þriðjudagur, október 16, 2007

42. Aftur til Apaplánetunnar

Um kl hálf tíu beið bílstjórinn okkar í anddyrinu, við höfðum þá þegar snætt morgunmat og greitt fyrir gistinguna.

Þegar við vorum nýlögð af stað spurðum við hann hvað það væri langur akstur framundan og svaraði hann að það væri um 4 tímar. Við vorum frekar hissa á því hvað það væri stutt því þegar við vorum í Singla daginn áður sagði hann okkur að það væri 12 tíma akstur þaðan til Shimla. Við keyrðum þaðan og gistum í Rampur og var sá akstur 4 tímar. Það ætti að gera um 9 tíma akstur þennan daginn samkvæmt útreikningum okkar Sonju en það var greinilega mjög misvísandi upplýsingar sem hann gaf okkur um þetta.
Sonja las nokkrar smá-ferða-sögur um Indland áður en við lögðum af stað í ferðalagið og kom þar fram að maður ætti að taka flest öll svör Indverja með fyrirvara og sérstaklega ef um er að ræða tíma eða vegalengdir - þetta sannar það. Við höfum reyndar rekist nokkrum sinnum á þetta í ferðinni því ef okkur er sagt að einhver staður sé í 5 mínútna gangi er hann mun líklegra í 30 mínútna gangi eða rúmlega það. Þeir virðast bara segja eitthvað ef þeir eru ekki alveg vissir eða vilja segja frekar minna en meira, finnst það greinilega betra - ég er nú ekki alveg viss um það.

Bílstjórinn hélt áfram að spila sömu kasettuna og hann var búinn að vera með í tækinu alla dagana og innihélt þessi ágæta og eftirminnilega kasetta aðeins 4 lög sem voru endurtekin á eftir hverju öðru og voru báðar hliðar eins - ef mér skjátlast ekki. Þetta var indversk popp/techno tónlist með hressu ívafi, við vorum farin að kunna þessi lög utanað og getum gefið tóndæmi þegar heim kemur ef fólk óskar. Ég hinsvegar skil ekki að honum finnist gaman að heyra sömu síendurtekin í 4 daga en við Sonja létum þetta ganga yfir okkur því við vildum ekki trufla aksturinn hjá honum eftir þessum vafasömu vegum.

Leiðin þennan daginn var að mestu viðburðarsnauð enda við að fara sömu leið og við daginn áður svo það var lítið sem koma á óvart. Við slöppuðum því bara af þennan stutta bíltúr og horfðum á landslagið fljóta framhjá fyrir utan bílrúðuna fyrir utan nokkur stutt stopp.

Fyrsta stoppið var lítill sveitabær, ef sveitabæ skal kalla. Hann var staðsettur alveg við aðalgötuna, aðeins var um 2 metrar í malbikið og stóð á um 5 metra breiðu svæði sem var til aflögu. Hann samanstóð af 4 húsum sem voru gerð úr spreki og leir eða kúaskít. Hinummegin við götuna var bensínstöð þannig að þetta var óspennandi bæjarstæði svo ekki sé meira sagt. Við tókum nokkrar myndir af börnunum sem voru að eiga við geitur fyrir utan stærsta húsið sem var sennilega bæði fyrir búfénað og hey. Börnin voru feimin og foreldrar þeirra hvergi sjáanlegir. Við tókum nokkrar myndir af þeim og röltum síðan í næsta hús sem önnur fjölskylda bjó í. Ein stúlka var fyrir utan en móðir hennar hljóp yfir götuna á eftir belju þegar við nálguðumst og beið þar þangað til við vorum farin. Við tókum mynd af stúlkunni og móðirinn kallaði eitthvað á hana yfir götuna svo stúlkan fór inn í húsið og kom út með rúmlega ársgamalt barn og hélt á því fyrir framan okkur svo við gætum einnig myndað það. Konan kallaði þá eitthvað annað og stúlkan klæddi barnið úr peysunni - vildi greinilega að barnið liti sem best út á myndunum. Við þökkuðum fyrir okkur og þegar við gengum á braut sáum við heimilisföðurinn húka fyrir innan dyrnar og fylgjast með - foreldrarnir greinilega báðir jafn feimnir.


Börnin að gæta geitanna.


Þessi kofi var fyrir dýr og hey.


Dæmigert landslag þennan síðasta dag.


Kofi upp á hæð.


Þessi þarf ekki að kynna.


Sonja vildi endilega að þessi mynd af mér bora í nefið kæmi á netinu. Við erum með gluggana á bílnum opna allan daginn og mikið ryk endar fyllir vit okkar. Takið eftir að eldklerkur getur speglað sig með lófanum.

Vegagerðamenn eru áberandi á þessari leið og er maður alltaf jafn gáttaður að sjá aðstæðurnar sem þeir búa við. Á einum ómalbikuðum spotta í útjaðir þorps uppi á fjalli húktu nokkrir verkamenn í grunnum skurði og var mikil umferð um veginn þegar við keyrðum þar framhjá. Við sáum varla verkamennina fyrir ryki þó þeir væru ekki meira en tvo metra frá okkur og voru sumir með úlpurnar yfir hausnum til að verjast rykinu. Maður sá enga liti í fötum þeirra því þeir voru gráir af ryki frá toppi til táar.
Eins og áður hefur komið fram eru konur á öllum aldri að vinna við vegagerð og eru oft með ung börn á bakinu, eða þá að börnin eru að leika sér alveg við umferðargötunar á meðan foreldrarnir vinna við að byggja nýja vegi eða laga þann sem þegar er til staðar.
Við sáum nokkur gamalmenni bogra við að tína grjót og einstaka sinnum voru þau svo gömul að þau gátu varla hreyft sig, voru kannski að safna saman steinum með fótunum eða lágu á fjórum fótum og unnu með höndunum.
Fólk situr oft í útjaðri malbikisins með búnka af grjóti fyrir framan sig og er að mola það niður með litlum hömrum - virðist ekki vera algengt að vélar séu að sjá um þessi verk sem við teljum nánast óhugsandi að gera í höndum.


Algengt er að tveir menn moki - annar fyllir skófluna og hinn togar í band til að hjálpa til við að hreyfa skófluna. Spurning hvort þetta sé aðferð sem "vinnuskólar" á Íslandi ættu að taka upp svo blessuð börnin þurfi ekki að ofreyna sig. Bandarinn er óvenju vel klæddur - veit ekki hvort þetta sé einhver verkstjóri.

Þegar maður sér þetta alla daga í þennan langan tíma fer maður smátt og smátt að meta betur allt sem maður hefur heima - held að það sé þroskandi fyrir fólk að koma hingað og sjá við hvaða aðstæður fólk vinnur og býr. Þetta er bara fólkið við veginn - í verksmiðjum eru aðstæður varla mikið betri þar sem fólk býr til ódýrar vörur sem við kaupum í stórmörkuðum og finnst verðið okrað á okkur. Nútíma þrælahald, fólk þrælar myrkranna á milli en á þó varla til hnífs og skeiðar, er að mörgu leyti verra því samfélagið telur sér trú um að allir séu frjálsir og því er þetta fólk enn fastara í viðjum en "alvöru" þrælar voru.

Þegar við vorum að nálgast Shimla sáum við stóra og mikla fugla svífa í lítilli hæð hring eftir hring. Vænghafið á þessum tröllvöxnu fuglum var að ég held a.m.k. tveir metrar og sá ég þá aldrei blaka vængjum, nýttu vel stærðina á vængjunum og uppstreymi fjallanna. Við vorum sammála um það að þetta væru ernir af stærstu gerð en þegar við sáum myndirnar um kvöldið sáum við að þetta eru líklegast gammar sem hafa verið að sveima yfir væntanlegri bráð. Eru lesendur sammála um að þetta sé viðbjóðslegur gammur eða vilja menn meina að þetta sé stórkostlegur örn?



Síðasta stopp var í bænum Tihog skammt frá Shimla. Við báðum bílstjórann að stoppa þar því við ætluðum að kaupa ávexti handa prinsessunni áður en blóðsykurinn félli og hún myndi falla ælandi í yfirlið. Við gengum smá spöl eftir aðalgötunni með 3 banana í hönd og urðu þar á vegi okkar tvær sígaunastúlkur með sigðir í hendi. Þær tóku vel í myndatöku og þegar ég sýndi þeim fyrstu myndirnar á myndavélinni veðruðust þær upp og stilltu sér upp á ýmsa vegu, t.d. með sigðirnar á lofti. Á undraskömmum tíma höfðu bæjarbúar safnast í kringum mig að mynda stelpurnar en Sonja hélt sér aðeins til hlés. Einn áhorfandinn spurði þá Sonju hvaðan við værum og við það snérist allur hópurinn að Sonju, greinilega þreyttir á sígaunamyndatökunni. Sonja stóð þarna eins og illa gerður hlutur innan um 40-60 starandi augu, aðallega kk, sem biðu eftir að hún segði eitthvað. Á meðan var þriðja sígauastúlkan búin að bætast í hópinn og voru þær farnar að slást um að vera fyrir framan myndavélina. Hver af þeim var með fjórar sigðar í höndunum og sveifluðust þær rétt fyrir framan andlitið á mér þegar leikurinn stóð sem hæst. Móðir sígaunastúlkanna kom loksins hlaupandi og rak þær í burtu og bjargaði þar kannski fíngerðu andliti mínu frá því að verða eins og á Edda klippikrumlu.


Stúlkurnar eru með alveg mögnuð augu.


Sigðirnar á lofti.


Það mætti halda að Sonja sé að halda ræðu um gildi þess að vera hávaxinn.


Gamall maður gengur útfrá þessum litla matstað.


Dæmigerð götumynd í þorpi sem brunað er í gegnum.


Feitlagin kona - bæði er óvanalegt að sjá konur að hafa hárið svona laust.


Skyndibitastaður.

Þegar við renndum inn í Shimla ræddum við Sonja aðeins um hvað við ættum að gera með þjórfé fyrir bílstjórann. Eldklerkur var að sjálfsögðu í öfgunum og vildi ekkert tippa en Sonja vildi gefa eitthvað smávegis, t.d. 50 Rs. sem er mjög lítil fjárhæð. Ég náði að sannfæra hana um að sumir tippi bara ekki og hann verður bara að sætta sig við það - smánarlega lítil upphæð er kannski verri en engin því hún gæti móðgað hann. Við vorum bæði ósátt við hann og því ákváðum við að tippa hann ekkert - kvöddum hann bara með handabandi og gengum í burtu fullklyfjuð af bakpokum.

Það tók okkur um 10 mínútur að ganga upp mjóan göngustíginn upp á aðalgötuna þar sem hótel okkar, Hotel Classic er til húsa. Við hentum dótinu inn í ískalda herbergið og fórum í bæinn að redda ýmsum hlutum.
Á leðinni í bæinn sáum við mannsöfnuð við göngustíg fyrir ofan virðulega byggingu sem ég held að sé her- eða lögreglustöð. Við slógumst í hópinn og góndum niður á bílastæðið þar sem nokkrir menn voru og störðu upp á þak byggingarinnar. Eftir smá eftirgrennslan komumst við að því að api hafði stolið gsm síma af einum starfsmanni byggingarinnar sem elti sökudólginn upp á þak. Hann fór nokkuð glæfralega fannst okkur þar sem hann hljóp um þakið og reyndi að freista apans með ýmsu góðgæti en eftir áralanga sambúð með mönnum hefur efnishyggjan einnig náð valdi á dýraríkinu. Þegar það var ljóst að slíkar samningaviðræður væru gangslausar fór hann að hlaupa á eftir apanum þarna uppi kastandi grjóti í áttina að honum og fannst manni það nú ekki líklegt til árangurs þar sem þakið var stórt og apinn mun hraðari í snúningum en gsm lausi maðurinn. Vegfarendi sagði okkur að aparnir væru um 200.000 í bænum og væri þeir orðnir til vandræða þar sem þeir fylgjast mikið með fólkinu og vilja t.d. eignast gsm síma sem flestir eru með eða handtöskum kvenna og reyna því oft að stela slíkum munum. Þeir eru mjög óútreiknanlegir og ómögulegt að vita hvenær þeir ráðast á mann og bíta og því stendur fólki nokkurt stuggur af þeim.
Við vorum orðin svöng og því náðum við ekki að sjá hvernig atburðarásin myndi þróast en það er víst gripið til þess úrræðis þegar allt annað brestur í dæmi eins og þessu að skjóta apana til að ná af þeim hlutum - mér finnst líklegt að það hafi orðið raunin í þessu máli þó ég viti ekkert um það.


Reiði GSM-lausi maðurinn sést þarna efst uppi til hægri og hluti af áhorfendum neðst.

Eftir mat í bænum var Sonju orðið illt í mallakút og hún fór því heim á hótel og skildi eftir hjá mér lista af hlutum sem ég þurfti að redda. Ég kom við í vínsölubás við götuna og sá þar mér til mikillar gleði fyrsta Cobra bjórinn sem ég hef séð hérna á Indlandi en ég hef spurt um hann á nánast öllum veitingahúsum sem við höfum komið á þó að ég sé nú farinn gefast upp á því, því enginn virðist hafa hann til sölu. Þarna stóð unaðslega freistandi gulleitur Cobra bjórinn í seilingarfjarlægð í kæli og ekki í mannlegum krafti að sleppa því að kaupa hann. Hann skyldi drukkinn um kvöldið.

Á leiðinni niður á hótel eftir að ég hafði lokið að útrétta kom ég við hjá sölumanninum sem hafði selt okkur ferðina og sagði honum mína skoðuna á ökumanninum og sló ekkert af. Sagði að við hefðum orðið fyrir miklum vonbrigðum með ferðina og útlistaði hvað hafði betur mátt fara. Hann virtist mjög leiður yfir þessu og sagðist ætla að tala við bílstjórann og sjá til þess að þetta yrði lagað. Ég gaf honum samt myndina af honum og Sonju sem ég hafði náð í úr framköllun í bænum, eins og sönnum herramanni sæmir - ég stend við mitt þó að hann geri það kannski ekki.

Á hótelinu hitti ég fyrir magaveika prinsessu sem var reyndar ekki mjög slæm - hafði batnað aðeins. Hún var að hvíla sig í rúminu og í sjónvarpinu voru indversk tónlistarmyndbönd. Það er fyndið að sjá indversku karlkynspopparana því þeir líta flestir út eins og Borat, með flott yfirvaraskegg, grannvaxnir í þröngum fötum dansandi hraðan og fáranlegan dans við reyndar ágæta tónlist.

Þegar við ætluðum að tæma myndir af minniskortunum okkar fundum við ekki boxið sem geymir minniskortin - síðast þegar til þess spurðist hafði það verið í renndum hliðarvasa á buxunum mínum en var þar ekki lengur. Eftir mikla leit í herberginu og skammir frá Sonju fór ég aftur í bæinn með skottið á milli lappana. Ég byrjaði að fara á ferðaskrifstofuna og þeir ætluðu að leita í bílnum en ég ætlaði að fara í bæinn og athuga þar hvort kortið væri að finna, og koma þá við hjá þeim í bakaleiðinni til að athuga hvort það hafi verið í bílnum.

Ég gekk nánast afturábak leiðina sem ég hafði farið áður og þræddi þannig ímynduð fótspor mín, en enginn hafði séð kortabúxið. Þegar ég kom aftur á ferðaskrifstofuna sagði sölumaðurinn mér til mikillar gleði að þeir hefðu fundið það í bílnum og ökumaðurinn væri að koma með það, væri væntanlegur eftir tvær mínútur. Ég var nú ekkert uppveðraður með að hitta hann eftir að hafa úthúðað honum og sölumaðurinn væntanlega búinn að segja bílstjóranum hvað mér þætti um hann - sem betur ferð kom annar piltur með boxið. Ég þakkaði þeim kærlega fyrir og fór sigri hrósandi niður á hótel - búinn að bjarga ærunni því Sonja var ekki par hrifin að ég hefði geymt kortaboxið í þessum annars ágæta vasa.

Heitt vatn á hótelum hérna þýðir oftar en ekki ískalt vatn með skvettu af volgu vatni samanvið sem gerir vatnið kalt. Aldrei þessu vant var heitt og fínt vatn í herberginu okkar á Hotel Classic og skellti ég mér því í sturtu - þá fyrstu í tæplega viku. Salernið var lítið og stóð maður eiginlega fyrir framan klósettskálina í sturtunni og ekkert sturtuhengi var þar inni.

Hvað er betra en að fá sér sopa af köldum Cobra bjór í heitri sturtu og spræna í klósettið - allt á sama tíma?

2 ummæli:

Burkni sagði...

Hér koma viðbrögð í mörgum liðum:

1. Indverjar sem vinna við að brjóta grjót með litlum hamri eru undir svartagaldurs-álögum hinnar illu gyðju Kali og eru að leita að hinum heilögu Sankara-steinum Shiva. Næst þegar þið hittið fólk undir þessum álögum dugar að reka í það kyndil og þá vaknar það af hinum illa svefni. Þetta kemur allt fram í Indiana Jones #2.

2. Fuglinn er líklegast gammur. Allar indverskar gammategundir má sjá á myndinni hér.

3. Fyrri myndin af sígaunastelpu er stórkostleg og minnir mikið á frægu stelpuna með grænu augun framan á National Geographic.

Nafnlaus sagði...

Ótrúlegt með bandið í skóflunni!
Ég man alltaf eftir því þegar við vorum á Esjugrundinni að skoða ófáar myndir úr einni ferðinni - mamma þín sagði þá: merkilegt að allsstaðar eru börn eins. Það er mikið til í því.
Unga fólkið á Indlandi er ofsalega frítt og fallegt en eldist ekkert sérlega vel...
Kv.
MCM