var aðstoðarmaður með í för - sennilegast lærlingur að læra leiðina. Eða kannski var hann bara að læra landafræði, allavega þá benti bílstjórinn mikið í allar áttir þegar við ókum um sveitir landsins. Bíllinn reyndist kraftmeiri en stærð gaf fyrirheit um þannig að við vorum bara sæmilega sátt með farartækið. Þetta var mun betri kostur en að taka rútuna.

Bílferðin gekk nokkuð snuðrulaust fyrir sig og var hin þægilegasta fyrir utan feikna hita fyrri hluta ferðar sem lagaðist þegar við fórum hærra upp í fjöllin.
Bílstjórinn og lærisveinn hans töluðu sleitulaust alla leiðina - bílstjórinn talaði mun meira og var eins og hann væri að segja honum frá hverri þúfu á leiðinni. Það var merkilegt að þeir yrtu varla á okkur alla leiðina nema brýan nauðsyn bar til og gerðum við enga tilraun til að tala við þá þar sem þeir töluðu svo gott sem enga ensku. Þegar við höfðum ekið tæplega hálfa leiðina af þessari 6 tíma keyrslu sáum við skilti um að Pathankot Mandi vegurinn væri lokaður vegna þess að Chakki Bridge væri hrunin. Skiltið var á ensku og pældum við aðeins í því hvort þetta væri einhver brú sem við þyrftum að fara yfir og reyndist það rétt. Við stoppuðum við brúna og bílstjórinn var greinilega mjög hissa á því að brúin sem við ætluðum að keyra yfir væri hrunin - þeir höfðu greinilega ekkert heyrt um þetta né skilið skiltið en ég held að brúin sé tiltölulega ný hrunin því viðgerð var ekki hafin. Fólk notaði járnbrautatrúnna til að komast yfir ánna en af einhverjum orsökum hafði hún ekki hrunið. Við þurftum því að snúa við og taka stóran hring.
Við höfum farið yfir margar vafasamar brýr í þessu ferðalagi og munum við verða stressaðri næst þegar við förum yfir brú sem dúar þó steinsteypt sé eftir þetta atvik.


Brúin sem við ætluðum að fara yfir hafði nýlega hrunið.

Hér á Indlandi er ansi oft beitt mjög frumstæðum aðferðum við hina ýmsu hluti, t.d. að loka götum þar sem borga þarf vegatolla. Á einum stað á leiðinni sat vörðurinn í mestu makindum og hélt í band sem var bundið við tré hinum megin við götuna og strengdi bandið til að menn færu ekki framhjá án þess að borga en lét það síga niður á götuna til bílar gætu haldið áfram.


Notast við band til að loka götu.

Eins og ég hef áður sagt er akstur hérna glæpsamlega glannalegur og erum við hætt að pæla mikið í framúrakstri. Í 50% tilfella þegar farartæki sem við erum á tekur framúr með flautuna þanda virðist engin leið til að við náum framúr áður en gagnstæð bíllinn lendir framaná okkur. Alltaf virðist þetta ganga upp að lokum en oft að rykkja bílnum inn á rétta akrein sekúndubrotum áður en bílarnir lenda saman.
Við vorum reyndar einu sinni næstum lent í árekstri í þessari bílferð. Eins og oft þá reyndi bílstjórinn okkar að fara framúr rútu í beygju sem var á blindu hliðina, þ.e. beygjan var til vinstri í vinstri umferð og við sáum því ekkert hvort bíll væri að koma úr beygjunni því rútan skyggði algjörlega á veginn. Við vorum rétt byrjuð að taka framúr þegar stór flutningabíll birtist á mikilli ferð aðeins nokkrum metrum fyrir framan okkur og tókst bílstjóranum okkar með snarræði að negla niður og beygja fyrir aftan rútuna áður en flutningabíllin brunaði framhjá okkur. Það voru engin belti í þessum bíl þannig að þetta hefði ekki farið vel.

Eitt skrítið lítið atvik gerðist á leiðinni sem ég kann ekki skýringu á. Við vorum komin upp í fjöllin og snéri glugginn minn út að skógi vaxinni hlíðinni. Heiðskírt var í veðri og því ekki von á rigningu og rigning getur ekki útskýrt þetta dularfulla mál. Lærlingurinn var með þann leiðinlega vana að hrækja eins og alltof margir hérna og hrækti út um gluggan fyrir framan mig á 30 sekúndna fresti. Í eitt skiptið sem hann hrækti út kom vatnsgusa inn um gluggann eiginlega í sömu andrá og fékk ég á mig góða slettu af vökva, svona um það bil eitt mjólkurglas og hélt ég fyrst að ég hefði fengið slummu á mig eins og gerðist í rútuferðinni nokkrum dögum áður. Lærlingurinn virtist jafn hissa og ég og starði upp í hlíðina sem virtist mannlaus en einhver hefði getað leynst á bakvið tré án þess að við hefðum tekið eftir því. Því get ég ómögulega skilið hvað gerðist.
Rökréttasta skýringin sem ég sé á þessu dularfulla atviki er að þetta hafi verið skæruliði með vatnsbyssu - kannski einn af erindrekum Dalai Lama en þeir eru þekktir fyrir friðsamlega baráttu fyrir frelsun Tíbets - þeir mega sennilegast ekki vera með hættulegri vopn.

Við komum á leiðarenda á hótelið okkar í McLeod Ganj um klukkan 18 eftir óvenju tíðindalitla og þægilega ökuferð.

Hótelið okkar Chonor House er hluti af Norbulingka stofnunarinnar sem hefur það að leiðarljósi að koma á framfæri og varðveita menningu Tíbet. Þetta er frábært hótel með um 10 herbergjum sem hvert og eitt er sérstaklega skreytt með mismunandi þema. Okkar heitir "Trees and Flowers" og eru veggirnir málaðir með fallegum myndum af trjám, blómum og dýrum. Það er þægilegur andi hérna og allt mjög notalegt.

Gömlu góðu dagarnir eru núna!

1 ummæli:

Hjörleifur sagði...

Gömlu góðu dagarnir voru þegar maður sat í sandkassanum og helstu áhyggjurnar voru hvort maður yrði sóttur á leikskólann.