Þessi orð held ég að lýsi nóttinni meira en mörg orð - það væri reyndar hægðarleikur að lýsa nóttinni í smáatriðum en ég held ég sleppi því.
Ég náði að sofna aðeins undir morgunsárið og vaknaði við vekjaraklukkuna klukkan 8 en við höfðum sammælst við bílstjórann að leggja í hann kl. 9. Ég var frekar slappur og þreyttur svo ég samdi við Sonju um að fresta för til 10 og notaði ég tímann til að safna kröftum. Sonja gramsaði í lyfjapokanum okkar og gróf þar upp lyf til að drepa óæskilega hluti í maganum og bjó svo til drykk sem mundi upp því sem ég hafði tapað um nóttinu. Ég skreið framúr rúmlega 10, við pökkuðum og hentumst út í bíl.

Hóteleigandinn skrifar okkur í bókina.
Þar sem ég hafði ákveðið að tækla bílstjórann öðruvísi þennan daginn byrjaði á að bjóða góðan daginn og brosti síðan til hans, fékk bara ágætt viðmót á móti. Ég sagði honum frá magavandræðum mínum og hann brosti aftur til mín - ég veit ekki hvað það þýddi.
Þessi nýja og falska aðferð okkar Sonju virtist reyndar hafa jákvæð áhrif því hann hægði á bílnum þegar ég tók myndir út um gluggann í staðin fyrir að gefa í eins og ég grunaði hann um að stunda daginn áður. Auk þess sem indverska spangólið var hæfilega lágt stillt og ómaði undir líkt og ljúfir tónar. Sonja vissi greinilega hvað hún var að tala um þegar hún sagði mér að það borgaði sig ekki að vera fúll á móti.
För þennan daginn var heitið upp í lítið þorp efst í dalnum sem heitir Chitkul. Þangað var um klukkustundar akstur og síðan var planið að keyra til baka í átt að Shimla en þar sem það yrði u.þ.b. 11 stunda akstur höfðum við ákveðið að gista á leiðinni og enda í Shimla daginn eftir, þ.e. á fjórða degi.
Landslagið varð magnaðra og magnaðra eftir því sem ofar og innar dró í dalinn. Dalurinn var nokkuð gróinn af stórum furutrjám og umkringdur hvítum fjallstindum því vetur konungur hefur barið dyrnar. Á köflum er bíllinn eins og lítill leikfangabíll að keyra um í grjóthaug því steinar sem fallið hafa úr fjallinu eru mjög stórir og leiðin oft torfelld.

Horft til baka til Sangla.

Leiðin frá Sangla til Chitkul.

Bíllinn okkar.
Við stoppuðum á leiðinni í litlu þorpi og gengum um það. Það er oft skrítið að ganga um þorp sem fá ekki marga ferðamenn því nánast allir fara út úr húsum eða út í glugga og nánast glápa á okkur eins og við séum frá annari plánetu - sem við erum í raun. Það liggur við að maður rétti upp hendur eins og Lukku Láki þegar hann kemur í Indíanaþorp og segi: "Úgg, við komum með friði.".
Eldri kona sat á tröppum og benti í sífellu upp í hrikaleg hvíttoppuðu fjöllin og voru óveðursský að myndast þar. Konan gaf frá sér ýmisleg skrítin hljóð og benti í allar áttir til að segja okkur að veturinn væri bara nokkra daga í burtu og það yrði þá allt hvítt af snjó í þorpinu. Þessar upplýsingar lásum við ekki aðeins frá brjálæðislegum tilburðum gömlu kerlingarinnar heldur hittum við menn frá jarðvísindastofnun Indlands sem voru að setja upp mælitæki til að mæla snjóinn um veturinn - eitthvað í sambandi við stífluna neðst í dalnum.

Glaðlegur maður í þorpinu.

Ég fékk mér göngutúr niður að ánni.

Á leiðinni til baka að bílnum mætti ég þessum jakuxa og varð ekki um sel - ég slapp lifandi.

Ég hjálpaði þessum aldna manni að setjast og hélt hann lengi í hönd mína og horfði á mig án þess að segja orð. Ég veit ekki hvort hann var blindur.

Konur við vinnu í garði.

Hús klárað fyrir veturinn.
Tvisvar á leiðinni gáfum við innfæddum far með okkur - gott að nýta bílinn því við höfðum nægilegt pláss og einnig skemmtilegt að spjalla við fólk af staðnum.

Á leiðinni til Chitkul.

Landslagið varð hrjóstugra eftir því sem innar/ofar dró.
Við héldum áfram för og enduðum í Chitkul sem ég held að sé það þorp Indlands sem er næst Kína. Það er mjög fallegt og myndrænt þorp og gaman að skoða það. Fólk var að leggja síðustu hönd á kornuppskeruna áður en snjórinn myndi leggjast yfir bæinn og börn voru að þvo töflurnar sínar eftir skóladaginn í ánni. Við hittum fyrir ömmu, mömmu og barn fyrir utan eitt húsið og tókum nokkrar myndir af þeim, aðallega barninu sem hafði gaman að stilla sér upp. Þau nánast grenjuðu úr hlátri yfir að sjá myndirnar á myndavélinni - virkilega skemmtilegt atvik.
Ég var á stuttermabol og stuttbuxum og eftir klukkutíma göngutúr í bænum var mér orðið mjög kalt. Saumurinn á hendinni eftir aðgerðina áður en ég fór út var orðinn blár og ég farinn að skjálfa. Við drifum okkur því bara í bílinn og lögðum af stað til baka. Ég fann fyrir hitamerkjum í bílnum, þ.e. húðin var undarleg viðkomu eins og þegar maður fær gjarnan þegar maður hefur hita, gekk ég greinilega ekki heill til skógar.

Konur að klára að vinna kornuppskeruna.

Börnin notast við tréspjöld í skólanum, óþarfi að vera spreða öllum þessum pappír.

Spjöldin hreinsuð eftir skóladaginn.

Gamla konan hló mikið af myndunum af barnabarninu í myndavélinni.

Þessi strákur var mjög feiminn.

En myndvænn var hann.

Hlöðurnar eru lítil timburhús.

Eldri kona flautaði lag til vindguðana.

Og brosti blítt til okkar.

Börn í bænum að fíflast fyrir framan myndavélina.

Svipmikil kona.
Um morguninn hafði bílstjórinn spurt Sonju ítrekað hvar við vildum gista um kvöldið og sagði hún að við skyldum láta auðnu ráða og hann virtist sætta sig við það að lokum. En þegar lagt var upp frá Chitkul hóf hann að yfirheyra mig um gististað og taldi Sangla vera besta kostinn. Þ.e. aftur sama bæ og nóttina áður, en við Sonja höfðum orðið ásátt um að 12 tíma keyrsla á einum degi væri of langt auk þess sem bærinn var ekkert sérlega spennandi, klukkan vara bara um tvö. Við skildum ekki alveg hvað hann var að pæla með að vilja gista þar aftur fyrir utan að hann átti vini í bænum. Miklu sniðugra væri að nýta þennan dag (þó ég væri hálf veikur) í að keyra eitthvað áleiðis og geta stoppað aðeins á leiðinni.
Þegar við komum aftur til Sangla fengum við okkur að borða hádegisverð. Við vorum lengi að fá afgreiðslu því það var enginn viðskiptavinur á staðnum og þrjár stúlkur sem unnu þarna kíktu öðru hvoru feimnislega á okkur úr eldhúsinu - voru greinilega að rífast um það hver ætti að afgreiða okkur. Þegar við höfðum loks fengið mat og klárað hann var klukkan um 3. Þegar við komum í bílinn spurði bílstjórinn okkur einu sinni enn hvort við ætluðum að gista þar um nóttina - ég spurði hann hvort það væri ekki í lagi að keyra til sex. Sonja sem sat í aftursætinu fannst ég helst harkalegur þegar ég spurði hann að þessu og minnti mig á, á íslensku, að brosa aðeins því það liti út eins og ég væri mjög fúll. Bílstjórinn ypti öxlum og sagði: "I don't care" og "I don't know if there will be good hotels on the way" og þá var það útrætt - við héldum áfram för.

Landslag á leiðinni.

Vegavinnumenn halla sér að veiklulegri grind - þverhnýpi var ofaní gjá fyrir neðan og voru þeir að steypa upp stuðning við veginn.

Stíflugerðin.

Vegavinnufólk og börnin þeirra.

Vörubílstjóri.
Við stefndum að því að komast í bæinn Rampur sem var í um 3-4ja tíma akstri frá Sangla og þá þyrftum við ekki að vera í tímaþröng daginn eftir. Ferðin einkenndist af miklum glannaakstri því bílstjórinn vildi greinilega ná í bæinn fyrir myrkur. Við töfðumst tvisvar á leiðinni þegar stórir fjárhópar einangruðu veginn og í annað skiptið þakti hópurinn yfir 100m vegalengd á veginum.
Við náðum til Rampur rúmlega sex eða um hálftíma eftir myrkur og vorum við nokkuð ánægð með það. Við báðum bílstjórann að keyra okkur á Himachal tourism hótelið í bænum sem hann gerði í þetta skiptið orðalaust. Þegar ég skrapp inn til að kanna hvort herbergi væri laust og þá hvernig það liti út sagði hann Sonju að þetta væri ríkishótel svona til að snúa henni en með lélegum árangri því við ákváðum að gista þarna.
Hótelið var tómlegt svo ekki sé meira sagt - fáir gestir virtust vera á því, tómir gangar og flest frekar í niðurníslu. Veitingastaðurinn var hvítmálaður með flísalögðu gólfi og 5 ljótum borðum sem var alltof langt á milli auk upp upplitaðra mynda af Himachal Pradesh héraðinu, þessar myndir eru satt að segja næstum alls staðar þar sem túristar koma.
Sonja var ánægð að finna á matseðlinum kjúkling með brúnni sósu og kartöflum - ég fékk mér chicken sizzler sem reyndist vera kjúklingabuff.

Vegurinn í bjarginu

Rúta í bjarginu.

Nei, þetta er ekki óléttupróf. Prinsessan rak sig í rörið sem klósettpappírinn hangir á svo það flaug beint í klósettið. Þá þurfti durturinn að sjálfsögðu að kafa í drulluskítugt klósettið og redda málunum, prinsesssan lumaði sem betur fer á gúmmíhanska.
Við fórum snemma að sofa - ég dreymdi Megas, Morrissey og Paris Hilton.
Hámenning er Hafnfirðingsins hugsun alla daga.
3 ummæli:
ÉG HEIMTA VIÐBRÖGÐ VIÐ VIÐBRÖGÐUNUM MÍNUM!!
Bara með áhyggjur af ferðaplaninu, hvert skal halda næst? Nepal var á dagskrá bráðum var það ekki en fram að því? Gefið Burkna viðbragð og mér ferðaplan!
En enn og aftur þetta er magnað blögg og algjör hátíð þegar detta svona mörg inn í einu.
Hallo.
Takk fyrir commentin strakar minir - Sonja og eg erum gridarlega anaegd thegar vid faum vidbrogd i formi commenta thannig haldid theim endilega afram.
Ferdaplanid er svona:
Vorum i Delhi i tvaer naetur.
Erum nuna i Kerala komum i gaer, verdum thar a tveimur stodum.
Sidan forum vid til Varenasi.
Thadan til Nepal og verdum i c.a. 10 daga.
Sidan Bhutan.
Sidan Puskar camel fair.
Sidan Reykjavik.
Sidan kannski AGR.
Skrifa ummæli