föstudagur, október 12, 2007

Góður maður

"Are you a good man?" spurði maður mig þar sem ég stóð við dyrnar á lestinni minni á milli Mumbai og Deli þegar ferðalag okkar var nýhafið. Ég hafði staðið þar í smá stund á meðan lestin gerði stutt stopp á lestarstöð á leið okkar til Deli þegar þessi maður kom að máli við mig og spjallaði við mig um daginn og veginn, mælti síðan setninguna hér að ofan með lófann opinn til að biðja um pening.

Ég hætti snarlega að tala við hann þar sem hann vara bara að betla en ekki að spjalla og fór aftur í klefann minn. Þessi spurning hans, "Ertu góður maður?" festi rætur í huga mér og ég velti henni töluvert fyrir mér eftir þetta.

Niðurstaðaan úr þessum pælingum mínum ef einhver var er að ég sé sennilegast ekki góður maður - ég er líklegast ekki vondur maður heldur, man a.m.k. ekki eftir neinu sérstöku sem færir mig í þann flokk en get heldur ekki tínt mikið til, til þess að flokkast sem góður maður frekar en flestir ef ekki allir sem lesa þetta.

Þegar ég er núna staddur hérna í heimaborg Dalai Lama sem er einn af fáum mönnum sem ég myndi flokka sem virkilega góðan mann þá heimsótti ég aftur þessa flækju í hausnum á mér og fór að velta þessu aftur fyrir mér. Ég sá orð eftir Dalai Lama í dag um það hvernig maður ætti að láta gott af sér leiða og ef maður les þau þá sér maður að samkvæmt honum á maður að vakna á morgnanna með það eina markmið að breiða út manngæsku og hjálpa öðrum og koma góðu til leiðar.

Á Íslandi erum við öll upptekin við að snúast um eigið rassgat og gerum varla nokkurn skapaðan hlut nema það henti okkur eða ástvinum okkar. Öll tilvera okkar stjórnast að því að skrapa eld að eigin köku og okkur er aldrei kennt annað að mínu mati en að komast áfram í lífinu og ná árangri. Og hvað felst í því annað en að eignast sem mest af veraldlegum gæðum, helst að fylla vel yfir 500 fermetra Og fyrir dótið viljum við helst borga sem allra minnst svo vænlegast er að láta fátækt fólk í löndum eins og Indlandi þræla á lúsalaunum við að búa til dótið.



Ef við gefum eitthvað í gott málefni eða styrkjum félagasamtök erum við aðeins að friða eigin samvisku eða láta okkur líða vel með hvað við erum góð og þrælum síðan í okkur meiri mat en við höfum gott af á meðan stór hluti jarðarbúa er undir hungurmörkum.

Við flettum blöðum og horfum á sjónvarpið daglega á sjáum hörmungar og erum nánast hætt að taka eftir þessu - tökum þessu sem gefnum hlut. Segjum kannski að þetta sé hræðilegt ástand og snúum okkur síðan við og gleymum þessu strax - hvað þá að við gerum eitthvað í þessu.

Þegar stjórnmálamenn komast til valda þá hugsa margir þeirra meira um eigin frama heldur en þær skyldur gagnvar fólki heims og móður jörð sem okkur ber að gæta - samviska virðist ekki vera til.

Þeir íbúar Tíbet sem ég hef hitt hérna á ferðum mínum virðist ákaflega vinalegt og hamingjusamt fólk þrátt fyrir þær hörmungar sem dunið hafa yfir þjóð þeirra síðustu áratugina. Þeir eru hjálpsamir og í augum þeirra og brosi skín einhver innri ró og hamingja sem ég hef ekki séð annarsstaðar. Kínverjar hafa myrt 1.9 milljón Tíbeta síðustu 50 árin eða svo og skemmt um 90% af öllum trúar- og menningarverðmætum þeirra í Tíbet þannig að mjög lítið er eftir.
Það er erfitt að skilja hvað fær stjórnendur stórveldis til að fremja slíka glæpi - það er jafnvel enn erfiðara að skilja af hverju önnur lönd heimsins svöruðu ekki hjálparbeiðni Dalai Lama sem hann sendi út til heimsins eftir innrásina. Engin gerir neitt því það þóknast ekki eigin hagsmunum. Af hverju réðust Bandaríkjamenn inn í Írak og seinna Afghanistan?

Eitt skiptið á göngu heim úr vinnunni gekk í sem oftar framhjá elliheimili sem í leiðinni heim. Ég var frekar pirraður á einhverju tengdu vinnunni og á móti mér á göngustígnum var háaldraður maður sem þurfti stuðning við að komast leiðar sinnar. Hann brosti út af eyrum þegar ég gekk framhjá og sagði "Góðan daginn!". Þetta bjargaði deginum hjá mér gjörsamlega - oft þarf ekki mikið til að koma góðu til leiðar en það er erfiðara en að gera ekki neitt.

Við erum að upplagi villidýr og spurning hvort það að hafa áhyggjur af öðrum og vera virkilega umhugað um fólk á fjarlægum stöðum sé í eðli okkar - er umhyggjan ekki bara skel sem myndast við uppeldi og þegar á reynir þá hverfur hún og við tekur eðli okkar sem er öllu sterkara.
Ég las áhrifamikla bók sem gerist í Auschwitz og heitir Night, eftir Eli Wiesel. Þar lýsir hann atviki sem átti sér stað þegar hann var í flutningalest á leið í útrýmingabúðirnar. Það var margt fólk í hverjum vagni og engin fékk að borða svo dögum skipti og ástandið orðið slæmt. Nasistarnir skemmtu sér við það að henda litlum brauðmolum inn í vagnana svo það upphófst mikið dauðastríð meðal fangana við að ná molanum, svo mikið að fullorðinn maður tróð puttunum í augu föðurs síns til að ná brauðmolanum á undan honum.

Sá sem á mest drasl þegar hann deyr vinnur.

Ég svaraði ekki spurningu mannsins á lestarstöðinni né gaf honum pening - svarið hefði átt að vera "Nei".

1 ummæli:

Burkni sagði...

Kallinn er í símanum og hann spyr hvaða rugl þetta sé eiginlega?