Þjónninn ýtti bátnum frá landi og við sigldum hljóðlega út í myrkrið. Við sáum litlu ljósglætuna í landi fjarlægjast og allt í kring var svarta myrkur en við sáum móta fyrir fjöllunum í fjarska ásamt einstaka ljósglætu í borginni. Í fjarska heyrðist bænasöngur og eins og áður spruttu söngvar upp allt í kringum okkur sem gerði ferð okkar drungalegri en ella því þessir söngvar eru oft tryllingslegir.
Okkur fannst báturinn ekki hreyfast en þegar við hölluðum okkur út fyrir borðstokkinn sáum við gróðurinn í vatninu líða framhjá. Í loftinu var lykt af brenndu tré en það er til siðs í borginni að brenna rusl og sprek að kvöldi og var ennþá keimur af því. Við hlustum á hljóðið frá árinni og söngvana í kring og hrjúfruðum okkur saman undir teppinu - það var kalt.
Við fórum að sjá fleiri báta sem tóku framúr okkur enda flestir minni og voru þeir með mismikið af grænmeti innanborðs - greinilega á leið á morgunmarkaðinn eins og við en þar versla bændur og kaupmenn á milli sín úti á miðju vatni og ætluðum við að fylgjast aðeins með þessu og jafnvel taka nokkrar myndir. Bátamðurinn keypti fyrir okkur brauð á leiðinni í litlu bakaríi sem við sigldum framhjá og var það vel þegið því við höfðum ekki borðað neitt fyrir utan banana sem við tókum með okkur.
Við vorum í um klukkutíma að sigla og annan að fylgjast með hvernig kaupin á eyrinni ganga fyrir sig og voru oft hressileg skoðanaskipti, létu menn oft í ljós óánægju með ósanngjarna sölumenn og sáum við t.d. menn skvetta með árunum vatni á hvorn annan og mjög hávær rifrildi. Við sötruðum te sem þjónninn okkar hafði útbúið fyrir okkur og héldum síðan sömu leið til baka eftir að bátaflotinn hafði þynnst töluvert - þetta var því nánast allt búið þegar sólin var komin almennilega á fætur. Við fengum okkur góðan lúr þegar við komum aftur í bátinn okkar.

Virðulegur verslunarmaður á báti sínum.

Þessi var flottastur í útliti þarna að okkar mati.

Harkað um sanngjarnt verð á káli.

Búið að selja grænmetisuppskeruna og því haldið heim á leið til konu og barna með fulla pyngju.

Skotta vel klædd í morgunsólinni.

Þessi var að tína vatnsgróður í bát sinn.

Siglt á spegilsléttu vatninu.

Báturinn okkar séður frá vatninu.
Eftir hádegismatinn kíktum við í búðina fyrir utan húsbátana sem fjölskyldan rekur en þar eru seldir munir sem framleiddir eru í Kashmir. Það sem gerir héraðið merkilegt er að hérna eru nánast allir múslimar og er ástæaðan fyrir því aldagömul. Fyrir um 500 árum ef ég man rétt kom hingað merkilegur maður frá Íran og flutti boðskap múslímatrúarinnar í héraðið og er nánast kraftaverk árangurinn sem hann náði með þessu friðsæla trúboði sínu. Með honum voru nokkrir iðnaðarmenn sem kunnu hinar ýmsusutu iðn- og listgreinar og kenndu þeir íbúum Kashmír og varð það nánast bylting því áður hafði héraðið verið fátækt og menn kunnu takmarkað annað en að afla sér nauðsynlegs fæðis. Þetta þróaðist þannig að fjölskyldur sérhæfðu sig í mismunandi greinum, ein t.d. í teppavefnaði, önnur í að þvo teppi (sem er flóknara en það hljómar), enn önnur í útskurði o.s.frv., o.s.frv. Í dag er þetta enn við líði og skemmtilegt hvernig þetta hefur farið mann frá manni innan fjölskyldna. Wangnoo fjölskyldan sérhæfir sig í að selja muni ásamt því að reka húsbátana og eru þau ennig með ferðaskrifstofu.
Við versluðum nokkra minjagripi og gjafir af þeim - allt hina ágætustu muni.
Eftir hádegi fórum við í hálfs dags ferð um miðbæinn og skoðuðum göngugötur og moskur. Fólk í Srinigar er mjög vinalegt og skemmtilegt og flestir vilja ólmir fá mynd tekna af sér sem gerir svona göngutúra skemmtilegri. Við skoðuðum tvær moskur, önnur þeirra Shah Hamden Mosque hleypir ekki vestrænum ferðamönnum inn heldur hefur litla glugga til að kíkja inn á fólkið biðja fyrir innan. Seinni moskan sem við skoðuðum Jama Masjid (eða Pir Dastgir Shrine)) er töluvert stærri og þægilegur staður til að heimsækja. Þetta er stór ferköntuð bygging með grasagarði í miðjunni sem inniheldur fallegan gosbrunn. Byggingin sem umkringir þennan garð er öll teppalögð með mörgum litlum mottum og situr fólk þar og biður. Í garðinum er fólk ýmist að biðja, leggja sig, spjalla eða kæla sig í gosbrunninum. Þetta er friðsæll staður og manni líður ákaflega vel þarna og slakar á - fólk er vinalegt og allir eru afslappaðir og í góðu skapi. Börn skvetta vatni úr gosbrunninum innan um a menn að þvo skegg sín.
Við Sonja erum sammála um það að múhaðmeðstrú hefur það sér til ágætis að guðshúsin eru látlaus og þægilegur staður til að koma á. Fólk á þar góða stund þar sem það situr á teppum eða leggur sig og er ekki verið að sóa í endalausar skreitingar og líkneski eins og er t.d. í kaþólskri trú. Hið slæam orð sem á sér á vesturlöndum er líklegast mikið vegna fréttaflutnings frá löndum sem trúarbrögðin eru við líði en eins og í flestum trúarbrögðum eru það ofsatrúamennirnir sem mest ber á og túlka hlutina oft eftir sínu höfði, sem oft er ekki besta leiðin til að túlka orðin - svipað og sumt kvennfólk vill gera.

Flottur karl.

Við sáum börn leika sér í ánni svo við strunsuðum þangað um skítugan stíg en á vegi okkar urðu nokkrir piltar. Þeir vildu ekki að við færum frá þeim og hengu á okkur eins og litlir apaungar svo það var mjög erfitt um gang. Ég held að ég hafi gengið um 50 metra með þennan hangandi á mér.

Þurrkað sér eftir sundsprett.

Stungið sér í vatnið.

Hér í Kashmir virðast karlmenn sjá um öll verk utan heimilisins. Í hverri einustu búðarholu er karlmaður að vinna og skiptir þá engu við hvað.

Burðarmaður.

Einn af þeim sem við lofuðum að senda útrpentaða mynd að heiman. Við höfum gefið ansi mörg svoleiðis loforð og teljum við það mjög mikilvægt að standa við þau þegar heim er komið, aaafar brýnt.

Dfjöfullinn sjálfur eða kannski bara hans besta uppstilling.

Í garðinum í Jama Masjid moskunni.

Við gosbrunninn.

Fallega skeggjaður maður.

Skemmtilega tenntur þessi.

Þessi kona var að selja mat fyrir utan moskuna.

Dóttir hennar.

Kona í hvítu.

Við bátahverfið.

Kindahjörð rekin í gegnum borgina.

Dal vatn.

Supper deluxe.
Við snérum aftur í bátinn okkar sem við kölluðum Buckhingham höll og snæddum kvöldverð sem var hefðbundin Kasmírísk máltíð - teppasalinn mikli frá Kasmír kom inn í setustofuna þar sem við vorum að snæðingi, settist hjá okkur og sagði okkur frá ýmsu. Við vorum búin að segja honum fyrr um daginn að við værum til í að skoða teppi um kvöldið því teppin hérna eru þau bestu í heimi ásamt teppum frá Íran og sennilega mikið húsprýði að hafa eitt slíkt í stofunni heima.
Teppasölumaðurinn sat með okkur í tvo tíma og sagði okkur ýmislegt merkilegt eins og sögu héraðsins og trúarbrögðin hérna. Einnig sagði hann okkur frá skálmöldinni sem var hér á áður árum og hvernig ástandið hafði áhrif á hann en hann varð þunglyndur eftir að hafa verið tekinn fanga og hélt að hann yrði myrtur, en það var daglegt brauð. Ég ætla að segja meira frá þessu ástandi í bloggi morgundagsins því þetta er þegar víst orðið allt of langt og rúmlega það.

Þetta er ekki okkar bátur og sennilega ekki heldur Buckhingham höll.
Eftir samræðurnar sýndi hann okkur teppi af ýmsum stærðum og gerðum og eru þau mörg hver hin glæsilegustu og verðið er eftir því enda fáránleg vinna á bakvið þau. Við fundum fljótlega teppi sem okkur leist á og var verðið á því um 100þ krónur íslenskar.
Hann sagði okkur frá vinnslu teppanna og sýndi okkur myndir af því þegar þau eru búin til. Eins og ég sagði frá áður eru fjölskyldur með sérhæfingu í hinum ýmsu iðn- og listgreinum og það koma alls sex fjölskyldur að vinnslu eins teppis eins og okkar. Verksviðin falla undir eftirtalda verkþætti:
- Ullinn unninn í þræði og lituð.
- Hönnun (aðeins hönnuður og vefari skilja það "mál" sem hönnunin er skrifuð á og eru 700 síður sem lýsa vafningu teppisins okkar).
- Teppið ofið - það tók tvo menn alls 14 mánuði að vefa teppið sem við völdum okkur.
- Gengið frá bakhlutanum en það er gríðarleg vinna því það þarf að brenna hvern einasta þráð í höndum.
- Þvottur - ótrúlegt en satt þá er það mikil kúnst að þvo teppið svo litir og annað haldi sér.
- Gengið frá endunum á teppinu, þeim hluta sem snýr upp.
- Sala.
Þrátt fyrir miklar tilraunir þá náði ég ekki að prútta verðinu niður því þeir eru bara með fast verð, eru víst heildsalar, og hann vildi meina að verðið væri sanngjarnt þannig að allir aðilar fengu sitt fyrir vinnsluna á teppinu og því ekki hægt að prútta. Miðað við vinnsluna á bakvið teppið þá held ég að verðið sé alveg sanngjarnt fyrir 6x9 feta teppið ásamt því að það var virkilega flott og virtist vandað. Hann hélt langa ræðu um gæði teppisins, vinnsluna og fleira þannig á endanum gátum við ekki annað en fjárfest í því. Hann á titilinn sölumaðurinn mikli frá Kasmír svo sannarlega skilið.

Teppið fagra - það er dekkra séð frá hinni hliðinni. Það er spurning hvort við þurfum stærri íbúð eftir þessa 3ja mánað ferð.
Þegar við mættum aftur í bátinn biðu eftir mér áðurnefnd sérsaumuð kasmírísk föt - ákaflega þægileg og munu þau vera vinnuföt mín í framtíðinni.

Svefnherbergið okkar.
Þjónarnir okkar kalla mig "sir" í hvert skipti sem þeir ávarpa mig og Sonju kalla þeir "maddam". Vinur minn líkti einu sinni Sonju við fiðrildi þegar við vorum saman á skemmtistað í Reykjavík því hún flögraði um allt enda í miklu stuði. Ætli hún kallist þá ekki Madam Butterfly.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli