Bærinn er hvað helst þekktur fyrir apana sem halda til í bænum og eru í það miklu magni að það er til vandræða. Hafa bæjarbúar tekið upp á því ráði að fylla sendiferðabíla af öpum og fara með þá lengra upp í fjöll til að sporna aðeins við þessu og eru einnig byrjaðir að gelda þá. Samt virðast aparnir og mennirnir lifa í sæmilegu samkomulagi þó að aparnir séu þjófóttir.

Hluti af borginni - sést ágætlega hvernig bærinn er byggður í hlíðinni.

Annað sjónarhorn.
Alls staðar má sjá apa hangandi í trjám eða ofaná húsum og var bráðskemmtilegt að standa við þrönga verslunargötu með gömlum húsum og horfa á apana klifrandi utan á húsunum. Þeir nota mikið rafmagnslínur og grindur við að klifra og fara milli húsa en skokka einnig stundum rétt við fætur manns, oft innan við meter og virðast mjög gæfir. Ef maður sýnir þeim of mikla eftirtekt, t.d. að fara með andlitið nálagt þeim þar sem þeir eru hinummegin við girðingu sýna þeir manni hvað þeir eru vel tannburstaðir.
Við fylgdumst lengi með öpunum hanga í kringum grænmetisbásinn/búðin og virtist kaupmaðurinn haa einstaka þolinmæði gagnvart þjófóttum öpum sem klifruðu öðru hvoru niður úr húsunum og stálu sér grænmeti en flýttu sér síðan aftur upp á þak til að gæða sér á kræsingunum.

Aparnir að undirbúa einhver prakkarastrik.

Þessi apaungi er kannski fjarskildur ættingi Púka litla kanínunnar okkar því hann var að rífa bréf af vegg til átu.

Þið eruð að fara í vitlausa átt!

Nýbúinn að stela frá grænmetissalanum og forðar sér með þýfið.
Við vöknuðum eftir morgunlúrinn skömmu fyrir hádegi í nístingskulda. Við hentumst í fötin og vorum fljót út því það var sól og ólíkt heitara úti heldur en inni í frystiklefanum sem við höfðum leigt okkur.
Það var eiginlega svona sautjanda júní stemming í bænum, krakkar með blöðrur, verið að reiða hesta undir ungu fólki og allir vel klæddir. Ég held að miðbærinn sé svona flesta daga því eins og áður sagði er hérna mikið af ferðamönnum sem koma í rólegheitin og þægindin.

Miðbærinn.

Þessar stúlkur höfðu klætt sig upp og báðu Sonju um að sitja fyrir á mynd með þeim.
Eftir að hafa snætt morgunmat á flottum og virðulegum stað þar sem virtust aðeins vera bæjarbúar og þjónarnir voru í indverskum einkennisklæðnaði, fórum við til skraddarans til að pakka inn síðasta skammtinum af hlutum sem við ætlum að senda heim. Við settumst inn hjá honum og voru þeir alls þrír þarna inni að vinna og sá yngsti, fýlulegur maður sá um að pakka inn dótinu okkar. Það tók ágætis tíma, í heildina um 1,5 klukkustund að pakka inn þremur pökkum og fylgdumst við með þeim elsta af þeim sauma saman jakkaföt og var það fróðlegt. Reyndar vorum við svo lengi þarna inni að ég var að gæla við að láta hann henda í ein jakkaföt fyrir mig á meðan við biðum.

Hjá skraddaranum.

Heimamenn fylgjast með Ástralía - Indland í krikket á sjónvarpi í búðarglugga ... ég held að Indland hafi verið að vinna.

Aparnir eru m.a.s. áhugasamir um krikketið.
Við kíktum inn á tvær ferðaskrifstofur til að fræðast um ferðir til Kinnaur dals sem er 3-4 daga ferð á bíl. Verðin voru mjög svipuð og við ákváðum að bíða aðeins með að festa ferðina. Þegar við gengum framhjá hótelinu okkar sáum við aðra ferðaskrifstofu þar fyrir utan og þar reyndist vera fjári góður sölumaður sem talaði góða ensku og seldi hann okkur ferðina á staðnum og ekki bara það heldur fékk hann okkur til að taka fjóra daga í staðin fyrir þrjá og reddaði auk þess báðum lestunum til Delí daginn eftir að við kæmum heim úr ferðinni. Svona eiga sölumenn að vera - plata mann alveg upp úr skónum. Aðalástæðan fyrir því að við ákváðum að taka ferðina hjá þessum manni var auk góðrar enskukunnáttu hans loforð hans um góðan bíl og bílstjóri sem myndi segja okkur mikið um staðina sem við myndum skoða og tala mjög góða ensku.

Við lofuðum ferðaskrifstofueigandanum að prenta út þessa mynd og gefa honum.
Við snæddum kvöldverð á flottu hringlaga veitingahúsi á aðalgöngugötunni, eða torginu eiginlega, en sem betur fer snerist það hvorki né hökti. Það var orðið nístingskalt þegar við gengum inn á staðinn, ég aðeins klæddur í kvartbuxur og stuttermabol og öngvir leigubílar í bænum - við vorum í um 20 mínútna göngufæri frá hótelinu.
Ég sá mér því þann kost vænstan að drekka mig blindfullan til að þola gönguna í kuldanum aftur á hótelið. Eftir tvo Kingfisher bjóra sem hvor er 650ml langaði mig bara ekki í meira og við héldum heim, ég var reyndar orðin kenndur og bjórinn gerði þrautargönguna heim þolanlegri. Ég gróf hendurnar í skeggið til að halda þeim heitum.

Kvöld í Shimla.
Herbergið var jafn kalt og við skildum við það svo við skelltum okkur í ágæta svefnpoka okkar, bundum fyrir við hálsinn og ég vélrita þetta því með nefinu.
Talandi um að skrifa þá er kannski við hæfi að útskýra hvernig við vinnum ferðabloggið okkar: Ég skrifa inn textann á fartölvuna og Sonja sér um að fara yfir, laga bæði stafsetningu, orðalag og koma staðreyndum á hreint sem ég á oft erfitt með að fara rétt með. Einnig bætir hún við því sem hún vill koma að.
Við veljum síðan í sameiningu myndir á kvöldin sem við viljum setja á bloggið og ég klára tæknibúxið. Ég sé almennt um allt tæknitengt en Sonja um pökkun og skipulagningu.
Einfeldningur kom að máli við okkur þegar við vorum á leið á hótelið af hringlaga veitingahúsinu og svona var samtal okkar:
"Hello" sagði hann og brosti vinalega.
"Hello" svaraði ég og virti hann fyrir mér.
"How old are you?"
"I'm 35 years old." sagði ég, felldi haus og sagði "Apúff".
"Wow - that's old" svaraði hann þá að bragði furðulostinn.
Ég staulaðist í burtu.
2 ummæli:
Er skeggið þitt orðið eins og hjá Chuck Norris - þannig að þú getur endurkastað byssukúlum af því og þannig?
Ja, thad fer ad vera svipad og hja chuck - bara rytjulegra thvi eg hef ekkert snyrt thad. Hef ekki athugad hvort thad endurkasti byssukulum, viltu ad eg kanni malid?
Skrifa ummæli