mánudagur, október 15, 2007

39. Til Kinnaur

Eftir ágætis morgunverð skiptum við liði - Sonja fór á pósthúsið að senda bögglana heim og ég fór með nokkrar myndir í framköllun sem vonandi verða sendar heim sem póstkort.

Þegar ég hugsa um það þá er þetta eitt af fáum skiptum í ferðinni sem við höfum verið aðskilin, þó að þetta hafi verið í mesta lagi 20 mínútur. Núna eru komnar um 6 vikur síðan við héldum í víking og höfum við nánast verið saman hverja einustu mínútu af ferðinni.
Eins og gengur hefur þetta gengið upp og ofan en í heildina séð er samband okkar ekkert öðruvísi núna og þegar við hófum för sem segir okkur að við getum þolað svona mikla samveru mjög vel sem er gott. Ég er viss um að mörg sambönd myndu springa við minna.
Ætli lykillinn sé ekki að við erum bæði sæmilega skapgóð, sem er skrítið því ég er að vestan og Sonja er kvennmaður. Við þrætum reyndar öðru hvoru á meðan við erum að ferðast en það er yfirleitt þegar við erum mjög svöng og/eða þreytt og þá vitum við alveg hvernig á að taka á því.

Maðurinn á framköllunarstofunni, eldri maður með túrbann og skegg, talaði mjög góða ensku og virtist mjög vel að sér um marga hluti. Við spjölluðum aðeins um ljósmyndun og hann fræddi mig um ýmislegt sem ég vissi ekki um myndflögur í myndavélum. Hann spurði mig síðan hvað ég myndi gera heima á Íslandi sem hann vissi ýmislegt um, og þegar ég sagði honum að ég ynni við hugbúnaðargerð spurði hann mjög "pro" spurninga eins og:

"What platform do you use?"
"What back-end?"
"Do you use VB?"


Hann skoðaði hverja mynd af þeim 14 sem ég fór með í framköllun á tölvunni hjá sér og hældi okkur fyrir þær af miklu innsæi - skemmtilegt að hitta svona fróðlegan afgreiðslumann. Þetta er eitthvað annað en 16 ára strákguttar í BYKO sem vita ekkert.

Þegar ég tékkaði mig inn á hótelið daginn áður hafði ég bara 100 Rs seðil og þurfti að greiða hvorum burðarmanni 30 Rs og þeir gátu að sjálfsögðu ekki skipt. Ég fékk afgreiðslumanninn á hótelinu fábrotna til að skipta og hann lét mig hafa 60 Rs í 10 Rs seðlum og lofaði að láta mig fá afganginn síðar um daginn - sem hann gerði ekki.
Þetta er ekki mikill peningur en þar sem maður er nú "princip" maður þá bað ég um þau 40 Rs sem ég átti inni hjá honum þegar ég var að gera upp. Afgreiðslumennirnir áttu í mikum vandræðum með að skilja mig sögðu bara að hótelherbergið kostaði 660 Rs og ég náði ekki að fá þá til að skilja hvað ég var að reyna að segja. Ég fékk þá loksins til að skilja að ég vildi tala við þann sem tók á móti okkur og var hann fjarstaddur, þeir hringdu í hann. Hann skildi ekkert hvað ég var að tala um og svaraði alltaf:

"No the hotel room is 660 Rs!"

Eftir um 5 mínútna símtal þegar ég var við það að gefast upp og gefa þeim þessar skitunu 70 krónur náði ég loksins að fá hann til að skilja mig þegar ég sagði þessa línu MJÖG hægt og skýrt:

"Yes I know the hotel room is 660 Rs and that is fine - I will pay you the 660! BUT you owe me 40 Rs after I payed you 100 Rs when I arrived at the hotel!".

Við tékkuðum okkur út af hótelinu og gengum að bílnum sem skyldi flytja okkur til Kinnaur, það var 5-10 mínútna gangur niður bratta göngugötu. Bílstjórinn var unglegur maður með þunnt hár og góðlegt bros. Ætli ég geti ekki bara kallað hann Mr. Soon-to-be-bold.
Bíllinn var sæmilegur af Tata gerð - en mætti vera rúmbetri í aftursætinu en það er eitthvað sem hægt er að lifa við þegar við erum bara tvö auk bílstjórans í bílnum.
Hann var reyndar með brennandi reykelsi sem hann hafði komið haganlega fyrir í rauf við hanskahólfið þannig að lyktin var mjög yfirgnæfandi - hann henti því þegar við báðum hann um það.

Við komumst fljótlega að því að bílstjórinn var nú hvorki mjög mælskur né heldur mikið betri í ensku en aðrir bílsthjórar sem við höfum haft. Það var mjög erfitt að spyrja hann að einhverju því hann skildi nánast aldrei spurningarnar fyrr en maður hafði endurtekið hana a.m.k. þrisvar og hann virtist heldur ekki heyra mun á því þegar við töluðum saman á íslensku eða reyndum að ræða við hann á ensku. Hann er reyndar, eins og margir Indverjar, mjög gjarn á að segja bara "Yes" þegar hann skilur ekki spurninguna eða veit ekki svarið. Þannig að það er mjög erfitt að vita hvort hann skildi mann eða ekki nema þegar spurningarnar leyfa eiginlega ekki "Yes" sem svar:

"What is the name of this valley?"
"Yes"
"No, what IS the NAME of THIS valley?"
"Yes"


Stundum svarar hann reyndar ekki spurningunum, brosir aðeins og maður veit ekki hvort hann er að hugsa svar eða bara hefur ekki skilið mann. Yfirleitt er það þar síðara.

Umhverfið fyrri hluta dags var mjög skemmtilegt - brattar skógi vaxnar hlíðar með húsum sem gjarnan hanga utaní hlíðunum, oft heilu þorpin sem líta hrikalega út í fjarska.


Fallegt yfir að líta.


Mikið er af trjám á þessu svæði.


Börn taka þátt í gatnagerðinni.


Kona vinnur við veginn með barn sitt með sér.

Við tókum okkur hádegishlé í bæ sem heitir Narkanda sem er byggður í kringum þjóðveginn sem rennur þar í gegn. Þetta er mjög algengt hér og hugsanleg voru bara vegirnir byggðir við/í gegnum þorpin á sínum tíma en maður undrast hversu þröngt er um fólk, bíla og dýr. Það var fátt um fína drætti þegar kom að mat og borðuðum við á skítugum veitingastað sem var opinn út á götuna. Sonja fékk sér samloku en ég fékk mér blandaðann platta með allskonar gumsi og chapati, sem er indverskt brauð svipað og Nan sem er þekktara heima. Brauðið var komið með að utan og var það frekar skítugur maður sem kom með það og var með brauðið í höndunum, ekki á platta eða disk eða neinu og skellti því á borðið hjá mér. Ég fékk illan bifur á þessu brauði en ákvað að borða það sem ég hefði sennilegast ekki átt að gera.


Ég ansi svekktur yfir því að vera um það bil að fá matareitrun - reyndar mjög væga í þetta skiptið.

Ég fór að hugsa um að ég hefði ekkert fengið í magann allann tímann á Indlandi sem er afrek því við höfum borðað á allskonar stöðum og okkur var sagt fyrir ferðina að það væri ekki spurning um hvort við fengjum í magann heldur hvenær. Ég var eiginlega nokkuð viss um að ég fengi í magann eftir þennan hádegisverð ... það var rétt til getið.

Þegar við ferðumst á fjarlægum slóðum þar sem hreinlæti er ekki ofgert, eins og heima, og við því varnarlaus við minnsta óþrifnað höfum við það að vana að drekka koníaksopa á kvöldin til að drepa öll óæskileg kvikindi í maganum. Við kláruðum pelann sem við keyptum fyrir nokkrum vikum síðan og höfum ekki fundið koníak ennþá (Burkni, er brandy og koníak það sama?). Þar sem mér leist ekki á matinn fór ég í gönguferð um bæinn og fann þar fljótlega vínbúð og keypti þar whiskey pela - bland af skosku whiskey-i og piparblöndu frá Indlandi. Það yrði að duga okkur því þrátt fyrir mikla leit síðustu vikur höfum við ekki fundið koníak.


Myndvæn kona í rútu í bænum.

Sonja hafði sett mér fyrir að kaupa Lays flögur með salti og vatn í þessari sömu gönguferð og gekk ég því næst í litla sjoppu þarna rétt hjá. Þar hitti ég fyrir mann sem talaði góða ensku og spurði hann mig hvaðan ég væri og slíkt og endaði á því að spyrja mig að því hvaðan ég væri að koma. Ég er mjög lélegur að muna nöfn á stöðum og mönnum og eins kemur fyrir að ég blokkast gjörsamlega þegar ég er spurður einfaldra spurninga, flestir kannast sennilegast við slíkt. Ég reyndi að muna eftir nafninu Shimla en það var gjörsamlega stolið úr mér og mundi ég nánast ekkert um borgina - gat ekki einu sinni útskýrt hvar hún væri eða neitt. Ég varð því mjög hugsandi þegar hann spurði mig að þessu og endaði að segja: "I don't know". Hann át upp eftir mér, "You don't know where you came from?". Ég sagði vandræðalegur að ég myndi bara ekki nafnið á borginni og vissi ekki hvar hún væri nákvæmlega og tók eftir því að hann horfði hugsandi á whiskey pelann sem ég var með í hendinni - ég faldi pelann fyrir aftan bak. Hann spurði þá hvert ég væri að fara. Og var fyrsta hugsuninn: "Andskotinn - ég man pottþétt ekki hvað staðurinn heitir, hvernig redda ég mér úr þessari klípu?". Ótrúlegt en satt mundi ég orðið "Kinnaur" og náði því að komast með smá reisn úr samtalinu.

Fljótlega eftir að við komum úr bænum keyrðum við yfir stóra brú og voru sígauna- eða vegavinnubúðir þar fyrir neðan. Ég fór út og heimsótti fólkið sem var mjög vinalegt og náði nokkrum sæmilegum myndum af þeim. Við ákváðum að reyna að framkalla einhverjar af þessum myndum og gefa þeim þegar við kæmum til baka en það var eiginlega vonlaust að finna sjoppu sem myndi gera það. Samt eru í hverjum litlum bæ a.m.k. 1-2 búðir sem stendur utaná "Digital photo processing" en þegar inn er komið kannast þeir ekkert við það, virðast aðeins selja mjög væmnar innrammaðar myndir af pörum í fallegri náttúru. Við náðum því ekki að prenta myndir fyrir fólkið sem hefði verið mjög gaman því þeim fannst mjög magnað að sjá myndir af sér í myndavélinni og eiga sennilegast engar myndir af börnum sínum.


Búðirnar eru ekkert mjög vistvænar.


Hugguleg kona með barn.


Þessi er með ljótt ör fyrir ofan annað augað.


Held að þetta hafi verið mæðgur þó að meint dóttir sé mun dekkri á hörund.


Sígaunakonur eru yfirleitt með fallegt andlitsskraut og oft einnig fallegra andlitsfall.


Maturinn undirbúinn.


Ég að koma frá búðunum hinum megin við brúnna.

Við komum seint á áfangastað sem er bærinn Sarahan sem er mjög lítill og vegna svarta myrkurs þá sáum við ekki mikið af honum þarna um kvöldið. Við erum yfirleitt sein því við stoppum svo mikið á leiðinni þegar við erum í svona ferðum. Maður er aldrei of seinn að vera alltof seinn eins og maður segir stundum.

Bílstjórinn þunnhærði spurði hvort við ættum pantað en svo var ekki svo hann keyrði okkur strax á hótel sem var við aðalgötuna og var hótelstrákurinn greinilega félagi hans. Það er alveg víst að ökumenn fá prósentur fyrir að koma með farþega sína á viss hótel og er maður því ávallt viðbúinn að þeir hendi mann á lélegt hótel bara til að græða á því sjálfir. Ég kíkti samt inn og voru herbergin frekar skítug og yfirþyrmandi fúkkalykt í þeim. Ég spurði bílstjórann hvort það væri önnur hótel þarna og hann gekk með mér smá vegalengd og spurði á leiðinni hvort það hafi verið eitthvað að þessu hóteli. Ég svaraði bara að mér hefði ekki líkað það og var sennilegast frekar þurr á manninn því ég var orðinn pirraður á þessu almenna hótelpoti bílstjóra. Næsta hótel var lítið betra en ekki sama fúkkalyktin og herbergið var frekar hlýtt þannig að ég ákvað að taka það bara. Ég spurði hann reyndar áður en ég ákvað að taka það hvort það væsri eitthvað annað hótel í bænum og hann bara yppti öxlum og mumblaði eitthvað sem ég skildi sem nei.
Afgreiðslustrákurinn á fyrra hótelinu beið við bílinn, hafði komið hlaupandi út af hótelinu þegar við gengum í átt að hinu og spurði Sonju hvert við værum að fara. Hann var frekar pirraður þegar hann heyrði að ég ætlaði að taka hitt hótelið - eiginlega grautfúll.

Eftir að við höfðum skráð okkur inn á hótelið og komið farangrinum fyrir á herberginu fórum við í veitingahúsaleit. Um 50 metrum frá hótelinu okkar var fínn veitingastaður í mjög góðu hóteli sem rekið er af ferðaráði Himachal Pradesh héraðsins. Við hefðum alveg örugglega tekið það hótel ef bílstjóradruslan hefði sagt okkur frá því - ég spurði hann beint út hvort það væri annað hótel - hann var greinilega ekki á prósentum á þessu ríkishóteli.

Eftir ágætan kvöldmat fórum við aftur upp á hótel. Við komumst að því að rúmfötin voru vægast sagt skítug - koddarnir útataðir í hárum frá síðasta gesti og sængurnar höfðu greinilega ekki verið þvegnar á þessari öld né þeirri síðustu. Í slíkum tilvikum koma ferðasvefnpokarnir okkar ágætu í góða notkun því maður þarf bara dýnuna og sefur í svefnpokanum. Sængurnar sofa á gólfinu.
Við fórum tiltölulega snemma að sofa - vorum sofnuð um 10 leytið.

Sonju finnst pöddur asnalegar - mér finnst asnar sætir.

2 ummæli:

Burkni sagði...

Brandy er bara sterkt vín (eimað) úr vínberjasafa, en konjak er brandí frá Cognac-héraði í Frakklandi.

Vitið ér enn, eða hvat?

Joi sagði...

Ok, tha er Koniak sennilegast ekki faanlegt herna - svipad og Cobra bjor.