Á hótelinu eru tveir matsölustaðir hvor á móti öðrum og er inngangurinn nánast alveg eins. Eini munurinn er að fyrir ofan annan stendur Veg (grænmeti) og hinn Non-veg (kjötréttir). Manni verður spurn hvort þeir sem ramba inn á Veg staðinn lenti þar í höggstokk og séu síðan matreiddir fyrir þá sem sækja hinn staðinn. Við tefldum á tvær hættur og fórum á Veg staðinn og fengum þar ristað brauð í morgunmat. Kenning okkar var ekki rétt því að ég lifði þetta af og skrifa þessi orð.

Sonja nývöknuð og þreytuleg.
Fyrsta mál á dagskrá áður en við myndum skoða borgina betur var að kanna hvaða möguleika við hefðum á að komast til Amritsar sem yrði okkar næsti áfangastaður og Jammu í raun stoppistöð á ferð okkar þangað. Við kíktum í upplýsingastofu í hótelgarðinum og þurftum þar að bíða í hálftíma eftir pirraðri afgreiðslukonunni sem strunsaði inn með þjósti, settist niður og spurði hvað í andskotanum við værum að gera þarna með tóninum í rödd sinni. Við spurðum hvort það væri hægt að taka lest eða rútu frá borginni til Amritsar og svar hennar var "We don't provide that service!". Við reyndum að spyrja hana hvar við gætum nálgast þessar upplýsingar en alltaf fengum við sama svarið: "We don't provide this service!" - The computer says no!
Við hliðina á var stærri upplýsingastofa þar sem við fengum öllu vinalegri meðhöndlun og var bent á rútustöðina sem var stutt frá hótelinu svo við ákváðum því að ganga þangað. Við fengum ágætis sýnishorn af miðbænum sem virkaði ekkert mjög spennandi - mikið af betlurum og aðrir nokkuð vel stæðir sem sagt ekkert sem gladdi auga né linsu.
Á strætóstöðinni var erfitt að fá leiðbeiningar sem við skildum um það hvenær ríkisrútan færi, hve mikið hún kostaði og hversu langan tíma það tæki að komast á endastöð. Við fórum því á litla ferðaskrifstofu sem var á rútusvæðinu og komumst að því þar að einkarútan, sem er skömminni skárri en ríkisrúturnar, færi eftir 23 mínútur en við sögðum honum að við gætum ekki náð henni því við ættum eftir að sækja farangur okkar sem væri auk þess ópakkaður. Afgreiðslumaðurinn sagði "No problem" þegar við sögðum honum hvaða hóteli við værum á og sagði okkur bara að drífa okkur á takmarkaðri ensku sinni. Við ræddum þetta aðeins á milli okkar og þar sem borgin virkaði óspennandi og farmiðinn frekar ódýr, aðeins 150 Rs þá ákváðum við bara að reyna að ná þessu, borguðum sölumanninum og gengum rösklega í átt að hótelinu. Við tókum tuk-tuk þegar við vorum komin yfir umferðargötuna en sögðum honum ekkert að við vorum að hraða okkur - nenntum ekki að gera mikið stress úr þessu, annaðhvort næðum við þessu eða ekki. Það sem einkenndi ferðina hjá mótorvagnstjóranum var að þegar betlarar komu hlaupandi í átt að mótorvagninum beygði hann snögglega í áttina að þeim til þess að láta þá lenda á hlið hans til að henda þeim aftur upp á gangstéttina - þennan leik lék hann nokkuð oft á leiðinni og var satt að segja nokkuð leikinn.
Við báðum hann að bíða fyrir utan hótelið, hentum síðan farangrinum okkar í töskurnar sem tók ágætis tíma og drösluðum honum síðan í lítinn vagninn og héldum af stað í átt að rútustöðunni. Þar sem farangur okkar er orðin frekar þungur, vegna kaupgleði okkar, þá átti mótorvagninn í stökustu vandræðum með þungan farminn + farangur okkar og þegar við vorum komin útaf hótelgarðinum drap hann á hjólinu og lét það renna því leiðin á rútustöðina er næstum öll niður á móti. Þetta gekk mjög hægt fyrir sig en við ákváðum bara að stressa okkur ekkert. Hann keyrði með vélorku síðustu 1-2 kílómetrana að stöðinni og fór þá að leita að rútunni okkar. Hann drap á hjólinu og spjallaði við einhvern og í sameiningu skoðuðu þeir kvittuna okkar vandlega og viðmælandi hans benti að lokum ákveðið í einhverja átt og bílstjórinn stökk upp í mótorvagninn, gaf allt í botn og var allt í einu virkilega stressaður - þeir höfðu greinilega séð tímann á rútunni sem var væntanlega liðinn og nokkuð rúmlega það, við vorum klukkulaus svo við vissum ekkert hvað tímanum leið.
Við fundum þetta loksins, töskunum var hent inn í rútuna og ég keypti vatn fyrir okkur við hliðina á henni með rútustjórann öskrandi í eyrað á mér að ég ætti að hundskast í rútuna. Við settumst inn og biðum í 30 mínútur eftir að hún færi af stað - borgaði sig greinilega fyrir okkur að stressa okkur ekkert á þessu því rútur fara af stað þegar þeim hentar.

Tuk-tuk ökumaðurinn að skutla okkur á hótelið.
Nokkrir karlmenn stóðu í röð og pissuðu utaní vegg á aðalstöðinni þegar við keyrðum útaf henni og okkur var hugsað til fréttar sem við höfðum séð á mbl stuttu áður sem bar yfirskriftina: "Maður kastaði af sér vatni fyrir utan skemmtistað". Það er greinilegt að það er misjafnt á milli landa hvað telst fréttnæmt.
Rutuferðin til Amritsar sem tekur um 4-5 klukkustundir reyndist hin viðburðarríkasta þó hún væri frekar óþægileg. Við sátum framarleg i rútunni - í næstfremstu röð - hægra megin, þ.e. bílstjóramergin. Bílstjórinn var ungur piltur með burstaklippt hár. Sæmilegt rými er vinstra megin fremst og þurftu 6 farþegar að sitja þar á litlum bekk og kistu fyrir miðju fyrir ofan skiptingunni og hékk aðstoðarmaður bílstjórans nánast út um hurðina mest alla leiðina - hann var ungur og grannur með brillíantín í dökku hárinu, skeggbrodda og yfirvaraskegg sem greitt var í hring út til hliðanna. Eins og áður sagði var þetta einkarúta en ekki ríkis og var skv. sölumanninum "delux" og "very comfortable"! Sætin voru jú hefðbundin rútusæti, eða voru það einvherntímann, en ekki svona 2ja manna bekkir og bílflautan spilaði eitthvað lag ef flautað var nógu lengi í senn, annars komu bara stakir tónar. Jú svo er líka lokuð farangurgeymsla og engir farþegar á þakinu.
Í sætunum við hlið okkar var kona með tvö börn í öðru sætinu og maður á miðjum aldri henni við hlið, þau voru ekki saman. Þegar rútan var nýlögð af stað steig par upp í rútuna á fyrsta stoppi - ung og falleg kona með fínlegt andlit og eiginmaður hennar eða unnustu sem var góðlegur og með yfirvaraskegg. Unga konan var greinilega alveg brjáluð út í hann því hann var eitthvað að reyna að tala við hana eftir að þau voru nýkomin upp í rútuna og hún nánast öskraði á hann og var greinilega að segja honum að halda kjafti. Síðan grúðfi hún sig í í fötin sín grátandi og karlmennirnir sem voru í kringum þau þarna fremst snéru sér allir að þeim og gláptu úr sér augun eins og Indverjum er lagið.
Þessa 5 tíma sem rútuferðin stóð yfir var hún ýmist grátandi eða að hella sér yfir hann og hann eitthvað að reyna að tala máli sínu - það gekk ekki og yfirgáfu þau rútuna í lok ferðar í sömu stöðu - hún brjáluð og hann pirraður og afsakandi.
Ökumaðurinn var með þann leiða ósið að hrækja stórum og góðum slummum út um gluggann hjá sér, líkt og flestir indverjar. Sonja sat við gluggann og ég út að ganginum og þegar ferðin var hálfnuð lygndi ég aftur augunum og dreymdi um svala sturtu því loftið í rútunni var afskaplega vont og hitinn nánast óbærandi. Ég rankaði við mér þegar það var eins og skvett væri vatni yfir mig, ekki köldu heldur í c.a. líkamshita og hélt ég að vatni hefði verrð skvett á rútuna því við vorum með opinn glugga. Þegar ég opnaði augun sá ég að þetta var ekki sturta eins og ég hafði ð myndað í huga mínum heldur var þetta væn hráka frá bílstjóranum sem hafði ekki ratað rétta leið niður á götuna heldur villst inn um gluggann okkar og lent á okkur - þó heldur meira á Sonju sem betur fer :-) Ég fékk góðan slurk af hrákanum brúnleita í eyrað og eitthvað í skyrtuna ásamt þéttum úða í andlitið en Sonja var ekki eins "heppin" því skyrtan hennar var með stórum brúnum blettum og þurfti hún að þvo sér í framan því slatti hafði lent þar. Við þurkuðum okkur í gardínuna og lokuðum glugganum. Við töldum það ekki erfiðsins virði að nefna þetta við bílstjórann því hann talaði enga ensku og væri auk þess skítsama um þetta.
Ég ætlaði að hlusta á iPodinn minn kæra en hann var hvergi að finna - við höfðum gleymt honum á hótelinu í Jammu. Það voru gríðarleg vonbrigði því ég hef notað hann talsvert í ferðinni og hann auk þess dýrasta módel. Það var ekkert við því að gera nema reyna að hringja á hótelið um kvöldið þegar við værum komin á áfangastað.
Við sátum í hálfgerðu móki í sætunum okkar í brakandi hitanum svöng því við höfðum ekki borðað annað en morgunmat og nokkur epli sem við höfðum tekið með okkur sem betur fer í ferðina sem var ákveðin með það skömmum fyrirvara að ekki náðist að gera betri ráðstafanir, og héldum að þetta gæti ómögulega orðið verra .... rangt! Brillíantínháraði aðstoðarmaðurinn opnaði box fyrir ofan bílstjórann og rótaði þar í víraflækju og kveikti á græjunum sem búið var að tengja við tilkynningakerfi rútunnar og var þetta spilað á áður óþekktum hæðum með skerandi hæstu tónum og gríðarlegri bjögun - við teygðum okkur í eyrnartappana okkar sem náðu aðeins að dempa þennan horbjóð. Barnið við hliðina var með svipaðan tónlistarsmekk og við og ákvað því að grenja og öskra í takt við tónlistina - það hljómaði mun betur. Við þetta bættist sífellt flaut okkar og annarra rútna í kring - allt myndaði þetta tilviljanakennda sinfóníu sem var kannski ekki ósvipuð sumum nútímasinfóníum sem fá stundum að hljóma á gufunni.
Eitt skipti þegar rútan var stopp, að hleypa fólki út í þorpi,kom önnur rúta á sömu leið á hvínandi hraða með flautuna í botni - okkar rúta fór örlítið af stað (af óskiljanalegum ástæðum) og skipti engum togum að hin rútan keyrði á spegilinn á okkar rútu ásamt því strjúkast aðeins við okkar á þvílíkum hraða - spegillinn lá í þúsund molum á götunni þegar hin rútan hvarf í reykmekki án þess að stöðva til að athuga verksumerki. Bílstjórinn á okkar rútu gaf í og upphófst æðislegur eltingaleikur þar sem við eltum meintan ökufantinn á þröngum götunum innan um gangandi vegfarendur, smærri farartæki, búfénað og annað lauslegt sem þvælist um á götunum hér á Indlandi. Rútan okkar var greinilega kraftmeiri en hin enda aðeins nýrri þó gömul væri og minkaði því bilið á milli rútnanna sífellt og þegar nær dró þá skiptust bílstjórarnir á einhverjum handabendingum útum gluggann á farartækjum sínum.
Við náðum loks hinni rútunni, komumst við upp að hlið hennar og framfyrir hana og þá fór smá tími í að fá hina til að stoppa án þess að hún færi framhjá okkur aftur. Það tókst eftir skamma stund að þröngva hinn bílstjórann til að stoppa og síðan æddu bílstjórinn, aðstoðarmaðurinn og nokkrir farþegar út og það var hundrifist í nokkrar mínútur á meðan málið var gert upp. Menn skildu ósáttir og við æddum í burtu - bílstjórinn og farþegarnir sem fóru út til að rífast hundfúlir. Ég held samt að okkar rúta hafi valdið þessu með að fara af stað þegar hin rútan var að koma á hvínandi ferð en á móti kemur þá var hinn kannski á alltof miklum hraða miðað við aðstæður.

Allt í upplausn þegar farþegar rútana fóru líka að rífast.
Við gerðum stopp á verkstæði stuttu síðar og mótorhjólaspegill var settur í staðin fyrir brotna spegilinn eftir töluverðar tilraunir við ýmsar festingar - ein af þeim var að festa arm nýja spegilsins með því að loka rúðunni á hann - skrítið hvað mönnum dettur í hug. Ég held að þeir hafi endað á að skrúfa spegilinn fastann og hélst hann það sem eftir lifði ferðar.

Nýr spegill föndraður á rútuna.
Ferðin var orðin nógu slæm eða viðburðarrík, eftir því hvernig fólk lítur á lífið og fannst okkur þetta orðið gott. Þegar við áttum skammt eftir kom ný gusa af líkamsheitu vatni á okkur, aðallega þó á Sonju, þrátt fyrir að við værum með lokaðan gluggann. Rétt áður en næsti skammtur kom þá áttaði Sonja sig og náði að draga gardínuna fyrir - konan fyrir framan var að æla út um gluggann! Þá greinilega fór ælan aftur inn um gluggann svo konan sjálf hlýtur að hafa fengið slatta á sig, hún hefði eins getað ælt bara í fangið á sér - það hefði þá allavega ekki dreifst á aðra farþega.
Það hafði semsagt verið hrækt á okkur, ælt á okkur og keyrt á okkur í þessari mögnuðu 5 klst rútuferð.
Eins og áður sagði var þetta betri tegund af rútu, þ.e. fyrirtækja rekin rúta en ekki ríkisrúturnar. Við komumst að því að til þess að komast til næsta áfangastaðar þurfum við væntanlega að taka ríkisrútu með enn meiri óþægindum og ferðin tekur auk þess helmingi lengri tíma. Okkur er strax farið að "hlakka" til.
Einn farþeginn sem var með tuk-tuk hjólið sitt á rútustöðinni bauð okkur að keyra okkur á hótelið sem við höfðum hug á að gista á, gegn gjaldi að sjálfsögðu. Þegar þangað var komið var það fullt og því fórum við á hitt hótelið sem við vissum um og var það líka fullt. Hann sagði okkur þá frá hóteli skammt frá sem hann vissi um og þurftum við að ganga á það - Sonja beið í vagninum með farangurinn á meðan. Það hótel og þrjú næstu voru öll upppöntuð og fór mér að hætta að litast á blikuna - var farinn að sjá fyrir mér að sofa á götunni. Við enduðum þó á að finna hótel skammt frá Gullna hofinu sem var með eitt herbergi laust - það er víst einhver heilagur dagur í borginni daginn eftir að við komum og nánast öll svefnpláss borgarinnar nýtt.
Eftri að við höfðum komið okkur fyrir upphófst leitin að símanúmeri hótelsins í Jammu en það reyndist þrautinni þyngri þar til við Sonja fundum lausnina og númerið. Þeir könnuðust ekkert við að iPod hefði fundist í herberginu okkar og fékk ég með sannfæringakrafti mínum þá til þess að leita aftur í herberginu og báðu þeir mig um að hringja eftir 10 mínútur sem ég gerði. Þeir höfðu ekkert fundið eftir aðra umferð og voru frekar pirraðir á mér. Við vorum sannfærð um að þeir hefðu stolið tækinu góða - það breyttist þegar við fundum iPodinn síðar um kvöldið í snúrupokanum í bakpokanum mínum.

Viðskiptavinur á símastaðnum.
Allt er gott sem endar vel.
3 ummæli:
Var kellingin í rútunni nokkuð ælukellingin úr Little Britain?
CONGRATULATIONS!!!! So wonderful to hear the new about your engagement! It sounded so romantic! Ahhh....I demand some text in English soon!!!! It's so amazing everything you experience! When will the wedding be????;) Lots of love!/Maria
Sé núna að rútuferð dauðans hljómar bara eins og skemmtiferð í samanburði við þessa, greinilegt að dauðinn hefur bara verið eitthvað að gantast þarna forðum daga á Mallorca
Skrifa ummæli