Kashmir hefur verið sjálfstætt ríki í margar aldir og þegar Indland og Pakistan urðu sjálfstæð ríki um miðja 20. öldina versnaði staða Kashmir því bæði lönd höfðu áhuga á að innlima þetta fagra og gjöfula land ásamt þekkingu og öðru sem þar var að finna inn í ríki sín. Pakistan gerði loks innrás í Kashmír og Kashmírbúar báðu Indverja um hjálp sem gerðu það með þeim skilyrðum að þeir fengju viss ítök í stjórn Kasmír og var um það samið en Kasmír yrði áfram sjálfstætt og myndi ráða sér sjálft. Indverjar hröktu Pakistan frá landinu og tóku í kjölfarið alla stjórn landsins upp á sína arma og brutu þannig nokkur af þeim loforðum sem þeir höfðu gefið. Indlandsher varð í kjölfarið meira og meira áberandi í landinu vegna þess að skæruhernaður gegn Indlandi varð meira og meira áberandi og vilja menn meina að mikið af þeim skærum hafi komið beint frá Pakistan sem skaffaði skæruliðum bæði vopn, mannskap og þjálfun. Venjulegir íbúar voru á milli steins og sleggju því þeim var oft hótað með vopnum að aðstoða skæruliðana - indlandsher setti því alla íbúa Kasmír undir sama hatt - skæruliða og uppreisnarmenn.
Þetta olli því að herinn fór með íbúa héraðsins eins og skeppnur og morð og pyntingar urðu daglegt brauð.
Ástandið var sem verst um 1995 en það hefur batnað til muna frá því og má t.d. nefna að fyrir nokkrum árum var ekki hægt að keyra nema í mesta lagi í 5 mínútur í borginni áður en bíllinn var stoppaður af varðstöðvum og leitað í honum. Núna er hægt að keyra um nánast alla borg án þess að vera ónáðaður af hernum þó að herstöðvar séu mjög víða og áberandi.
Herinn er einnig fámennari í Kasmír heldur en áður og eru um 300.000 hermenn í héraðinu núna - okkur finnst eins og við séum búin að sjá svona 256.512 af þeim.
Teppasalinn mikli frá Kasmír sagði okkur frá því að hann hafi verið handtekinn eina nóttina og hélt að hann yrði myrtur því það fylgdi alltaf í kjölfar handtöku. Honum var sleppt af yfirmanni sem var greinilega í góðu skapi þessa nóttina og þegar hann gekk frá hersveitinni beið hann eftir að fá skot í bakið því þeir "slepptu" oft fólki bara til að skjóta það á leið burtu, þá var hægt að segja að viðkomandi hafi verið skotinn á "flótta". Hann komst því í burtu en varð alvarlega þunglyndur og tók hann nokkur ár að jafna sig á því. Mjög margir vinir hans og fjölskyldumeðlimir létu lífið á þessum tíma þannig að þetta hefur tekið mikinn toll af flestum íbúum Kasmír. Hvernig gátum við ekki keypt af honum teppi eftir svona formála?
Hermenn náðu sér í stöðuhækkanir og orður með því að taka saklausa borgara, myrða þá og afskræma andlit þeirra þannig að þeir þekktust ekki (og því ekki hægt að hrekja sögu þeirra) og særa sjálfa sig með skrámum og segja að þeir hafi náð að fella skæruliðann í bardaga.
Þessi hlið á skálmöldinni er að sjálfsögðu einhliða og frá íbúa Kasmír komin en ég hef enga ástæðu til að efast um þetta því stríð eru grimm og hræðileg.
Við kvöddum starfsmennina ágætu á húsbátunum upp úr 7 um morguninn og lögðum af stað úr borginni með sama bíl og bílstjóra og í skoðunarferðinni daginn áður. Bæði bíll og bílstjóri voru hinir ágætustu og því ágætt að fá bílstjórann til að keyra okkur líka til Jammu sem er um 8 tíma keyrsla með stoppum.
Srinigar var að vakna eftir næturdvala þegar við keyrðum úr borginni og við sáum fólk vera að opna búðir og hreinsa göturnar í morgunsólinni sem sendi fallega geisla á milli húsa og trjáa í morgunmistrinu sem gaf skemmtilega birtu. Sígaunar voru víða að reka fjárhópa, greinilegt að þeir fara snemma af stað til að vera á undan morgunösinni. Fólk var farið að vinna við að berja hrísgrjónin úr stránum og gerðum við gott stopp í að fylgjast með þeim og taka myndir.
Eftir því sem við fjarlægðumst miðpunkt Srinigar fór herinn að vera meira áberandi því þetta er mikilvæg herflutningaleið. Á stórum hluta leiðarinnar voru hermenn með alvæpni á verði á um 50m fresti hvort sem það voru aðeins akrar eða úthverfi. Það var skrítið að sjá mann vinna á akrinum og alvopnaðan hermann á verði skammt frá honum. Eins voru hermenn á þökum hrörlegra húsa í litlum þorpum í útjaðri Srinigar og vélbyssuhreiður með ákveðnu millibili. Hermenn með málmleitartæki leituðu af jarðsprengjum meðfram götunni og það minnti okkur á hættuna sem er alltaf kraumandi undir yfirborðinu. Við sáum einnig hermenn með spegla leita undir bílum að sprengjum og tvisvar voru þeir með gasgrímur að brasa eitthvað sem ég veit ekki hvað var. Kannski eru þeir bara að þessu til að losna við skítalyktina sem er oft yfirgnæfandi og ég hef gert góð skil áður. Við erum reyndar orðin vön henni, eða eins og það er mögulega hægt, og við gætum þessvegna setið með fólki heima inni á klósetti á meðan það teflir við páfann til að spjalla án þess að kippa okkur mikið upp við það.
Við höfum séð eins og víða á ferðum okkar minnismerki um óþekkta hermanninn en engin um óþekka hermanninn - hvers eigum við sem óþægir erum að gjalda?

Unnið á akrinum.

Hrísgrjónin slegin úr stránum.

Hirðingi að svipast um eftir kindunum.

Sígaunakona að reka fjárhóp.

Sígauni með hestahóp.

Sígaunakona með hestahóp.

Sígaunabúðir.
Þegar við fjarlægðumst borgina og skríða upp í fjöllinn varð umferðin miklu, miklu þyngri og voru langar biðraðir, mest með flutningabílum áberandi. Þar sem við vorum á litlum bíl gátum við skotist fram úr þessum röðum sem oft voru með meira en 100 bíla stopp og vorum við ánægð með að sleppa við alla þessa bið. Í einni biðröðinni nýttum við tækni hjólreiðamanna og létum herjeppa fullan af hermönnum brjóta vindinn og eltum hann þar sem hann flautaði smærri bíla frá sér og fór því nokkuð hratt yfir. Aftasti hermaðurinn í bílnum var valdsmannlegur með yfirvaraskegg og taldi sig greinilega stóran kall. Þegar bíllinn komst ekki áfram vegna bíla fyrir framan stökk hann út að aftan með riffil sinn og gekk hratt að bílunum fyrir framan en hann var frekar óheppinn greyið því hnúturinn leystist iðulega þegar hann var nýkominn úr bílnum og þurfti í sífellu að hlaupa á eftir honum og stökkva inn á ferð að aftan án þess að hafa náð að skamma nokkurn mann. Þetta gerðist svona 4-5x áður en við misstum sjónar af bílnum þegar við þurftum að sýna vegabréf okkar á mjög óskipulagðri lögreglustöð lengst uppi í fjöllum.
Náttúran á þessari leið var falleg, skógi vaxnar hæðir en þar sem þessi náttúra stóð þeirri sem var á milli Leh og Srinigar svo langt að baki þá þótti okkur hún nánast ómerkileg. Seinni hluta leiðarinnar glöddu apar augað sem dvelja í miklu magni við veginn og bíða þar eftir grænmeti og öðru sem fólk hendir gjarnan úr bílum sínum þó það sé harðbannað.

Apar við veginn.
Gríðarlegar biðraðir settu mark sitt á þessa leið því minniháttar slys virðast vera algeng og það þarf bara einn trukkur að hlekkjast á í þessum fjallvegum til þess að langar biðraðir myndist enda mjög umferðaþung leið. Mjög margar rútur eru á þessari leið og er um 90% af þeim stappaðar af hermönnum og er það víst daglegt brauð allur þessi herflutningur. Manni fallast hendur yfir því hversu mikið batterí herinn er og þegar maður sér allt fólkið á götunni sem hefur ekkert í sig og á verður maður hissa á þessari bilun sem svona stríðsbrölt er.
Á skilti sem við sáum á leiðinni stóð: "Indian army: Our pride" - já, það er ekki öll vitleysan eins.

Rútubílstjóri bíður í biðröð.

Ryk á vegum verður oft mjög mikið.
Við tékkuðum okkur inn á fyrsta hótelið sem við skoðuðum í Jammu og fengum okkur síðan stuttan göngutúr í borginni sem virðist ekki ýkja spennandi. Betlarar bögguðu okkur og hávaði og læti í umferð var það sem helst var áberandi í þessari stuttu gönguferð.
Á leið heim á hótelið sáum við hringlaga efstu hæð á stóru hóteli sem stóð við hliðina á okkar hóteli og virtist þetta vera hinn ágætasti veitingastaður svo við skelltum okkur á hann. Við grínuðumst með það þegar okkur var vísað til borðs að þetta myndi kannski snúast eins og perlan því þetta var svipað að innan, þ.e. hringlaga og borðin við gluggann sem gaf gott útsýni yfir borgina. Þegar við vorum að bíða eftir matnum kom allt í einu smá högg á staðinn eins og einhver hefði keyrt á húsið og var það einungis gólfið að fara af stað í hring. Þetta er greinilega svar Jammu búa við Perlunni okkar. Þar sem Sonja er afskaplega viðkvæm og auk þess prinsessa varð þessi hreyfing á gólfinu sem þegar til kom snérist nokkð hratt, sennilega helmingi hraðari en í Perlunni og hökti öðru hvoru, til þess að hún varð sjóveik og borðaði bara einn bita af rándýru og bragðgóðu lambaketinu sem hún hafði pantað og skildi því eiginlega allt eftir. Þjónninn sá þetta greinilega þegar við báðum um reikninginn og kom með blað sem hann bað okkur að fylla út um það hvernig okkur hefði líkað staðurinn og skrifaði Sonja í reitinn yfir hvað betur mætti fara: "Let us know before that the floor will turn - it made me seasick.". Við skiluðum miðanum til þeirra og sáum þegar við vorum að bíða eftir lyftunni allt þjónaliðið grúfa sig yfir miðann, greinileg aað reyna að skilja hvað við vorum að segja.

Kokkarnir - Sonja - Miðbærinn. Endurspeglun á glugganum á veitingahúsinu nýtt.
Í afgreiðslunni niðri á þessu flotta hóteli var auglýsing um einkapartý í sal á hæðinni þar sem starfslokum Mr. Idago var fagnað. já, öllu er nú hægt að fagna!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli