Ég leit á klukkuna á símanum, klukkan var rétt rúmlega 5.
Við vorum sammála um að þetta hlyti að vera úr Hindúahofinu sem var staðsett innan við 100 metra frá hótelinu okkar. Hávaðinn var reyndar það mikill að við vorum ekki viss um að þetta kæmi þaðan, þetta hlyti að koma frá hávaðasömum hljómflutnings- eða hávaðaflutningstækjum fyrir neðan gluggan hjá okkur, en við vorum á annari hæð.
Ég starði aðeins út um gluggann og enginn var á ferli og enginn kom brjálaður út úr hótelinu til að lækka.
Eyrnatapparnir komu enn að góðum notum og náðu þeir að slá aðeins á tónlstina en ekki nægilega - ég vissi að ég myndi ekki sofa í þessu ástandi.
Ég ákvað því að prófa iPod-inn minn og setti einhverja graðhestatónlist á - "fight fire with fire" sagði einhver. Þegar ég hafði hækkað í spilaranum þannig að mín eigin tónlist yfirgnæfði nokkurn vegin tónlistina að utan var ég búinn að hækka mjög vel, sennilegast um 80% styrkleika þannig að ég var ekkert að fara að sofa. Ég lá því og hlustaði á undurfagra graðhestatónlistina og hugsaði um rokkár mín og strákanna á unglingsárunum í hljómsveitinni Del Credere.
Ég var með magaverk þegar ég vaknaði um nóttina og ágerðist hann aðeins þegar leið á. Illur bifur minn af hádegismatnum var greinilega á rökum reistur - ég var kominn með vott af matareitrun.
Klukkan 6:40 rúmlega einni og hálfri klukkustund eftir að tónlistin byrjaði þagnaði hún. Ég tók heyrnartólin undrandi og varlega úr eyrunum, trúði þessu varla - þögn - yndisleg þögn. Ég sofnaði stuttu síðar með unaðslega þögnina á fullum krafti í eyrunum.
Maginn var ekkert betra þegar ég vaknaði en ég var orðinn góður þegar leið á morguninn. Þetta hafði sem betur fer verið eitthvað vægt - sennilegast ekki meira en nokkur þúsund saurgerlar sem hefðu lent í maganum.
Um morguninn skoðuðum við aðeins þorpið og hofið, rákum þar augun í stórt gjallarhorn sem stóð út úr hof-turninum sem hafði valdið háfaðanum um nóttina. Hótelstarfsmaðurinn staðfesti það að hofið var hávaðaseggurinn og er þetta víst á hverri nóttu. Bæjarbúar vakna þá og liggja á bænum um nóttina - steikt lið.

útsýnið frá morgunverðarborðinu var frábært.

Gjallarnhornið hræðilega sést gægjast þarna út.

Hofið er allt útskorið og hið glæsilegasta.

Fallega skeggjaður maður bíður þess að fá að fara inn í hofið en vopnaður vörður var við það og bannaði mönnum að fara inn á sokkum.

Hittum þessa sígaunakonu við hofið - hún heimtaði pening fyrir myndatöku og ég borgaði henni 10 Rs og fékk bara að taka eina mynd sem reyndist síðan ekki nógu góð.

Maður vinnur á akrinum.

Kona þvær sér á aðalgötunni í bænum.
Ég var hálf pirraður á bílstjóranum eftir hóteldæmið daginn áður og hafði ég reyndar verið að skipuleggja hálfa nóttina hvernig ég gæti knésett hann og afhjúpað hann sem loddara. Ég fann ekkert gott ráðabrugg og ákvað því að taka einu skynsamlegu leiðina, að mér þótti: Vera fúll á móti.
Hann hafði spilað indverska tónlist í bílnum daginn áður, eins og siður og venja er, en þó ekki á hæsta styrk sem er óvanalegt. Ég bað hann mjög fljótlega þennan daginn að lækka tónlistina og endaði það á því að hann svo gott sem slökkti.
Vinur bílstjórans sem einnig er bílstjóri var í hálfgerðu samfloti með okkur - við hittum hann nokkrum sinnum daginn áður og heilsaði hann upp á okkur þarna um morguninn. Hann var með yfirvaraskegg og brosmildur og virtist vera ágætis náungi. Hann spjallaði aðeins við bílstjórann þegar við vorum að leggja af stað úr bænum og sagði okkur á ensku frá mjög góðu hóteli í næsta bæ sem væri ódýrt - ég lét sem ég heyrði ekki í honum enda kominn með nóg af þessari vitleysu.
Fljótlega eftir að við héldum af stað keyrðum við framhjá skilti sem bauð okkur velkomin í Kinnaur dalinn.
Við lásum það að þessi leið er sú líklegast sú svakalegasta á öllu Indlandi og skil ég alveg af hverju menn halda því fram. Vegurinn klifraði upp fjallið og þegar vegurinn var sem svakalegastur var alveg þverhnýpt niður og veit ég ekki hversu hátt frjálst fall er niður - ég gæti trúað því að það væri um 300-400 metrar en gæti verið meira. Vegurinn er á köflum sprengdur inn í bergið og er eins og göng með annari hliðinni klippta af. Erfitt er að skila þessu á myndum en hérna eru nokkrar sem við tókum á þessari leið:

Horft yfir grænt landssvæðið sem er með áberandi fyrir stalla sem gerðir hafa verið til að búa til ræktunarland.

Vörubíll fer í gegnum lítil göng hátt uppi í fjöllunum.

Leiðin hefur verið sprenngd í bergið.

Nokkrir bílar á leiðinni.

Ef grannt er skoðað má sjá veg efst í klettaveggnum.
Við fórum úr bílnum og gengum í gegnum búðir vegavinnufólks, reyndist það vera bæði frá Indlandi og Nepal. Þau tóku okkur mjög vel og var gaman að sýna þeim myndir á myndavélinni sem við höfðum tekið af þeim. Sonja spjallaði við konu sem vinnur þarna og er með barn með sér. Barnið er eins árs og hún er búinn að vinna þarna í vegagerðinni jafn lengi, þ.e. eitt ár. Fína fæðingarorlofið það. Hún talaði ágætis ensku - betri en bílstjórinn - og voru þau hjónin að vinna þarna í eitt ár til að koma sér upp byrjunarsjóði og ætluðu ekki koma aftur víst. Sonja spjallaði einnig við ungan Nepalbúa og skildist henni að hann væri þarna mánuð í senn en hann talaði svipaða ensku og bílstjróinn svo ekki er víst að hann hafi skilið spurningar Sonju.

Verkamenn hvíla sig á steini og hæna hleypur rétt hjá.

Setið við spil í þorpinu.

Fólk að þvo sér eftir erfiðan vinnudag.

Ekki mjög aldnir verkamenn.

Stúlka með sápu í hárinu.

Þessum fannst alveg magnað að sjá sjálfan sig í myndavélinni.

Þessum líka.

Mikið ryk kemur frá þessari vinnu og menn notast við klúta til að þrauka þetta.

Möl mokuð í höndum upp í vörubíla.

Stúlkan sem Sonja spjallaði sem mest við.

Þessi aumingjans drengur sem virkar mikið gæðablóð er óheppinn með tennur.
Við stukkum augnablik út úr bílnum þarna uppi, skoðuðum stóran stein sem var við vegabrúnina og tókum nokkrar myndir. Í því bar að lítinn fólskbíl með tveimur fánum fyrir ofan bæði framljósin eins og bifreiðar ætlaðar heldra fólki eru gjarnan skreyttar með. út úr bílnum stukku 4 menn og bílstjórinn beið í bílnum. Sá sem var greinilega æðstur af þessum mönnum ávarpaði okkur og spurði hvað við værum að gera. Ég hélt fyrst að þetta væru einhverjir leynuþjónustumenn að athuga hvort við værum með einhverjar njósnir þarna en það kom í ljós að þetta var jarðfræðingur sem hafði séð okkur skoða steininn og vildi vita hvort við værum starfsbræður hans.
Þegar við spurðum hann um það hvort hann væri að vinna eitthvað við jarðfræði hérna á svæðinu svaraði hann því til að hann væri "Political Leader" fyrir héraðið, það skýrði það skreytta bílinn og aðstoðarmenn. Hann sagði að í héraðinu væru 80.000 manns sem fylgdu honum og ég sagði að hann væri greinilega "Very importand man".
Hann svaraði: "I'm very, very, very V.I.P".
Hann spjallaði dágóða stund við okkur og sagði okkur frá héraðinu, eitthvað sem bílstjóradruslan hafði ekki gert neitt af, og útskýrði steininn á fræðilegan hátt en hann mynstraður eins og tré og glansaði nánast eins og gimsteinn þrátt fyrir að vera um rúmmeter af stærð.
Góður og skemmtilegur maður - ætli það sé atvinnusjúkdómur hjá jarðfræðingum?

Steinninn sem við skoðuðum með jarðfræðingnum geðfellda, þetta er víst granít.
Eftir þessa mögnuðu fjallaleið lækkaði vegurinn og keyrðum við í gegnum stæðið sem Wangtoo stíflan mun rísa, sem mun framleiða 1000 MW. Skrítið er að vegurinn liggur beint í gegnum byggingasvæðið - við þurftum að víkja fyrir stórgerðum vinnuvélum en flautuðum frekjulega á stritandi verkafólkið.

Unnið við stíflugerð.
Eftir stífluna hækkaði vegurinn aftur og við fórum upp í afar fagran og hrikalegan dal með miklum gróðri. Mikið ræktarland er í dalbotninum en hlíðarnar stórgýttar með trjám á milli tröllgerðra hnullunga.

Efst uppi í fjallinu í sprengdri leið í berginu er lítill kofi og þessi maður blessar þá sem keyra framhjá - gefur þeim skrítið sælgæti og setur rauðan blett á ennið.

Þessi maður í litlu þorpi var nánast gráti næst af ánægju yfir að ég skildi taka mynd af sér og stillti sér nokkrum sinnum upp fyrir mig ásamt því að biðja mig um að taka myndir af fólki í kring sem hann þekkti. Eftir myndatökuna hélt hann lengi í hönd mína og þakkaði mér margoft fyrir og var nánast með tárin í augunum. Það eru svona lítil augnablik sem gera ansi mikið fyrir svona ferðalög.

Konan hans.

Myndarleg fjölskylda.

Geitahjörð.
Endastöðin þennan daginn var bærinn Sangla og þegar við skriðum inn í bæinn fórum við Sonja að spjalla saman um það hvernig við ættum að tækla hótelmál því hann myndi örugglega keyra okkur beint á hótel hjá einhverjum vini sínum. Það er gott að hafa íslensku sem móðurmál á svona stundum, enskumælandi ferðamann hljóta að reyna finna upp á dulmáli sín á milli.
Þegar við vorum nýkomin inn í bæinn sem greinilega hafði sæmilegt úrval af svefnplássi, sáum við ágætis hótel sem stóð reyndar við hávaðasama brú. Ég sagði bílstjóranum að við ætluðum að skoða þetta hótel og hann sagði að það væri bæði lélegt og dýrt. Með þeim orðum sínum var hann búinn að sannfæra mig um að taka þetta hótel til að lækka í honum rostann, svo gott sem óháð ástandi herbergisins. Ég kíkti inn og eldri herramaður sýndi mér herbergi sem var lítið en alveg ágætt. Það var mjög kalt í því en það er ekkert sem svefnpokarnir góðu geta ekki reddað og nokkur teppi frá hótelinu.
Ég tilkynnti Sonju að herbergið væri fínt og við ákváðum að gista á því um nóttina. Bílstjórinn lagði bílnum og var greinilega mjög pirraður á þessari þrjósku í okkur svo við kvöddumst frekar ósáttir en létum ekki á miklu bera.
Ég var sigri hrósandi yfir að hafa náð að knésetja bílstjórann og fór strax að hugsa frekari leiðir til að nota í baráttu minni við hann daginn eftir - Sonja hafði aðrar hugmyndir!
Sonja hélt smá lestu yfir mér þegar við komum á hótelið að þetta væri bara svona sem þessi ferðabransi hérna á Indlandi virkar - allir eru að reyna að ná sem mestu af ríku túristunum. Við gætum verið fúl á móti og í stanslausri baráttu eða við gætum bara tekið þessu sem gefnu, spilað í kringum þetta og brosað framan í fólkið - þá fengjum við betra viðmót á móti.
Ég maldraði eitthvað í móinn en vissi að þetta var rétt hjá henni. Ég á það til að vera fúll á móti þegar gríðarlega sterkri réttlætiskennd minni er misboðið en það er kannski ekki alltaf besta leiðin.
Ég ákvað því að tækla morgundaginn öðruvísi og láta af skæruhernaðinum við bílstjórann.
Við snæddum kvöldverð á veitingastað skammt frá hótelinu - hann leit ekkert voðalega vel út en varð að duga. Gólfið var skítugt og plastborðin litlu skárri. Nánast enginn var þarna inni - tveir eplasölumenn í hefðbundum "Kinnaurdala-fötum" voru á næsta borði, körpuðu um verð á eplum og drukku viskí. Þetta leit ekki mjög matsölustaðslega út því það var enginn matur á borðum og bara einn ungur strákur að afgreiða. Við pöntuðum samt mat, Sonja fékk sér steikt hrísgrjón en ég indverskan kjúklingarétt og chapati. Eftir að ég hafði klárað brauðið bað ég um meira og fékk eitt chapati í viðbót sem tók aðeins 15 sekúndur að framreiða heitt. Þetta hefði átt að segja mér að borða það ekki en skynsemi á enga samleið með fræknum heimshornaflökkurum og ég borðaði því brauðið. Bragðið á brauðinu hefði líka átt að segja mér að borða það ekki en mér fannst vera þráabragð af því eins og það hefði staðið allan daginn heitt og eins fann ég rykbragð af því. Ég borðaði það samt með bestu lyst og skolaði því niður með 8.25% bjór.
Ég hefði ekki átt að borða þetta brauð.

Sonja við kvöldverðarborðið

Sonja kampakát en ég orðin skrítinn í maganum.
Við kvöddum eplasölumennina eftir kvöldréttinn og héldum upp á hótel. Það er gaman að sjá klæðnaðinn á þessum mönnum hérna því þeir eru yfirleitt í snjáðum gömlum jakkafötum, dökkir á hörund með veðrað andlit. Minna um margt á fyllibyttur heima á Íslandi.
Við vorum bæði gríðarlega þreytt eftir daginn - ég var nánast sofnaður kl. 20:41 en náði að halda mér vakandi til 22 og steinsofnaði þá.
Erfið nótt var framundan.
3 ummæli:
Mér þykir ansi ólíklegt að þetta sé granít - granít er djúpberg og erfitt að sjá fyrir sér að það sé svona lagskipt og bylgjótt.
Besserwiss dagsins var í boði Landsbankans og FL Group.
sammála burkna spurning hvað jarðfræðingurinn okkar segir um málið. Haldið þið að við verðum að senda ykkur koníak í pósti til að bjarga málunum?
Ég mundi halda að þetta væri mjög ummyndað granít og heitir þá gnæss (eða gneiss á útlenskunni), en gnæss getur líka verið myndað úr setbergi, en þetta er semsagt mjög ummyndað eins og bergið í Himalaya er gjarnan, enda myndað við að Indlandsflekinn klínist upp í Asíu. En við það þá koma jarðlögin sem eitt sinn voru lengst niðrí jörðinni upp á yfirborðið öll svona krumpuð eins og þessi steinn er.
Besserviss dagsins var í boði ítölsku mafíunnar.
Skrifa ummæli